Færsluflokkur: Bloggar

Gefandi fésbók - forsetastóllinn freistar

ForsetaframboðVanræksla mín í tengslum við Fréttir af Facebook, hefur verið mikil síðustu vikurnar og án efa margir saknað þess þótt enginn hafi svo sem komið að máli við mig. Talandi um það ... Nánast hver einasti dagur ber með sér nýjan frambjóðanda til forseta. Nú er svo komið að þrjú frækin og frábær ættu, ef ég fengi að ráða, helst að skipta með sér embættinu. Enn fjasar fólk um fjölda framboða á feisbúkk, sumir segja að haft hafi verið samband og skorað á þá ... allt í gríni auðvitað. Í dag mátti lesa þessa dásemd á fb-síðu dr. Gunna:

Skil svo sem að forsetastóllinn freisti margra. Laun 2.950.000 á mánuði (á eftir að hækka) -  1.686.783 í vasann. Maður hirðir það ekkert upp úr gögunni. Allskonar aðstoðarfólk, frítt húsnæði og allavega tveir bílar. En þetta er djobb sem maður er í allan sólarhringinn og þarf að vera væminn og passa sig að móðga engan. Ég hef legið í úlpunni í 5 mínútur og komist að þeirri niðurstöðu að ég bjóði mig ekki fram. Þakkir fá þeir þrír sem komu að máli við mig.

 

London 2019Fésbókin minnti mig á (Á þessum degi fyrir fimm árum) að það er afmælisdagur Halldórs fjanda, en röð tilviljana færði saman þrjá vini (ja, eða fimm, ég elska Lunu og Monu) þennan dag árið 2019, Í LONDON af öllum stöðum. Ég var í árshátíðarferð með Birtíngi, Halldór á ferðalagi, eins og svo oft, og Anna líka svo sem. Ég hafði haft veður af fjanda þarna svo ég pakkaði til öryggis niður afmælisgjöfinni hans, eða væminni jólakúlu með mynd af Trump forseta, eitthvað sem ég vissi að hann kynni vel að meta. Keypti að sjálfsögðu eina slíka handa sjálfri mér og nýt hennar um hver jól. Þar sem hótelið mitt var mjög svo miðsvæðis (beint fyrir neðan Oxford-stræti) var ákveðið að hittast á veitingastað á móti hótelinu, borða saman (úti, það var svo hlýtt) og njóta samverunnar. Auðvitað var hann með Lunu og Monu sínar með, hundar eru alls staðar velkomnir nema á Íslandi.

 

Á þessum degi fyrir 4 árum:

7. apríl 2020, deilt með Vinir þínir: (hmmm)

Ég hef farið á 14 af þessum 15 tónleikum. Hvaða tónleikar eiga ekki heima á þessum lista?

Himnaríki1. Travis - Laugardalshöll

2. Sting - Laugardalshöll

3. Dúndurfréttir - Gamla kaupfélagið, Akranesi

4. Björk - Laugardalshöll

5. Rammstein - Laugardalshöll

6. Nick Cave - Hörpu

7. Grave Diggaz - Nasa

8. London Simphony Orchestra - Royal Albert Hall (Tchaíkovskí)

9. Páll Óskar - Bíóhöllin Akranesi

10. Uriah Heep - Hótel Ísland

11. Jethro Tull - Íþróttahúsið við Vesturgötu, Akranesi

12. Elton John - Laugardalsvelli

13. Megadeth - Nasa

14. Metallica - Egilshöll

15. Egó/Grýlurnar - Hótel Borg

Mörgum fannst ólíklegt að Grave Diggaz eða Megadeth hafi höfðað til siðprúðrar miðaldra yngismeyjar en báðir tónleikar voru dásamlegir (Takk, elsku Lalla). Verð að viðurkenna að ég átti í mestu vandræðum með að finna fjórtán tónleika ... held að það séu eiginlega bara einu tónleikarnir í lífi mínu, nei, reyndar Vínardrengjakórinn í Akraneskirkju þegar ég var lítil, skagfirskir sætukarlar í Tónbergi á Akranesi eitt árið, sem ég hafði gleymt þarna. Svo man ég eftir Mánum í Laugardalshöll flytja Thick as a Brick (Jethro Tull) þegar ég var 13 ára, man eftir Egó líka í Laugardalshöll ... en það gætu hafa verið 16. júní-tónleikar sem voru oft, margar hljómsveitir þá í einu. 

Þeir tónleikar sem ég fór ekki á, þarna á listanum, voru með Nick Cave ... og elskan hún Sunna giskaði rétt þar, ég er nefnilega alveg týpan til að elska Nick Cave. Lagið hans Henry Lee af Murder Ballads-plötunni er eitt af mínum allra mestu uppáhaldslögum.

 

Elsku KeliReyndar ekki af Facebook:

Elsku Keli rak upp ógurleg óhljóð áðan. Bæði Mosi og Krummi fengu áfall og störðu fram á gang, ég sat við tölvuna við vinnu mína og fékk ábyggilega enn meira áfall en þeir. Loks, 10 sekúndum síðar, þegar ég hafði hleypt í mig kjarki til að koma að honum í andarslitrunum (hann er 14 ára gigtarsjúklingur) sat hann hinn rólegasti og horfði annað slagið illilega á einn þríhyrningslaga gluggann sem snýr í norður Langisandur er í suður, sem gnauðaði svolítið í. Sjá mynd af himnaríki úr lofti, þar sjást norðurgluggarnir. Annaðhvort fór hljóðið svona í taugarnar á Kela eða honum hefur leiðst svona svakalega. Gaf honum verkjalyf í fyrradag, mögulega þarf hann aftur núna ef hann var að kvarta yfir verkjum. Fyrstu árin hér í himnaríki þorði hann varla að mjálma, svo hvekktur var hann eftir dularfulla en erfiða fortíð, þrátt fyrir átta mánaða dekur og áfallameðferð í Kattholti. Hann er nánast farinn að láta fara vel um sig á andlitinu á mér á kvöldin og mala mig í svefn, svo breyttur er hann, og algjör nautnabelgur. En svona kveinstafir eru ekki líkir honum. Með vindinum kemur kvíðinn, segir í laginu ... það gæti átt við Kela. Hann fannst í poka ofan í gjótu í Heiðmörk í desember, átta mánuðum áður en við Einar sóttum hann í Kattholt, hver veit hvað svona gnauð merkir hjá honum, en ég lokaði glugganum alveg.

Myndin af honum var tekin eftir lætin, liggur sallarólegur og virðist allt í fína lagi með hann. Eins og sjá má vel ég gæludýrin mín ætíð í stíl við rúmteppi, innréttingar og annað ...  

 

Síðasta Facebook-dæmið tengist svokölluðum tribute-böndum, hljómsveitum sem hafa verið stofnaðar sem virðingarvottur við vissar sveitir og leika tónlist þeirra. Nærtækt dæmi er hljómsveitin Deep Jimi and the Zep Creams. Svo man ég eftir ágætu Bítlabandi sem nefndi sig Beatnix, ef ég man það rétt. En á einni tónlistarsíðu var fólk beðið um að nefna flottustu tribute-böndin (er ekki til íslenskt almennilegt nafn á þetta?) Sjálf gat ég ekki stillt mig um að láta vita af Deep Jimi-bandi okkar Íslendinga ...

 

Hér eru nokkur skemmtileg nöfn sem komu upp: 

Are We Them? (REM)

Björn again (ABBA)

Red Hot Chilli Pipers (sekkjapípuband)

Earth Wind for Hire 

Take this

Black Abbath (B.Sabbath með ABBA-ívafi, fylgdi sögunni)

Hairway to Steven

Whole Lotta Led

Think Floyd

Manic Street Teachers

Simon & Garth´s Uncle


Tinder ... nei, takk

ForsetiDagurinn í dag fer í að gera himnaríki að mínu ... þannig séð. Þið vitið eflaust, kæru bloggvinir, að unga fólkið fleygir rusli í ruslafötuna án þess að horfa á hvert það lendir, það sprautar tannkremi ofan í skúffuna fyrir neðan vaskinn á baðinu, án nokkurrar miskunnar og ákveðið máttleysi kemur yfir annars verulega myndarlega húsmóðurina sem nú er búin að taka bæði ruslaskápinn og baðskúffuna ærlega í gegn, betur en nokkru sinni. 2020-hreingerning, heitir það á þessu heimili, því skápar og skúffur komu splunkný og sérsmíðuð hingað í stóru yfirhalningunni það ár og þessi svæði virðast orðin ný. Nú þarf ég að gefa bæði kommóðu og hillur, ásamt stórri leðurpullu sem var allt of stór í stofuna hér (fékk hana gefins) og stráksi heimtaði að fá að eiga ... en ekkert pláss heldur fyrir hana í litlu íbúðinni hans. Grisjunin er hafin, allt of mikið safnast hingað á örfáum árum, en ef / þegar ég flyt ætla ég bara að hafa það sem ég vil eiga ... losa mig við hitt sem safnast bara fyrir í haugum. Vonandi fer ég í sama gribbugírinn og ég var í 2020 þegar ég gaf hátt í helminginn af öllu sem ég átti í kringum endurbæturnar ...

 

Myndin tengist færslunni ekki á nokkurn hátt, villur í texta (grjóthaltu og fleira) og ljótt orðbragð ... en fyndin samt. Já, ég er manneskjan sem fer helst ekki inn í búðir sem heita t.d. Mamma Veit Allan Skrambann út af misnotkun á hástöfum. Ótrúlega margir staðir sem láta skiltagerðarmanninn ráða ... 

 

Stráksi malar af sælu og hamingju yfir nýja heimilinu, sem gleður fósturmömmuhjartað mjög. Öll sem þar vinna eru svo góð við hann svo hann mun blómstra. Vissulega tómlegt og skrítið að hann sé fluttur en hann er auðvitað ekkert farinn úr fjölskyldunni og mun t.d. halda jólin með okkur eins lengi og hann kærir sig um. 

 

TinderHeyrði í gamalli og góðri vinkonu nýlega. Hún spurði hvort ég ætlaði ekki að skella mér á Tinder fyrst ég væri ekki lengur með fósturbarn. Hún hló að heigulsskapnum í mér þegar ég viðurkenndi fyrir henni að ég hefði aldrei skráð mig þar. (Prófaði einkamal.is í nokkrar vikur þegar ég var að verða fertug, og við það lauk æsku minni og sakleysi). Hún er ögn meiri hetja en ég og hefur alveg farið á nokkur stefnumót. Hún fór að hlæja þegar hún sagði það og sagðist ætla að kíkja í heimsókn til mín við tækifæri til að segja mér nokkrar góðar sögur af misheppnuðum stefnumótum. Þetta væri skrautlegur staður en hún ætlar samt að halda áfram að vera þar, sagði hún. Eitt sinn ákvað hún að hitta mann á veitingastað. Hann hafði verið mjög skemmtilegur á meðan þau spjölluðu saman á netinu svo hún hlakkaði til að hitta hann. Hún hvorki reykir né drekkur, svo það komi nú fram, en þegar þau voru nýsest við borðið rauk hann aftur út til að reykja. Svo drakk hann einhver ósköp af víni á milli þess sem hann fór út að reykja, sem var nokkrum sinnum á meðan þau borðuðu. Starfsfólkið horfði samúðaraugum á vinkonu mína sem sat meira og minna ein við borðið. Svo skildi hann ekkert í því að hún hafi ekki nennt að hitta hann aftur. Hann má þó eiga það að hann stakk ekki upp á við hana að skipta reikningnum í tvennt, eins og einn sem ég þekki gerði, konan sem hann fór út með, á bar, drakk bara kaffi en hann nokkra bjóra og vildi endilega að þau skiptu með sér reikningnum, sú kona hætti hreinlega að vera skotin í manninum fyrir vikið, hafði ekki átt von á svona ósvífni og nísku frá þessum glæsilega manni ... 

Svo heyrði ég af manni sem kynntist indælli konu, einstæðri móður, á Tinder og spjallaði mikið við hana á netinu. Hann var þrælspenntur fyrir henni og þau ákváðu að hittast eftir nokkurra vikna spjall. Hann ákvað að bjóða henni í rómantískan kvöldverð heima hjá sér og vandaði sig mikið við eldamennskuna. Kertaljós, rauðvín og góður matur. Hún mætti ... með börnin sín með sér, tvö eða þrjú, og sagði við þau: „Segið halló við nýja pabba ykkar.“ Maðurinn fór alveg í flækju en lét ekki á neinu bera fyrir framan börnin, fann meiri mat, lét rauðvín og kertaljós hverfa og þau borðuðu saman. Þegar þau voru farin heim talaði hann við hana og sagði að svona gæti hún ekki gert, þau væru í raun bara vinir, hefðu verið að hittast í fyrsta sinn og hún gæti ekki gert börnunum sínum þetta ... hann hefði ekki áhuga á að hitta hana aftur. Hún hundskammaði hann fyrir að gera börnum hennar þetta, þau hefðu hlakkað svo til að hitta nýja pabba ... Hún hafði víst spurt hann í fyrra spjalli þeirra hvort hann gæti hugsað sér að vera í sambandi með konu sem ætti börn, hann svaraði því til að börn væru ábyggilega ekki fyrirstaða ef hann væri ástfanginn, svona almennt, ekki börn konunnar, enda höfðu þau ekki hist þegar þetta barst í tal.

Ég vona að ég muni þessa sögu nokkuð rétt. Auðvitað er fullt af allílæ-fólki innan um en ég tek ekki sénsinn. Hugsa sér að hitta greindan, fyndinn og frábæran mann þar og svo tæki hann uppkominn börn sín með sér á stefnumót með mér ... og væri alltaf úti að reykja með þeim. Hvað myndi starfsfólkið á Galito halda?

 

Ég held frekar áfram að ná mér í menn í Einarsbúð á föstudögum á milli 18 og 18.30 við grænmetiskælinn hjá bananastandinum. Þar er oft ágætt úrval karla og erfitt að velja, en Akranes er frægt fyrir fjóra hluti, ekki bara þessa þrjá fyrstu: Fallegar konur, góðar kartöflur, æðislega fótboltamenn ... og suddalega sæta menn sem er það fjórða. Það er verið byggja á milljón hér svo piparjúnkur landsins, komið bara hingað í karladýrðina, svo er Einarsbúð alveg æðisleg að öðru leyti, ég fer varla í Costco lengur, því allt það besta þaðan fæst þar (nema gómsæta sítrónuformkakan).  


Furðuframboð, flutningar, fyllirí ...

FlytjaSkilaboð í kvöld: „Ertu full? Mjög full?“ Ég dæsti og fór að hugsa. Hvað hafði ég gert systur minni fyrst hún dirfðist að ásaka mig um annað eins. Ég er ekki einu sinni hálfnuð með pínulitlu Beilísflöskurnar sem ég hrúgaði (tíu) í körfu í fríhöfninni eftir Glasgow-ferðina Á SÍÐASTA ÁRI. Þekkjandi þankaganginn áttaði ég mig á því að hún hélt að ég hefði drekkt sorgum mínum yfir því að vera orðin einsetukona í fyrsta sinn í sjö ár og einn mánuð. Jú, stráksi flutti nefnilega á besta stað í heimi í dag, fékk litla stúdíóíbúð í íbúðasambýli, með fæði og þjónustu, nálægt miðborg Akraness og hinni sundlauginni - og kvaddi himnaríki klukkan rúmlega tvö í dag. Þrír sérlega myndarlegir menn komu frá Akraneskaupstað til að aðstoða við að flytja rúmið hans (það þurfti að skrúfa höfðagaflinn af), einnig sjónvarpið stóra í stofunni sem ég gaf honum (eftir að ég hætti að nenna að horfa að mestu, eitt nægir) og fína tölvuleikjastólinn. Annað hafði hetjan hún systir mín (hún getur verið svo næs líka) aðstoðað okkur við að flytja og ganga frá í gær, sem gladdi skytturnar þrjár aldeilis svaðalega í dag. „Bara eitt rúm, sjónvarp og stóll? Jessssss,“ veinuðu þeir ofsaglaðir, enda frekar fúlt að hoppa margar ferðir upp á þriðju hæð og svo niður með kannski eitthvað þungt í fanginu. Það allra léttasta gleymdist nú samt, eða fjarstýringin að sjónvarpinu. Inga kom eins og frelsandi engill og aðstoðaði okkur með restina sem var nú ekki svo mikið. PS5 og annað slíkt sem mátti alls ekki flytja í gær ... Litla sjónvarpið úr herbergi stráksa flytur búferlum í Kópavog plús margar Syrpur en fram að sölu himnaríkis hef ég ágætis not fyrir aukaherbergi og hef einsett mér að breiða nokkuð úr mér. Vantar mig vinnustúdíó, íþróttaherbergi, kaffihússherbergi, kattasvítu? Ó, svo margir möguleikar ... svo skammur tími ...

 

Keli og hafiðÁ meðan ég eldaði síðustu kvöldmáltíðina í gær, heyrði ég hljóð sem gátu ekki táknað annað en að stráksi léti eins og bestía eða óhemja (orðin sem mamma notaði í denn á okkur). Gemsinn hans hafði frosið. Ég hækkaði ögn röddina, bað hann að koma með ónýta drasl-ógeðs-ömurlega gemsann, ég skyldi redda málum. Hafði gúglað: Frozen iPhone X og fékk upp fína skýringarmynd.

Ýtið á hækka-takkann og sleppið, ýtið á lækka-takkann og sleppið. Ýtið síðan á slökkva-takkann (hægra megin) og haldið honum inni þar til eplið sést.

 

Þetta snarvirkaði, stráksi tók gleði sína og heldur að ég sé símasnillingur, klárari en Davíð frændi jafnvel ... Mér datt ekki í hug að leiðrétta það.

 

Stráksi (20) var hjálplegur og alveg sáttur við allt saman þótt hann hafi ætlað að búa hjá mér alla vega til 57 ára aldurs, hafði sagt það síðustu árin. Það hefði svo sem verið kúl fyrir mig að verða hátt í hundrað ára, ég meina sjötug, orðið að halda mér á lífi og vera eldhress sem fósturmamma, og stórgræða í leiðinni t.d. með því að missa ekki af því þegar Georg litli tekur við sem konungur í Bretlandi og þegar Pútín verður kjörinn forseti í fimmtugasta skiptið og ... alls konar. Talandi um það ... Hver ætli verði næsti forseti Íslands? Þetta er furðulegasti aðdragandi forsetakosninga sem ég man eftir ... með ólíkindum, eða var þetta kannski svona fyrir átta árum og ég fljót að gleyma? Fólkið á fb segir að Gnarrinn taki þetta auðveldlega ... að Katrín sigri ef hún býður sig fram ... að auðvitað verði Baldur forseti ...

Bara svo innilega leiðinlegt að sjá sumt fólk sem heldur t.d. með ónefndum frambjóðanda, rakka niður aðra frambjóðendur. Ég veit ekkert um viðkomandi, minnir bara að hann aðhyllist samsæriskenningar en væri frekar til í að vita meira um hann en eitthvað ljótt um hina. Mér hefur samt þótt prúðmennskan almennt ríkjandi nema þarna hjá þessum fyrrnefndu.  

 

Verkefni eru næg þótt elsku fóstursonurinn sé fluttur ... svo sennilega breytist ég, í öllum þessum friði sem mun áreiðanlega ríkja hér, í algjöran vinnualka sem lyftir sér upp með því að snúa höfðinu stöku sinnum til hægri þegar öldurnar eru sem háværastar við Langasandinn. Ein brimskvetta á við besta samkvæmislíf. Kaffi og kettir á kantinum ... dásemd. Svo þarf einhver að finna upp Eldum hollt fyrir einn-heimsendingarþjónustu (með engum hnetum, möndlum, döðlum og rúsínum ... ég mun seint fyrirgefa Eldabuskunni fyrir að troða RÚSÍNUM í brokkolísalatið án viðvörunar og kaupi tæplega páskaegg frá vissu fyrirtæki aftur út af verulegum rúsínuhremmingum páskana 2024).


Óvænt viðreynsla, páskaeggjarugl og strætósvik

Himnaríki mars 2024Tungumálakunnátta er ótrúlega mikilvæg, það sannaðist í gærmorgun svo um munaði. Við stráksi vorum á leið í strætó, fermingarveisla klukkan þrjú og svo páskamáltíð hjá Hildu daginn eftir. „Góðan dag,“ sagði ég við manninn sem kom út með rusl um leið og við. Stráksi henti poka frá okkur og sagði svo „Djin dobre“ við manninn - sem er góðan daginn á pólsku. Sá gladdist, enda pólskur, og til að gleðja hann enn frekar benti ég út á stoppistöð og sagði: „Átóbúss, Reykjavík,“ og benti á okkur stráksa og svo í áttina að strætóstoppistöðinni á Garðabraut. Glöggir blogglesendur átta sig sennilega á því að átóbúss er pólska orðið yfir strætisvagn.

„Ha! Eruð þið að fara til Reykjavíkur?“ spurði pólski frábæri granni minn til sautján ára. Við héldum það nú, Reykjavík, Kópavogur, skiptir ekki máli, hugsaði ég en minntist blessunarlega ekki á Kópavog. Við glöddumst óheyrilega þegar hann sagðist líka vera á leið í bæinn og hvort við vildum ekki fá far. Þegar leið 57 var að nálgast Mosfellsbæ ókum við eins og almennileg fólk á drossíunni að húsi systur minnar í Kópavogi ... þar sem granninn henti okkur stráksa út á ferð til að hjólkoppunum yrði ekki stolið. „Ránið var í Hamraborg!“ reyndi ég að hrópa, „alveg í sjö mínútna akstursfjarlægð héðan,“ en granninn hélt öskrandi beinustu leið í öryggið í Breiðholti, með allar dyr læstar. Ég reyndi að vara hann við hinni tiltölulega nýlegu sérsveit Ríkislögreglustjóra sem gasar, handtekur og gargar á allt útlenskt, ýmsar mæður, konur yfir sjötugt og suma á Toyotu, hefur mér skilist. En granninn uppfyllti svo sem bara tvennt af þessu. Og svo var örstutt í Breiðholtið svo hann slapp alveg örugglega.

 

„Gleymduð þið páskaeggjunum ykkar heima?“ sagði systir mín skelfingu lostin.

„Það koma samt alveg páskar,“ reyndi ég að ljúga ... en eftir frábæru fermingarveisluna sem fór fram nánast í Salalaug (efri hæðinni) stoppuðum við í verslun á heimleiðinni. Tvö páskaegg þurfti að kaupa til að kæmu páskar. Ég keypti mér rísegg númer fjögur og draumaegg númer fjögur handa stráksa. Þetta var annað páskaeggið mitt en fimmta hans stráksa sem hafði fengið tvö í afmælisgjöf og unnið eitt í bingói í skólanum. 

 

Dyggð er gulli dýrmætariÍ morgun þegar systir mín rétti mér páskaeggið mitt áttaði ég mig ekkert á því að þetta væri rísegg númer níu ... og hakkaði hluta þess í mig í morgunverð. Sjá mynd af málshættinum þar. Heimilismeðlimur á unglingsaldri átti víst að fá það páskaegg. Þetta var einn allra besti bröns sem ég hef fengið. Óborganlegur skelfingarsvipurinn á systur minni gerði þessi tilvonandi níu aukakíló mín alveg þess virði þegar hún uppgötvaði mistök sín. Betri gat páskadagur varla orðið. Svo biði mín hvítt páskaegg í himnaríki um kvöldið ... ef ég kæmist heim. Spáin var helst til of spennandi fyrir suðvesturlandið líka en þó engar gular viðvaranir.

 

Lambalærið í kvöld var ekki bara gott, heldur stórfenglega gott. Matur klukkan átján og strætó klukkan tuttugu, það var mergjuð áætlun. Ég fylgdist í laumi með rokkandi hviðum (32-37 m/sek) og tilkynningum á Klapp-appinu ... stressuð vegna kattanna. Maturinn myndi ekki duga þeim mikið lengur en út kvöldið, kattahvíslarinn minn fyrir vestan á Aldrei fór ég suður og Inga í sjóðheitu loftslagi (15-20°C, hugsa ég, aumingja hún, mætti ég frekar biðja um -2°C ... feels like -11°C).

 

Strætó bs kl. 22.31Davíð skutlaði okkur í Mjódd kl. 19.45. Ég hafði fylgst með leið 57 annað slagið akandi alla leið frá Borgarnesi og var því nokkuð viss um að áttavagninn færi, eða 19.59-vagninn. Engin tilkynning á klappinu um að fyrri kvöldferðin færi ekki vegna veðurs. Svona tíu mínútur í átta sá ég mér til furðu að leið 57 var komin í Mosó og stefndi nú til Akraness aftur ÁN VIÐKOMU Í MJÓDD!!! Og án okkar stráksa. Hviður voru vissulega í 37 m/sek þá en lækkuðu svo niður í 32 nokkru seinna. Þetta er ekki heigulsskapur hjá Strætó bs. Fyrirtækið er ótryggt ef eitthvað kemur fyrir vagn og farþega þegar hviður fara yfir 30 m/sek. Ég var samt mjög spæld. 

Hvað er þetta? sagði ég greindarlega við frænda, nú þyrfti ég sennilega að auglýsa eftir fari með einhverjum á leið á Skagann. Mér datt ekkert annað í hug. Dýravinurinn knái sagði: „Ég nenni ekki að bíða eftir vagni sem fer í öfuga átt,“ svo ók hann af stað áleiðis til Akraness. Við stráksi bókstaflega möluðum af feginleika fyrir hönd Kela, Krumma og Mosa. Það er vissulega ólíkt mér að vera ekki með plan B fyrir kettina, skilja eftir enn meiri mat en þarf og stóra skál fulla af vatni í eldhúsvaskinum ef rafmagnið færi nú af og stóri vatnsbrunnurinn myndi hætta að virka. Mögulega í fyrsta sinn sem ég gerði það ekki.

 

Myndin sýnir hvernig Strætó bs fór með okkur. Nákvæmlega ekkert að finna um að ferðin kl. 19.59 félli niður, bara gert ráð fyrir gáfuðum farþegum eins og mér, sem fyndi sjálf út úr þessu. 

- - - - - - - - - - - - 

Daðrað á snappiEf ég væri ekki svona fróm manneskja (sem ég varð eftir að ég hlustaði á Die Sieben Worte Jesu Christi am Kreuz eftir Heinrich Schütz sem feisbúkkvinur með þennan fína tónlistarsmekk deildi á föstudaginn langa) hefði ég flissað glaðlega en örlítið hlessa yfir algjörlega óvæntri viðreynslu á Snappinu aðfaranótt páskadags (skömmu eftir miðnætti). Sá að einhver maður, undir algengu íslensku föðurnafni, hafði sótt um snappvinskap við mig þar og ég samþykkti því þetta hlaut að vera bróðir vinkonu, gamall vinnufélagi eða skólabróðir - og átti ekki von á að birtist í hvelli eftir samþykkið: 

„Hæ, hvað ertu gömul?“

„Ég gæti verið amma þín.“ (Virkaði eins og spurning frá 14 ára strák og ég vildi bara losna við hann) 

„Láttu ekki svona, ég er þrítugur, en þú?“ 

„Ok, ég er xx.“ (Sagði réttan aldur minn sem sést eingöngu á prenti á afmælistertu minni í ágúst ár hvert, ég varð samt að fæla barnið frá)

„Ég er að leitast eftir eldri glæsilegum konum. Þær eru langbestar. Hvernig lítur þú út, ef mér leyfist að spurja? Ertu gift?“

„Ég er harðgift,“ hvæsti ég grimmdarlega með fingrunum.

„Ég er það líka. Hef gaman af því að leika mér.“ 

Svo tók ég skjáskot af samtali okkar, bara til að Hilda systir tryði mér, hún heldur að ég eigi ekki nokkurn einasta séns lengur, ég er svo miklu, miklu eldri en hún og á að auki þrjá ketti. 

„Mikið er lúalegt af þér að taka skjáskot!“ (Hann var samt ekki undir nafni svo ég hefði aldrei getað fundið hann (og kýlt)).

Mig langaði að svara: „Mikið er lúalegt af þér að svíkja konuna þína svona, farðu til fjandans!“ en nennti ekki að eyða tíma í að skrifa það á símann, henti ótrúa drengnum bara út og sendi konunni hans samúðarstrauma með hugarorkunni. Næsti gaur sem sótti um vináttu við mig, níu tímum síðar, fékk bara hnuss og nú í þessum skrifuðum orðum er einhver annar gaur sem vill verða vinur minn.

 

Er einhver „viðbjóðsvika“ í gangi þar sem atast er í siðprúðum kerlum? Og þetta „leitast eftir“ - sko, við leitumst við að t.d. svíkja ekki maka okkar með því að reyna við síðmiðaldra glæsikvendi. Og þetta „eldri“ glæsilegum konum, það myndi enginn mannlegur máttur geta veitt mig með slíku orði, „ég er trylltur í gamlar skrukkur, óður í kerlur krumpaðar í framan ...“ Falla konur fyrir slíku? Ég myndi falla kylliflöt fyrir manni sem segði að ég væri sjúklega sæt og svakalega gáfuð og heillandi og fyndin, vel lesin, kynni nánast öll póstnúmer, væri sannur matgæðingur (eða mjög lítið fyrir gamaldags íslenskan mat), héldi með réttu liði í enska, væri með svívirðilega góðan tónlistarsmekk og annað í þeim dúr. Hann hefði reyndar náð mér strax með „sjúklega sæt“.

 

P.s. Hvað er eiginlega í gangi? Það getur bara ekki verið að súkkulaðiRÚSÍNUR flokkist sem tilhlýðilegt og gómsætt innvols sem setja má í páskaegg?


Allt í gangi ... dregur senn til tíðinda

Útsýni á eldgosSíðasti dagur kennslunnar var í dag og hefur sannast á mér hið fornkveðna, konur geta bara gert eitt í einu. Annaðhvort kennt eða bloggað.

 

Mikið hafði ég dásamlega nemendur, og það frá flestum heimshornum. Þau sem segja að "þessir útlendingar" vilji ekki læra tungumálið, aðlagast og slíkt, hefðu átt að vera flugur á vegg í tímum. Ég (sem hata hita) var sú eina sem kvartaði yfir kuldanum á morgnana og tók samt strætó (innanbæjarvagn, leið 2, alls 5 ferðir á dag) á meðan þau gengu alla leið í skólann sem er í útjaðri bæjarins. Bónus er síðasta húsið í bænum, skólinn þriðja síðasta ... í skólanum mínum eru fleiri fyrirtæki, eins og Fjöliðjan, Landmælingar, Hver, Vinnumálastofnun, hárgreiðslustofa, fótaaðgerðastofa og fullt í viðbót. Sum gengu langar leiðir og kvörtuðu ekki þótt þau væru ansi hreint vind- og veðurbarin við komu og ég þyrfti jafnvel að brjóta af þeim íshröngla og láta þau setjast á ofninn á meðan þau þiðnuðu.

Þau sem þekkja mig vita hversu mikið ég hata að ganga, ég hefði hatað það og samt eiginlega ekki getað það heldur.

 

Allt þetta labbEr afar þakklát fyrir leið 2, annars hefði ég farið illa út úr þessu. Hásinin á hægri svo slæm núna (gömul íþróttameiðsl) að ég haltra, enda fær hún ekkert frí þessa dagana, ekkert afslappelsi fyrr en kannski eftir helgi. Gott að eiga sjúkraþjálfara að vinkonu ... Inga sagði mér frá vissri snilld sem ég fengi í apótekinu, eitthvað sem sett er undir hælinn og hækkar hann sem orsakar minna álag á hásinina, ég keypti og fann strax breytingu til batnaðar.

 

Ég predikaði endalaust yfir nemendum mínum að málið væri að þora að tala, það myndu allir skilja þótt þeir töluðu bjagað, bara láta vaða frekar en að tala ensku. Íslenska væri ekki svo erfið. Í gær fengu þau hvert sitt páskaeggið (allra, allra minnsta) frá mér svo ég gæti frætt þau um málshætti. Hver vill ekki læra með munninn fullan af súkkulaði? Í mínu eggi var málshátturinn Seint fyrnast fornar ástir.

Hmm ... hvaða fyrrverandi eiginmanni, kærasta eða elskhuga þarf ég að byrja með aftur? hugsaði ég beisklega, ég hef engan tíma til að binda mig í bráð. Sorrí, strákar.

Engu spillir hægðin, fékk rólegur og ljúfur strákur í hópnum. Mér sýndist fyrst, Engu spilla hægðir ... og flissaði þegar ég pældi í því hvernig ég gæti útskýrt þennan fáránlega málshátt fyrir honum - en sem betur fer las ég betur. Aðrir málhættir voru m.a. Dropinn holar harðan stein. Aumur er ástlaus maður.  

Ég sýndi þeim ýmislegt á risaskjánum, eldgos í vefmyndavél, Skálmöld og Sinfó á YouTube, vedur.is, google translate, ja.is-google maps þar sem við ferðuðumst um Skagann ... Tuttugu stuttmyndir sem hjálpa þeim að skilja eru fast kennsluefni en margt hefur breyst síðan þær voru gerðar, eins og bankaþjónusta og strætógreiðslumáti. Græna kortið ... hver man eiginlega eftir því? Og persónuleg bankaþjónusta utan Akraness, látið ykkur dreyma!

 

HúsóÉg horfi nánast aldrei á sjónvarp en mundi að fólkið í kringum mig, sjónvarpssjúklingarnir, hafði hrósað Húsó. Ég sá þættina inni á sarpi hjá RÚV, enn aðgengilegir en alveg að detta út, horfði á fyrstu fimm heima (til að koma í veg fyrir eitthvað vandræðalegt, eins og í upphafi íslenskrar glæpaseríu sem ég sýndi um árið og var búin að sjá en gleyma að fyrsti þáttur hófst á æsilegu kynlífsatriði á bryggju (mjög stuttu, sjúkk, svo tóku sem betur fer blóðug morð við). Ég var svo vandræðaleg þá að nemendur mínir hlógu sig máttlausa. Þeim fannst gaman að sjá þann þátt og ætluðu að horfa á alla seríuna heima.

Við horfðum á alla sex þættina af Húsó og vá, hvað þetta er frábær þáttaröð. Er mjög montin af Möggu Völu, bróðurdóttur minni, sem stjórnaði kvikmyndaupptökunni sem var brilljant eins og allt annað þarna. Vildi samt að ég hefði séð síðasta þáttinn áður en við horfðum á hann í dag því ég varð klökk, endirinn svo fallegur, svo ég rak nemendur hryssingslega í helvítis kaffihlé ... þau tóku samt ekki eftir neinu. Þetta var eina efnið sem ég fann sem sýnir svolítið raunverulegt líf í dag, með íslenskum texta sem auðveldaði mikið. Gaman að sjá elsku Kjötborg í svona stóru hlutverki, þannig.

Þetta var ekki bara íslenskukennsla, þau þurftu að fá að vita um svo margt hér á Akranesi. Einn daginn fórum við í flöskumóttökuna og Búkollu nytjamarkað. Guðmundur Páll hjá Fjöliðjunni fór með okkur um allt þarna, elsku yndið. Það er hægt að kaupa flotta hluti á fáránlega lágu verði hjá Búkollu og nauðsynlegt að vita af öllu svona þegar maður er nýfluttur hingað. Við kíktum líka á Frískápinn (ísskápur, frystir, hilla ... enga matarsóun, takk) en hann var tómur að þessu sinni, finnst ég helst sjá auglýsingar um gómsæti þar seinnipartinn. Mjög snjallt að vera með svona. Ömurlegt að henda mat, ég geri það aldrei, elsku fuglarnir mínir hérna við sjóinn eru hjálplegir við að sjá um afgangana.

  

Himnaríki 21. mars 2024Hef nokkrum sinnum viðrað hér þá þrá mína að flytja í bæinn eftir að stráksi flytur frá mér ... ættingjar og langflestir vinir búa á höfuðborgarsvæðinu og þótt ég sé aldrei einmana í eigin stórkostlega félagsskap held ég að sé rétt skref að breyta til í tilverunni núna. Það hefur aðeins dregið til tíðinda í þeim málum, í raun er næstum allt að gerast, svolítið hraðar en ég hafði búist við eða ætlað mér.

 

 

Himnaríki fer því í sölu í fyrramálið og ég vona innilega að draumaíbúðin bíði mín í bænum. Markaðurinn er orðinn hressari. Þegar ég sá myndirnar úr himnaríki frá Daníel í Hákoti, teknar í gær, nánast snerist mér hugur. Sjá nokkrar þeirra hér.

Þegar ég keypti himnaríki á sínum tíma (fyrir rúmum 18 árum) féll ég fyrir útsýninu, ágæt íbúð með samt og nú er sú íbúð orðin að algjöru himnaríki. Þetta er vissulega penthouse-íbúð, þar sem hún er efst og jafnstór og báðar íbúðirnar fyrir neðan hana. Gleymdi alveg að benda fasteignasalanum á það.  

 

 

Veðrið var ekki sérlega myndvænt þegar ljósmyndarinn kom svo ég sendi tvær fínar útsýnismyndir frá mér til að hafa með ... önnur sýnir Langasand ... sjá hana hér efst ... og auðvitað er eldgos í baksýn. Kannski algjör synd að flytja þegar íbúðin er orðin svona fín og flott. Hina myndina má sjá neðst.

 

Himnaríki 6. mars 2023Vonandi verður himnaríki draumaíbúð einhvers sem kann vel að meta óhindrað sjávarútsýni - alla leið til Ameríku ef jörðin væri ekki hnöttótt - og fallega íbúð. Guðný hönnuður var þyngdar sinnar virði í gulli og líka iðnaðarmennirnir, allir í fremstu röð.

 

Þau sem halda að ég sé að flytja í bæinn af því að ég hlóð óvart niður Klapp-appinu í fyrra - sem dugar bara í strætó í bænum (varla samt), eru alveg í ruglinu. Eða af því að ég fari sífellt hjá mér við að fylgjast með Skagamönnum striplast á náttslopp og inniskóm til að fara í Guðlaugu (laug við Langasand). Ónei. Það er sko djammið sem kallar. Leikhús, bíó, kaffihús, bingó, gömlu dansarnir, harmonikkutónleikar ...

... sem minnir mig á að ég á miða á Skálmöld í Hörpu núna 1. nóvember! Þegar ég keypti miðana, nú í byrjun janúar, hefði mig seint grunað að ég yrði jafnvel flutt í bæinn þá. Kemur í ljós, kemur í ljós. Krossið fingur fyrir mig, elsku bloggvinir, að rétta íbúðin bíði mín hinum megin við flóann. Akranes er samt best og yndislegast, frábærast og dásamlegast.

 

Ef neðsta myndin prentast vel má sjá grilla í Bandaríkin lengst til hægri.


Tvítugur stráksi, hnetufár og júróhneyksli

Amælistertan handa stráksaHáttvirtur stráksi af Himnaríki er tvítugur í dag. Húrra, húrra, húrra. Hann var vakinn í morgun af Möttu sinni, þar sem hann gisti um helgina, og fékk afmælissöng og -köku. Hingað heim var hann kominn um hálfátta í morgun og fékk þá gjöfina frá mér, gegnsæan hraðsuðuketil til að hita sér vatn í te í nýju íbúðinni. Aðeins mánuður eftir hér, svona um það bil. Elsku Maren okkar frá Akraneskaupstað er búin að koma og kveðja og rígfullorðinslífið alveg að taka við. Hann er sennilega tilbúnari en ég í þessar breytingar.

Í kvöld mætti ástkær vinafjölskylda í pasta-pasta ... ég gerði sko tvöfaldan tagliatelle-rétt með piparosti, frá Eldum rétt, og bjó einnig til lasagne (úr pakka, dúndurgott). Þetta vakti gífurlega lukku hjá genginu mínu, litlu snúllurnar sem kalla mig vonandi ömmu með tíð og tíma, mættu í flottu kjólunum úr Costco sem Hilda lét mig kaupa í stað páskaeggja (einmitt) og þeir smellpassa núna og örugglega alveg í ár til viðbótar.

 

 

Myndin er svakalega óskýr eitthvað - en takið eftir afbragðs góðum fókus á ljósakrónunni sem ég keypti fyrir ábyggilega 25 árum hjá Jónasi antíksala sem þá var í Austurstræti, nú kominn í Kópavog. Þarna má sjá frábæra vinafólkið mitt skömmu áður en við réðumst til atlögu við tertuna sem þau komu óvænt með.

 

Keli helgar sér klakavélÞað er alltaf verið að búa til einhvers konar staðalímyndir af okkur mannfólkinu og konur eiga til dæmis að geta multitaskað, gert marga hluti í einu, á meðan karlar geta í mesta lagi eitthvað eitt. Virkilega? Ég steingleymdi að gefa gestunum vatn með matnum, ætlaði aldeilis að hafa fína klaka út í úr flottu mikið notuðu klakavélinni sem lætur mig stundum vakna tvisvar á nóttu til að pissa, svo gráðug er ég í vatnið ... Það er ekkert annað en kraftaverk að ég hafi getað eldað tvo (svakalega einfalda) rétti á sama tíma og haft allt tilbúið um sexleytið.

Þau lofuðu að borða mjög vel en ég eldaði sennilega of mikið. Nóg til afgangs í hádegismat á morgun, og svo fer eitthvað í frystinn.

Þau mættu með flott súkkulaði handa stráksa í afmælisgjöf og súperfína AFMÆLISTERTU! Hann var alsæll með daginn og rúmlega það.

 

Myndin er af Kela þar sem hann var að enda við að helga sér klakavélina fyrr í kvöld.

 

- - - - - - - - - - - - - - - - - - - -

Mossad

 

Hvað gerðist eiginlega á laugardaginn? Af hverju sigraði ekki lagið sem kommúnista-RÚV með allt þetta góðafólksgengi hafði ákveðið að myndi sigra? Og hvers vegna sigraði lagið sem íhaldsfasistaliðið sem heldur RÚV í heljargreipum ákvað að myndi sigra?

Sko ...

- Mossad fékk Rússa til að brjótast inn í kosningaappið þannig að um hálf milljón atkvæða sem „óvinurinn“ átti að fá, endaði sem páskaegg handa kennara ákveðins menntaskóla við visst Laugarvatn. 

 

 

Ég horfði reyndar ekki á Söngvakeppnina í ár. Yfirleitt er slökkt á sjónvarpinu hvort sem er. Einhverra hluta vegna datt ég þó inn í breska bökunarþáttinn þar sem augnayndið hann Hollywood dæmir baksturshæfileika breskra áhugabakara. Enn eitt í lífinu sem ég er þakklát fyrir-hugsun kviknaði við áhorfið.

Já, ég er sérlega þakklát fyrir að vera ekki dómari í þessum þáttum, með mína góðu bragðlauka ... ég vissi ekki af öllum þessum hnetutegundum sem þarna var hægt að troða inn og skemma fínasta kex og kruðerí.

 

 

Er hnetufár kannski að aukast í heiminum? Horfði oft, nánast alltaf, á þessa keppni á meðan ég nennti að horfa á sjónvarp að einhverju ráði og man ekki eftir svona hrottalegri meðferð á deigi sem hefði getað endað sem eitthvað gómsætt. Eini bakarinn á Íslandi sem ég hef einlæga trú á er Siggi í Bernhöfts. Konudagskakan hans um árið var sú besta í manna minnum, og ... algjörlega hnetu-, möndlu-, döðlu- og rúsínulaus. Í þættinum komu kúrennur fram sem eitt hráefnið, var ekki búið að útrýma þeim?   


Ömmur sem hata og enn meira um tónlist

Mest seldu plöturnarGúglkunnátta mín er sérlega slæm, eins og alþjóð veit, og sérstaklega Hilda systir, eftir ferð okkar til Hafnar í Hornafirði og hún bað mig um að gúgla vegalengdina að næstu bensínstöð (17 klst. og 54 mín.). Ég er fljót að gefast upp ef ég finn ekki í hvelli. Mig langaði að vita hvaða plötur Íslandssögunnar væru vinsælastar og hefðu selst mest. Ég fékk upp fréttir á borð við: Mest selda platan árið 2022, ég var samt ekki að leita að því. Óþolinmæði er eflaust versti óvinur góðs leitara.

Á tímarit.is var listi frá 28. feb. 2006, sem sagt 18 ára gamall. Þar er Björk okkar Guðmundsdóttir efst, síðan Sykurmolarnir, þá Sigur Rós, Gus Gus, Quarashi, Emiliana Torrini, Mezzoforte, Bubbi, Stuðmenn og síðast Þú og ég.

Enginn Ásgeir Trausti kominn til sögunnar þá - til að löngu síðar heyrast í verslun í Orlando (2018, ég var þar) og Hafdís Huld ekki búin að gefa út vögguvísuplötuna sína sem hefur sprengt alla skala hjá Spotify - enda eru víst ársgömul þýsk börn á vissum leikskóla ytra farin að sofna við Dvel ég í draumahöll, af þeirri plötu (heimild: Istagram) eins og ótrúlega mörg íslensk börn. Besta lagið til að svæfa þau litlu.

 

Langsamlega mest seldu plöturnar í útlöndum - það var auðveldara að finna. Hér eru efstu fimm: 

1. Michael Jackson - Thriller (65,8 milljón seldar plötur)

2. Pink Floyd - Dark Side of the Moon (43,3)

3. Whitney Houston - The Bodyguard (41,1)

4. Varíus artists - Grease (38,1)

5. Led Zeppelin - Led Zeppelin IV (36,8)

 

Þessi listi (sjá líka myndina) er fjögurra ára gamall en það vekur furðu mína að sjá t.d. ekki Bítlana ofarlega þarna, Abbey Road (26,7 m) og ögn neðar, Sgt. Pepper´s (24,8 m). Kannski var bara svona færra fólk í heiminum í gamla daga ...

Að Celine Dion sé ofar en Nirvana er bara hneyksli og margt annað stórfurðulegt má finna á þessum Reddit-lista.

Ég vona innilega að gúglkunnátta mín sé bara svona slæm, það hlýtur að vera einhvers staðar listi yfir íslenskar plötur. Sennilega er Lifun ofarlega þar. Annars man ég eftir vinsældakosningu á Rás 2, sem er auðvitað annað en sölutölur, fljótlega eftir að Rásin byrjaði. Þá þótti Stairway to Heaven með Led Zeppelin flottasta lag í heimi. Þónokkuð mörgum árum síðar var önnur svona kosning og þá vann lagið Smells like Teen Spirit með Nirvana, sú kosning gæti hafa verið á MTV, svona ef ég fer að hugsa. Mér þætti gaman að vita hvaða lag myndi teljast besta lag allra tíma, nú í dag.   

 

Facebook

Mánaðarlega eldgosið á Reykjanesskaga var sumum fjöndum ofarlega í huga og þetta birtist hjá honum í gær, föstudag:

 

„Ætlið þið að taka þátt í gosinu á sunnudaginn?“ 

og þetta í dag ...

„Allir voru brjálaðir yfir því að það var ekkert naut í nautaloku Gæðakokka og nú eru allir að trompast yfir því að það sé mús í kartöflumúsinni hjá Pho Víetnam ... hvað viljið þið eiginlega?“

 

Besta fólkiðUngur rithöfundur skrifaði pistil um ömmur ... en ömmur eru það besta í heimi, eins og við vitum; safna fyrir barnaspítala og prjóna sokka á hermenn í Úkraínu á milli þess sem þær baka pönnukökur ofan í barnabörnin. Hann talaði um nokkrar ömmur sem elskuðu ömmugullin sín en vildu ekkert af Palestínufólki vita, alls ekki fá það til Íslands þótt það bjargaði lífi þess. Það hafa orðið ansi fjörugar umræður á Facebook um þetta. Sumar ömmur taka þetta alls ekki til sín, aðrar kvarta undan því að þær megi ekki tjá sig, þótt enginn hafi bannað þeim það.

 

Umræðan um suma (brúna) hælisleitendur minnir óneitanlega  á hatursorðræðuna gagnvart gyðingum fyrir um 90 árum, hversu ömurlegir og ómögulegir þeir væru, og auðvitað þyrfti Ísland að hugsa um sína þegna fyrst og fremst, því miður gætum við ekki tekið við þeim gyðingum sem sóttu um hæli hér - og allir vita hvernig fór. Ég held meira að segja að það sé bannað með lögum að heita Hitler, svo hataður er hann enn í dag vegna helfararinnar. Skiljanlega!

 

Barnabarnið og stráksiÉg er ekki amma, ég þarf að ræna barnabörnum ef ég á að eignast nokkur og eitt ömmugullið mitt (sjá mynd, sá lægri í loftinu) býr í næsta húsi og kíkti í heimsókn síðast í dag með mömmu sinni, sem færði mér disk af dásamlegum arabískum mat (ekki með hnetum, döðlum, möndlum eða rúsínum, sjúkk). Ég á nokkra góða vini frá Miðausturlöndum, bæði múslima og kristna (eða trúlausa, ég veit það ekki, við ræðum aldrei trúmál). Ég kannast ekkert við lýsingarnar á lötu liði sem þráir það eitt að komast á spenann hér, og þaðan af verra - vissulega er slíkt fólk samt til, og það hjá öllum þjóðum. Mín kynni eru af friðelskandi, harðduglegu fólki sem elskar Ísland, líka veðrið (sem ég skil reyndar mjög vel, hiti er viðbjóður). Sumir segja að þessi neikvæða umræða sé vegna stöðugs áróðurs Útvarps Sögu og sumra pólitíkusa (til að veiða þannig þenkjandi kjósendur) svo stundum fer jafnvel góðhjartaðasta fólk að trúa öllu illu um þessa útlendinga ... án þess nokkurn tímann að hafa kynnst eða þekkt nokkurn persónulega - bara heyrt eitthvað um þetta "voðalega fólk" frá öðrum. 

 

Myndin sýnir stráksa minn og „ömmugullið“ mitt eftir að sá síðarnefndi fékk að gista hjá ömmu Gurrí sl. haust. Hvorugur fæddur hér á landi. Hér sést líka í bíl sem er í eigu grannkonu frá Úkraínu, hún er hörkudugleg, hleypur í vinnuna (nema þegar rignir) sem er ekkert langt frá minni vinnu sem ég verð að taka strætó í, hún hefur boðist til að skutla mér í búð hvenær sem ég þarf, hún passar kisurnar mínar í sumar- og jólafríum og bakaði bollur á bolludaginn og færði mér nokkrar. Ekki svo mjög voðalegt fólk ...

 

SeríoslíVinkona í Svíþjóð furðar sig á fullyrðingum sumra Íslendinga um hælisleitendavandamálið í Svíþjóð, hún kannast ekkert við það. Annars varð okkur tveimur næstum því alvarlega sundurorða þegar við töluðum síðast saman. Ég sagði henni að ég ætlaði á tónleika með Skálmöld núna 1. nóvember í Hörpu. Hún er náskyld einum í Skálmöld en lýsti því samt yfir við mig að hún myndi frekar fara og sjá Geirmund Valtýsson, það yrðu tónleikar með honum nú í apríl, hana langaði svooo að koma til landsins. Hún sagðist ekki trúa því upp á mig að mig langaði ekki til að fara.

Ég reyndi varfærnislega að segja henni að kona (samt með skagfirsk gen) á borð við mig, sem veldi sér viljandi tónleika á borð við Metallicu, Rammstein og Töfraflautuna, færi sennilega frekar að sjá Skálmöld en Geirmund ... Ég held að hún hafi ekki trúað mér.

 

Mér finnst ekki ólíklegt að ónefnd systir mín færi með henni á Geirmund, frekar en með mér á Skálmöld, og mögulega líka einhverjar vinkonur (ekki margar).

 

Fátt held ég að geti toppað tónleikaupplifun vinkonu minnar sem sá Atom Heart Mother, frumflutning Pink Floyd, í Hyde Park árið 1970. Ég fæ óraunveruleikatilfinningu bara við tilhugsunina. Enn er mín skrítnasta upplifun sem tengist óraunveruleika sú að þegar ég var níu eða tíu ára datt flaska með mjólk í (til að drekka með nestinu mínu) af þriðju hæð í Brekkubæjarskóla niður á mölina á skólalóðinni og BROTNAÐI EKKI! Já, reynið bara að toppa það!       


Meint martröð í morgunsárið og meint veikindi Katrínar ...

Nemendur finna vörurAlgjört öngþveiti ríkti í skólastofunni í gær þegar ég tjáði nemendum að hlaupársdagur táknaði að konur gætu beðið sér manns og hann mætti ekki neita, nema greiða henni skaðabætur fyrir. Held að einhleypu konurnar hafi hugsað sitt en karlarnir urðu stressaðir. Ég, aðeins í þeirri viðleitni minni að kenna íslensku, bað einn um að giftast mér og svo brá við að þessi gáfupiltur (ég gæti verið móðir hans) kunni allt í einu enga íslensku. Brosti bara sætt og sagði: „Ég skil ekki.“ Ég var ekki einu sinni búin að kenna þeim að segja það.

Svo um leið og hann og hinir skildu að þetta væri eitthvað gamalt og í raun bara grín, kviknaði íslenskukunnáttan aftur af fullum krafti og léttirinn flæddi um allt. Núna í morgun hittumst við í elsku bókasafninu og spjölluðum heilmikið saman. Til er mjög sniðugt app sem heitir Bara tala - og þau hlóðu því niður í símana. Mjög snjallt til að æfa sig í íslenskunni. Eftir kaffitímann hófst svo martröðin, eða það sem ég hélt að væri martröð í þeirra augum. Ég leyfði þeim að vera tvö til þrjú saman í liði og rétti þeim nokkra handskrifaða miða. Og þótt ég hati dramatík fannst mér vel við hæfi að þau ímynduðu sér að ég lægi fárveik heima, þau væru bestu vinir mínir og myndu algjörlega bjarga mér með því að finna það sem mig vantaði í Krónunni, sem er nánast við hliðina á bókasafninu. Bara bókabúðin og Lindex á milli. Einn hryllingurinn sem ég flissaði subbulega mikið yfir í gærkvöldi þegar ég skrifaði innkaupalistann var: Súputeningur - grænmetis. Einu vísbendingarnar með vörunum voru: Kalt og Ekki kalt. Sem þýddi t.d. að kaffið (Espresso Roma, baunir) var merkt EKKI KALT. En 1 lítri laktósafrí nýmjólk með D-vítamíni var merkt KALT. Einu mistökin, ef mistök mætti kalla, var þar sem ég skrifaði 1 stk. avókadó. Nemendur komu með lífrænt ræktað, 2 í poka, svo lítil samt að þau voru svipuð og eitt venjulegt. Þau fengu öll tíu og A plús. Og innkaupin mín hafa sjaldan gengið jafnhratt og vel ... nema ég var ein um að bera þetta heim, hafði bætt við t.d. súrmjólk og tilbúnum rétti, girnilegri kjúklingasúpu ... með kókos- og karrí-eitthvað, en stráksi fer nefnilega til stuðningsfjölskyldu sinnar í allra síðasta sinn núna um helgina (og ég nenni ekki að elda fyrir mig eina) og næst þegar ég sé hann verður hann orðinn tvítugur!

Skóla lauk því allt of snemma, svo ég þarf lævíslega að ræna af þeim einni mínútu af kaffitímanum í tvær vikur. En vá, þau geta svo miklu meira en ég bjóst við. Fljótlega þarf ég svo að sýna þeim páskaeggjaúrvalið - og segja að það sé skylda að gefa börnunum sínum (og auðvitað sjálfum sér) páskaegg. Ég tjáði þeim að ég hefði alltaf fengið slíkt í morgunmat á páskadag og fékk ekki nokkra samúð, þetta þótti hinn besti morgunmatur. Hvenær glataði ég gleðinni ... og lyst æskunnar á súkkulaði í morgunverð?

 

MYND: Yndin bestu frá Sýrlandi og Palestínu voru ekki lengi að finna kaffirjóma, suðusúkkulaði og kaffipakka. Þær leyfðu að sjálfsögðu myndbirtinguna.  

 

Ég bætti líka orkudrykkjum við, 2 hvítum Monsterum, í þeirri viðleitni að orkan aukist eitthvað sem er ekki vanþörf á. Ég hef rétt haft kraft til að vinna á morgnana, svo er ég bara slappur eymingi. Verkefni sem ég átti helst að skila í dag frestast til mánudags, sem mér bauðst og þáði, svo ég get gert himnaríki ögn fínna í dag og brotið saman smávegis þvottafjall og gengið frá svo helgin geti farið í eintóma vinnu og ekkert nema vinnu. Ég er svo mikill vinnualki að mér finnst bara sjálfsagt að vinna um helgar. Ekki nenni ég að horfa á sjónvarp (sniðgeng Júró) nema þá elskuna hann GMB á föstudögum, hef samt misst af tveimur síðustu þáttum, einhverra hluta vegna.

 

Ég get ekki notað íslensku sjónvarpsfréttirnar til að sýna nemendum hvað gengur á í heiminum, það er örugglega of erfitt fyrir þá sem flúðu stríð eða helför. Eins og við (sem vorum ekki einu sinni fædd) skömmuðumst okkar fyrir hönd Íslands, fyrir að hafa úthýst gyðingum bara til að Hitler gæti myrt þá, og þjóðir heims sögðu í kór: Aldrei aftur, aldrei aftur. Einmitt. Sagan mun ekki gleyma.

Ef ég væri að læra tungumál ríkis sem ég hefði þurft að flýja til, vegna t.d. náttúruhamfara, myndi ég eflaust skæla ef ég þyrfti að horfa upp á brennandi Ísland í þarlendum fréttatíma, til að læra nýja tungumálið. Ég sýni mínu fólki veður.is, vefmyndavélar frá komandi gosstöðvum, íslenska tónlist á YouTube, verst samt hvað ég er hugmyndasnauð og spila eiginlega bara Bríeti, Palla, Bubba ... þigg með þökkum tillögur að tónlist, og jafnvel sjónvarpsefni á RÚV.is eða YouTube (sem inniheldur ekki eitthvað vandræðalegt). Jú, Kaleo líka, en þau eru of ung til að muna eftir Björk og sum ekki með nógu stórkostlegan tónlistarsmekk til að meika Skálmöld (nema þá helst Úkraínukarlar). Ekki sem sagt nóg að kenna þeim bara tungumálið - það er svo margt annað sem er gott að kunna. Hvar antíkmarkaðurinn er, frískápurinn (mæli líka með að gefa fuglunum afganga niðri við sjó) og fleira og fleira. Reyni að hugsa: Hvað myndi ég vilja vita ef ég byggi hálfmállaus í nýju landi? Akraneskaupstaður stendur sig rosalega vel varðandi aðstoð og utanumhald til þeirra sem þurfa en ... hér hittist t.d. hópur í matarklúbbi Rauða krossins, einu sinni í mánuði, þar er eldað og spjallað og kynnst og borðað og hlegið.  

 

Katrín MiddletonÁ Facebook o.fl.

Alþjóðlegur dagur hróss er í dag - svo hrósum hvert öðru í drasl, eins og ein fb-vinkonan orðar það.

 

Á Instagram er skemmtileg íslensk síða fyrir aðdáendur kóngafólks, Royalicelander, sem flytur fréttir af fólkinu með bláa blóðið. Mér fannst ótrúlega fyndið að lesa í gær um áhyggjur fólks af Katrínu hans Vilhjálms, en hún fór í leyndardómsfullan uppskurð (ég giska á legnám) fyrir mánuði og hirðin tilkynnti að kæmi aftur í sviðsljósið eftir páska (það tekur einmitt tvo mánuði að jafna sig eftir legnám). Þar sem hún hefur ekkert sést opinberlega fór orðrómur af stað - ýmsar sögur og hér eru þær helstu: 

- Hún er í dái.

- Vilhjálmur drap hana. 

- Hún fór í rasslyftingu. 

- Henni er haldið í kjallara hallararinnar af því að hún vill skilnað en höllin leyfir það ekki.

- Hún er horfin og höllin veit ekki einu sinni hvar hún er. 

-Hún er dáin. 

- Hún gaf Karli tengdaföður sínum nýra og er að jafna sig (skv. þessu er Karl með krabbamein í nýra og þurfti nýtt).

- Hún er að safna í topp. 

- Hún rakaði af sér hárið. 

- Hún fór í lýtaaðgerð.  


Tónlistaráföll og bestu hrísgrjónin ...

Wu-TangTónlistarveitan mín, YouTube-veitan, er farin að lauma inn lögum á listanum Ýmis lög, eins og aðallistinn minn heitir. Ég hvarf af Spotify til að styðja Neil Young sem tók allt sitt þaðan þar sem Spotify vildi halda kvenhatandi samsæriskenningahlaðvarpara hjá sér - en viðurkenni að stráksi tók yfir þá veitu, við kunnum ekki að stofna nýtt eitthvað slíkt fyrir hann. Þegar Spotify gefur út árlegan lista yfir mest hlustað hjá "mér" kem ég algjörlega af fjöllum. Þekki hvorki haus né sporð af þessari músík hans. Það er nú aldeilis annað en í denn ... ég man eftir símtali í sveitina til sonar míns sumarið 1995. Ég hafði pantað geggjað óskalag, rapplag, splunkunýtt með Wu-Tang Clan, hjá samstarfsmönnum mínum á X-inu - ég vann á neðri hæðinni, á Aðalstöðinni og þeim þótti mjög fyndið þegar næstum 37 ára gamalmennið (ég) hélt upp á músíkina þeirra. Svo hringdi ég í sveitina til Einars og leyfði honum að hlusta á þetta geggjaða lag í gegnum símann. Hann varð mjög hrifinn og hlustaði mikið á hljómsveitina næstu árin. Smekkur okkar var nokkuð svipaður en ég náði samt aldrei Gun´s Roses, hafði of flotta forvera (Zeppelin og Purple) til samanburðar og tók Fugees heldur ekki í sátt fyrr en frekar nýlega, kallaði þau alltaf Fokkís, til að stríða honum ... Svo bara allt í einu fannst mér Killing me softly með þeim ferlega flott, en ég fyllist angist og depurð ef ég heyri það í flutningi Robertu Flack. Furðulegt en satt. Skil ekkert í þolinmæði sonar míns, ég hefði ekki verið sátt ef mamma hefði hringt í mig í sveitina og spilað Child in Time í sveitasímann og verið ofsahrifin ... Það var reyndar allt syni mínum að þakka að ég vaknaði af tónlistardásvefninum mikla þetta sama ár, 1995, þegar MTV bættist við líf okkar og allt breyttist. Þvílíkar perlur þarna á tíunda áratugnum og skelfileg tilhugsun ef ég hefði misst af þeim.

 

David-GilmourEkki nóg með að veitan mín bæti lævíslega við ýmsum lögum sem eiga að falla mér í geð en gerir ekki því þetta er kannski "lag" af plötu sem á að vera samfelld, Thick as a brick, Selling England by the pound ... osfrv. Bara alls konar. Aðaltónlistarsjokkið kom í dag þegar ég las að David Gilmour, gítarleikari og söngvari í Pink Floyd, hefði sagt að sísta plata sveitarinnar væri ATOM HEART MOTHER!!! Ég hefði skilið The Wall (sem er samt meistaraverk) en ekki AHM. Þetta hlýtur að vera gervigreindin að fokka í mér. Hann á að hafa sagt að platan væri sundurlaus og hljómsveitin ekki búin að finna rétta tóninn, eitthvað slíkt. Mig grunar að ég eigi svarna óvini sem falsa tónlistarfréttir til að koma virðulegum síðmiðaldra konum úr jafnvægi, eða kannski er David farið að förlast. Smáséns á gúrkutíð samt.

 

Barbra CartlandÍ gær fékk ég góðan gest, konu sem ég tók á móti með þvílíkum kræsingum að ég fékk sykursjokk bara við að raða fínheitunum á þriggja hæða bakkann. Haldið að hún þekki ekki konu eins rokkarans í Skálmöld! Og fannst það ekkert svakalega merkilegt, ég held að hún hafi bara verið að reyna að fela montið. Ég reyndi að róa ruglið ögn niður með því að segjast hafa séð Valgeir Guðjóns (úr Stuðmönnum) í Washington DC rétt fyrir aldamót. Og til að bæta um betur sagðist ég hafa verið í sama afmæli og bassaleikarinn í King Crimson - og það á Íslandi. Og að ein vinkona mín hefði orðið að sleppa því að fara í partí með Mick Jagger í New York, vegna tannpínu! Við þetta bilaðist gesturinn og sagðist eiga vinkonu sem skrifaði glæpasögur og í einni bókinni kannaðist hún við lýsingu á sjálfri sér! Ég hnussaði, það þýddi ekkert að skipta um listgrein, ég þekkti líka skáld. Á meðan ég hugsaði örhratt um svar við þessari ósvífni sagðist ég hafa nánast hitt sjálfa Agöthu Christie, hefði alla vega verið í London 1976, sama ár og Agatha dó - og svo mundi ég allt í einu að ég þekkti manneskju (íslenska) sem tók viðtal við sjálfa Börbru Cartland sem skrifaði svo margar bækur að ef ef ein væri þýdd og gefin út á Íslandi á ári, myndi barnabarnabörnum okkar margra ekki endast aldur til að sjá fyrir endann á útkomu þeirra. Gestur minn hló hæðnislega og sagði þetta sannarlega ekki merkilegt sem sló mig svo ofboðslega út af laginu að ég gleymdi að segja henni að ég hefði tekið viðtal við sjálfa Margit Sandemo - og að ég keypti eingöngu appelsínusafa frá Sól eftir það viðtal. Konan fær aldrei að vita hvers vegna af því að hún hvarf hlæjandi á braut, hélt fyrir eyrun og sagði aftur og aftur: „Ég er ekki að hlusta“ ... og hélt ranglega að hún hefði sigrað mig, eins og þetta hefði verið einhver keppni! 

 

Svo gottttttHádegismaturinn í dag var palestínskur. Ég hafði aulað út úr mér í skólanum að mér fyndist arabískur matur góður (mínus hnetur og döðlur). Einn nemandinn mætti óvænt með smávegis smakk handa mér og almáttugur hvað þetta var gott ... þegar ég var búin að tína rúsínurnar úr hrísgrjónunum. Mögulega bestu hrísgrjón sem ég hef smakkað. Kjúklingurinn alveg rosalega góður líka. Ég hef reynt að elda arabískan mat og tekist skítsæmilega, á einhvers staðar matreiðslubók frá Rauða krossinum á Akranesi sem safnaði saman flottum uppskriftum víða að. 

 

Á Facebook

Á síðunni Gamaldags matur (masókistasíðunni minni) mátti finna áhugaverða könnun. Uppáhaldssúpan ykkar, og svo átti maður að kjósa eina súpu. Þarna var blómkáls-, síðan sveppa-, þá aspas- og kjötsúpa, svo mexíkó-, humar-, lauk-, fiskisúpa, tómat- ... og fleira slíkt. Ég kaus sveppasúpu, vel og rétt krydduð er hún ansi hreint góð og fékk líka góða kosningu, hélt að hún hefði sigrað ... eða þar til ég sá að íslensk kjötsúpa var langsamlega vinsælust! Svo mundi ég á hvaða síðu ég var. Dæs. En Halla frænka gerir reyndar svo góða kjötsúpu að ég held að ég tæki hana fram yfir flest, en könnunin minntist svo sem ekkert á frænku mína ...    


Óvænt kaupæði og rokkað til yfirliðs

EngjaAfsökunum mínum fækkar óhjákvæmilega eftir að stráksi flytur að heiman ... hann verður tvítugur eftir hálfan mánuð, allamalla! Nú get ég ekki lengur sagt við Einarsbúð þegar ég panta: „Fjögur stykki af engjaþykkni með nóakroppi, hann er alveg vitlaus í þetta drengurinn ...“ sem verður í senn megrandi og stórlega svekkjandi. Þess ber að geta að hann fær alltaf helminginn, stundum rúmlega það. Á minni stöðum, þar sem margir þekkja marga, gerir fólk líka sjálfkrafa ráð fyrir að engjaþykknið góða sé ætlað krökkum eða unglingum ... ekki virðulegum konum á mínum aldri, RF, rúmlega fimmtugum, eins og ég mun kalla það út lífið. Aðeins í afmælinu mínu verður hulunni svipt af réttum aldri, á afmælistertunni, svo það er eins gott að mæta. Ef einhver birtist síðan mynd af tertunni á samfélagsmiðlum get ég alltaf kennt gervigreindinni um, þetta er þaulhugsað hjá mér.

 

Skrapp í bæinn í gær, aðallega til að sækja kattamat (fokdýrt sjúkrafæði fyrir Kela sem hinir njóta góðs af, eins gott að vera í þremur störfum). Við skruppum í Costco og í fyrsta sinn á ævinni var nokkuð margt í körfunni minni, iðulega er bara sítrónukaka (sandkaka með sítrónubragði) en hún var ekki til, eins og kanadíski starfsmaðurinn sagði mér frá. „Aha, Kanada,“ sagði ég greindarlega. „Þar fékk ég eitt besta kaffi lífs míns. Í Vancouver, The Bean of the World, eitthvað slíkt heitir kaffihúsið,“ bætti ég við. Maðurinn drekkur greinilega bara vont kaffi eða ekkert því hann varð tómlegur á svip, enda frá Toronto svo sem. Sennilega algjör viðbjóður kaffið þar.

 

Costco-Iceland-1024x684Ljúfur Palestínumaður hjálpaði svo til við afgreiðslu á kassanum, flýtti fyrir sem munaði mikið um, það minnti talsvert á fyrstu daga og vikur eftir að verslunin opnaði.

„Þetta er sniðugt,“ sagði Hilda og átti við súkkulaðisleikjóa í páskastíl, „til að gefa litlu skvísunum þínum“ (dætrum vinar míns sem eiga nú ótrúlega flott föt og dót eftir að Skagamenn og Borgnesingar opnuðu hjörtun og fata- og dótakassa).

„Ég er nú frekar að hugsa um að gefa þeim páskaegg,“ játaði ég, „ekki svona pínkupons-eitthvað, varla drög að páskaeggi.“ Eftir smástund kom Hilda hlaupandi með ótrúlega flotta stelpukjóla, algjöra sparikjóla: „Þessi kostar svipað og meðalstórt páskaegg,“ sagði hún og veifaði öðrum þeirra með svo miklum sannfæringarkrafti að ég setti þá báða samstundis í körfuna. (Sjálfsagt liður í: Svona reddar maður sér barnabörnum). Fínustu jólakjólar, hugsaði ég samt lymskulega, þarf ekki að gefa þeim þá strax, svo þær fá sín páskaegg samt, múahaha, Hilda fær aldrei að vita af því.

 

Klakavél lítilVið fórum líka í Elkó og þar keypti ég afmælisgjöf fyrir stráksa, draumagjöf sem nýtist vel í litlu stúdíóíbúðinni sem hann flytur í innan tíðar. Eitthvað sem hann hefur langað ofboðslega mikið í og nýtist honum vel við tedrykkjuna ... segi ekki meira. Hugsa sér að alast upp, well, síðustu sjö árin, á miklu menningarkaffiheimili, þar sem aðeins gott kaffi er drukkið. Vissulega smávegis plebbaheit þar sem vel brennt kaffi er í mesta uppáhaldinu og sýrnin eigi mjög vinsæl ... og ákveða svo bara að verða tedrykkjumaður! Það eru varla til þær tetegundir sem hann hefur ekki prófað. Svo vill hann hafa teið sitt bleksterkt! Jæks. En ég ætla svo sem ekki að fleygja stórgrýti úr gróðurhúsi ... (Ath. myndin er af klakavél og tengist textanum ögn neðar.)

 

Skottið á bílnum hennar Hildu var orðið fullt, og það fyrir utan Uriany-kattamatinn 2 x 3,5 kg, og 2 x 12 af blautmat. Ávallt mikið magn í einu til að þurfa ekki að fara of oft - víðsjárverð veður á Kjalarnesi og aukin hætta á eldgosum þarna fyrir sunnan ... bara við hliðina á Reykjavík, miðað við útsýnið sem ég hef frá Akranesi. Hvernig átti að koma þessu öllu fyrir í farangursrými leiðar 57 sem átti að fara frá Mjódd kl. 20? Eða fara nokkrar ferðir frá stoppistöð á Garðabraut til himnaríkis. Já, ég keypti líka litla klakavél (sjá mynd) nokkuð sem ég hef lengi þráð en ekki nennt að fá í eldhúsið mitt vegna stærðarinnar, þessar gömlu eru hálfgerð skrímsli. Ég er frekar lítið fyrir "görótta" drykki og hrifnust af kaffi og vatni. Klakavél var vissulega það sem mig vantaði ekki, en verður samt mikið notuð.

„Jæja, Davíð frændi, nú neyðist ég til að syngja* fyrir þig - ef þú skutlar okkur stráksa ekki heim í kvöld.“ (*hótunin var mun hroðalegri en ég þori að skrifa hér - nenni ekki í lokaða búsetuúrræðið á Hólmsheiði). Sagði þetta í einrúmi við frænda eftir matarboðið góða í gærkvöldi ...  

„En elsku fjanda mín, auðvitað skutla ég ykkur heim.“ Og svo spilaði hann á leiðinni (til að halda mér rólegri?) Pixies, Muse, Queens of the Stone Age og "nýja" í mínum eyrum, rokkhljómsveit sem heitir Tool, og er æðisleg. Við spiluðum mjög hátt, eins og vera ber, mér tókst nokkrum sinnum samt að spyrja stráksa aftur í: „Hvernig finnst þér þessi tónlist?“ Ég varð sífellt órólegri þegar hann svaraði ekki. Kannski vorum við búin að rokka hann meðvitundarlausan, hann virtist samt horfa ósköp sæll út um gluggann, út í myrkrið. Skömmu eftir að við komum á Skagann og ókum sem leið lá að Himnaríki, sá ég með aðstoð götuljósanna að hann var með heyrnartól í eyrunum ... Þá vissi ég loks hvað það þýddi að kasta perlum fyrir svín. Sá skal samt fá að hlusta á Tool hérna heima. Ég má engan tíma missa varðandi tónlistaruppeldið. Ég þarf þó fyrst að klára að hlusta á Jóhannesarpassíuna, á bara 57 mínútur eftir af þeirri dýrð og dásemd. Þegar ég kemst ekki á tónleika sem mig langar samt á (í dag í Langholtskirkju) geri ég þetta, finn góða útgáfu á YouTube-veitunni og hlusta ...  svo finnur veitan áframhaldandi svipaða tónlist út í hið óendanlega. Þannig kynntist ég til dæmis nýjasta uppáhaldslaginu mínu (Me and the devil, með Soap&Skin frá Austurríki).   


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 67
  • Sl. sólarhring: 374
  • Sl. viku: 2206
  • Frá upphafi: 1451942

Annað

  • Innlit í dag: 60
  • Innlit sl. viku: 1807
  • Gestir í dag: 59
  • IP-tölur í dag: 59

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Grimm
  • Í kringum ljósastaurinn
  • Baldursbrár

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband