Færsluflokkur: Krúttlegheit

Guðni Ág. öskureiður og Thorne trylltur - brjálað bold

Sverrir GuðniJa, hérna. Sverri Stormsker tókst að gera Guðna Ágústsson, fv. landbúnaðarráðherra, svo brjálaðan í útvarpsviðtali í dag að hann rauk á dyr.

Sjá: http://dv.is/frettir/2008/7/30/gudni-rauk-dyr-hja-stormsker/

 

„Þú myrtir konuna mína,“ segir Thorne alveg sjokkeraður í boldinu. „Og ég sem bað þín! Þú laugst að mér og dóttur minni.“ Thorne er að sleppa sér. „Kennirðu Dörlu um þetta?“ öskrar hann svo þegar Taylor segir að Darla hafi dottið fyrir bílinn (sem er satt). Stefanía fréttir af þessu og ætlar að drífa sig upp í Big Bear, sumarhús Darla og Thornefjölskyldunnar, þar sem Thorne hafði ætlað sér að eiga rómantíska stund með Taylor. Þá hringir dyrabjallan, Baker fulltrúi kominn í heimsókn. Hann segist vita að Taylor hafi setið undir stýri og heimtar að þau játi öll með tölu!

Talor og Hector slökkviliðsGeðlæknirinn geðþekki segir Thorne hvað henni líði illa og hún sjái í sífellu fyrir sér óttaslegið andlit Dörlu á framrúðunni. Eins og það sé þetta sem Thorne þarf helst að heyra þessa dagana. Taylor nuddar meira salti í sárin ... „nú sér Darla litlu stúlkuna sína aldrei vaxa upp. Ó, andlitið á henni á framrúðunni hjá mér. Ég elska þig og hvert sem ég fer mun ég biðja fyrir þér. Þú verður í hjarta mínu til eilífðar!“ Samt vitum við áhorfendur að hún á eftir að deita Nick og verða ófrísk eftir hann með eggi Brooke, hún á líka eftir að deita son Brooke, hann Rick. Síðan hringir hún í fulltrúann, þar sem hann er staddur hjá hinum sem vissu, og játar allt. Hann sendir samstundis löggubíl eftir henni.

Baker fulltrúiNú er Taylor komin í varðhald og lúmskur Baker fulltrúi lætur hana segja frá öllum sem vissu af þessu; dótturinni Phoebe, Hector slökkviliðsmanni og Stefaníu sem teljast samsek og geta lent í fangelsi. Þegar hún af heimsku sinni er nýbúin að „skvíla“ þessu kemur Ridge, fyrrum eiginmaður hennar og pabbi Tómasar og tvíburanna, og bannar henni að tala meira fyrr en lögfræðingur er mættur.

PhoebePhoebe fer til Thorne, föðurbróður síns, og biður hann um að fyrirgefa þeim, aðallega Taylor, mömmu hennar. Thorne segist ekki trúa því að Darla hafi dottið fyrir bílinn, það sé léleg afsökun. Gullfalleg lyftutónlist ómar svo eftir að hann er orðinn einn. Hugsa sér, tvöföld sorg. Fyrst deyr konan hans og svo örfáum vikum síðar, þegar hann er orðinn ástfanginn af Taylor, þarf hún endilega að vera ökumaðurinn sem keyrði á Dörlu. Aumingja Thorne. Hvernig fer þetta?

Með hjartað á "réttum" stað

Ísak í klippinguÚlfur í klippingu hjá ömmu ErnuLangt síðan ég hef bloggað nokkuð að ráði um sætustu tvíbura í heimi, Úlf og Ísak. Nokkuð stórmerkilegt og óvænt kom í ljós í myndatöku nýlega. Úlfur hafði verið veikur með háan hita og var sendur í röntgenmyndatöku. Þar kom í ljós, fyrir utan að vera ekki með lungnabólgu, að hann er með nokkuð sem heitir Situs Inversus, http://en.wikipedia.org/wiki/Situs_inversus, frekar sjaldgæft, talið að einn af hverjum 10 þúsund séu svona … eða með hjartað hægra megin Hin líffærin geta verið svona spegluð líka og meira að segja þótt hjartað væri vinstra megin. Ekki er víst að Ísak sé svona.

Þetta segir mér að í raun sé ekkert til sem heiti að hafa hjartað á réttum stað. Eða þannig. Líklega eru um 30 Íslendingar með hjartað hægra megin og Úlfur er önnur manneskjan sem ég þekki sem er þannig. Hin er Steinunn, stelpa sem bjó í Norðurmýrinni í næstu götu við mig á unglingsárunum æsilegu á Bollagötunni. Hér eru nýlegar myndir af prinsunum (bítlunum) sem var tekin þegar föðuramma þeirra klippti af þeim lokkana. Úlfur til vinstri (sorrí) og Ísak til hægri. 


Hrekkir og fyrirhuguð hetjudáð krútts

Að hrekkja fólk getur verið góð skemmtun. Að hrekkja konur inni á kvennaklósetti er enn betri skemmtun. Kíkið á þetta:

http://break.com/index/absolutely-hilarious-bathroom-mirror-prank.html Veðrið er heldur betur að færast í aukana. Kíkti á hviðumæli Vegagerðarinnar og það hvessir hratt: http://www.vegagerdin.is/umferd-og-faerd/faerd-og-astand/faerd-og-vedur/sudvesturland/linurit/st036.html  (refresh-aðu fyrir nýjustu upplýsingar)

Hringdi í Ingu áðan til að tékka á hugrekki hennar og hún hlakkar bara til að fara í óvissuferð út í brjálaða storminn. Algjör hetja þessi manneskja. Hún var reyndar óhress yfir því að ég kallaði Sigþóru krútt í fyrsta bloggi dagsins en ekki hana. Reyndi að útskýra fyrir henni að sönn krútt ættu ekki bestu stundir sínar í húsbyggingaverslunum. Þetta er hér með tekið aftur. Inga er krútt.

 

 


Þakkir, afbrýði og mannvonska ...

Kjúsílegir kettlingarMig langar að þakka öllum vinum, ættingjum, kunningjum og ókunningjum kærlega fyrir allan tölvupóstinn með sætu sögunni um manninn með bleiku slaufuna sem unglingsbjánar gera grín að en sjá að sér þegar þeir heyra sögu mannsins. Ég hef einnig séð söguna á nokkrum bloggsíðum. Nú hlýt ég að ná henni. Ég er einnig afar þakklát fyrir öll krúttlegu bréfin með  myndum af kettlingum, ungbörnum og öðrum dúllum.

„Slökktir þú nokkuð á Jónasi?“ spurði ónefnd kona fyrr í dag.
„Hef ekki snert þetta óféti,“ svaraði ónefndur erfðaprins.
Ég VISSI að hann væri afbrýðisamur ...

Heyrði í Breiðholtshataranum um helgina. Hann sá ýkjusögu í fjölmiðlum um að meintur grimmur hundur hefði bitið eldri konu á Akranesi og hringdi umhyggjusamur í mig til að spyrja hvort þetta hefði nokkuð verið ég. Hvað hef ég gert til að verðskulda svona frænda?


Það er byrjað ...

Flags of our FathersGemsinn hringdi inni í stofu rétt fyrir 10 í morgun. Ég svaf svefni hinna óraunsæu sem halda að hægt sé að vakna útsofinn um þetta leyti þrátt fyrir að hafa hunskast seint í rúmið. Erfðaprinsinn kom hlaupandi með símann. Eftir símtalið:

„Hver var þetta?“

„Þetta var húsfélagsformaðurinn, hann kemur eftir svona hálftíma!“

„Hvað vill hann?“ Tortryggnin vöknuð, enda er Níels ekkert óhuggulegur maður.

„Hann þarf að kíkja á svalirnar og stunda kynmök með móður þinni.“

„Jæja!“

(Eins og sést t.v. á myndinni hefur nokkrum fyrirtækjum á Akranesi dottið það snjallræði í hug að auglýsa inni á blogginu hjá mér. Nú sést ýmist Olís eða Tengi eða önnur stórkostleg fyrirtæki þegar ég tek mynd yfir hafið og skelli á bloggið mitt. Mikið ofboðslega er ég hreykin að hafa verið valin. Nema ég hafi misskilið eitthvað og það eigi að taka bíómynd, t.d. Flags of our Mothers. hér á hlaðinu.) 


Undradrengirnir

PíanósnillingarnirÍsak og ÚlfurSamkvæmislífið er greinilega hafið. Það bendir allt til þess ... matarboð þrjá daga í röð. Nanna í gær, Hilda í kvöld og Hilda á morgun. Galito á Akranesi sá um matinn í kvöld í boði Hildu ... gamli góði tandooríkjúklingurinn bregst ekki, beint heim að dyrum.

Mikil nautn var fólgin í því að sýna Hildu nýja gæludýrið, ryksuguróbótinn Jónas ... sem er nýjasta tillagan að nafni á hann. Afar mínir hétu báðir Jónas Jónasson svo að nafnið er heldur betur í ættinni. Hingað til hef ég nú bara kallað róbótinn litla krúttið. Hann hefur þrifið stofuna, eldhúsið og ganginn í heila tvo tíma í kvöld og mér sýnist hann orðinn þreyttur. Bráðum rúllar hann sér sjálfur í hleðslu.

Í matarboði morgundagsins hitti ég ástkæru tvíburana, barnabörn okkar systranna, við eigum helling í þeim með Míu. Ísak og Úlfur verða ársgamlir 19. desember nk. og þá útskrifast þeir væntanlega úr Tónlistarskóla Mínervu sem áttunda stigs nemendur (sjá mynd). Þeir eru undrabörn, eins og langamma þeirra, móðir mín, segir.

P.s. Þeir fara í þriðju aðgerðina sína 3. október nk. en þá á að loka gómnum. 


Naktir karlar á Skaganum - líklega utanbæjarmenn

Naktir karlar úje!Veit að þið eigið erfitt með að trúa þessu ... en núna rétt áðan hlupu margir naktir karlmenn framhjá himnaríki. Mér gafst ekki einu sinni ráðrúm til að bjóða þeim í kaffi! Sjá mynd. Vá, ef ég hefði nú verið á Gay Pride í bænum og misst af þessu. Rétt náði í skottið á þeim með myndavélinni. Hlutirnir gerast hérna í dag, ekki í Reykjavík!

Elskan hún Ólöf Ósk (dóttir Sigrúnar "Flórens" sveitameyjar) kom í rúman klukkutíma í dag og hjálpaði mér við undirbúning afmælisins. Mikið var gott að fá tvær aukahendur. Aðalverkefni hennar var tilfærsla á tímaritum og bókum en mesta draslið í himnaríki er af völdum þessara tveggja fyrirbæra, já, og dagblaða sem ég ætla alltaf að lesa síðar. Eins og ég reyni að vera dugleg að gefa tímaritin mín hlaðast þau samt upp! Ég fæ aukið pláss fyrir bækur og blöð þegar smiðurinn minn kemur. Ekki hlæja, hann kemur einn góðan veðurdag, hann sagðist koma bráðum, reyndar ekki hvaða ár!

Sko! Mér finnst hann jensguð mjög skemmtilegur bloggari. Hreinn og beinn og ekki með neitt bull ... þangað til í dag. Þá hvatti hann heimsækjendur sína til að kjósa sig í vinsældabloggarakeppninni hjá Kalla Tomm í Mosó http://ktomm.blog.is/blog/ktomm/. Þótt keppnin sé eiginlega bara grín þá svíður mig sárt að horfa upp á svona svindl! Ég bið ykkur um að fara inn á síðu Kalla og kjósa mig. Samkeppnisaðilar mínir, m.a. Jenný, Anno, Katrín Snæhólm, vélstýran, og Jóna myndu sýna ótrúlegan þroska með því!

Heyrði í háæruverðugri móður minni áðan. Býst við að hún taki hádegisstrætó til mín á morgun, annað hvort er að taka hann kl. 12.37 eða 16.37. Bílstjórarnir þurfa að leggja sig eftir hádegið, held ég. Mikið hlakka ég annars til á morgun. Vona að sem flestir komi.


Loksins litlufrændablogg

Sætastir Langt síðan ég hef rænt mynd af litlu frændum mínum af heimasíðunni þeirra. Ísak og Úlfur stækka ört og dafna vel, eins og sést á myndinni.

Fjögurra mánaða í apríl sl.Eldri mynd af þeim síðan í apríl er til samanburðar hér til hægri, mikil breyting. Að auki fóru þeir í aðra aðgerðina sína í millitíðinni.

Börn þroskast svo hratt á fyrsta árinu sínu. Erfðaprinsinn fæddist t.d. með slétt, svart hár og leit út eins og Ella frænka en ársgamall var hann kominn með ljósar krullur og líktist pabba sínum!


Loksins, loksins ...

Maðurinn og stóllinnKurteis og bráðmyndarlegur maður hringdi í mig áðan frá Rúmfatalagernum. Hann ætlar að heiðra himnaríki með nærveru sinni núna eftir hádegi og kíkja á skakka leisígörl-stólinn. Þess vegna er ég komin heim og ætla að vinna þar í dag. Miðað við fljótheitin á sumum snemma á morgnana, eins og sjá má í síðustu montfærslu, mun mér takast að ná að setja mósaíkflísar á baðið, hrauna loftin, veggfóðra eldhúsið, pússa hlekkina og ryksuga áður en hann mætir á svæðið.

Nú, ef ég er heppin þá veit RL ekki nákvæmlega hvert þessi maður á að fara innan 300 Akranes og hæg heimatökin að kyrrsetja hann um tíma, eins og ég gerði við Pólverjana sem fluttu Birtíng á milli húsa á síðasta ári. Þá fallegu menn tók ég eignarnámi, eins og lesendur gömlu blog.central-síðunnar minnar muna kannski eftir. Þetta var skömmu eftir að ég slasaði á mér hnén á ógæfumölinni og ég man einmitt hvað þeir voru miklar dúllur þegar þeir æptu allir sem einn, „Nje, nje,“ þegar ég dansaði fyrir þá og lyfti upp pilsinu þannig að það sást í svolítið krambúleruð hnén á mér. Þeir höfðu greinilega verið að læra íslensku án þess að ég vissi .... þessi krútt. Það varð smám saman erfitt að halda uppi 15 manns þótt þetta væri óhemjuskemmtilegur tími þannig að ég skildi viljandi eftir ólæst einn morguninn ... og það hefur verið sorglega mann-laust í himnaríki síðan.

Annars er ég víst orðin þekkt fyrir þetta. Sendlarnir í Einarsbúð koma t.d. alltaf tveir saman, eins og löggan reyndar gerir líka og vottar Jehóva taka á sig krók fram hjá himnaríki. Orðsporið hefur ekki borist til Reykjavíkur þannig að nú er von.


Hefnd álfanna

Álfar og huldufólkÍ fyrri færslu minni var ég vitanlega að gantast þegar ég sagðist ekki trúa á álfa, huldufólk og tröll. Mér hefndist fyrir þetta hallærislega grín ... allt fór nefnilega úrskeiðis í himnaríki skömmu eftir að ég ýtti á Vista færslu. Diskur brotnaði, ég missteig mig og Tommi gubbaði á baðgólfið, að auki hófst þáttur með Oprah Winfrey í sjónvarpinu. Eins gott að passa það sem maður segir.

„Afsakaðu að ég bý á efstu hæð,“ sagði ég við móðan sendil sem kom með Tandoori-kjúklinginn til mín áðan. „Ekkert að afsaka,“ muldraði sendillinn hræðslulega og rétt þorði að fá borgað. Sumir hafa ánægju af þessu smáa í lífinu ... en ætlunin var nú ekki að hræða drenginn. Jú, letin hafði yfirhöndina og hringt var eftir góðum mat í stað þess að elda sjálf. Einu sérþarfirnar sem ég hef í sambandi við þennan tiltekna mat er að það þarf að krydda kjúklinginn meira en venjulega og sleppa furuhnetunum í salatið, þá er þetta líka algjörlega fullkominn kvöldmatur á sunnudegi og þannig var hann líka.


Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 253
  • Sl. sólarhring: 424
  • Sl. viku: 2392
  • Frá upphafi: 1452128

Annað

  • Innlit í dag: 203
  • Innlit sl. viku: 1950
  • Gestir í dag: 199
  • IP-tölur í dag: 197

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Grimm
  • Í kringum ljósastaurinn
  • Baldursbrár

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband