Færsluflokkur: Lífstíll

Fésbókarvera ... og sorgleg afdrif Bjarts

PabloÉg skráði mig á Fésbók fyrir tveimur vikum og þótt ég kunni lítið á umhverfið þar hefur mér þó tekist að taka þátt í ýmsum stórmerkilegum könnunum sem mér hafa verið sendar af velmeinandi fésvinum. Ég var t.d. Pablo Picasso í fyrra lífi, Chandler í Friends og réttur aldur minn er 38 ára, ekki 50 ára ... ég svindlaði bara oggulítið í síðastnefnda prófinu og skildi ekki allar spurningar fullkomnlega en þetta er samt hárrétt útkoma. Erfðaprinsinn (28) er 43 ára samkvæmt prófinu, hann hefur greinilega gert einhver mistök. Í morgun reyndi ég að finna út hvaða Harry Potter-persóna ég væri en eftir að hafa svarað samviskusamlega öllum spurningunum ýtti ég líklega á rangan hnapp og fékk upp síðu sem tengist ástarkjaftæði. Nú fæ ég aldrei að vita hvort ég er Harry sjálfur eða jafnvel Snape! Ég kem alltaf út sem karlmaður í þessum prófum sem mér finnst mjög grunsamlegt þar sem ég er svo mikil dama.

Hét mér því, þegar erfðaprinsinn píndi mig til að skrá mig í Fésbók að þetta yrði ekki sami tímaþjófnaðurinn og bloggið og hef staðið við það. Ég á orðið heilan helling af mjög flottum fésvinum sem ég vanræki eins og flesta aðra vini, bæði í bloggheimum og raunheimum.

 

Bjartur heima hjá sérBjartur í pössunÉg auglýsti eftir Bjarti á blogginu mínu á dögunum, heittelskuðum ketti systur minnar og mágs sem búa hér á Skaganum. Sæta kettinum sem ég passaði stundum þegar eigendurnir fóru í ferðalög. Bjartur er kominn í kattahimnaríki, elsku karlinn. Ekkert sá á honum þannig að dulin veikindi hafa líklega hrjáð hann. Hann átti einstaklega gott líf þessi sex ár sem hann lifði og hans verður sárt saknað.


Ekki fögur sjón að sjá ...

Rammstolið: An American said: “We have George Bush, Stevie Wonder, Bob Hope and Johnny Cash.” An Icelander replied: “We have Geir Haarde, no Wonder, no Hope and no Cash.”

Þetta var viðburðaríkur dagur. Heimsókn til tannlæknis fljótlega eftir hádegi, fjör og gleði að vanda hjá Ósk, en ég var ég munnskökk og dofin fram yfir kvöldmat. Ekki fögur sjón að sjá, aldrei þessu vant, en nú er engin hola. Fyrir utan tannlæknastofuna varð ég vitni að árekstri, maður á bíl bakkaði á konu á bíl, gleymdi að líta í baksýnisspegilinn þegar hann ók út úr stæðinu. Svo kom vinkona mín og skutlaði mér áleiðis til að hitta Ástu vegna heimferðar á Skagann upp úr þrjú og sú fyrrnefnda fékk æsilegt símtal: „Ísland er farið á hausinn, taktu allt út úr bankanum þínum NÚNA!“ sagði dularfulla röddin í símanum. Sú rödd frétti þetta á fundi mektarfólks í dag og tengdist þetta alþjóða gjaldeyris-eitthvað. Ég sagði Ástu auðvitað frá þessu og á heimleiðinni ræddum við um framtíðina ... útgöngubann, herlög, skömmtunarmiða og slíkt, og vorum ótrúlega rólegar og æðrulausar.

Geir og Björg-vinSvo kom bara Geir í sjónvarpinu og sagði eitthvað róandi að vanda, einhverjir fara express til Rússlands í fyrramálið og eftir þá ferð fáum við kannski enn einn róandi blaðamannafundinn.

Síðast en ekki síst hittumst við nokkrar stuðningsfjölskyldur hjá Rauða krossinum undir kvöldmat og ég var enn eins og vélsagarmorðingi í framan. Þær standa sig eins og hetjur, palestínsku konurnar, en ég held að kuldakastið um daginn, mánuði fyrir tímann, hafi svolítið komið þeim í opna skjöldu. Börnin eru búin að fá umferðarfræðslu hjá röggsamri löggu og okkur létti við það. Þau elska sundlaugina og fara vonandi bráðum á sundnámskeið. Konunum hefur verið sagt frá ástandinu í þjóðfélaginu en mér finnst ekki ólíklegt að þeim finnist það hátíð miðað við ástandið í Írak.


Föstudagurinn langi ...

Háholti kl. 18.30 í kvöldSvo mikið var að gera í dag þegar ég slökkti á tölvunni í Hálsaskógi voru aðeins fimm mínútur í brottför 17.45-strætó frá Mosó. Ekkert hlaupahjól í grennd og því klukkutíma bið eftir næsta vagni. Náði leið 15 hálftíma of snemma við Vesturlandsveginn og gerði mér enga grein fyrir því þá hversu tryllingslega mikil heppni það var. Horfði síðan ótrúlega beiskulaust á hlýjan og notalegan Skagastrætó sem beið neðar í Háholtinu (sjá mynd), alveg farþegalaus, Kiddi bílstjóri í pásu og ég í hlýjum sokkabuxum. Svo kom leið 15 korteri seinna og sniglaðist þunglamalega upp brekkuna. Út úr vagninum flæddi hópur barna, örugglega 50 stykki, ef ekki fleiri. Vagninn hafði verið troðfullur og um leið og fækkaði í honum sá ég nokkra saklausa farþega blása út og ná fyrri stærð. Vér Skagamenn þjöppuðum okkur saman í eina hrúgu á stoppistöðinni og einn í hópnum giskaði nöturlega á að þetta væri vafalaust skátahópur og við gætum gleymt því að dorma á heimleiðinni við undirleik fréttanna, þyrftum líklega að taka undir Kveikjum eld og Ging gang gúllí. Okkur til mikils léttis voru þetta fótboltabörn. Ekki reyndist vera pláss fyrir þau öll í rútunni (Skagastrætó) og voru óþekkustu börnin örugglega skilin eftir í Háholti því að þetta reyndust vera algjör englabörn, eða svona vel öguð. Restin af hópnum þurfti að bíða eftir næsta strætó þar sem svona stór hópur þarf að láta vita af sér í tíma til að hægt sé að gera ráðstafanir. Skagastrætó lýtur öðrum lögmálum en venjulegir strætóar, eitt sæti á mann og allir í beltum. Sat við hliðina á Dipu, badmintonþjálfara okkar Skagamanna, eiginmanni indversku vísindakonunnar, Shymali. Við vorum menningarleg á því á heimleiðinni, hann las Newsweek og ég fletti áhugaverðri kjarneðlisfræðibók.

PeningarVið heimkomu gat ég ekki stillt mig um að hringja í nokkra bankamenn í vinahópnum. Jú, jú, eitthvað meira en venjulega var um úttektir í dag en enn meira var um tilfærslur úr sjóðum yfir á reikninga. Það hlýtur samt að vera gósentíð fyrir innbrotsþjófa núna, meira fé en vanalega undir einhverjum koddum um helgina.

Ég heyrði í mömmu áðan sem sagðist ekki ætla að láta þennan múgæsing hafa áhrif á sig og skrilljarðarnir hennar eru grafkyrrir í Landsbankanum. Annars var símtalið ansi stutt, Ég fattaði ekki að maður hringir ekki í fólk þegar Útsvar er í gangi. Eina sem ég get gert núna er að vonast til þess að yfirdrátturinn minn týnist á einhvern undursamlegan hátt í öllum þessum látum. Plís, plís!

AskaAska í úlpuMikið var annars gaman að Útsvari og ég hefði rúllað upp Hringadróttinssöguspurningunum ... hmmm, nema þeirri síðustu. Of langt síðan ég las bækurnar. Það verður gaman að fylgjast með hinu nýja liði Skagamanna. Ásta er viss um að það fari alla leið, eða í fyrsta sætið. Ekki dettur mér í hug að efast um orð hennar. Hún bauð mér í gómsætt lasagna um daginn og þar smellti ég myndum af Ösku, voffanum hennar. Ösku í körfunni og Ösku í úlpunni. Aska á hlýrri úlpu en ég.


Reykt ýsa, heimsókn til Línu og jólastemmning í boldinu

ÝsaÞað fór sem eldur í sinu í vinnunni að það yrði reykt ýsa í hádeginu, risotto sem grænmetisréttur og sitt sýndist hverjum. Nokkrir hlupu upp í Taí-matstofu og var ég ein af þeim. Fékk kúfaðan disk af alls kyns gómsætum taílenskum réttum og borgaði 1.000 kall fyrir. Alveg þess virði til að sleppa við ýsuhelvítið og halda samt fullum starfskröftum.

Ella, Inga og LínaKíkti á Línu við heimkomu og var mikið fjör á heimilinu að vanda. Ella og Kjartan kíktu með Eygló skömmu seinna. Strákarnir „mínir“ eru í skólanum á fullu og líkar mjög vel, litla snúllan er ekki jafnhress þegar hún þarf að kveðja mömmu í leikskólanum en það er bara eðlilegt, Ella sagði henni að hálfum mánuði eftir að Eygló hennar byrjað í leikskólanum hefði hún einn daginn sagt bless, ekkert vesen lengur og þá var það eflaust mamman sem skældi af söknuði. Nadeen á viku í það. Lína er byrjuð í íslenskunámi líka og segir það mjög skemmtilegt. Hún er að læra muninn á framburðinum á sérhljóðunum og ... úff, hvað íslenskan er nú flókin fyrir útlendinga, sá það eitt augnablik með augum hennar. Framburðurinn mun samt greinilega ekki vefjast mikið þeim, fannst mikið til um þegar strákarnir spurðu mig á góðri íslensku: „Hvað heitir þú?“ Svo spurði ég þá að nafni og þeir svöruðu: „Ég heiti ....“ og svo komu nöfnin. Strákarnir eru bæði í sundi og fótbolta, alsælir. Þeir fóru einmitt í sund áðan með vinum sínum. Lína bauð okkur upp á safa og nammi, núna er ramadan búið og þriggja daga „jól“ standa yfir. Þegar við kvöddum var Inga einmitt að koma heim úr vinnunni, en hún býr í sama húsi og Lína. Myndin hér að ofan er af Ellu, Ingu og Línu, tekin um daginn þegar túlkarnir komu og við gátum talað saman af hjartans lyst, engin leikræn þjáning þar á ferð.

Vertu úti, kerlingNú eru líka jólin hjá Forrester-fjölskyldunni og Stefanía heldur hjartnæma ræðu um leið og hún segir „Gjörsovel“. Hún talar um fjölskyldugildin og þá ást sem hún beri til barna sinna, eiginmanns og annarra ástvina. Þá hringir dyrabjallan. Úti stendur móðir hennar og óskar henni gleðilegra jóla. „Hvað ert þú að gera hér?“ spyr Stefanía og útihurðin hrímar. „Jólin eru tími fjölskyldunnar,“ segir mamma hennar ámátlega. „Vertu úti!“ skipar Stefanía og er algjörlega ósveigjanleg. Fjölskylda er ekki sama og fjölskylda.

Darla heitin og ThorneAndi Dörlu heitinnar er á sveimi í kringum Thorne og littlu dóttluna og er Darla heitin alsæl með hversu hamingjurík jól dóttir hennar upplifir. Eftir þennan þátt er greinilegt að það er líf eftir dauðann.


Einmana, vinalaus Suri Cruise (2), Sunday Rose NicholeKidmansdóttir og fleira ...

Kjalarnesi í morgunAftur bílfar í morgun sem var dásamlegt í kuldanum sem var þó ögn minni en í gær. Kannski maður sé bara farinn að venjast honum. Strax við sætukarlastoppistöðina byrjaði Ásta að hundskamma MIG fyrir ástandið í þjóðfélaginu. Hún horfði ásakandi á mig, en ekki VEGINN, þegar hún talaði um uppsagnirnar í byggingariðnaðinum, meðferðina á Glitnismönnum og önnur stórmál. Ég náttúrlega sturlaðist og benti henni ókurteislega á að flest mál hefðu tvær hliðar og ég myndi nú fara varlega í að gleypa allar samsæriskenningar strax. Okkur ætti nú að hafa lærst að trúa ekki orði af því sem heyrðist t.d. í Kastljósi, sæist í DV, Lögbirtingarblaðinu og Morgunblaðinu eða kæmi frá forsætisráðuneytinu. Við vorum farnar að slást í Kollafirði og ef Ásta hefði ekki sett plötuna hans Páls Óskars í græjurnar í bílnum veit ég ekki hvernig þetta hefði endað. Það er svo skemmtilegt að vera ósammála síðasta ræðumanni. Ef stjörnumerkjasjúk vinkona mín vissi af þessu myndi hún segja að ég væri Vog. Það er nú ekki rétt, ég er virðulegt Ljón.

Þetta gæti alveg verið sönn saga hjá mér, nú eru öll skúmaskot notuð til að ræða ástandið í þjóðfélaginu, meira að segja bíll á leiðinni frá Akranesi til Reykjavíkur klukkan rúmlega hálfsjö að morgni þegar allt heiðarlegt fólk steinsefur og það með peningana undir koddanum. Nei, við Ásta rifumst ekkert í morgun nema hún spurði mig hvort ég væri Sjálfstæðismaður! Ég argaði úr hlátri og sagðist vera ópólitísk, hefði reyndar kosið alla flokka einhvern tíma og væri einna montnust af kjöri mínu á Framsókn á níunda áratug síðustu aldar, þegar sómakonan Ingibjörg Pálmadóttir komst að á Skaganum og varð síðar heilbrigðisráðherra sem leið yfir í fangið á Össuri, þarna þið munið. Fannst líka gaman að kjósa Vigdísi Finnbogadóttur sem forseta og Ingibjörgu Sólrúnu sem borgarstjóra ... Jú, auðvitað hef ég kosið karla líka, enda eru karlmenn upp til hópa gjörsamlega frábærir.

Skrapp í Kaffitár í morgun með morgunhressri vinkonu og keypti latte, líka handa samstarfskonu minni sem kemur alltaf til vinnu kl. 8 á morgnana. Hún var ögn seinni til vinnu en vanalega, þurfti ein að standa í því að koma fjórum börnum í skóla og leikskóla. Þetta er reyndar svo gott kaffi að það er hægt að drekka það volgt, jafnvel kalt. Svo verður það hádegisverður með annarri vinkonu á Asíustaðnum hérna í Hálsaskógi. Þvílíkt lúxuslíf. Tek það fram að kúffullur diskur af þremur réttum að eigin vali kostar 1.000 kall sem er oggulítið meira en máltíðin kostar í mötuneytinu.

Suri og mammaSunday Rose í mömmubumbuSéð og heyrt var að koma í hús ... Jón Ólafsson, vatnskóngur og athafnamaður, er á lausu, en Mummi í Mótorsmiðjunni er genginn út ... enn og aftur.  Nichole Kidman eignaðist dóttur á dögunum og þakkar það töfravatni, eða sundspretti sem hún tók í Kununurra-vatni í Ástalíu ... Ég hélt einhvern veginn að kynlíf væri galdurinn við að búa til börn. Dóttirin heitir frekar sakleysislegu nafni, svona miðað við tilgerðarlegar og stórundarlegar epla- og appelsínunafngjafir þekkta fólksins. Hún ber nafnið Sunday Rose. Svo er dóttir Kate og Tom, litla Suri Cruise (2), víst mjög einmana og vinalaus, hefur ekki einu sinni lært að deila dótinu sínu með öðrum börnum. Eiríkur Jónsson horfði á Opruh Winfrey í gærkvöldi og það finnst mér langstærsta frétt dagsins. Þetta er aðeins of "kvenlegur" þáttur fyrir mig, hvað er í gangi með hann Eirík?

Vikan er helguð brjóstakrabbameini, eða forsíðuviðtalið og aðeins fleira, við gerum þetta alltaf einu sinni á ári, gott málefni til að vekja athygli á. Forsíðumyndin er af konu, sem er ber að ofan, en annað brjóstið var tekið af henni, andlitið ekki sýnt. Foríðuviðtalið við hressa ömmu og  Í Galdrahorninu eru nokkrar Feng Shui-ráðleggingar, t.d. hvernig á að laða að sér velmegun ... finna ástina, finna góða vinnu og breyttu óvini í vin og hræðilegum nágranna í fínan granna ... hehehhe. Alltaf gaman að Feng Shui. Lífsreynslusagan er mjög djúsí, segir frá konu sem dreymdi skrýtinn draum þegar hún var 14 ára, eða að hún sæti í farþegasætinu við hlið bílstjórans í rauðum bíl, þrjú börn aftur í. Henni fannst hún eiga þennan mann og börn og vera um þrítugt. Bílslys varð þar sem hún dó í draumnum ...  Jamm, svo mundi hún eftir þessu þegar hún var um þrítugt í raunveruleikanum og þá hafði sitt af hverju gerst, eiginmaður og þrjú börn í dæminu ... Ómissandi blað!!!

Vona að dagurinn ykkar verði góður, eiginlega bara frábær! Farin að vinna, vinna, vinna!


Ótrúleg afköst og innslagið frá BBC ...

Í himnaríki í morgunVel- og glaðvaknað var í morgun og ótrúlegt hvað „vakn“ fimm mínútum fyrr en vanalega munaði miklu, engin hlaup og ekkert stress. Ég náði að baka nokkrar sortir, hreingera baðherbergið, prjóna hosur fyrir veturinn og skrifa fyrstu drögin að inngangi að formála um sögu fílsins í átta bindum ... og allt þetta áður en ég bjó til latte og fékk með hollustudótið mitt.

Við stuðningsfjölskyldur Línu kíktum á hana í gær og höfðum að láni túlk í klukkutíma til að spjalla við hana. Það var ótrúlega gaman ... annars hefur henni farið helling fram ... í uuuu ... enskunni eftir að hún kom. Og er spennt að læra íslenskuna sem hún kann nokkur orð í. Hún skellihló þegar ég sagði henni Allah-brandara ... um það þegar íslenski eiginmaðurinn öskraði yfir yfirfulla verslun eða markað í Marokko: „ALLA!!! ALLA MÍN, hvar ertu?“ og allir sneru sér forviða við og gláptu á þennan guðrækna mann.

Ein konan úr hópnum var í viðtali hjá BBC World og gaman að sjá m.a.  Báru og Dodda heima hjá henni og negla upp mynd ... og strákinn á heimilinu fara á hestbak „í sveitinni“ hjá Nínu, stofnanda stórverslunarinnar Nínu (þar sem Dorritt hefur verslað ...). Doddi ók í bæinn um daginn rétt áður en brjálaða veðrið skall á, frekar óvanur að keyra í Reykjavík, rataði ekki um í Breiðholti en fann samt yndislegu konuna sem gaf hjól fyrir stálpaðan strák (ja, fullorðinshjól). Strákurinn þráði hjól heitast af öllu. Ég fylltist afbrýðisemi fyrir hönd Línu þegar ég sá að "konan þeirra" er með uppþvottavél ... heheheh, nei, nei, uppþvottavélar eru ekki jafnsjaldgæfir gimsteinar og áður, það fylgdi t.d. með í kaupunum á himnaríki heilt stykki uppþvottavél sem ég elska mjög, mjög heitt. Þessi kona var bara jafnheppin og ég. 

Læt slóðina að innslaginu frá BBC World fylgja með ... þessi fréttakona var víst engu lík og það var upptökuliðið hennar sem þurfti að elta kvikmyndavélar um móa og mýrar í öllu rokinu um daginn. http://www.youtube.com/watch?v=olehN_FwJ4M

Vona að dagurinn ykkar verði skemmtilegur, spennandi, gefandi og guðdómlegur!


Hollusta og hressleiki í himnaríki

HollustudótiðFyrir u.þ.b. hálfum mánuði hóf ég nýtt líf, eða þannig, og byrja hvern morgun (nema þann þegar ég svaf yfir mig í rafmagnsleysinu) á því að fá mér hollustumorgunverð. Var bent á nokkuð sem heitir Beyond Greens og fæst í Heilsuhúsinu. Ég set matskeið af þessu í eplasafa og drekk með bestu lyst. Skelli reyndar fyrst í mig skeið af lýsi, eða Udo´s 3-6-9 olíublöndu og kyngi henni með hjálp fyrsta sopans af Beyond Greens-dæminu. Þetta, ásamt vítamíninu sem á m.a. að efla kynhvötina (grrrr), hefur sannarlega haft góð áhrif á ekki lengri tíma. Nú vakna ég ekki á morgnana, heldur glaðvakna og er svo miklu hressari. Bjúgurinn, sem hefur angrað mig síðan ég var rúmlega þrítug og fékk óverdós af fúkkalyfjum, er að hverfa en mér hefur verið meinilla við að taka bjúgtöflur síðan ég las á fylgiseðlinum að þær gætu verið slæmar fyrir hjartað. Man eftir lækni sem starði vantrúaður á mig stokkbólgna af bjúg og sagði mér að niðurstöður viðamikillar blóðprufu hefðu sýnt að ég væri við frábæra heilsu.

Kubbur bókaormurÉg hef reynt að finna mér eitthvað hollt og gott í morgunmat í gegnum tíðina en ekki verið alveg sátt við neitt til þessa. Nú held ég að ég hafi loksins dottið ofan á eitthvað sem mér finnst gott og hefur líka góð áhrif. Í þessu eru m.a. fitusýrur, trefjar, næringarefni og meltingarensím. Auðvitað væri best að fá þetta allt úr úr fæðunni en ég þekki sjálfa mig, viðurkenni að ég hef allt of oft látið grænmeti og ávexti skemmast í ísskápnum. Gæti reyndar trúað að þessi morgunmatur sé helmingi dýrari en sá sem ég get fengið í mötuneytinu á 88 krónur (grænmeti/álegg án brauðs) en þessi gerir mér svo miklu betra. Ég finn líka fyrir minni sykurlöngun sem er bara frábært. Finnst ég hafa grennst, alla vega misst bjúg ... en þar sem ég lít á baðvigtir sem uppfinningu andskotans þá get ég ekki vitað með vissu hversu mikið.

Þetta er kannski leið letingjans að betri líðan en hver veit nema þetta verði til þess að ég fari stútfull af orku að elda sannkallaðar hollustumáltíðir á hverju kvöldi, ekki bara stundum.

Ég prófaði einu sinni Herbalife og fylltist gríðarlegri orku, eftir tvær vikur var ég farin að strauja þvottapoka og það straujar enginn þvottapoka ... en svo voru pillurnar sem fylgdu með bannaðar, þær virkuðu víst eins og argasta amfetamín. Ég á reyndar einn dunk af Herbalife núna og mun ábyggilega fá mér stundum úr honum til tilbreytingar.

Það allra besta væri auðvitað að eiga mann sem væri karlkynsútgáfa af Sollu í Grænum kosti ... en þangað til ég finn hann þá held ég mig við þetta. Hef meira að segja séð vítamínið til sölu í Einarsbúð.


Einstakar móttökur, stórgjöf og fyrirhuguð ... kaffiuppáhelling

Fékk yndislegan tölvupóst áðan frá Skagakonu sem sagði mér af móttökum sem ein fjölskyldan fékk í blokkinni sinni. Hér kemur úrdráttur úr bréfinu: 

Það kom hingað maður í vinnuna til mín og sagði mér það að ein fjölskyldan hefði verið að flytja í íbúð beint á móti hans fyrrverandi, syni hans, tengdadóttur (sem kom hingað til Íslands frá Gvatemala fyrir rúml.ári ) og eins árs tvíburum ;-)

Nema það að þessi maður fór inn á google-translate, http://translate.google.com/translate_t#  skrifaði þar á ensku og þýddi yfir á Arabísku: Verið velkomin í blokkina og ef ykkur vantar eitthvað þá endilega komið bara og biðjið um aðstoð, við búum í íbúðinni beint á móti. Þetta prentaði hann út, fór og keypti blómvönd og þegar hann rennir upp að blokkinni eru þau einmitt að koma heim ásamt stuðningskonu og túlkinum. Hann gefur konunni blómin og réttir henni blaðið sem hann prentaði út á Arabísku. Konan varð rosalega ánægð og túlkurinn alsæll og á leiðinni upp hittu þau tengdadótturina, börnin hlupu inn í íbúðina hennar og beint inn í stofu að skoða dótið hjá litlu tvíburunum.

Um rúmlega níu sama kvöld er bankað hjá þeim og þar fyrir utan stendur „flóttakonan“ og eftir smá líkamstjáningu ..hehe.. fara konan, sem heitir Anna og tengdadóttirin sem heitir Thelma, með henni yfir í hennar íbúð, þar var hún með fisk, ýmislegt meðlæti, eldavél og dósaupptakara ... sem hún var ekki alveg viss um hvernig ætti að nota. Svo þær tóku sig bara til og elduðu á staðnum fyrir konuna og börnin þessa dýrindis máltíð og þau voru svo alsæl.  

Þetta fannst mér svo frábært hjá þeim að ég mátti til með að leyfa þér nýbakaðri ömmunni að heyra.

Stóra myndaorðabókinFleiri yndislegheit ... Forlagið ætlar að gefa öllum fjölskyldunum Stóru myndaorðabókina en það er einstök bók sem á eftir að hjálpa fólkinu gríðarlega mikið í íslenskunáminu. Þetta er engin smágjöf, hver bók kostar um 15.000 krónur og þetta eru átta stykki!

Komst að því í gær að Lína er hrifin af kaffi (alvörukona) og fer núna á eftir og kenni henni að búa sér til góðan kaffisopa. Hún er með brúsa, plastkaffitrekt sem kom í söfnuninni í sumar, nokkra filterpoka og svo afgangskaffi úr afmælinu mínu sem er ekki slorkaffi, Krakatá frá Kaffitári. Nú verður búinn til góður sopi í dag. Held að það megi alveg drekka kaffi þótt það sé akkúrat Ramadan núna. Annars fær hún sér bara sopa í kvöld.

Viðbót: http://www.unhcr.org/news/NEWS/48c54ef44.html


Kokkur í skammarkrók og dræsan hún Ylfa Ósk

tagliatelleHann doktor Gunni (eða okursíðan hans) hefur nú orðið til þess að ég skammaði góða kokkinn okkar hér í mötuneytinu. Tók eftir því að ég borgaði 365 krónur fyrir morgunverðinn og fannst það ansi hátt fyrir einn smoothie (199 kr) og smá álegg (ekkert brauð). Hef yfirleitt tekið litla slettu af kotasælu, sett tvær agúrkusneiðar, eggjasneið og paprikubita með. Það hefur kostað 40 kall, nú er rukkað fyrir hvert og eitt álegg. Þannig að agúrkusneiðin kostar 40 kall. Nú verður nesti tekið með, ekki gengur að éta mötuneytið lengur út á gaddinn og það mig. Svo skammaðist ég líka, en ljúflega, held ég, yfir kolvetnaveislunni í hádeginu, aðalréttur: spagettí með sjávarréttum og grænmetisréttur: tagliatelle í rjómasósu. Línurnar breytast skjótt í útlínur og jafnvel heilan sjóndeildarhring með svona áframhaldi.

Ylfa Ósk ÚlfarsdóttirÚlli, kokkur á Gestgjafanum, mætti með Ylfu Ósk með sér í vinnuna í gær og talaði um hana sem algjöra dræsu þar sem hún sat stillt og sakleysisleg við skrifborðið. Ylfa fékk nefnilega að pófa að vera með gæja um helgina og alla aðfaranótt mánudagsins veinaði hún svo mikið að engum í fjölskyldunni varð svefnsamt. Hún vildi meira, you know.

Nú heldur Úlli að Ylfa sé orðin hvolpafull og býst við fjölmörgum, sætum og krúttlegum úlfhundum eftir svona tvo mánuði. 


Bjöllupyntingar, lestrarsýki, veðurguð og ófarðaðar jafnöldrur ...

DyrabjallaDyrabjallan hringdi klukkan hálfníu í morgun. Ég hoppaði í snarhasti framúr, greip sjúkrakassa, slökkvitæki og hlýtt teppi og svaraði lafmóð: „Halló, hver er þetta?“ „Já, bla bla læsti mig úti bla bla.“ sagði óskýr kvenmannsrödd í dyrasímanum. „Ha,“ hváði ég, enda heyrast yfirleitt ekki orðaskil í þessum dyrasíma. „...læsti úti ...bla bla,“ endurtók röddin. Í uppgjöf minni ýtti ég bara á opna. Ég þurfti sem betur fer ekki að byrja upp á nýtt að sofa, eins og komið hefur fyrir ef prinsessusvefn minn er rofinn, heldur nægðu þrír tímar til að ná þessu upp. Jamm, ævintýrin gerast heldur betur hér í himnaríki. Ég sem hélt að ég ætti fullkomna nágranna ... nema þetta hafi verið glæpakvendi, sölukona eða trúboði sem nýtti sér veikleika minn svona snemma morguns til að komast inn í stigaganginn. Ég heyrði þó engin öskur í ástkærum grönnum mínum svo líklega býr hún bara hér í húsinu en er örugglega aðkomumaður ... hehehe. Himnaríki er alltaf læst svo ekki komist syndarar inn, nema þá helst dauðasyndarar á borð við kaffi- og tertusjúklinga.

Síðasta uppgötvun EinsteinsMér tókst, þrátt fyrir mikla syfju í gærkvöldi, að ljúka bókinni Svartnætti. Hún var bara ansi skemmtileg og annar krimmi er kominn í lestur; Síðasta uppgötvun Einsteins. Hún er eftir Mark Alpert og lofar ansi hreint góðu. Ætli ég fórni ekki heilum Manchester-fótboltaleik kl. 15 í dag fyrir hana. Henni er af einum gagnrýnanda líkt við Da Vinci lykilinn nema eðlisfræði í stað myndlistar ... Aðrir gagnrífendur halda vart vatni og sá sem skrifaði eina frægustu ævisögu Einsteins, Walter Isaacson, sagði: „Vá, Einstein hefði orðið hrifinn af þessari bók!“ Ég reyni yfirleitt að láta svona ummæli ekki hafa áhrif á mig, sumum fannst t.d. Da Vinci Code ekkert sérstök og það gæti fælt þá frá ... Best að lesa og dæma bara sjálf.

MadonnaÞað er ansi haustlegt út að líta hér við himnaríki, alskýjað og smá öldur og bara yndislegt. Það var líka haustlegt veðrið í júní sl., minnir mig, þegar lægð heimsótti okkur. Ég trúi öllu sem veðurguðinn minn, Nimbus, segir um vetur, sumar, vor og haust og það er ekki komið haust, það er bara miður ágúst. Sem minnir mig á að óska jafnöldru minni, Madonnu, innilega til hamingju með afmælið í gær. Myndir af henni ófarðaðri hafa gengið um bloggheima og fólk hefur talað um hvað hún sé ljót! Myndin er reyndar ekki góð af henni, alls ekki, en mér finnst Madonna mjög flott kona.

Sjálf steingleymdi ég að hafa förðunaræfingu nokkrum dögum fyrir afmælið mitt og athuga hvort ég þyldi farða eftir sólbrunann agalega í júlí, þannig að ég Barn í afmælisgjöfsleppti öllu pjatti. Á myndum finnst mér ég heldur rjóð og óinterísant en verra hefði þó verið ef fésið hefði stokkbólgnað og afmælisgestir orðið hræddir, hlaupið út aftur og þá hefði ég ekki fengið allar þessar flottu gjafir. Skartgripir, föt, dekurkrem, baðbombur, bækur, lampi, blóm, listaverk, trefill með innbyggðri húfu, Radiohead-diskur, grifflur, peningar, gjafakort og fleira og fleira, að ógleymdu barninu þeirra Auðnu og Andrésar sem fæddist 10 mínútum áður en ég varð löglega fimmtug. Skyldi ég fá að velja nafnið á litlu dömuna?


Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 291
  • Sl. sólarhring: 307
  • Sl. viku: 1808
  • Frá upphafi: 1453683

Annað

  • Innlit í dag: 243
  • Innlit sl. viku: 1492
  • Gestir í dag: 234
  • IP-tölur í dag: 232

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Hálka
  • Sumardagurinn fyrsti 2024
  • Cartman

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband