Færsluflokkur: Formúla 1

Leifar fellibyls, fagur máni og misheppnað Formúlugláp

Tunglið lágt á himni skínMikið hvín skemmtilega í himnaríki núna og fyrstu regndroparnir eru farnir að falla. Það er svolítið spennandi að fá leifar af fellibyl svona um hásumar. Sjá: http://esv.blog.is/blog/esv/entry/595578/  „Nú bregður svo við að allar líkur eru til þess að restar fellibyljarins Bertu stefni beint á landið á morgun.“ segir Einar veðurfræðingur orðrétt í pistli sínum í dag. Kannski kemur ekki mikið rok en það mun a.m.k. rigna einhver ósköp.

Það hefur verið gaman að horfa á tunglið koma upp á kvöldin og ég tók þessa mynd í fyrrakvöld. Svo hvarf það bak við ský eftir því sem það hækkaði á lofti. Nördinn í mér steingleymdi tilveru stjörnukíkis himnaríkis en þarna hefði verið flott tækifæri til að kíkja á mánann og það án þess að fá hálsríg.

Frosið sjónvarpVið erfðaprins gerðum heiðvirða tilraun til að horfa á Formúluna í hádeginu en sjónvarpið fraus í sífellu og líklega þarf að skipta um loftnet fljótlega. Ég held að minn maður, Hamilton, hafi unnið. Hann datt niður í þriðja sæti eftir að hafa tekið bensín í restina en eftir það ... bara truflanir í sjónvarpinu. Þá er ekkert að gera nema fara í bað, setja í þvottavél og slíkt. Nýlega keypti ég mér sjampó í Heilsuhúsinu, rosa vistvænt og náttúrulegt. Alltaf þegar ég helli úr brúsanum í lófann fer ég á huganum inn á fund hjá sjampófyrirtækinu. Framkvæmdastjóri: „Hvað eigum við að National Treasuregera til að auka söluna á þessu frábæra sjampói okkar?“ Starfsmaður: „Hvernig væri að víkka gatið á sjampóbrúsanum svo að fólk noti meira af því?“ Framkvæmdastjórinn: „Snilld, gerum það.“ Já, þetta er þannig sjampóbrúsi.

Held ég kúri mig bara undir sæng á eftir og horfi á eitt stykki vídjómynd, það er akkúrat veðrið til þess. Horfði á National Treasure II í gærkvöldi og hafði gaman af. Nú er það tölvuspennumorðmynd sem verður sett í tækið.


Óvænt stefnumót við mjólkurkælinn og Formúlujátning

tiramisuOkkur erfðaprins langaði í eitthvað gott til að maula með Evróvisjón í gær og skruppum í Krónuna. Við sleiktum út um þegar við sáum óverðmerkt Tiramisú í kælinum og skelltum í körfuna. Skiluðum því síðan ... það kostaði yfir 1.000 kall. Keyptum einn snakkpoka á 189 krónur en útlenska tegundin kostaði næstum 400 kall. Þó að ég hafi verið á kafi í verðpælingum fylgdist ég samt vel með umhverfinu og sá mann koma gangandi framhjá ostakælinum og áleiðis að mjókinni þar sem ég stóð. Eitthvað fannst mér ég kannast við hann og spurði hvort hann héti kannski Þröstur bloggvinur, www.motta.blog.is. Hann svaraði ekki strax svo ég stakk upp á fleiri fuglsnöfnum. Már? Valur? Magnús, Sigurður? Gottsveinn? Guðmundur? „Nei, ég heiti Þröstur!“ sagði hann illskulega. Ég kynnti mig og brosti breiðu himnaríkisbrosi sem ég hef æft margoft ef ég skyldi nú lenda í spennandi uppákomum. Ekki hafði brosið nokkur áhrif á Þröst sem sagði reiðilega: „Ég veit ekki betur en að ætluðum að hittast fyrst í Einarsbúð?“ Þetta var hárrétt hjá honum, við áttum stefnumót í Einarsbúð inni í framtíðinni, en það var ekki bara hægt sisona að afkynna sig og láta sem ekkert hefði gerst. Maður hittir ekki bloggvini sína í mannheimum á hverjum degi.

Fjör hjá öldruðumUmhverfi skiptir síðan öllu máli og ég get ekki verið fegnari yfir að hafa ekki hitt Þröst hjá t.d. klósetthreinsiefnunum eða dömubindunum. Ef þetta hefði gerst í apótekinu og ég að kaupa gyllinæðarkrem, pilluna, lúsasjampó eða pensílín ... kræst, það hefði verið skelfilegt. Nei, mjólkurkælirinn var ágætisrammi fyrir þessi fyrstu bloggvinakynni. „Á ekkert að klípa mig í rassinn?“ spurði hann svo. Kannski var hann að gantast, kannski ekki. Áður en ég gat svarað, hvað þá gert nokkuð, kom erfðaprinsinn hlaupandi og eyðilagði þessa fallegu stund. „Hvaða maður er þetta? Hvað hef ég ekki sagt þér um ókunnuga menn?“ Hann nánast skellti mér í innkaupakörfuna og hljóp með mig að kassanum. Jamm, svona voru nú fyrstu kynni okkar Þrastar bloggvinar.

Nú er Evróvisjón eitthvað svo gærdags og komið að Formúlunni. Mér finnst keppnin í Mónakó alltaf leiðinlegust. Það hefur þó verið óvenjumikið fútt í henni núna þar sem rignir ... en vanalega er ekki séns að fara fram úr hinum bílunum ... þannig að án rigningar, óhappa eða tafa á viðgerðasvæðinu rúllar þetta bara hring eftir hring eins og mislitur þvottur í þvottavél.


Sjónvarpsblogg

Þorsteinn GuðmundssonTókst að flissa subbulega yfir Svalbarða á SkjáEinum í gærkvöldi og mun reyna að missa ekki af þeim þáttum í framtíðinni. Þorsteinn er ferlega fyndinn, fer vissulega algjörlega yfir strikið á köflum ... og það er æði. Ágústa var líka mjög skemmtileg. Nú eru það Mannaveiðar og síðan Dexter seinna í kvöld. Held ég glápi einna mest á sjónvarp á sunnudögum, enda oft ágæt dagskrá á meðan laugardagskvöld eru yfirleitt ótrúlega leiðinleg ... Sá reyndar Spaugstofuna á Netinu seint í gærkvöldi (eftir hrós Jennýjar) og hafði mjög gaman af.

Gömul og góð frá 2001Elsku Formúlan var í dag, missti því miður af ræsingunni vegna misskilnings um útsendingartíma, gerist ekki aftur. Ein vinkona mín er ekki með afruglara og útsendingin hjá henni var hálfrugluð þótt hún eigi alls ekki að vera það! Hún var ekkert smá spæld og við ákváðum að þetta væri samsæri til að hún yrði að fá sér afruglara! Hlakkaði síðan til að sjá ræsinguna og valin skot úr Formúlu dagsins í íþróttatíma Stöðvar 2 í kvöldfréttunum en þar var bara 3 sekúndna örfrétt, ekkert sýnt! Það var síðan RÚV sem sýndi sæmilega frá keppninni. Kommon, þið þarna snúllurnar mínar sem ráðið á Stöð 2 Sport! Það eru meiri líkur á því að fá nýja áskrifendur vegna Formúlunnar ef fólk fær að sjá spennandi skot úr keppninni! Gefa smá ... þá fáið þið til baka! Það er lögmál!

Þetta er sjónvarpsblogg þannig að ég áskil mér rétt til að vera afspyrnuruddaleg við alla þá sem kommenta dónalega um að ég eigi að gera eitthvað annað við líf mitt en horfa á sjónvarp.

P.s. Eftirfarandi athugasemd barst áðan frá Mána Atlasyni við færsluna Staðreyndir um Chuck Norris „Það má benda á www.chucknorrisfacts.com og líka á
http://www.chucknorris.com/html/fitness.html. Á síðarnefndu síðunni má nálgast líkamsræktarmyndband með kappanum. Ég drapst næstum úr hlátri og aulahrolli þegar ég sá það.“


Drjúg eru morgunverkin ...

PáskamorgunverðurVaknaði við klukkurnar, símann og arg í erfðaprinsinum kl. 6.30 í morgun. Aha, Formúla! Fór í ískalda sturtu, gerði morgunæfingar og skellti mér örstutt niður á Langasand þar sem ég hljóp nokkra kílómetra. Það var reyndar háflóð en sannir morgunhanar láta nú ekki smá sjó á sig fá.

Náði að bjarga lítilli stúlku með eldspýtur á heimleiðinni, hjálpa ungum, elskulegum manni að koma sjónvarpi út um glugga og að finna síðasta orðið sem nágranna minn vantaði til að fullráða sunnudagskrossgátu Moggans. Kom mátulega heim í ræsingu Formúlu 1. Fyrst útbjó ég auðvitað staðgóðan morgunverð; hafragraut, spælegg og beikon, bláberjapönnukökur með sírópi, snittur, hrærð egg og pylsur, múslí, kornflakes, kókópuffs, heitt súkkulaði, vöfflur og ávaxtasalat svo fátt eitt sé talið. Ég var alveg lystarlaus, eins og alltaf þegar ég er nývöknuð, og maulaði bara páskaegg með latte-inu sem ég útbjó mér. Formúlan er athyglisverð, tíðindaminni en í síðustu viku, segi ekki meira, fer nú ekki að eyðileggja spenninginn fyrir fólki sem borgar stórfé fyrir að sjá kappaksturinn í ruglaðri endursýningu í hádeginu. Vonast þó eftir rigningu í brautinni en ... það eru bara átta hringir eftir.

Annars bara góðan dag, elskurnar, og gleðilega páska!


Of gott til að vera satt - hætt með Stöð 2 sport!

Við erfðaprins órökuð á páskadagsmorgni ... enÁskriftin að Stöð 2 Sport varði stutt. Var búin að hlakka ógurlega til að horfa á enska boltann á morgun, enda tveir stórleikir á dagskrá. Við erfðaprins biðum þolinmóð á meðan góða fólkið á Stöð 2 afruglaði hjá okkur en það gerðist hægt, nema á gömlu Sýn, þar var golf! (Hrollur) Ég sé helvíti fyrir mér sem heitan stað þar sem hnetumöndludöðlurúsínu-buff hlýtur að vera í matinn og beinar útsendingar frá golfmótum í sjónvarpinu allan sólarhringinn.

 ------        ----------    -----------      ------------     -----------

ErfðaprinsinnEftir tvo eða þrjá tíma hringdi erfðaprinsinn í s. 515 6100 að beiðni minni og fékk þær fréttir að enski boltinn væri alveg sér og pakkinn allur kostaði um 4.000 krónur. Skrýtið að konan hafi ekki minnst á það þegar hún seldi mér áskriftina. Ég hætti við allt saman. Eftir að hafa hlustað á fréttir Stöðvar 2 sannfærðist ég um að ég hafði gert rétt en þar kom fram að beina Formúluútsendingin verður órugluð kl. 6 í fyrramálið ... en EKKI í endursýningu um hádegisbil. Nú íhuga ég í fúlustu alvöru að skila inn afruglaranum og hætta að skipta við þetta fyrirtæki. Ég hef heyrt um nokkra aðila þarna úti sem lifa góðu og innihaldsríku lífi án þess að vera með Stöð 2. Ég hef verið tryggur kaupandi, eða M12 áskrifandi, síðan á níunda áratug síðustu aldar og er mjög þolinmóð að eðlisfari, núna er mér nóg boðið. Ég veit að bisniss er bisniss ... en þetta með Formúluna er hrein mannvonska.


Sennilega aðkomumaður ...

AðkomumaðurÉg er sármóðguð vegna viðbragða fólks við þessarri frétt og ætla t.d. aldrei að hlusta framar á Guðna Má Henningsson! 

Fólk flissar um bloggheima sem segir mér heilmikið um ástandið vegna næturlífs í bæjarfélagi viðkomandi. Þetta ER nefnilega fréttnæmt! Á Skaganum býr svo mikið rólegheitafólk að sérstakt þykir ef ölflaska brotnar.

Líklega hefur þetta mögulega bara verið sár maður yfir úrslitunum í Formúlunni og misst óvart brothætta flösku.

Langlíklegast er þó að þetta hafi verið aðkomumaður.


mbl.is Braut flösku framan við lögreglubíl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Með lögguna í vasanum ...

FormúlanÞessi sunnudagur breyttist svolítið, eiginlega bara heilmikið. Það átti að fara í netbolinn og njóta  Formúlunnar með stæl. Á meðan ég sat og horfði á vísana á klukkunni færast löturhægt í áttina að Formúlu hringdi síminn. Glaðbeitt kvenmannsrödd. „Hæ, þetta er Hilda (systir). Við mamma (mamma) ætlum að kíkja í heimsókn á eftir, hvernig líst þér á það?“ Margar vikur frá síðasta hittelsi ... Ég horfði á símtólið og sjónvarpið til skiptis. Nú voru góð ráð dýr. Mér datt djöfullegt snilldarráð í hug á sekúndubroti og með geigvænlegri lymsku tókst mér að fresta komu þeirra. Ég sagði Hildu að Formúlan yrði á dagskrá kl. 4 (þá byrjaði sjálf keppnin) en AUÐVITAÐ yrðu þær samt að koma. Í lok setningarinnar kjökraði ég lágt. „Ég kem bara eftir fimm,“ sagði Hilda hlýlega en hrím myndaðist samt á símtólinu. Það gæti hafa verið ímyndun hjá mér. Svo hringdi ég í lögguna.

LögganÞeim mæðgum seinkaði nokkuð, eins og ég bjóst við, (múahahahaha) og mættu ekki fyrr en kappakstursmennirnir voru búnir að burra og byrjaðir að djúsa og grobba sig. Ég styrkti nefnilega lögreglukórinn á Akranesi um nokkra fimmtíukalla og lét bæði taka þær fyrir hraðakstur (91,5 km/klst) og loka göngunum í svona 43 mínútur til öryggis.

Úrslitin voru bara fín. Þegar minn maður (Hamilton) hafði klúðrað þessu (snemma í keppninni) varð svo mikið spennufall í himnaríki að ég hefði reyndar alveg þegið heimsókn til að dreifa huganum.

Það hringdu fleiri sem voru að pæla í að koma í heimsókn. Ég sagði frá Formúlu, lögregluríki og fyrirhugaðri innrás ættingja. Líklega eru allir svo hræddir við mömmu, kannski enn frekar Hildu, að enginn þorði að koma.

Einmana um helgar (not)Það var ekki fyrr en þrjár mínútur yfir níu í kvöld sem ég áttaði mig á þessu samsæri. Vinir mínir og ættingjar er andstyggilega þenkjandi, þessar elskur. Þeir lesa bloggið mitt og finna þannig út hvenær ég ætla að horfa á eitthvað verulega krassandi í sjónvarpinu. Síðan hringir liðið til að prófa mig. Elska ég vini mína og ættingja ... eða er ég orðin sjónvarpsfíkill? Hvað um allar þær löngu helgar sem ég hef setið emjandi að springa úr einmanaleika (aldrei) og enginn kemur?  Vá, hvað ég ætla ekki að gera neitt um næstu helgi.

Það var ekki nóg með að mæðgurnar heiðruðu himnaríki með komu sinni ... Hilda hljóp óvænt niður í bíl þegar heimsókninni virtist vera lokið, skildi mömmu eftir, kom svo upp með fullt af mat sem hún eldaði handa okkur. Svakalega gómsætan taílenskan kjúklingarétt.

Þetta var frábær dagur! 


Söndei, bjútí söndei ...

Himnaríki 428Mikið er þetta eitthvað ljúfur sunnudagur. Ljúft var að vakna með Margréti Blöndal (Rás 2) sem spjallaði við strákana í Sniglabandinu (hljómsveit) og horfa síðan á hádegisfréttir Stöðvar 2 sem er algjör skylda á þessu heimili um helgar. Held að ég gleymi því allt of oft að ég er með Sky News. Já, og svo hef ég djúpstæðar áhyggjur af því að erfðaprinsinum finnst Fox News svo skemmtileg fréttastöð. Þori ekki að spyrja hann um álit hans á George W. Bush. Hrædd við svarið. Alltaf ríkir þó mesta spennan yfir veðurfréttunum og Soffía stormur brást ekki frekar en fyrri daginn. Morgundagurinn verður athyglisverður og gæti komið sterkur inn varðandi tilvonandi hjúskaparmál okkar Ingu (tengist björgunarsveitamönnum)!

Biðina fram að Formúlu (kl. 15.30) ætla ég að gera bærilega, horfa á háværu, litlu en fallegu öldurnar, klappa köttunum til skiptis og vera með latte í annarri og spennubók (Horfinn eftir Robert Goddard) í hinni. Búin með fyrstu tvo kaflana og er mjög hrifin só far. Þegar bók grípur mann strax án þess að nokkuð spennandi sé farið að gerast ... hvernig verður hún þá þegar allt fer á fullt?

Svona eiga sunnudagar að vera.  


Ófært!!!

Hviður á KjalarnesinuSá hlær best sem síðast hlær. Þetta á vel við um storminn sem hvín á Kjalarnesinu núna með hviður upp í 45 m/sek. Ég sé eftir því að hafa gert grín að honum og  þannig hvatt hann til að láta svona illa. Enginn strætó gengur nú á milli Akraness og Reykjavíkur vegna óveðurs, hvassviðris, storms ... Ég sat reyndar ekki klukkan sex og beið eftir strætó, heldur sofnaði aftur, kíkti síðan á hviðusíðuna næst kl. 7 og eftir næsta blund hringdi ég í stjórnstöð Strætó og fékk að vita að engin ferð var heldur kl. 9.41. Svo gerði heimasíminn minn sér lítið fyrir og bilaði. Hvert hringir maður til að fá bót meina hans? Er ekki búið að loka 05?


LestÍ einum fegurðarblundinum í morgun dreymdi mig að ég kæmist nú samt í vinnuna með lest gekk á milli Akraness ... og Lundúna. Ég var eitthvað sein og beið eftir upplýsingum frá breskri starfskonu, sem var að prjóna, um það hvaða lest ég gæti tekið til að komast í vinnuna.

Þetta hlýtur að tákna að minnsta kosti Heklugos!!!


Pælingar og spælingar

Þyrnirós sefur útÞað hafa ekki fyrr birst fréttir af því að það sé meinhollt að sofa út þegar fótaferðartíminn í himnaríki verður um tveimur tímum fyrr en vanalega um helgar. Hingað til hef ég getað stært mig af því að breytast í eðlilega b-manneskju strax á föstudagskvöldum og sofa til hádegis á laugardögum og sunnudögum. Skrýtna lífið hefst svo á mánudagsmorgni. Mér finnst ekki enn eðlilegt að vakna kl. 6.15 þótt mér takist það vissulega, kannski hef ég sofið yfir mig um klukkutíma tvisvar sinnum síðan snemma árs í fyrra, þó verið komin vel fyrir níu í vinnuna.

 

 

9. sept. 2007

Sól, fallegt veður og hávaði í öldunum klukkan tíu í morgun var reyndar hvetjandi til fótaferðar, svo og tilhugsunin um Formúlu 1 sem hefst á hádegi og ég vil ekki missa af. Ég þekki fólk sem telur það vera útsofelsi að vakna kl. átta á morgnana, það er óskiljanlegt og frekar hræðilegt, en vissulega fer þetta allt eftir því hvenær fólk tímir að fara að sofa. Ég er að sjálfsögðu að tala um fólk sem þarf ekki lengur að vakna til barna sinna. Það er eyðsla á góðu kvöldi að eyða því í rúminu, nema eitthvað spennandi sé þar, ég segi nú svona, og ég bíð spennt eftir því að sá tími komi að ég þurfi ekki mína 8-10 klukkutíma í svefn. Það er búið að segja mér í tíu ár að ég sé orðin svo gömul og nærsýnin hverfi skjótt en fjarsýni komi í staðinn, ég þurfi ekkert að sofa að ráði og fleira og fleira sem hljómar spennandi. Það bólar ekkert á þessu. Hér með auglýsi ég eftir þessum kostum! Ég hrópaði reyndar upp yfir mig af fögnuði þegar ég fór að finna fyrir stirðleika á morgnana og hugsaði að nú væri ég loksins að verða fullorðin en það var tekið frá mér um leið og Beta sjúkraþjálfari komst í málið. Eina sem ég finn fyrir og vekur reyndar hjá mér ugg er þessi gífurlega leti við að æsa mig yfir hlutunum. Ég nenni ekki einu sinni í trúarbragðadeilur á blogginu og þá er nú langt gengið.


Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 28
  • Sl. sólarhring: 287
  • Sl. viku: 1987
  • Frá upphafi: 1452187

Annað

  • Innlit í dag: 27
  • Innlit sl. viku: 1600
  • Gestir í dag: 27
  • IP-tölur í dag: 27

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • baby reindeer
  • Ove Otto
  • Gísli gerir Mart-einn

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband