Færsluflokkur: Kvikmyndir

Keðjubréf, bæjarferð, Rambo og blúnduhegðun

RuslpósturÞá er ég búin að fá 16 tölvupósta um að kaupa ekki bensín á sumum bensínstöðvum. Ég á ekki bíl! Ég fæ mjög reglulega senda raðpósta, brandara, áskoranir, keðjubréf og fleira. Stundum hef ég sent til baka: „Þetta var 23 bréfið um lífsbaráttu kvenna í Afghanistan, nú hlýt ég að fara að ná þessu!“ Jamm, ég held að ég sé að breytast í nöldurskjóðu. Þetta er ekki illa meint og hvernig á fólk sem ég á í litlum samskiptum við að vita að ég er nauðug á svona 200 póstlistum? M.a. hjá fólki sem ég þekki EKKERT! Ætla að vera jákvæð og hætta að líta á þetta sem ofbeldi. Alltaf gott að láta safna sér. Maður er a.m.k. ekki einmana á meðan maður eyðir t.d. tilkynningum um heppni sína í nígeríska lottóinu, já, það líka.

Í sumarbúðunumVið erfðaprins fórum í stutta bæjarferð í dag og ég kíkti aðeins við í vinnuna til að sækja mér blöð. Kvartaði við Vikugellurnar um misbrúnku handleggja og þær hlógu illgirnislega að óláni mínu. Nú fer sumarleyfinu að ljúka ... og líklega góða veðrinu líka. Samkvæmt veðursíðunni minni www.yr.no fer að rigna upp úr helgi. Hægt er að setja velflesta, kannski alla staði Íslands inn og á íslensku, og fá greinargóða veðurspá og langtímaspá. Á ensku eða norsku. Um daginn kíkti ég á „Kleppjárnsreyki“, þar sem sumarbúðirnar eru, (www.sumarbudir.blog.is) á síðunni og Bjartur og Sigþórspáð var rigningu ... en eintóm sól hefur skinið þar í bráðum þrjár vikur. Stöku skúrir og búið! Mun sannarlega sólbaðast hér á Skaganum á morgun ... og ætla að muna að hylja hægri handlegginn.

 

Við flýttum okkur heim fyrir leikinn ... sem var síðan ekkert rosalega spennandi. Vona að úrslitaleikurinn á sunnudaginn verði betri! Við flýttum okkur líka heim því að við héldum að Bjartur gestaköttur yrði sóttur í kvöld en Sigþór „pabbi hans“ hringdi snemma í kvöld og sagði að það yrði seinnipartinn á morgun (föstudag, já, ég er að blogga um miðja nótt)

RamboHér var horft á Rambo á vídjó í kvöld, rosaleg mynd. Mér fannst hún þrælgóð en þurfti nokkrum sinnum að loka augunum yfir ofbeldisfyllstu atriðunum. Einhver smá blúnda í mér.

Sense and sensibilitySá fyrr í vikunni Sense and Sensibility (BBC-þættina) og fannst það ekkert leiðinlegt. Einhver gömul væmni virðist vera að taka sig upp án nokkurrar ástæðu. Veit ekki hvar þetta endar. Þið hnippið kannski í mig kæru bloggvinir þegar ég fer að skrifa um fótbolta og Formúlu af viðbjóði!


Sumar á bið og hlaupandi feitabolla

Hvasst í MosóAnsi hvasst var á leiðinni frá Skaganum í morgun, við fukum til og frá Kjalarnesinu en hviður voru þó ekki mikið yfir 20 m/sek. Gummi bílstjóri stýrði okkur örugglega alla leið þótt hviðurnar tækju harkalega í á köflum. Á biðstöðinni í Mosó ákváðum við Lilja að sumarið væri á hold. Það var hvasst og kalt og eiginlega komið peysu- og vettlingaveður aftur. Ég lét veðrið þó ekki eyðileggja fyrir mér daginn, ég var nefnilega nýbúin að fatta mér til mikillar gleði að græna kortið mitt dugir akkúrat út þessa viku, eða til 06.06.08,en þá á Bubbi Morthens afmæli og ég byrja í sumarfríi.

Run fatboy runHorfði á mjög skemmtilega breska DVD-mynd í gær, Run Fatboy Run, og hló hástöfum að henni. Hún segir frá öryggisverði nokkrum sem yfirgaf ólétta konu sína við altarið fyrri fimm árum. ... Hann hittir son sinn reglulega og hefur ákaft reynt að vinna aftur hjarta konunnar. Hann fær sjokk þegar hún lendir á alvarlegum séns með öðrum manni. Sá er myndarlegur, í góðri vinnu og stundar ræktina. Hann stefnir meira að segja á að taka þátt í maraþonhlaupi eftir mánuð. Okkar maður, lúserinn, tekur til sinna ráða og ákveður að hlaupa maraþonið ... Ferlega skemmtileg mynd! Mjög fyndin og full af góðum og skemmtilegum leikurum.

Jæja, það verður nóg að gera í dag. Best að halda áfram að vinna. Megi dagurinn ykkar verða frábær og megi þessi ósk verða að áhrínsorðum. Ég er alla vega 50% góð í því, náði Svíaleiknum en klikkaði á ÍA-leiknum!


Að rústa Svíum, öðlast ofursjón ... og kvikmynd kvöldsins

Handbolti„Ætlar þú ekki að horfa á leikinn?“ spurði erfðaprinsinn um miðjan dag. „Æ, og láta Svíana rústa okkur, held ekki,“ svaraði móðirin. „HA?“ hváði erfðaprinsinn og himnaríki hrímaði. „Ég sagði að við myndum rústa Svíum,“ áréttaði ég með þjóðernisstolti í röddinni. „Vá, ég ætlaði að segja það,“ sagði prinsinn. Svona getur maður nú bjargað heiðri sínum á lymskulegan hátt og mögulega tryggt íslenska handboltaliðinu sigur með þessum áhrínsorðum. Það náðist myndbandsupptaka af þessu samtali. Tek fram að ég er afar ungleg í útliti og erfðaprinsinn ansi hreint karlalegur miðað við að vera á þrítugsaldri.

Ofursj�nFyrr sama dag:
„Sérðu einhverja breytingu á mér?“ spurði ég skömmu eftir hádegi. Erfðaprinsinn mændi á mig og svaraði neitandi. Ég hafði sett linsurnar í mig í fyrsta sinn í ábyggilega tvö ár en hann sá ekkert athugavert. Annars hef verið með arnarsjón í dag, sá m.a. bát úti á reginhafi og tilveran hefur á allan hátt verið mun skýrari. Er aðeins að hvíla mig á gleraugunum. Mér líður eins og súperhetju sem getur leyst upp málm. Spangirnar á gleraugunum eru farnar að særa mig á bak við eyrun, einhver málmhúð orðin löskuð. Ég setti límband þar rétt fyrir brottför í vinnuna á föstudagsmorgun og það var ekki fyrr en um hádegisbil sem einhverjum samstarfsfélaga varð að orði: „Það er límband í hárinu á þér.“ Held að til séu plasthlífar til að bjarga svona málum, fer í það síðar.

Hér kemur svo kvikmynd kvöldsins með texta fyrir þá sem skilja ekki mælt mál:

 


Bíóferð, laxveiðar og pistill Sigrúnar Óskar

ironmanVið erfðaprins brugðum okkur í bíó í dag og sáum Iron Man. Myndin er hin besta skemmtun og það fór ágætlega um okkur í SAM í Álfabakka þótt við tímdum ekki að fara í lúxussalinn, enda kostar slíkt 2.000 á mann. Annars hefur popp, kók og nammi hækkað svo mikið (veit þó ekki síðan hvenær) að það munaði minnstu að við næðum upp í lúxusmiðaverðið.

 ---     --------        --------        ----------         ---------        ---------

eurekaNáðum heim áður en Eureka byrjaði, nýr þáttur á SkjáEinum. Hann var skemmtilega spúkí. Annars er ég að lesa bráðskemmtilega bók sem heitir Laxveiðar í Jemen. Hún trekkir nú aðeins meira að en sjónvarpið þessa dagana þótt alltaf séu uppáhaldsþættir skoðaðir. Sem minnir mig á að Evróvisjón verður annað kvöld. Mikið vona ég að Ísland komist áfram. 

PalestinianRefugeeCampIraqSyria022708Langar að benda ykkur á frábæran pistil Sigrúnar Óskar, ritstjóra Skessuhorns. Hún hefur náð að kynna sér málið vel og nú er ljóst að annars veik "rökin" gegn því að bjóða flóttafólkið velkomið halda ekki lengur. Hún tætir þau í sig ... með sannleikanum.

http://adaltutturnar.blogspot.com/2008/05/flttamenn.html


Framtíðarflugróbótsmynd, Evróvisjón og áfram Noregur!

StealthÁkvað að horfa á eina hasarmynd fyrir svefninn. Fyrir valinu varð spennuframtíðarmynd á Stöð 2 um flugmannsróbót og ævintýri hans, Háloftaógnir heitir hún. Ætlaði að finna nafn hennar á ensku en um leið og klukkan slær 12 á miðnætti getur maður ekki skoðað laugardagsdagskrána á stod2.is þótt margir klukkutímar séu eftir af henni. Bara sunnudaginn. Stór galli að geta ekki kíkt aftur í tímann. Erfðaprinsinn bjargaði því!
Áhuginn á myndinni minnkaði jafnt og þétt en ég hélt áfram að hlusta með öðru. Þarna komst ég endanlega að því að orðið Lady er blótsyrði en mig hefur lengi grunað það. Fjórir orrustuflugmenn; róbót, kona, svartur maður og hvítur maður. Róbótinn var fastur við flugvél sína en ekki fólkið. Einu sinni á hlaupum út í vélarnar stoppaði konan við dyrnar að flugmóðurskipsþilfarinu, hleypti mönnunum á undan sér og sagði hæðnislega við þá: „Ladies first!“ Og þeir urðu voða spældir, samt svona í gríni. Hver vill láta líkja sér við konu?

Kyssilegt flugkvendiEkki held ég að konan hafi fattað að hún gerði þarna lítið úr helmingi mannkyns ... en hún fékk alla vega borgað fyrir það og svo samdi hún þessa setningu ekki sjálf, heldur einhver sem heldur að reynsluheimur kvenna sé eins og í LU-kexauglýsingunni, svona voða vitlausar, krúsílegar konur sem vita ekkert meira spennandi í lífinu en kexgetraun eða að horfa á rómantíska þætti, myndir og svona (þetta var líka lúmsk árás á Stöð 2 og SkjáEinn). Konur eru náttúrlega best geymdar í tilfinningasulli, þær heimta ekki jafnrétti og betri laun á meðan. En alla vega ... flugmannsróbótinn bjó yfir gervigreind og ákvað að gera árásir á ýmis skotmörk í stað þess að hlýða yfirmönnum, drap meira að segja flugmann númer 3, þennan svarta, í sjálfsvörn að vísu, það átti að eyða honum fyrir óhlýðnina. Flugmaður 2 þurfti að nauðlenda í Kóreu en flugmanni 1 tókst að tala róbótinn til svo hann varð voða góður og hjálpaði honum að bjarga flugmanni 2, konunni sem flugmaður 1 elskaði. Vondi yfirmaðurinn á flugmóðurskipinu reyndi að láta skapara róbótsins eyða öllum gögnum og líka að hefta för flugmanns 1.

Tók ekki alveg eftir því hvað gerðist næst en flugmaður 1 dreif sig í blálokin í að biðja um hönd flugmanns 2. Áður hafði hann farið á trúnó við flugmann 3 sem sagði honum að ef hann léti í ljós ást sína á henni myndi hann eyðileggja framadrauma hennar í flughernum því að tveir flugmenn mættu ekki vera saman þótt flugmaður 2 væri afar kyssilegur. Þetta var sem sagt hálfgerð femínistabeljumynd með undirliggjandi karlrembu. Hefði frekar verið til í Arnie eða Bruce ...

Alla leiðVeit ekki hvað erfðaprinsinum fannst um myndina en hann hafði alla vega aldrei séð hana áður. Eina sem stóð upp úr dagskrá kvöldins var Alla leið með Páli Óskari og dómurunum frábæru. Mikið er gaman að því hvað mikil stemmning er fyrir Evróvisjón. Ég hlakka hrikalega til á laugardaginn.

Nú rifjaðist fyrir mér að það er u.þ.b. ár síðan nágranni minn í risíbúðinni hinum megin kíkti í óvænta heimsókn sem olli því að Evróvisjónmaturinn minn brann aðeins og ég missti af byrjun söngvakeppninnar. Beiskjan er alveg horfin en ég ætla samt til öryggis að taka síma og dyrabjöllu úr sambandi á laugardaginn, vera með hlaðborð af mat handa okkur erfðaprinsi og köttum og njóta Evróvisjón í ræmur.

Aframmm NorgeÆtla að halda með norska laginu, næst á eftir því íslenska, af því að ég skrifaði þannig um Norðmenn í færslu nýlega að Norðmaður nokkur, búsettur á Íslandi, hélt að mér væri alvara. Norðmenn eru bara svo góðir að enginn trúir illu upp á þá og þess vegna liggja þeir vel við höggi.

Sögurnar sem strætósamferðakona mín sagði mér voru samt dagsannar ... en þær segja auðvitað ekkert um heila þjóð ... sem var misheppnaði djókurinn minn. 

Áfram Noregur!


Ófreskjur, ofsatrú og spælandi bókarendir ...

Klikkaður annadagur í dag. Enginn tími fyrir morgunblogg. Bara svo það sé á hreinu ... þá var ég ekki nálægt Rauðavatni í dag, heldur sat pen og prúð við tölvuna en sveitt af æsingi og stressi, skila, skila, skila ... var einkunnarorð dagsins. Annars hef ég ekki komist nálægt góðum óeirðum í langan tíma, ekki síðan það var útsala í Nínu síðast.

The MistÉg veit hreinlega ekki hvort ég eigi að mæla með eða vara við DVD-myndinni The Mist sem er gerð eftir sögu Stephens King. Eina orðið sem kom upp í hugann eftir að hafa horft á hana var SVAKALEG. Hún segir frá hópi fólks sem verður innlyksa í stórri verslun í þorpinu eftir að í ljós kemur að margt býr í þokunni ... Skrýtin upplifun, svona af ammrískri mynd að vera, þá stóð nokkrum aðilum þarna meiri hætta af ofsatrúaðri konu (nöttaranum, eins og Skessa myndi orða það) og vaxandi söfnuði hennar en af viðbjóðslegu skrímslunum sem biðu í þokunni eftir góðu mannakjöti ... úúúúú! Í myndinni I am legend fannst mér vera svolítill trúarlegur undirtónn, algjörlega óþarfur, þar sem fólk var varað við að fikta um of í sköpunarverki guðs, ósýnilega vinarins, eins og DoctorE myndi orða það. Tek það fram að ég les nú fleiri bloggsíður en þeirra ... þau lágu bara svo vel við „höggi“ núna. Erfðaprinsinn sá The Mist á undan mér og varaði mig við, samt lét ég freistast ... garggg. Í kvöld og á morgun verður bara eitthvert meinleysi í gangi í tækinu, Enchanted (Walt Disney) og Antonement. Þá get ég skrifað um þær í næstu Viku, ef þær eru skemmtilegar.

KuðungakrabbarnirSvo lauk ég við Kuðungakrabbana í gærkvöldi og hún er ÆÐISLEG!!! Hún endar þannig að það verður að koma meira, ljótt að fara svona með góða lesendur. Skrýtið að ég muni ekki eftir fyrri bókinni, Berlínaröspunum, verð að finna hana og lesa aftur. Líklega les ég of hratt, kannski of mikið, nei, það er ekki hægt að lesa of mikið, en ég get lesið sömu bókina eftir tvö ár og þótt ég muni sumt, þá nýt ég bókarinnar jafnvel og þegar ég las hana í fyrsta sinn. Þetta heitir án efa gleypugangur.


Kraftaverk óskast - bömmer í himnaríki!

my-super-ex-girlfriend-742515Kubbur og loftnetiðHvar eru rafvirkjar, sjónvarpsvirkjar og aðrir snillingar þessa lands þegar himnaríkisfrú og sárasaklaus erfðaprinsinn hennar verða sjónvarpslaus í miðri, bráðfyndinni mynd á laugardagskvöldi vegna sambandsleysis í útioftnetinu sem er reyndar staðsett inni? Hvers vegna datt erfðaprinsinum ekki fyrr í hug að fara í nothæft og almennilegt nám sem í lokin hefði bjargað svona stórvandamáli? Verður svo ekki Formúla í hádeginu ... bara til að ergja mann? Sjónvarpsloftnetið frá helvíti sést fyrir aftan Kubb á myndinni vinstra megin. Hinar myndirnar tengjast kvikmyndinni sem við vorum að horfa á þegar hryllingurinn skók himnaríki!

Og ég sem kláraði Sjortarann í dag, spennubókina nýju eftir Patterson ... argggg ........

Sumar konur taka uppsögn illaÞað var nefnilega þessi líka fyndna ástarmynd í gangi þar sem gæinn vogaði sér að segja dömunni upp og hún hefndi sín m.a. með því að fleygja grimmum hákarli inn um gluggann hjá honum og nýju kærustunni á 20. hæð í fínu íbúðinni þegar allt fraus.

Ég þori ekki fyrir mitt litla líf að fara með lítið skrúfjárn þarna ofan í þar sem snúran tengist í loftnetið (þar er vandinn), hræðist raflost meira en margt annað, eins og t.d. léttmjólk í kaffi og þá er nú mikið sagt. Nú þarf ekkert annað en kraftaverk ef þetta á að lagast. Bið um rosamikla samúð í kommentakerfinu og magnaðar tillögur að mögulegri viðgerð í fyrramálið.


Staðreyndir um Chuck Norris ...

Chuck Norris hatar hryðjuverkamennChuck Norris sefur aldrei- Einu sinni beit kóbraslanga Chuck Norris. Eftir fimm daga ólýsanlegar kvalir dó slangan.

- Chuck Norris getur barnað komu með augnatillitinu einu saman, líka karla.

- Chuck Norris leyfir Jackie Chan að lifa af þeirri einu ástæðu að hann hefur svo gaman að Chris Tucker-myndunum.

- Mr. T sigraði Chuck Norris einu sinni í lúdói. Í hefndarskyni fann Chuck Norris upp rasismann.

Klósettpappír Chucks Norris- Chuck Norris finnst gaman að vera í kanínuinniskóm í einrúmi á nóttunni. Úr lifandi kanínum.

- Þegar þáttur af Texas Ranger var sýndur í Frakklandi gáfust Frakkar upp fyrir Chuck Norris til öryggis.

- Einu sinni heimsótti Chuck Norris Jómfrúreyjar. Nú heita þær Eyjar.

- Þegar Chuck Norris gerir armbeygjur lyftir hann sjálfum sér ekki upp. Hann ýtir Jörðinni niður.

- Chuck Norris hefur komið til Mars og þess vegna finnst ekkert líf þar.

- Þegar skrímslið fer að sofa gáir það fyrst undir rúmið til að fullvissa sig um að Chuck Norris sé ekki þar.

- Tár Chuck Norris lækna krabbamein. Verst að hann skuli aldrei gráta.

- Chuck Norris sefur aldrei ... hann bíður.

Að lokum prumpubrandari:  - When Chuck Norris breaks wind, it stays broken.


Blessuð börnin ...

Íslensk börn hafa löngum verið talin ódæl og full virðingarleysis gagnvart öllu. Ekki má þó gleyma því að þau eru líka sjálfstæð, uppfinningasöm og kunna að bjarga sér, ólíkt mörgum útlenskum börnum sem kunna varla á klukku fimm ára. Ég las mér heilmikið til um barnauppeldi þegar erfðaprinsinn var lítill og blandaði saman vitneskju úr bókum á borð við Summerhill-skólann, Samskipti foreldra og barna, Hann var kallaður Þetta, Children of the Corn, The Shining og fleira. Þetta gerði æskuár sonar míns bærilegri en ella fyrir mig.

Í stað þess að flengja ...Það er t.d. algjör óþarfi að kalla barnið sitt „Þetta“ til að ná fram hlýðni þess. Mun sniðugra er að beita rödd og augnaráði á sérstakan máta. Það virkaði vel hjá mér. Engin óvirðing, engar flengingar.

Ég gerði reyndar ein mistök. Í augnabliksveikleika leyfði ég syninum að fara í Heimspekiskólann án þess að hugsa um afleiðingarnar. Á meðan ég hafði frið til að horfa á Santa Barbara síaðist eitthvað inn í kollinn á drengnum sem hefði getað verið skaðlegt. Um tíma tókst honum nefnilega að tala mig inn á ýmislegt, t.d. að fá ís á sunnudögum og slíkt. Í einum sunnudagsbíltúrnum okkar fann ég þó leið til að stöðva þetta væl og við höfðum held ég bæði gaman af.

Ég var alltaf frekar frjálslynd þegar kom að háttatíma, enda vissi ég að syfjupirringurinn bitnuðu á þessum nöldrandi kennurum hans og þegar hann var kominn heim seinnipartinn nægði hvasst augnaráð og rétt raddbeiting.

The ShiningÉg leyfði erfðaprinsinum líka að horfa á allar myndir í sjónvarpinu, ekki síst bannaðar. Slíkt herðir börn og kennir þeim að lífið sé ekki bara leikur. Svo sparaði þetta mér mikið fé. Eftir að hann sá Jaws bað hann aldrei framar um að fara í sund. Löngun hans í ferðalög til útlanda hvarf eftir að ég tók flugslysamynd á leigu, þessa sem gerðist í Anders-fjöllum. Hann borðaði heldur ekki kjöt í langan tíma á eftir. Auðvitað faðmaði ég hann ástúðlega og sagði að þetta væru bara bíómyndir en í huganum heyrði ég hringl í peningum.

Eftir að hann sá The Shining stríddi ég honum góðlátlega þegar ég vildi fá frið með elskhugunum og sagði: „Jæja, á ég að láta Jack Nicholson koma og elta þig?“ Mikið gat ég hlegið þegar þessi elska vaknaði stundum öskrandi og hélt í barnaskap sínum að það væri skrímsli undir rúmi og annað slíkt. Svo krúttlegt.

P.s. Mig grunar að það stefni í fallegar öldur seinnipartinn. Þær lofa þegar góðu. Hlakka til á flóði kl. 18. Ekki nóg með þá gleði, heldur sá ég í dagskrárblaði okkar Skagamanna að Sound of Music verður sýnd á Stöð 2 kl. 14 í dag og er að hefjast. Þetta getur ekki verið tilviljun! Góða sjónvarpsfólkið hefur fyllst ljúfri nostalgíutilfinningu við lestur bloggfærslu minnar um börnin í Sound of Music og hviss, bang, skellt myndinni á dagskrá!


Hvað varð um börnin í Sound of Music?

Krakkarnir í Sound of MusicEinu sinni fann ég dagblað í setustofu hótels á Írlandi með grein um afdrif barnanna sem léku í Sound of Music. Ég stal vitanlega blaðinu og hafði greinina til hliðsjónar þegar ég skrifaði um krakkaormana í Vikuna ... Mikil var gleði mín þegar ég komst að því að yngsta barnið, Gretl, var enn á lífi en þegar ég var lítil heyrði ég þá bullsögu að hún hefði orðið fyrir bíl þegar hún var á leið heim úr kvikmyndahúsinu eftir frumsýninguna og trúði því í áratugi. Setti réttan aldur leikaranna í dag innan sviga og síðan aldur þeirra þegar þau léku í kvikmyndinni.

Mynd: F.v. Kym Karath (Gretl), Debbie Turner (Marta), Angela Cartwright (Brigitta), Nicholas Hammond (Fredrerich), Heather Manzies (Louisa), Dunae Chase (Kurt) og Charmian Carr (Liesl).

Úr Sound of MusicSound of Music (1965) hlaut fimm óskarsverðlaun á sínum tíma og hefur halað inn himinháar fjárhæðir síðan. Aðalleikararnir voru Christopher Plummer og Julie Andrews. Börnin sjö sem léku í myndinni segja að myndin hafi breytt lífi þeirra og framtíð. Þau eru flest beisk yfir því hvernig farið var með þau fjárhagslega af kvikmyndafélaginu og segja að yfirmennirnir hafi haft af þeim milljónir. Smáa letrið í samningum þeirra innihélt m.a. klásúlu um að þau væru skyldug til að kynna myndina án þess að fá borgað fyrir það. Krakkarnir, sem nú eru orðnir 43 árum eldri, hittast reglulega, m.a. í Salzburg árið 2000. Viðtalið í írska blaðinu var einmitt tekið í tilefni af þeim hittingi og heimildamyndar um það sem var sýnd á ITV-sjónvarpsstöðinni í kringum 2000. Mikið hefði verið gaman að sjá þá mynd.

Í aldursröð SOMCharmian Carr (64) lék elsta barn Von Trapp greifa, Liesl, (21). Hún söng reyndar um að hún væri 16 að verða 17. Hún giftist tannlækni skömmu síðar og eignaðist tvö börn með honum. Hún skildi við hann seinna og lærði innanhússarkitektúr. Michael Jackson tónlistarmaður fékk hana í vinnu til sín, eingöngu vegna þess að hún lék í Sound of Music, sem er uppáhaldsbíómynd hans. Sjálfsímynd Charmian breyttist til hins verra eftir að hafa leikið í myndinni. Fyrir nokkrum árum gaf hún út ævisögu sína sem heitir Forever Liesl. „Ég gekk til sálfræðings í mörg ár og þurfti á þunglyndislyfjum að halda,“ segir Liesl. „Ég var á mörkum þess að vera barn og fullorðin þegar ég lék í myndinni og var oft rugluð í ríminu. Ég vissi varla hvort ég var Charmian eða Liesl. Ég var bundin af samningi við kvikmyndaverið og þurfti að auglýsa myndina. Ég var gröm út í Liesl fyrir að kaffæra mig. Reiði mín varaði í tíu ár en þá varð mér ljóst að fortíðin hyrfi ekki og að ég yrði að venjast þessu. Ég held að okkur þyki öllum að illa hafi verið farið með okkur fjárhagslega í gegnum tíðina. Myndin hefur halað inn ótrúlega mikla peninga.“

Nicholas Hammond (56) lék elsta soninn Friedrich (13). Hann nam ensku við Princeton háskólann og hélt síðan áfram að leika. Á áttunda áratugnum lék hann m.a. sjálfan Spiderman. Hann lék síðast í myndinni Lord of the Flies. Nicholas er fráskilinn og vinnur á sjónvarpsstöð í Ástralíu sem skrifari og framleiðandi. „Það er stórfurðulegt að koma aftur á þennan stað (Salzburg) sem ég á svona hamingjuríkar minningar um,“ segir Nicholas. „Sum okkar sögðust vera of upptekin eða nenntu ekki að koma hingað aftur. Ég sagði að þau myndu alla tíð sjá eftir því ef þau kæmu ekki. Við endursköpuðum eina senuna þar sem við marseruðum um hæðirnar og vorum orðin frekar „hrum“ til þess að leika börn. En þetta var reyndar mjög skemmtilegt. Ég efast um að við gerum svonalagað nokkurn tíma aftur. Við höfum gert svo mikið fyrir þessa mynd. Mér fannst viðeigandi að við hittumst bara sjö saman, án fjölskyldna okkar, á staðnum þar sem allt byrjaði.“

Heather Menzies (57 ára) og lék Louisu (14), næstelstu dótturina. Hún fæddist í Toronto í Kanada en foreldrar hennar eru skoskir. Hún giftist leikaranum Robert Urich árið 1975 og lék í nokkrum kvikmyndum, meðal annars Logan´s Run, áður en hún eignaðist börnin sín. Tveimur árum áður en hún gifti sig sat hún fyrir í Playboy, aðdáendum sínum til mikillar skelfingar. Hún er þriggja barna móðir. „Með því að koma hingað aftur er ég á vissan hátt að kveðja barnæsku mína,“ segir Heather. „Þetta hefur verið áhyggjulaus tími og ég komst í snertingu við barnið í sjálfri mér. Mér fannst þetta hjartnæm reynsla. Þegar tökum lauk á Sound of Music fannst mér erfitt að hefja venjulegt líf á nýjan leik. Ég var alltaf mjög feimin sem barn og skyndilega varð ég þekkt. Ég komst ekki upp með að vera feimin. Ég er mjög hreykin af því að hafa leikið í mynd sem hefur veitt mörgum svo mikla gleði.“

Duane Chase (56). Hann lék hinn óforbetranlega Kurt (13) og bauðst hlutverkið eftir að hafa komið fram í gamanþætti í sjónvarpi. Hann lék nokkur lítil hlutverk þar til hann varð 18 ára og útskrifaðist sem jarðfræðingur. Hann er kvæntur og er hönnuður tölvuhugbúnaðar fyrir jarðfræði í Seattle. Á meðan hann var táningur og ungur maður neitaði hann að tala um hlutverk sitt í Sound of Music og reyndi að dylja fortíð sína. „Þetta var bara allt svo yfirgengilega mikið,“ segir Duane. „Það var ekki eins og ég væri ekki hreykinn af því að vera með í myndinni heldur ofbauð mér það sem fylgdi í kjölfarið. Það var einum of mikið. Ég lék seinna í myndinni Follow Me Boys með Kurt Russel en ég fann það út að mig langaði ekki að verða leikari. Ég flutti frá Los Angeles og fannst áhugaverðara að berjast við elda sem slökkviliðsmaður. Núna er Sound of Music komin á stall sem stórmynd, við höfum skráð nafn okkar í stjörnurnar og það er enn verið að braska með okkur.“

Angela Cartwright (55) lék Brigittu (12). Hún var barnastjarna í sjónvarpsþáttunum Make Room for Daddy þegar henni bauðst hlutverkið. Hún hélt áfram að leika, lék m.a. í seríunni Lost in Space og er enn að. Hún er gift, á tvö börn og rekur gjafavöruverslun í Los Angeles sem er einnig á Netinu. „Að hittast svona aftur og gera þessa heimildamynd var svo gaman og við Heather erum orðnar góðar vinkonur,“ segir Angela. „Þetta var eins og að fara í sumarbúðir með bestu vinkonu sinni. Ég er búin að horfa á Sound of Music mörg hundruð sinnum og kann hana utan að. Foreldrar mínir gættu þess þó að þetta stigi mér ekki til höfuðs. Núna, eftir 35 ár, hafa sum okkar íhugað að fara í mál við kvikmyndafélagið því okkur finnst að greiðasemi okkar hafi verið misnotuð. En við teljum öll að við séum lánsöm að hafa leikið í kvikmynd sem hefur haft svona mikil áhrif.“

Debbie Turner (50) lék Mörtu (7). Hún hefur leikið í fjölmörgum sjónvarpsauglýsingum og verið fyrirsæta frá barnsaldri. Eftir að hún útskrifaðist úr framhaldsskóla í Kaliforníu vann hún á fjölsóttum skíðastað þar sem hún hitti manninn sem hún giftist. Þau eiga fjórar dætur. „Eftir að ég lék í myndinni fór ég í nokkur hæfnispróf en fékk engin hlutverk. Sá orðrómur gekk að það ætti ekki að ráða okkur, börnin úr myndinni, því það ætti að halda okkur „hreinum“. Þetta gerir mig frekar hrygga en grama. Ég hef alltaf verið miðpunktur athyglinnar síðan ég lék í myndinni. Ég eignaðist fáa vini því krakkar rugluðu mér saman við persónuna sem ég lék. Myndin hefur þó haft jákvæð áhrif líka. Við Angela hittumst 10-15 árum eftir að myndin var gerð og höfum verið nánar vinkonur síðan. Við Heather förum stundum saman á skíði og við Charmian deilum sömu viðskiptavinum.“

Kym Karath (48) er yngst í hópnum. Hún lék krúttið Gretl (5). Hún hafði þá tveggja ára reynslu í leik og hafði m.a. leikið í Spencer´s Mountain með Henry Fonda. Síðar lék hún í sjónvarpsþáttum eins og Dr. Kildare og Lassie. Hún menntaði sig í fornmenntum og hugvísindum og býr ásamt 16 ára syni sínum í New York. „Ég kom aftur til Salzburg með systur minni þegar ég var 18 ára,“ segir Kym. „Systir mín fékk mig til að koma með sér í svokallaða Sound of Music-ferð. Hún lofaði að segja engum frá því hver ég var en hún blaðraði því í fararstjórann sem lét það ganga. Ég heyrði fólk hvíslast á í kringum mig og segja að það gæti ekki verið að þetta væri Gretl litla, ég væri allt of gömul til að geta verið hún. Ég átti erfiðast með að takast á við aðdáendur myndarinnar á sínum tíma. Nokkrir þeirra gjöreyðilögðu t.d. sjö ára afmælisveisluna mína. Mér finnst ég afar tengd hinum „börnunum“ í myndinni. Við erum hluti af sömu heild.“

Með Julie Andrews sjálfri 2005


Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 213
  • Sl. sólarhring: 366
  • Sl. viku: 1730
  • Frá upphafi: 1453605

Annað

  • Innlit í dag: 188
  • Innlit sl. viku: 1437
  • Gestir í dag: 186
  • IP-tölur í dag: 183

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Cartman
  • Cartman
  • Ömmukaffi

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband