Færsluflokkur: Enski boltinn

Ást og fótbolti

Ástin á tímum kólerunnarHef verið að lesa svo dásamlega bók. Endurlesa öllu heldur þar sem hún var að koma út í kilju. Ástin á tímum kólerunnar eftir Gabriel Garcia Marquez. Mögnuð ástarsaga um langa bið eftir elskunni sinni. Ég er nú sjálf svo trygglynd að það væri eflaust ekki mikið mál fyrir mig að bíða í fimmtíu og eitt ár, níu mánuði og fjóra daga eftir stóru ástinni minni. Alla vega ef ég fengi nóg af latte og góðum bókum til að þreyja biðina. Einu sinni á unglingsárum mínum vorum við pabbi í bíltúr og ég sagði honum frá nýjustu ástarsorginni. Löngu seinna sagði hann mér hvað honum hefði þótt fyndið þegar ég talaði um trygglyndi mitt gagnvart strák sem vissi varla af tilveru minni. Þetta hefur samt örugglega ekki verið sönn ást, annars væri ég enn að bíða ef ég þekki mig rétt. Þetta getur því ekki hafa verið maðurinn sem síðar varð fyrrverandi eiginmaður minn, við kynntumst á unglingsárunum. Eða hvað. Ó, kannski er ég ekkert trygglynd, heldur ein af þessum gleymnu glyðrum sem eltast við flottustu buxnaskálmarnar.

Oh+My+Nose+soccerHermann sigraði. Held að ég hljóti að hafa átt þátt í því á einhvern hátt. Fyrir misskilning var Stöð 2 Sport nefnilega opin hjá mér. Ég gerðist áskrifandi að stöðinni um páskana og þegar ég fattaði, þremur tímum seinna, að ég fengi ekki Formúlu og fótbolta á einni stöð hætti ég með hana. Gjaldið var þó dregið af mér um síðustu mánaðamót en það átti að ganga upp í áskrift að Stöð 2 núna næst. Þegar ég hringdi í ungan mann í þjónustuverinu um síðustu mánaðamót til að tékka hvort þetta yrði alveg pottþétt jánkaði hann því í algjöru áhugaleysi (eftir að hann heyrði kennitöluna mína) ... og gerði mig svo bara að áframhaldandi áskrifanda.

Ung, áhugasöm og frábær stelpa í þjónustuverinu lagaði síðan þennan misskilning áðan. Það hlaut eitthvað að vera og þetta er allt Þresti að þakka, athugasemd hans í kommentakerfinu við síðustu færslu. Það hefði orðið erfitt að leiðrétta þetta ef liðið hefði lengri tími. Kannski fæ ég mér bara Enska boltann næsta haust. Eða fer í fótboltaferðina langþráðu.


Ólæst úrslit ...

hreidarssonÞegar 32 mínútur voru liðnar af leik Cardiff og Portsmouth fattaði ég að hann var ekki í læstri útsendingu. Var bara að rúlla milli stöðva þar sem ég vissi hvort eð er að uppáhaldið mitt dytti út úr Idolinu ... sem ég hef þó sama og ekkert fylgst með. Staðan er 1:0 fyrir Hermann Hreiðarsson. Man ekki til þess að ég hafi séð þetta auglýst í ólæstri dagskrá en ég er svo sem ekki búin að sjá blöðin í dag, rétt að komast til meðvitundar. Kannski er heilsíðuauglýsing frá Stöð 2 Sport 2 þar sem segir að leikur sé ekki ruglaður. Ábyggilega.

Jæja, blogg jú leiter, ætla að horfa á leikinn.


Spádómarnir rætast hver af öðrum ...

V�lvaÞegar ég tók viðtal við völvu Vikunnar snemma í desember á síðasta ári sagði hún kokhraust að Manchester United yrðu Englandsmeistarar í fótbolta. Hún sagði líka að Valur og ÍA myndu berjast um Íslandsmeistaratitilinn nú í sumar, það á bara eftir að koma í ljós ... Hún sagði rétt til um lætin í borgarstjórn, eða að hún myndi falla.

Völvan fór ekki ofan af því að Obama yrði tilnefndur sem forsetaefni demókrata og að hann endaði sem forseti Bandaríkjanna, margt bendir til þess núna að hann sigri Hillary (snökt). Ég er ekki með blaðið við hendina og man ekki eftir meira í bili, nema því að hún heldur því fram að íslenska ríkisstjórnin falli. Hún var líka með það á hreinu það sem hefur verið að gerast í efnahagsmálum okkar, þótti ansi svartsýn en hvað hefur ekki komið á daginn? Ég lít reyndar á alla svona spádóma sem samkvæmisleik, eitthvað til að hafa gaman af ... og mikið rosalega hef ég gaman af hve margt hefur ræst hjá henni.


mbl.is Manchester United er enskur meistari 2008
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að næra flughræðslu, fara í nám, éta eldingar og prumpa þrumum ...

West-Ham-02Við erfðaprins höfum sett Englandsferðina á HOLD til hausts. Veltum ýmsu fyrir okkur, ekki bara fjármálum (hruni vegna okurviðgerðarábílreiknings), heldur líka því hvaða stemmning gæti mögulega verið í gangi í lokaleiknum hjá West Ham í maí. Nú eru þeir ekki í fallhættu, eins og í fyrra, og meiri möguleikar á bragðdaufum leik, ja, alla vega ekki jafnspennandi. Vegna þessa hefur erfðaprinsinn tekið upp fyrri iðju ... að horfa á hroðalega flugslysaþætti á National Geographic-stöðinni. Hann hafði ákveðið að geyma það þar til eftir þotuflugið yfir hafið en ... um að gera að næra svolítið flughræðsluna. Skrýtið að ástin á flugferðum hafi ekki erfst frá móður til sonar, eins og greindin, því mér finnst æðislega gaman að fljúga og t.d. fín stemmning í því að lesa flugslysabækur í flugi.

Annars skrapp erfðaprinsinn upp í fjölbrautaskóla í dag í viðtal hjá námsráðgjafa og ætlar í kjölfarið að skrá sig í fullt nám næsta vetur. Líst vel á þetta! Hann hefur alltaf átt auðvelt með að læra og nú mun það loks nýtast honum! Fórum til Maríu á Skrúðgarðinn á eftir og indverska súpan hennar var hreinasta snilld!

chuck-norrisHér kemur síðasti skammturinn af Chuck Norris-staðreyndum, alla vega í bili. Hef verið húkkt á honum undanfarið og ætla að taka DVD-mynd með honum á leigu fljótlega, auðvitað bara til að dást að honum.
- Chuck Norris spilar skvass með vöfflujárni og keilukúlu.
- Chuck Norris borðar eldingar og prumpar þrumum.    
- Chuck Norris notar Tabasco Sauce sem augndropa.
- Chuck Norris getur fengið fullt hús með aðeins einu spili.
- Chuck Norris þarf að nota staðgengil í grátsenum.
- Chuck Norris getur klofið atóm. Með berum höndum.
- Chuck Norris getur haldið niðri í sér andanum í níu ár.
- Chuck Norris getur látið lauk gráta.
- Chuck Norris elskar ekki Raymond. 
- Chuck Norris getur sleikt olnboga sína … báða í einu.
- Chuck Norris getur sparkað bíl í gang.
- Chuck Norris skilur endinn í 2001: A Space Odyssey.
- Þegar Chuck Norris borar í nefið finnur hann gull, í alvöru.
- Chuck Norris getur klappað með annarri hönd.
- Chuck Norris klippir táneglurnar með keðjusög.
- Auðveldasta leiðin til að aldursgreina Chuck Norris er að skera hann í tvennt og telja hringina.
- Chuck Norris veðjaði við NASA að hann gæti lifað af flug í gegnum lofthjúp jarðar án þess að vera í geimbúningi. Þann 19. júlí 1999 þaut hann nakinn inn í andrúmsloftið og á leiðinni yfir 14 ríki Bandaríkjanna náði hann 3.000 stiga hita á Celsíus. Skömmustulegir Nasa-menn sögðu fjölmiðlum að þarna hefði vígahnöttur verið á ferð og skulda Chuck Norris enn bjór.

Bókmennta- og fótboltablogg

lackbergAfar girnileg bók beið mín í póstkassanum í gær. Útgáfan á Akranesi (Uppheimar) sendi mér nýjustu afurð Camillu Läckberg, Steinsmiðinn. Ég byrjaði á henni í gærkvöldi og var strax mjög spennt en þurfti því miður að sofa í nótt ... las svo í dag fram að næstu truflun sem var leikur Manchester United-Arsenal heima hjá Míu systur. Er þó komin á bls. 383 af 444 svo hún klárast á eftir. Hrikalega spennandi og skemmtileg bók!

Arsene hjá Arsenal ...Er að pæla, ætli þjálfara Arsenal hafi verið gert að skipta um nafn þegar hann tók við liðinu á sínum tíma? 

Leikurinn fór að óskum fyrir MU-fólk og eiginlega fleiri því völvan okkar á Vikunni sagði í desember sl. að MU myndi sigra í úrvalsdeildinni nú í vor. Það væri flott að geta grobbað sig af því. Annars væri mun smartara ef Vikan héldi með Wigan. Hún sagði meira um fótbolta ... ma.a. að Valur og ÍA myndu berjast um fyrsta sætið hér! 


Of gott til að vera satt - hætt með Stöð 2 sport!

Við erfðaprins órökuð á páskadagsmorgni ... enÁskriftin að Stöð 2 Sport varði stutt. Var búin að hlakka ógurlega til að horfa á enska boltann á morgun, enda tveir stórleikir á dagskrá. Við erfðaprins biðum þolinmóð á meðan góða fólkið á Stöð 2 afruglaði hjá okkur en það gerðist hægt, nema á gömlu Sýn, þar var golf! (Hrollur) Ég sé helvíti fyrir mér sem heitan stað þar sem hnetumöndludöðlurúsínu-buff hlýtur að vera í matinn og beinar útsendingar frá golfmótum í sjónvarpinu allan sólarhringinn.

 ------        ----------    -----------      ------------     -----------

ErfðaprinsinnEftir tvo eða þrjá tíma hringdi erfðaprinsinn í s. 515 6100 að beiðni minni og fékk þær fréttir að enski boltinn væri alveg sér og pakkinn allur kostaði um 4.000 krónur. Skrýtið að konan hafi ekki minnst á það þegar hún seldi mér áskriftina. Ég hætti við allt saman. Eftir að hafa hlustað á fréttir Stöðvar 2 sannfærðist ég um að ég hafði gert rétt en þar kom fram að beina Formúluútsendingin verður órugluð kl. 6 í fyrramálið ... en EKKI í endursýningu um hádegisbil. Nú íhuga ég í fúlustu alvöru að skila inn afruglaranum og hætta að skipta við þetta fyrirtæki. Ég hef heyrt um nokkra aðila þarna úti sem lifa góðu og innihaldsríku lífi án þess að vera með Stöð 2. Ég hef verið tryggur kaupandi, eða M12 áskrifandi, síðan á níunda áratug síðustu aldar og er mjög þolinmóð að eðlisfari, núna er mér nóg boðið. Ég veit að bisniss er bisniss ... en þetta með Formúluna er hrein mannvonska.


Stormurinn byrjaður ...

Hviður á KjalarnesiVið erfðaprins ákváðum í morgun að skella okkur á bíó í bænum, Kópavogi of all pleisis, og sjá Gyllta áttavitann. Við vissum svo sem að það ætti að hvessa seinnipartinn en á straumlínulaga kagga kemst maður heim í meira roki en t.d. strætó sem fer ekki ef það eru yfir 30 m/sek í hviðum. Það voru ekki nema 17 m/sek hviður á Kjalarnesi skv. skiltinu í Mosó. Þar sem hviðumælirinn er staðsettur var ljómandi veður en þegar nær dró Hvalfjarðargöngunum og við vorum komin framhjá Grundahverfinu var orðið svolítið blint. Mun meira rok en mælirinn sagði til um feykti snjó yfir veginn og þurftum við að aka hægt og varlega. Svo sáum við nokkra bíla stopp þarna og greinilega hafði orðið árekstur. Einn bíll kominn út af. Vona innilega að enginn hafi slasast. Snilldarökumaðurinn, sonur minn, reyndi að gera bílunum á móti viðvart með því að blikka nokkrum sinnum háu ljósin og vonandi komst það til skila. Fórum til öryggis venjulegu leiðina heim á Skaga en hefðum átt að fara neðri leiðina. Heilmiklir hálkublettir á leiðinni og ekki mjög þægilegt heldur að vera með bíl í rassg... alla leiðina frá göngum. Nú á að fara að rigna og þá þarf að koma fyrir handklæðum og dagblöðum við svaladyrnar, gaman, gaman.

Lýra í Gyllta áttavitanumVið skemmtum okkur konunglega á myndinni, ég bauð prinsinum meira að segja í lúxussal, aldrei keypt mig inn á lúxussýningu áður. Það var ansi notalegt að liggja í leisíboj og maula poppið. Fína og fræga fólkið lét sig ekki vanta. Fyrir aftan okkur sátu Bubbi Morthens og sonur hans og í sömu bekkjarröð Einar Bárðar og elskan hún Áslaug, konan hans. Áslaug var fulltrúi Icelandair í blaðamannaferð sem ég fór í til Þýskalands fyrir nokkrum árum og reyndist alveg frábær. Gaman að hitta hana í hléinu. Eins og ég sagði þá var myndin frábær og mæli ég hiklaust með henni!!!

 ------     ------------        ---------     ---------       ---------

West HamRosalega hefði verið gaman að vera á leik MU og West Ham í dag, arggggg! Mig langar mikið að sjá þessi tvö keppa læf. Það stendur til að fara í West Ham-fótboltaferð til Englands eftir áramót, kannski í febrúar. Ég á miðana og ætla að bjóða erfðaprinsinum með, Mía systir og Sigþór, mávur minn, koma líka en Sigþór er formaður West Ham aðdáendafélagsins á Akranesi, jafnvel á öllu landinu.

Mía og Sigþór gáfu erfðaprinsinum svona treyju í jólagjöf. Ég fékk náttkjól frá þeim ... fegin að það var ekki nál og tvinni. Sjúkkittt! Erfðaprinsinn segir mér að þessi leikmaður sé kominn yfir í MU, sá hlýtur að vera spældur í dag ... múahahhahahaha ...  


mbl.is Stormi spáð á öllu landinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ofverndun Jónasar, landsliðslukkudýr og nýr bókmenntaþáttur ...

FótboltiFór í matinn hjá Míu og Sigþóri og það var eins gott því að Ísland vann Norður Írland, alveg eins og mágur minn hélt. Get samt ekki annað en vorkennt Írum, nú er von þeirra um að komast áfram úr sögunni. Sáum svo seinni hálfleik Englendinga og Rússa þar sem þeim síðarnefndu var slátrað ... við Sigþór rifjuðum upp leikinn Manchester United og Manchester City þegar landsliðsmarkvörðurinn okkar varði  fyrir síðarnefnda liðið ... ég slökkti á leiknum þegar staðan var 3-0 í hálfleik. Nagaði mig í handarbökin þegar ég heyrði fréttir næsta morgun. Þeir sem ekki muna ... Manchester City gerði allt vitlaust og skoraði fjögur mörk, vann leikinn. Okkar maður í markinu þeirra átti góðan leik. Mjög spælandi. Sigþór horfði einu sinni á svo spennandi fótboltaleik að hann hélst hreinlega ekki við og fór að taka til í garðinum. Það varð til þess að hans menn sigruðu, án efa West Ham, ættarliðið okkar í enska boltanum.
Mía sagði okkur frá hressum körlum sem hún fékk í tónfræðitíma til sín í dag, þeir sögðust vera vel inni í þessum málum og voru með g-strenginn á hreinu.

kollaNú er að hefjast bókmenntaþátturinn hans Egils Helgasonar, Kiljan. Mikið hlakka ég til. Kolbrún og Páll Baldvin verða vonandi í essinu sínu. Kolla hóf einmitt feril sinn sem gagnrífandi í bókmenntaþætti hjá mér á Aðalstöðinni sálugu. Síðan stal Pressan henni frá mér, þá RÚV ... og svo man ég ekki meira.

Keypti soldið sniðugt í dag, eða áskrift að vef hjá Eddu. Hef nú aðgang að orðabókum, Matarást Nönnu minnar, Kortabók, Nöfnum Íslendinga og fleira í gegnum svokallaðan vefvísi sem er neðst í hægra horninu á tölvunni minni. Meira að segja mér, tölvuónördinum, tókst að koma þessu áfallalaust í tölvuna mína. Þarf reyndar að tékka á því hvort ég megi líka skella þessu í vinnutölvuna mína ... efast samt um það. Ég borga nokkra hundraðkalla á mánuði fyrir þessa snilld. Nú þarf ég ALDREI að standa upp og fletta í bókum!

Himnaríki 260Hitti ryksuguR-óbótamanninn í morgun þegar hann afhenti okkur tækið sem verður í næstu krossgátuverðlaun. Eftir hádegi á morgun, fimmtudag, verður dregið úr réttum lausnum og ég ítreka þá von mína að einhver bakveikur sem þolir ekki að ryksuga fái hana. Mjög margar lausnir hafa borist nú þegar. Það þarf t.d.15 beljaka til að bera þær inn ... tvisvar á dag! Jamm. Pósturinn á alla vega eftir að koma tvisvar með lausnir áður en dregið verður. Mér heyrðist á góða róbótamanninum að hann ætlaði að gefa annan Jónas í verðlaun fyrir jólin!
Hann sagði mér að ég hefði ekki þurft að raða hlutum á gólfið hjá kósíhorninu (sjá mynd) til að Jónas lenti ekki í sjálfheldu, Jónas myndi sjálfur læra á þetta og bjarga sér. Nákvæmlega þarna fattaði ég elementið í mér sem hefur fengið mig til að bjarga erfðaprinsinum algjörlega að óþarfa í gegnum tíðina ... Ég hef líka verið svo stressuð vegna loftnetssnúra á gólfum og skellt hlutum fyrir, maðurinn átti ekki orð yfir mig, tækið væri einmitt snillingur í að hreinsa snúrur á gólfinu. Mikið er ég fegin að ég spurði hann út úr.

P.s. Er nokkurt fyrirtæki eftir í Kaupmannahöfn sem við Íslendingar eigum ekki? Nú er það sérstaklega tekið fram ef hús þar eru ekki í eigu Íslendinga ... við rúlum!


Drossíuför og lúmskur fótboltaþjálfari

Hver gengur með húfu ...Ring, ring, heyrðist í töskunni minni þar sem ég stóð úti á stoppistöð og beið eftir Tomma. Þetta var Ásta sem ætlaði á bíl í bæinn, henni leist ekki á veðurútlitið. Þrátt fyrir skammir Tomma í gær og fjarskammirnir sem hann skilaði frá Sigþóru um sviksemi okkar Ástu við strætó hoppaði ég heim í himnaríki eftir símtalið og bjó í rólegheitunum til tvo guðdómlega latte. Korteri seinna kom elskan hún Ásta á drossíunni. Ansi hvasst var á Kjalarnesi og rigningin var einstaklega blaut. Ekki skánar það þegar líður á daginn og morgundagurinn verður klikkaður! I love it!!!

Úti á stoppistöðNýja kápan/úlpan mín, sem Laufey gaf mér í afmælisgjöf, lítur út eins og sú gamla en er bæði hlýrri og vatnsheldari. Jómfrúrferðin hennar var út á stoppistöð og heim aftur í morgun. Algjör snilldarkápa. Ekkert gat á hægri vasanum sem ég gleymi alltaf að gera við vegna gleði minnar yfir því að komast heim ... eða í vinnuna! Svo er hettan líka góð, sem er fínt því að ég nota ekki húfu! Verð eins og vélsagarmorðingi í framan ef ég skelli einni á mig.

Sigþór, mágur minn, bauð mér í mat til þeirra hjóna í kvöld og að horfa á landsleikinn, held að hann líti orðið á mig sem lukkudýr í fótbolta. Ég byrjaði að halda með West Ham og sjáið bara hvernig gengið lagaðist í kjölfarið. Í vetur fer ég örugglega með Sigþóri og erfðaprinsinum í fótboltaferð til London. Hviss bang, búið, ferð, ekkert búðaráp og bull, bara hreinn og tær fótbolti. Vér Íslendingar sigruðum líka Spánverja á laugardaginn með jafntefli og ég var að horfa ... og verðum eflaust í stuði í kvöld!

Annars grátbið ég landsliðið okkar í fótbolta, sem les örugglega þessa bloggfærslu, að hlusta ekki á þjálfara N-Íranna. Hann þykist vera skjálfandi af hræðslu við okkur og sérstaklega Eið Smára. Sko, þetta er sálfræðihernaður, hann er með þessu að gera okkur öruggari með okkur svo að liðið hans geti rústað okkur. Ekki falla fyrir þessu. Hann er ekkert hræddur við okkur. Þetta er bæði kurteisi í honum OG LYMSKA!!!


Annir, flugur, keppni, verðlaun og menning

Alltaf gott að koma heim á föstudögum, sérstaklega eftir skemmtilega strætóferð með Tomma. Við höfum ansi líkan tónlistarsmekk og ef Magnús hefði ekki gefið mér King Arthur-diskinn með Rick Wakeman í afmælisgjöf hefði Tommi lánað mér plötuna (vínyl) og ég getað látið Bergvík afrita hana yfir á geisladisk.

West-Ham-02Þetta var vægast sagt MJÖG annasamur dagur, við vorum að ljúka við mjög djúsí blað (já, lögfræðingur hringdi og allt ... kannski fer ritstjórinn minn í fangelsi Police). Aukablað með geggjuðum uppskriftum fylgir líka næstu Viku ... Ritstjórinn fer í frí á mánudaginn og undirrituð þarf að leysa hana af í tvær vikur. Það verður bara spennandi, ég væri eflaust þrælstressuð ef ég ynni ekki með jafnmiklum dúndurkonum og ég geri. Velgengnin hefur verið slík síðustu mánuðina að við vorum verðlaunaðar, fengum gjafakort á tvo flugmiða með Iceland Express. Langar mikið að nota þá í að bjóða erfðaprinsinum í fótboltaferð til Englands í vetur. Það hefur verið draumur okkar að fara á leik, t.d. með West Ham, uppáhaldsliðinu okkar. Kannski skreppa til Katrínar í leiðinni!

FlugaÁ meðan sumir kljást við geitunga þessa dagana er allt fullt af stórum og pattaralegum fiskiflugum í himnaríki, ég sé alla vega eina núna. Mig grunar að þær komi mun fleiri inn yfir daginn þar sem kettirnir hafa sjaldan verið þriflegri. Þetta sparar mér gífurlega fjármuni í kattamat ... hvað er hollara en fljúgandi ferskt og stökkt sushi, fullt af próteini og vítamínum! Verð reyndar að viðurkenna að ef mér tekst ekki að bjarga viðkomandi risaflugu út þá tek ég fyrir eyrun áður en smjattið hefst, enda finnst mér smjatt einstaklega ógeðfellt hljóð ... bæði hjá köttum og mannfólki.

Katrín Snæhólm

 

Mig langar að benda á einstaklega skemmtilega keppni sem fram fer á bloggsíðunni hennar Katrínar Snæhólm, svona sögu- og ljóðakeppni. Hún hvatti gestkomandi til að semja ljóð eða sögur um myndir sem hún birti og nú keppist fólk við að tilnefna það sem því þykir best.

Er búin að lesa þetta einu sinni yfir og þarf að gera það aftur ef ég á mögulega að geta valið. Það er erfitt að gera upp á milli, kannski get ég það ekki.

Hélt að ég væri ekki mikil ljóðamanneskja en þar skjátlast mér, þarna eru fín ljóð. Tilnefningar/kosningin er ekki bara fyrir bloggvini Katrínar, heldur alla þá sem kíkja við á síðunni hennar. Hér er slóðin:  
http://katrinsnaeholm.blog.is/blog/katrinsnaeholm/entry/287784/#comments

MenningarkvöldMegi svo kvöldið verða gott hjá ykkur, krúsídúllurnar mínar. Held að mitt verði guðdómlegt. Fékk DVD-disk með fyrsta þættinum úr nýrri míníseríu sem byrjað verður að sýna á SkjáEinum í næsta mánuði og hlakka til að horfa á hann! Svona er nú hægt að sameina vinnu og skemmtun. Vissulega gæti einhver sagt að ég eigi mér ekkert líf en hamingjan liggur í litlu hlutunum ... Á morgun ætla ég t.d. að njósna með stjörnukíkinum um fólk sem djammar á menningardeginum hinum megin við Faxaflóa. Held að ég nenni ómögulega í bæinn og mun njóta þess í tætlur að horfa á t.d. flugeldasýninguna í gegnum stjörnukíkinn. Hér er þó ekkert til að borða nema landnámshænuegg og möffins síðan úr afmælinu, ég klúðraði helgarinnkaupunum algjörlega, neyðist líklega til að fara í einhverja Óeinarsbúð eða bensínstöð á morgun. Það vantar alla vega kattamat og mjólk út í latte!

Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 194
  • Sl. sólarhring: 286
  • Sl. viku: 2153
  • Frá upphafi: 1452353

Annað

  • Innlit í dag: 171
  • Innlit sl. viku: 1744
  • Gestir í dag: 164
  • IP-tölur í dag: 163

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • baby reindeer
  • Ove Otto
  • Gísli gerir Mart-einn

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband