Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Kvenhatarar og mótmælendadissarar

Karlar sem hata konurVar að ljúka við að lesa þykkan doðrant sem heitir Karlar sem hata konur. Bókin fjallar reyndar ekki um suma hér á Moggablogginu, þetta er sænsk glæpasaga og með þeim betri sem ég hef lesið. Ég byrjaði að lesa undir miðnætti í gær og gafst upp, úrvinda af syfju, kl. fjögur í nótt, grútspæld yfir því að þurfa að sofa, gat síðan ekki hætt í dag fyrr en ég var búin. Höfundur skrifaði þrjár bækur og dó síðan, aðeins rúmlega fimmtugur að aldri, áður en fyrsta bókin kom út. Það er grein um hann í Lesbók Morgunblaðsins í gær.

Held bara að með þessum rólegheitum um helgina, lestri, svefni, lestri, svefni (lasagna-bataaðferðin) hafi ég náð úr mér byrjandi lasleika. Andleysið er reyndar gígantískt.

P.s. Mikið var ég annars ósátt við hádegisfréttirnar á Stöð 2 í dag, þar fannst mér ekki laust við að það væri hæðst að þessum „500“ mótmælendum (sem er greinilega hin opinbera tala) og gefið í skyn að þeir gætu ekki komið sér saman um tímasetningu. Ég skildi þetta þannig að það væru tveir mótmælafundir, annar kl. 15 og hinn kl. 16 og væri blysför. Mér finnst fínt að mótmæla þögn ráðamanna, við eigum ekki að þurfa að lesa í erlendum fjölmiðlum hvað er í gangi á Íslandi. Að vísu róaði Ingibjörg Sólrún eflaust ansi marga á síðasta blaðamannafundi þegar hún sagði hvers vegna þögnin þyrfti að vera í sambandi við lán Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, flott hjá henni. Ætli Geir átti sig á því að hitt getur virkað sem hroki og fái fólk upp á móti honum?


Slúður, diss og spælingar

VillaÉg á mér uppljóstrara í einu af fínu hverfunum í Reykjavík. Hann sagði frétta- og slúðursíðu himnaríkis að nú um nokkurt skeið hefði verið vakt við villu eins útrásarmannsins. Eins og það væri líklegt að Íslendingar nenntu að aka jafnvel langar leiðir til að ráðast á hús þegar bensínið er svona dýrt og mun þægilegra að skammast bara á blogginu. Fyrst var þessi ómerkti öryggisbíll staðsettur beint fyrir framan húsið en nokkrum dögum síðan var hann færður aðeins fjær til að þetta væri ekki jafnáberandi, svo er líka skipt um bíla en þessi oft og tíðum næturgöltur og uppljóstrari lætur ekki leika á sig. Hann veit samt ekki hvort verðirnir séu búnir vopnum ... Fyrir nokkrum mánuðum var þessi nágranni útrásarmannsins (uppljóstrari minn) úti í garði hjá sér þegar hann sá póstbíl koma að villunni, bílstjóra hlaupa út, skella einhverju inn um lúguna og rjúka á brott, svona eins og þessir rösku sendlar hjá Póstinum athafna sig vanalega. Þjófavarnarkerfi fór í gang svo glumdi í hverfinu og innan við mínútu síðar komu tveir öryggisbíla koma á ofsahraða eftir götunni. Eins gott að blómin á þessu heimili hafi ekki hreyft sig hratt í gegnum tíðina ... Þarna í hverfinu er talað um að eigandi villunnar sofi í svokölluðu Panic Room. Rosalega hlýtur að taka á að vera ríkur, það er ekki bara dans á rósum greinilega. Mér finnst persónulega alveg nóg að hafa tvo brjálaða ketti sem þjófavörn, plús góðan lás og skólastrák mikið heima ... en ég er líka svo lítillát og hér er vissulega fátt sem freistar þjófa nema kannski hjarta mitt ...

SamstaðaÍsland í dag á Stöð 2 reyndi að kenna okkur lýðnum hvernig beina ætti reiðinni í réttan farveg ... prestur og geðlæknir&áfallasálfræðingur spurðir spjörunum úr. Pálmi Matthíasson mælti með æðruleysisbæninni en Ólafur Már Ævarsson sagði m.a. mikilvægt að vanda samskiptin. Á undan þættinum mátti sjá langa og voða sæta auglýsingu frá lífeyrissjóðnum mínum, „Saman byggjum við nýja framtíð.“ Ég skil ekki tilganginn með henni og hef ekki samþykkt að dýrmætum eftirlaunasjóði mínum sé eytt í rándýrar sjónvarpsauglýsingar.

Ég í biðröðinniÞað kom hraðskreiður póstbíll upp að himnaríki í kvöld, hress og rösk stelpa færði mér síðbúna afmælisgjöf frá elskunni henni Dobbu og ekkert þjófavarnarkerfi fór í gang. Flott snyrtitaska,eða frekar kúl samkvæmistaska og svartur, hlýr kragi með silfurnælu framan á. Ég á eftir að líta mjög glæsilega og ríkmannlega út í kreppunni og einhverjir eiga án efa eftir að reyna að hrinda mér út úr matarbiðröðunum eða rispa mig þótt ég verði með fullgilda skömmtunarseðla.


Hefnd hryðjuverkaþjóðar í norðri

ArggggÉg sat sæl við tölvuna í gærkvöldi þegar Celine Dion hóf upp raust sína og söng lagið All by myself í fjarstýringarlausu sjónvarpstækinu í bókaherberginu. Fyrsta hugsun mín var sú að erfðaprinsinn væri að reyna að drepa mig (hann var á fjarstýringunni í stofunni) en svo mundi ég eftir ættgengri óbeitinni á CD og vissi að hann hefði sofnað í leisíboj . Ég nennti ekki að standa upp og slökkva þótt líðan mín versnaði hratt. Ég var í spennandi net-lúdói ... og ákvað að afplána lagið, guði sé lof. Ég fann nefnilega hvernig illskan, grimmdin og mannvonskan náði tökum á mér smám saman og fylltist sturlaðri bræði yfir meðferð Evrópu á okkur, litla sæta landinu sem er í rjúkandi rúst og það yfir nokkrum skitnum þúsundum milljarða. Á meðan Celine veinaði í svona þúsund mínútur fæddist snilldarhugmynd sem þýðir að við gætum slegið milljón flugur í einu höggi! Ég set hana hér fram og spyr þjóðina mína: Hvernig væri ef við tækjum okkur til og hreinlega sigruðum í Evróvisjón-söngvakeppninni næst?

Keppandi Íslands 2009Ég á reyndar eftir að útfæra þetta aðeins betur en sé fyrir mér fallegt ungmenni með Bamba-augu syngja fyrir hönd Íslands hrærandi lag um einsemd þjóðar, blankheit, einelti, afleiðingar hryðjuverkalaga og sár vonbrigði vegna örugga sætisins í öryggisráðinu þangað til annað kom í ljós. Viðlagið gæti verið: „We are so sorry, we are so sad!“ Djöfull verður gaman að sjá evrópska áhorfendur grenja úr sér augun.

StigagjöfinÉg veit að fæstir Íslendingar munu hafa efni á því að vera með síma næsta vor þannig að við yrðum að hafa dómnefnd. Hún á að sjálfsögðu að gefa Bretum 12 stig, Dönum 10 stig, Hollendingum 8 stig og svo framvegis, bara til að sýna hversu stórhuga og full fyrirgefningar við værum. Það yrði líka sem salt á sárin hjá þessum fyrrum vinaþjóðum okkar.

Svo þegar við höldum Evróvisjón í Laugardalshöllinni vorið 2010 þá getum við nýtt okkur alíslensk efnavopn. Mér dettur í fljótu bragði í hug að hafa eingöngu þorramat og mysu til Útlendingur í lopapeysusölu í sjoppunni í Höllinni og skreyta salinn með opnum harðfiskpokum.

Annað: Allir útlendingar kaupa lopapeysu og við getum undirbúið þetta ef við byrjum strax, og hvert og eitt okkar prjónað peysu úr illgirni* og djöfull* (*Halldór frændi).

Þegar síðan sigurvegarinn frá síðasta ári, 2009, kæmi svo fram á sviðið til að syngja gamla vinningslagið myndi hann svipta af sér listavel gerðri grímunni (Össur hf?) og í ljós kæmi ... Silvía Nótt.


Magnaðar móttökur í molli, barnaspælingar, nýju bankastýrulaunin og örbold

kringlan_700966.jpgAuðvelt var að fá bílastæði við Kringluna í dag, enda ekki jafnmargir á sveimi þar og síðast þegar ég kom þangað. Það er algjör misskilningur að okkur Íslendingum, múslimum norðursins, mæti alls staðar slæmt viðmót vegna ábyrgðarlausra gjörða okkar í heiminum, stelpan í sjoppunni í Hagkaup, útlensk og allt, var ekkert nema almennilegheitin. Sama má segja um starfsfólkið í Kaffitári þar sem við vinkonurnar fengum okkur sjúklega góðan latte. Þótt ég hafi dregið saman seglin, eins og flestir Íslendingar, ætla ég ekki að sleppa því að fá mér gott kaffi í kreppunni og sá að margir hugsa á svipaðan máta, biðröð myndaðist hratt fyrir aftan okkur og setið var við flest borð. Maður á að vera góður við sig! Mikið langaði mig að vera ofsagóð við mig og kaupa bol í rekka með öðrum góðum bolum en á honum stóð: Börnin eru það dýrmætasta sem við eigum núna, seljum þau!

BankarnirJamm, svo heyrði ég því fleygt að hámarkslaun í bönkum núna séu 950 þúsund (bankastýra) á mánuði í stað 70 milljóna eða svo. Algeng laun millistjórnenda innan við hálfa millu og síðan fengi venjulegt bankafólk talsvert lægra að vanda. Það fékk mig til að hugsa um góðærið sem svo margir tala um að hafi ríkt hérna. Mig minnir, leiðréttið mig ef mér skjátlast, að t.d. ræstingafólk, fólk sem vann við umönnun barna eða aldraðra, margt skrifstofufólk, verkafólk eða hreinlega stór hluti íslensku þjóðarinnar hafi lapið dauðann úr skel, launalega séð. Eini munurinn var sá í góðærinu að flestir gátu fengið lán, lán sem þarf samt að borga til baka með vöxtum og verðtryggingu. Ég er svo fegin að iðnaðarmaðurinn minn sveik mig/gleymdi mér. Ég ætlaði að gera breytingar á baðinu og í eldhúsinu. Eldhúsbekkurinn við vaskinn er t.d. ónýtur vegna vatnsleka (áður en ég flutti inn), blöndunartækin nánast ónýt og fleira. Allt komið á HOLD, enda er himnaríkið mitt algjört himnaríki þótt það sé ekki „fullkomið“ í augum einhverra og Innlit-Útlit myndi ekki láta sjá sig hjá mér.

Jackie ræðir við erkióvininn StefaníuGat ekki horft á allt boldið en ... Jackie og Nick eru náttúrlega í rusli yfir uppákomunni á tískusýningunni og Nick eðlilega ógurlega sár út í geðþekka geðlækninn Taylor sem lét hann rifja upp hræðilegu minningarnar um æskuna þegar Jackie, mamma hans, seldi sig ... og fyrir að snúa svo baki í dyrnar þegar hún las þetta inn á segulband sem gerði Stefaníu, erkióvini Jackie, auðvelt fyrir með að hlusta. Taylor er svo reið yfir þessu öllu að líkurnar á því að hún giftist Thorne, syni Stefaníu og bróður Ridge sem hún var einu sinni gift og á öll börnin með (Tómas og tvíburana), eru nú sáralitlar.

Hnakkus - skyldulesning:

http://hnakkus.blogspot.com/2008/10/leiarvsir-fyrir-reia-og-rvillta.html#links

 


Höfundur kreppujeppanna, smá bold og nýja faðmlagakerfið

BummerGame OverÞegar Halldóri frænda leiðist þá gerist alltaf eitthvað skemmtilegt. Hann dúllaði sér m.a. við að gera Game Over-jeppann sem hefur ferðast helling um netheima. Nú hefur hann skapað nýjan bíl (myndin til hægri) sem segir allt sem segja þarf, eins og hinn. Það er kannski ljótt af mér að segja þetta ... en vonandi leiðist honum sem oftast!

Boldið var svakalegt í dag. Stefaníu tókst með klækjum að rústa flottu tískusýningunni fyrir mæðginunum Nick og Jackie. Eftir að glæstar stúlkur höfðu sýnt línuna hans Garrisons (heitir leiðinlegi Mæðginin Jackie og Nickhönnuðurinn það ekki?) rotaði Thorne hann og Stefanía lét gamla skipperinn sem keypti afnot af Jackie í gamla daga ganga eftir pallinum í stað Garra, öllum til undrunar, líka þeim gamla sem hélt að hann væri í öðrum erindagjörðum, eða að hitta hina fögru Jackie aftur sem saknaði hans eða eitthvað. Steffí fór síðan í hátalarakerfið og kynnti þann gamla sem einn af fjölmörgum elskhugum Jackie sem hefði unnið fyrir sér sem hóra á árum áður. Með þessu vonaði Steffí að stjórn Forrester-tískuhússins heimtaði að það fari aftur í hendur gömlu og réttmætu eigendanna. Taylor, sem er við það að fara að giftast Thorne, hitti bróður Thornes og fyrrum eiginmann sinn til margra ára, hann Ridge, og komst að því hjá honum að eitthvað væri í bígerð. Hún mætti með Ridge á tískusýninguna en of seint. Steffí, móðir Thorne og Ridge og fyrrum og tilvonandi tengdamóðir Taylor, rústaði Jackie fyrir framan elítuna í tískubransanum og fjölda fréttamanna. Tjaldið féll þarna og við tók óbærileg bið eftir næsta þætti sem verður kl. 17.28 á morgun.

P.s. Áríðandi viðbót. Hef ákveðið að loka á faðmlagakerfi mbl.is hjá mér vegna neyðarástands ... a.m.k. í bili! Hef nefnilega fengið c.a. 40 faðmlög bara frá einum bloggvini sem er ekki einu sinni karlkyns ... og litla pósthólfið mitt stíflaðist. Þetta er einhver bilun, viðkomandi bloggvinkona sendi mér bara eitt "knús" og segist hafa fengið mörg frá mér. Ef ég væri t.d. snertifælin væri ég hreinlega komin í köku við allt þetta knús ... hvað er moggablogg að pæla? Kommon, ég á ketti! Er þó búin að endurgjalda knús til þeirra sem sendu mér en nú er allt lok, lok og læs. Já, ég er vond manneskja. 


Fjandskapur og lítilsvirðing gagnvart Íslendingum

StrikiðÉg er í sjokki yfir þessu, vonandi fyrirgefur Orðið á götunni mér „þjófnaðinn“:

Orðið á götunni er að íslensk kort hafi verið klippt í stórum stíl í verslunum í Danmörku í gær og í dag og íslenskir viðskiptavinir þar mætt mjög breyttu og öfugsnúnu viðmóti.

Áhafnameðlimir (áhafnir, innsk. GH) íslenskra flugfélaga segjast hafa tekið á móti farþegum á leið heim til Íslands frá Kaupmannahöfn, sem hafi verið í öngum sínum eftir helgarferð eða stutta heimsókn. Ein lýsing hljóðar svo: “Allir Íslendingar sem gengu um borð voru í öngum sínum og þökkuðu guði fyrir að vera komin um borð, því fólki í helgarferð og fólki í stuttum heimsókum hafði aldrei verið sýnd eins mikil lítilsvirðing.

Þegar fólk borgaði vörur sínar með kortum sínum  í búðum á Strikinu og víðar, var kortið tekið og klippt í tvennt. Fólkið okkar var rekið út úr búðunum í sjokki. Verslunareigendur sögðu við reiða og sneypta Íslendinga að þeim hafi verið uppálagt að gera slíkt ef fólk sýndi slík kort í búðum í Danmörku og sagði fólki að snauta burt úr þeirra landi.“

VIÐBÓT kl. 19.46: Skv. Þorvaldi Fleming, fréttaritara í Danmörku, er þetta hér að ofan bara gróusaga og ég trúi honum! Ég biðst velvirðingar á því að hafa haft þetta eftir en læt þetta standa áfram á bloggsíðunni mér til svívirðingar og skammar ...

Skyldi ekki hinum venjulega múslima líða svona, dæmdur fyrir skoðanir og verk mikils minnihluta fólks úr hans röðum? Það finnst mér vera umhugsunarefni.

SinfóÞetta, af vef RÚV, er líka ömurlegt:

„Fyrirhugaðri tónleikaferð Sinfóníuhljómsveitar Íslands til Japans hefur verið frestað um óákveðinn tíma. Skipuleggjendur ferðarinnar í Japan segja að í kjölfar sviptinga í efnahagslífi Íslands sé eftirvæntingin eftir tónleikum sveitarinnar orðin minni en engin.

Þröstur Ólafsson, framkvæmdastjóri hljómsveitarinnar, segir tíðindin ákaflega bagaleg og komi sér illa fyrir hljómsveitina sem hafði undirbúið ferðina undanfarin tvö ár.“

Ég var au pair úti í London (að verða 18 ára) þegar þorskastríðið stóð sem hæst, eða 1976. Aðalfréttirnar á BBC, Nine o´clock news, hófust iðulega á fréttum af deilunni. Mamma ráðlagði mér óttaslegin að þykjast vera frá Finnlandi sem ég gerði náttúrlega ekki. Bretar tóku mér frábærlega vel og aldrei fékk ég hnjóðsyrði frá neinum vegna þjóðernis míns, ég var svo sem heldur ekki í Hull eða Grimsby.

Reiðin út í okkur víða um heim núna er ekki eðlileg, það er eins og það gleymist að íslenska þjóðin, hinn venjulegi Íslendingur, á virkilega um sárt að binda núna. Eins og ég færi að berja alla Nígeríumenn bara út af nígerísku svikamyllunum ... eða væri brjáluð út í Davíð, systurson minn, bara af því að hann heitir Davíð ... Það verður löng bið á því að ég fari til Danmerkur, Englands eða Japans ... eða bara nokkuð. Ekki að ég eigi fyrir ferðinni eða fengi gjaldeyri ...

Eitt jákvætt sem vinkona mín benti mér á í gær. Yfirdrátturinn minn þykir mjög hagstætt lán núna, engin verðtrygging ...


Idol-uppsögn og bíórythmi íslensku þjóðarinnar

Idol upplifunKona sem ég þekki missti vinnuna í Landsbankanum á dögunum eins og svo margir. Hún sagði upplifunina hafa verið skelfilega. Aðferðin við uppsögnina var vond, að hennar mati, en samt vildi hún meina að hugsunin á bak við hana hafi örugglega verið góð, eða að tala persónulega við alla, ekki flytja fréttirnar með tölvupósti eða í ábyrgðarbréfi heim. Fólk var kallað, eitt í einu, inn á skrifstofu og kom síðan fram ýmist bugað eða yfir sig hamingjusamt með ráðningarsamning í hönd. Þetta minnti konuna óþyrmilega á Idol-stjörnuleit. Tvær konur sem héldu vinnunni föðmuðust t.d. fagnandi þegar sú seinni kom fram með góðar fréttir og aðrir biðu með kvíðahnút í maganum eftir að vera kallaðir inn. Alveg eins og í Idol. Ég held að mér hefði þótt betra að fá uppsögn í tölvupósti og dílað við það ein, ekki í augsýn allra. Það er auðvitað misjafnt hvernig fólk vill láta tækla svona mál og örugglega afar erfitt að sitja hinum megin við borðið og flytja fólki slæmar fréttir. Svo hefðu eflaust einhverjir kvartað sáran yfir kuldalegri uppsögn ef hún hefði borist bréfleiðis, að það hefði verið það minnsta að tala við hvern og einn! Samstarfskona mín lenti í svona uppsögn fyrir mörgum árum og var kölluð inn síðast. Henni fannst biðin óbærileg. Þá var það þannig að bara þeir sem misstu vinnuna voru kallaðir inn á teppið.

Annars fannst mér skrýtið að lesa um að prestur hafi blessað bankafólk, sjá www.dv.is, af hverju, fyrst hann var að þessu á annað borð, blessaði hann ekki ALLA sem misst hafa vinnuna? Það eru nokkur þúsund manns í þeim sporum.

Ég glotti subbulega þegar ég sá í færslu JVJ í gær: „Hætta ber allri bullsóun í ríkisrekstri (félagsmálafemínistavitleysu ýmissi ...)“ Vésteinn Valgarðsson skrifaði athugasemd við færsluna og spurði hvort ekki væri þá ráð að ríkið hætti að dæla fé í kirkjuna og nefndi háa upphæð sem ég get því miður ekki endurtekið þar sem búið var að eyða athugasemd VV og ég man ekki upphæðina.

biorythmi_islensku_thjo_arinnar_5_okt_sl_698418.gifÉg er ofsótt af útlenskri netspákonu sem ég get ekki sagt upp. Í gær gerði ég enn eina tilraunina til að reyna að afmá mig af póstlista hennar en kíkti fyrst inn á bíórythmann minn og sá að hnerrinn undanfarna daga og oggulítið kvef stafar eingöngu af því að líkamlega staðan mín er í botni þessa dagana. Ég prófaði að gamni að setja íslenska lýðveldið, 17. júní 1944, inn í bíórythmann og dagsetninguna 5. október 2008. Áhugavert að sjá ástandið á þjóðinni þennan dag, líkamlega næstum í toppformi en vitsmunalega og tilfinningalega í mikilli lægð. Segið svo að svörin liggi ekki þarna ... heheheh! Jæja, farin í sjúkraþjálfun!


Ekki fögur sjón að sjá ...

Rammstolið: An American said: “We have George Bush, Stevie Wonder, Bob Hope and Johnny Cash.” An Icelander replied: “We have Geir Haarde, no Wonder, no Hope and no Cash.”

Þetta var viðburðaríkur dagur. Heimsókn til tannlæknis fljótlega eftir hádegi, fjör og gleði að vanda hjá Ósk, en ég var ég munnskökk og dofin fram yfir kvöldmat. Ekki fögur sjón að sjá, aldrei þessu vant, en nú er engin hola. Fyrir utan tannlæknastofuna varð ég vitni að árekstri, maður á bíl bakkaði á konu á bíl, gleymdi að líta í baksýnisspegilinn þegar hann ók út úr stæðinu. Svo kom vinkona mín og skutlaði mér áleiðis til að hitta Ástu vegna heimferðar á Skagann upp úr þrjú og sú fyrrnefnda fékk æsilegt símtal: „Ísland er farið á hausinn, taktu allt út úr bankanum þínum NÚNA!“ sagði dularfulla röddin í símanum. Sú rödd frétti þetta á fundi mektarfólks í dag og tengdist þetta alþjóða gjaldeyris-eitthvað. Ég sagði Ástu auðvitað frá þessu og á heimleiðinni ræddum við um framtíðina ... útgöngubann, herlög, skömmtunarmiða og slíkt, og vorum ótrúlega rólegar og æðrulausar.

Geir og Björg-vinSvo kom bara Geir í sjónvarpinu og sagði eitthvað róandi að vanda, einhverjir fara express til Rússlands í fyrramálið og eftir þá ferð fáum við kannski enn einn róandi blaðamannafundinn.

Síðast en ekki síst hittumst við nokkrar stuðningsfjölskyldur hjá Rauða krossinum undir kvöldmat og ég var enn eins og vélsagarmorðingi í framan. Þær standa sig eins og hetjur, palestínsku konurnar, en ég held að kuldakastið um daginn, mánuði fyrir tímann, hafi svolítið komið þeim í opna skjöldu. Börnin eru búin að fá umferðarfræðslu hjá röggsamri löggu og okkur létti við það. Þau elska sundlaugina og fara vonandi bráðum á sundnámskeið. Konunum hefur verið sagt frá ástandinu í þjóðfélaginu en mér finnst ekki ólíklegt að þeim finnist það hátíð miðað við ástandið í Írak.


Föstudagurinn langi ...

Háholti kl. 18.30 í kvöldSvo mikið var að gera í dag þegar ég slökkti á tölvunni í Hálsaskógi voru aðeins fimm mínútur í brottför 17.45-strætó frá Mosó. Ekkert hlaupahjól í grennd og því klukkutíma bið eftir næsta vagni. Náði leið 15 hálftíma of snemma við Vesturlandsveginn og gerði mér enga grein fyrir því þá hversu tryllingslega mikil heppni það var. Horfði síðan ótrúlega beiskulaust á hlýjan og notalegan Skagastrætó sem beið neðar í Háholtinu (sjá mynd), alveg farþegalaus, Kiddi bílstjóri í pásu og ég í hlýjum sokkabuxum. Svo kom leið 15 korteri seinna og sniglaðist þunglamalega upp brekkuna. Út úr vagninum flæddi hópur barna, örugglega 50 stykki, ef ekki fleiri. Vagninn hafði verið troðfullur og um leið og fækkaði í honum sá ég nokkra saklausa farþega blása út og ná fyrri stærð. Vér Skagamenn þjöppuðum okkur saman í eina hrúgu á stoppistöðinni og einn í hópnum giskaði nöturlega á að þetta væri vafalaust skátahópur og við gætum gleymt því að dorma á heimleiðinni við undirleik fréttanna, þyrftum líklega að taka undir Kveikjum eld og Ging gang gúllí. Okkur til mikils léttis voru þetta fótboltabörn. Ekki reyndist vera pláss fyrir þau öll í rútunni (Skagastrætó) og voru óþekkustu börnin örugglega skilin eftir í Háholti því að þetta reyndust vera algjör englabörn, eða svona vel öguð. Restin af hópnum þurfti að bíða eftir næsta strætó þar sem svona stór hópur þarf að láta vita af sér í tíma til að hægt sé að gera ráðstafanir. Skagastrætó lýtur öðrum lögmálum en venjulegir strætóar, eitt sæti á mann og allir í beltum. Sat við hliðina á Dipu, badmintonþjálfara okkar Skagamanna, eiginmanni indversku vísindakonunnar, Shymali. Við vorum menningarleg á því á heimleiðinni, hann las Newsweek og ég fletti áhugaverðri kjarneðlisfræðibók.

PeningarVið heimkomu gat ég ekki stillt mig um að hringja í nokkra bankamenn í vinahópnum. Jú, jú, eitthvað meira en venjulega var um úttektir í dag en enn meira var um tilfærslur úr sjóðum yfir á reikninga. Það hlýtur samt að vera gósentíð fyrir innbrotsþjófa núna, meira fé en vanalega undir einhverjum koddum um helgina.

Ég heyrði í mömmu áðan sem sagðist ekki ætla að láta þennan múgæsing hafa áhrif á sig og skrilljarðarnir hennar eru grafkyrrir í Landsbankanum. Annars var símtalið ansi stutt, Ég fattaði ekki að maður hringir ekki í fólk þegar Útsvar er í gangi. Eina sem ég get gert núna er að vonast til þess að yfirdrátturinn minn týnist á einhvern undursamlegan hátt í öllum þessum látum. Plís, plís!

AskaAska í úlpuMikið var annars gaman að Útsvari og ég hefði rúllað upp Hringadróttinssöguspurningunum ... hmmm, nema þeirri síðustu. Of langt síðan ég las bækurnar. Það verður gaman að fylgjast með hinu nýja liði Skagamanna. Ásta er viss um að það fari alla leið, eða í fyrsta sætið. Ekki dettur mér í hug að efast um orð hennar. Hún bauð mér í gómsætt lasagna um daginn og þar smellti ég myndum af Ösku, voffanum hennar. Ösku í körfunni og Ösku í úlpunni. Aska á hlýrri úlpu en ég.


Skrýtinn dagur - úttektir hjá sparifjáreigendum

Hér í vinnunni hefur ríkt skrýtið andrúmsloft í dag, eins og örugglega víðar í þjóðfélaginu. Sögusagnir um hrun Landsbankans ganga fjöllunum hærra og einn samstarfsmaður minn frétti að heilir 2 milljarðar hefðu verið teknir út bara í Landsbankanum í Mjódd í dag ... af hræddu fólki sem vill frekar hafa peningana undir koddanum en mögulega tapa þeim. Veit um einn karl sem tók reyndar allt sitt út í dag, en ekki þó í útibúinu í Mjódd en í öðru Landsbankaútibúi. Kannski óþarfapanik, verst að enginn veit neitt og ráðamenn vilja sem minnst segja og bara þegja sem gerir almenning enn hræddari.

Einhver sagði í matsalnum (fínasti matur í dag) að landið hefði ekki efni á bensíni nema í stuttan tíma í viðbót, síðan fengist ekki meira keypt inn, og þá þurfum við að fara að labba í vinnuna. Ég á líklega óhægt um vik en Eiríkur Jónsson sagði að nú yrði líklega leyft í fyrsta sinn síðan 11. júlí 1998 að fara fótgangandi í gegnum Hvalfjarðargöngin. Ja, eða á hlaupahjóli, sem væri sniðugra, bætti snillingurinn við. Jamm, hvaða stórfréttir ætli skelli á okkur um helgina? Eða á mánudaginn?


Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 169
  • Sl. sólarhring: 330
  • Sl. viku: 1686
  • Frá upphafi: 1453561

Annað

  • Innlit í dag: 158
  • Innlit sl. viku: 1407
  • Gestir í dag: 157
  • IP-tölur í dag: 154

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Cartman
  • Cartman
  • Ömmukaffi

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband