Færsluflokkur: Matur og drykkur

Lestur, vinna, spælandi kökuferð og blessað boldið

GönginHér í himnaríki hefur bara verið unnið og lesið. Las skemmtilega barnabók, svolítið óvenjulega, Funhildur heitir hún, er búin með Guðmund Andra, dásamleg bók alveg, er svo með tvær í takinu núna, glæpasöguna góðu eftir Jón Hall og ævintýralega unglingabók sem heitir Göngin. Ég hef varla tíma til að vera til, hvað þá hafa magasár yfir kreppunni. Aumingja sjónvarpið, ég vanræki það þvílíkt, eins og bloggið, en ekki boldið. Og auðvitað ekki Kiljuna sem var mjög skemmtileg að vanda í kvöld.

KakaSvo var ég aðeins á ferðinni í dag með ljósmyndara sem myndaði glæstar tertur í kökublaðið okkar sem er í undirbúningi en þar sem voru döðlur í öllum kökunum og hnetur, möndlur og rúsínur, ásamt döðlum í einni var þetta ekki fitandi ferð. Síður en svo, eiginlega bara frekar spælandi kökuferð.

 

TaylorLitla stúlkan með engilsásjónuna, Alexandría, eyðilagði brúðkaup föður síns, Thorne, og væntanlegrar stjúpmóður, geðlæknisins Taylor, (sem drap óvart mömmu hennar með því að keyra drukkin á hana) með því að klippa brúðarkjólinn í tætlur sem fattaðist nokkrum mínútum fyrir athöfnina. Hún fékk faðmlag fyrir og var sagt að hún væri bara ekki tilbúin. Ef þarna er ekki verið að búa til fjöldamorðingja framtíðar þá veit ég ekki hvað. Forrester-fjölskyldan hélt blaðamannafund og sagði frá nýstofnaða tískufyrirtækinu og Nick, sem á núna gamla Forrester-fyrirtækið, horfði stjarfur af reiði á þetta í sjónvarpinu. Hann sagði mömmu sinni að hann ætlaði að ná sér niðri á þeim með afdrifaríkum hætti. Svo man ég eiginlega ekki meira. Nú er það bara upp í rúm að sofa og hlakka til spennandi strætóferðar í fyrramálið.


Magnaðar móttökur í molli, barnaspælingar, nýju bankastýrulaunin og örbold

kringlan_700966.jpgAuðvelt var að fá bílastæði við Kringluna í dag, enda ekki jafnmargir á sveimi þar og síðast þegar ég kom þangað. Það er algjör misskilningur að okkur Íslendingum, múslimum norðursins, mæti alls staðar slæmt viðmót vegna ábyrgðarlausra gjörða okkar í heiminum, stelpan í sjoppunni í Hagkaup, útlensk og allt, var ekkert nema almennilegheitin. Sama má segja um starfsfólkið í Kaffitári þar sem við vinkonurnar fengum okkur sjúklega góðan latte. Þótt ég hafi dregið saman seglin, eins og flestir Íslendingar, ætla ég ekki að sleppa því að fá mér gott kaffi í kreppunni og sá að margir hugsa á svipaðan máta, biðröð myndaðist hratt fyrir aftan okkur og setið var við flest borð. Maður á að vera góður við sig! Mikið langaði mig að vera ofsagóð við mig og kaupa bol í rekka með öðrum góðum bolum en á honum stóð: Börnin eru það dýrmætasta sem við eigum núna, seljum þau!

BankarnirJamm, svo heyrði ég því fleygt að hámarkslaun í bönkum núna séu 950 þúsund (bankastýra) á mánuði í stað 70 milljóna eða svo. Algeng laun millistjórnenda innan við hálfa millu og síðan fengi venjulegt bankafólk talsvert lægra að vanda. Það fékk mig til að hugsa um góðærið sem svo margir tala um að hafi ríkt hérna. Mig minnir, leiðréttið mig ef mér skjátlast, að t.d. ræstingafólk, fólk sem vann við umönnun barna eða aldraðra, margt skrifstofufólk, verkafólk eða hreinlega stór hluti íslensku þjóðarinnar hafi lapið dauðann úr skel, launalega séð. Eini munurinn var sá í góðærinu að flestir gátu fengið lán, lán sem þarf samt að borga til baka með vöxtum og verðtryggingu. Ég er svo fegin að iðnaðarmaðurinn minn sveik mig/gleymdi mér. Ég ætlaði að gera breytingar á baðinu og í eldhúsinu. Eldhúsbekkurinn við vaskinn er t.d. ónýtur vegna vatnsleka (áður en ég flutti inn), blöndunartækin nánast ónýt og fleira. Allt komið á HOLD, enda er himnaríkið mitt algjört himnaríki þótt það sé ekki „fullkomið“ í augum einhverra og Innlit-Útlit myndi ekki láta sjá sig hjá mér.

Jackie ræðir við erkióvininn StefaníuGat ekki horft á allt boldið en ... Jackie og Nick eru náttúrlega í rusli yfir uppákomunni á tískusýningunni og Nick eðlilega ógurlega sár út í geðþekka geðlækninn Taylor sem lét hann rifja upp hræðilegu minningarnar um æskuna þegar Jackie, mamma hans, seldi sig ... og fyrir að snúa svo baki í dyrnar þegar hún las þetta inn á segulband sem gerði Stefaníu, erkióvini Jackie, auðvelt fyrir með að hlusta. Taylor er svo reið yfir þessu öllu að líkurnar á því að hún giftist Thorne, syni Stefaníu og bróður Ridge sem hún var einu sinni gift og á öll börnin með (Tómas og tvíburana), eru nú sáralitlar.

Hnakkus - skyldulesning:

http://hnakkus.blogspot.com/2008/10/leiarvsir-fyrir-reia-og-rvillta.html#links

 


Reykt ýsa, heimsókn til Línu og jólastemmning í boldinu

ÝsaÞað fór sem eldur í sinu í vinnunni að það yrði reykt ýsa í hádeginu, risotto sem grænmetisréttur og sitt sýndist hverjum. Nokkrir hlupu upp í Taí-matstofu og var ég ein af þeim. Fékk kúfaðan disk af alls kyns gómsætum taílenskum réttum og borgaði 1.000 kall fyrir. Alveg þess virði til að sleppa við ýsuhelvítið og halda samt fullum starfskröftum.

Ella, Inga og LínaKíkti á Línu við heimkomu og var mikið fjör á heimilinu að vanda. Ella og Kjartan kíktu með Eygló skömmu seinna. Strákarnir „mínir“ eru í skólanum á fullu og líkar mjög vel, litla snúllan er ekki jafnhress þegar hún þarf að kveðja mömmu í leikskólanum en það er bara eðlilegt, Ella sagði henni að hálfum mánuði eftir að Eygló hennar byrjað í leikskólanum hefði hún einn daginn sagt bless, ekkert vesen lengur og þá var það eflaust mamman sem skældi af söknuði. Nadeen á viku í það. Lína er byrjuð í íslenskunámi líka og segir það mjög skemmtilegt. Hún er að læra muninn á framburðinum á sérhljóðunum og ... úff, hvað íslenskan er nú flókin fyrir útlendinga, sá það eitt augnablik með augum hennar. Framburðurinn mun samt greinilega ekki vefjast mikið þeim, fannst mikið til um þegar strákarnir spurðu mig á góðri íslensku: „Hvað heitir þú?“ Svo spurði ég þá að nafni og þeir svöruðu: „Ég heiti ....“ og svo komu nöfnin. Strákarnir eru bæði í sundi og fótbolta, alsælir. Þeir fóru einmitt í sund áðan með vinum sínum. Lína bauð okkur upp á safa og nammi, núna er ramadan búið og þriggja daga „jól“ standa yfir. Þegar við kvöddum var Inga einmitt að koma heim úr vinnunni, en hún býr í sama húsi og Lína. Myndin hér að ofan er af Ellu, Ingu og Línu, tekin um daginn þegar túlkarnir komu og við gátum talað saman af hjartans lyst, engin leikræn þjáning þar á ferð.

Vertu úti, kerlingNú eru líka jólin hjá Forrester-fjölskyldunni og Stefanía heldur hjartnæma ræðu um leið og hún segir „Gjörsovel“. Hún talar um fjölskyldugildin og þá ást sem hún beri til barna sinna, eiginmanns og annarra ástvina. Þá hringir dyrabjallan. Úti stendur móðir hennar og óskar henni gleðilegra jóla. „Hvað ert þú að gera hér?“ spyr Stefanía og útihurðin hrímar. „Jólin eru tími fjölskyldunnar,“ segir mamma hennar ámátlega. „Vertu úti!“ skipar Stefanía og er algjörlega ósveigjanleg. Fjölskylda er ekki sama og fjölskylda.

Darla heitin og ThorneAndi Dörlu heitinnar er á sveimi í kringum Thorne og littlu dóttluna og er Darla heitin alsæl með hversu hamingjurík jól dóttir hennar upplifir. Eftir þennan þátt er greinilegt að það er líf eftir dauðann.


Einmana, vinalaus Suri Cruise (2), Sunday Rose NicholeKidmansdóttir og fleira ...

Kjalarnesi í morgunAftur bílfar í morgun sem var dásamlegt í kuldanum sem var þó ögn minni en í gær. Kannski maður sé bara farinn að venjast honum. Strax við sætukarlastoppistöðina byrjaði Ásta að hundskamma MIG fyrir ástandið í þjóðfélaginu. Hún horfði ásakandi á mig, en ekki VEGINN, þegar hún talaði um uppsagnirnar í byggingariðnaðinum, meðferðina á Glitnismönnum og önnur stórmál. Ég náttúrlega sturlaðist og benti henni ókurteislega á að flest mál hefðu tvær hliðar og ég myndi nú fara varlega í að gleypa allar samsæriskenningar strax. Okkur ætti nú að hafa lærst að trúa ekki orði af því sem heyrðist t.d. í Kastljósi, sæist í DV, Lögbirtingarblaðinu og Morgunblaðinu eða kæmi frá forsætisráðuneytinu. Við vorum farnar að slást í Kollafirði og ef Ásta hefði ekki sett plötuna hans Páls Óskars í græjurnar í bílnum veit ég ekki hvernig þetta hefði endað. Það er svo skemmtilegt að vera ósammála síðasta ræðumanni. Ef stjörnumerkjasjúk vinkona mín vissi af þessu myndi hún segja að ég væri Vog. Það er nú ekki rétt, ég er virðulegt Ljón.

Þetta gæti alveg verið sönn saga hjá mér, nú eru öll skúmaskot notuð til að ræða ástandið í þjóðfélaginu, meira að segja bíll á leiðinni frá Akranesi til Reykjavíkur klukkan rúmlega hálfsjö að morgni þegar allt heiðarlegt fólk steinsefur og það með peningana undir koddanum. Nei, við Ásta rifumst ekkert í morgun nema hún spurði mig hvort ég væri Sjálfstæðismaður! Ég argaði úr hlátri og sagðist vera ópólitísk, hefði reyndar kosið alla flokka einhvern tíma og væri einna montnust af kjöri mínu á Framsókn á níunda áratug síðustu aldar, þegar sómakonan Ingibjörg Pálmadóttir komst að á Skaganum og varð síðar heilbrigðisráðherra sem leið yfir í fangið á Össuri, þarna þið munið. Fannst líka gaman að kjósa Vigdísi Finnbogadóttur sem forseta og Ingibjörgu Sólrúnu sem borgarstjóra ... Jú, auðvitað hef ég kosið karla líka, enda eru karlmenn upp til hópa gjörsamlega frábærir.

Skrapp í Kaffitár í morgun með morgunhressri vinkonu og keypti latte, líka handa samstarfskonu minni sem kemur alltaf til vinnu kl. 8 á morgnana. Hún var ögn seinni til vinnu en vanalega, þurfti ein að standa í því að koma fjórum börnum í skóla og leikskóla. Þetta er reyndar svo gott kaffi að það er hægt að drekka það volgt, jafnvel kalt. Svo verður það hádegisverður með annarri vinkonu á Asíustaðnum hérna í Hálsaskógi. Þvílíkt lúxuslíf. Tek það fram að kúffullur diskur af þremur réttum að eigin vali kostar 1.000 kall sem er oggulítið meira en máltíðin kostar í mötuneytinu.

Suri og mammaSunday Rose í mömmubumbuSéð og heyrt var að koma í hús ... Jón Ólafsson, vatnskóngur og athafnamaður, er á lausu, en Mummi í Mótorsmiðjunni er genginn út ... enn og aftur.  Nichole Kidman eignaðist dóttur á dögunum og þakkar það töfravatni, eða sundspretti sem hún tók í Kununurra-vatni í Ástalíu ... Ég hélt einhvern veginn að kynlíf væri galdurinn við að búa til börn. Dóttirin heitir frekar sakleysislegu nafni, svona miðað við tilgerðarlegar og stórundarlegar epla- og appelsínunafngjafir þekkta fólksins. Hún ber nafnið Sunday Rose. Svo er dóttir Kate og Tom, litla Suri Cruise (2), víst mjög einmana og vinalaus, hefur ekki einu sinni lært að deila dótinu sínu með öðrum börnum. Eiríkur Jónsson horfði á Opruh Winfrey í gærkvöldi og það finnst mér langstærsta frétt dagsins. Þetta er aðeins of "kvenlegur" þáttur fyrir mig, hvað er í gangi með hann Eirík?

Vikan er helguð brjóstakrabbameini, eða forsíðuviðtalið og aðeins fleira, við gerum þetta alltaf einu sinni á ári, gott málefni til að vekja athygli á. Forsíðumyndin er af konu, sem er ber að ofan, en annað brjóstið var tekið af henni, andlitið ekki sýnt. Foríðuviðtalið við hressa ömmu og  Í Galdrahorninu eru nokkrar Feng Shui-ráðleggingar, t.d. hvernig á að laða að sér velmegun ... finna ástina, finna góða vinnu og breyttu óvini í vin og hræðilegum nágranna í fínan granna ... hehehhe. Alltaf gaman að Feng Shui. Lífsreynslusagan er mjög djúsí, segir frá konu sem dreymdi skrýtinn draum þegar hún var 14 ára, eða að hún sæti í farþegasætinu við hlið bílstjórans í rauðum bíl, þrjú börn aftur í. Henni fannst hún eiga þennan mann og börn og vera um þrítugt. Bílslys varð þar sem hún dó í draumnum ...  Jamm, svo mundi hún eftir þessu þegar hún var um þrítugt í raunveruleikanum og þá hafði sitt af hverju gerst, eiginmaður og þrjú börn í dæminu ... Ómissandi blað!!!

Vona að dagurinn ykkar verði góður, eiginlega bara frábær! Farin að vinna, vinna, vinna!


Hollusta og hressleiki í himnaríki

HollustudótiðFyrir u.þ.b. hálfum mánuði hóf ég nýtt líf, eða þannig, og byrja hvern morgun (nema þann þegar ég svaf yfir mig í rafmagnsleysinu) á því að fá mér hollustumorgunverð. Var bent á nokkuð sem heitir Beyond Greens og fæst í Heilsuhúsinu. Ég set matskeið af þessu í eplasafa og drekk með bestu lyst. Skelli reyndar fyrst í mig skeið af lýsi, eða Udo´s 3-6-9 olíublöndu og kyngi henni með hjálp fyrsta sopans af Beyond Greens-dæminu. Þetta, ásamt vítamíninu sem á m.a. að efla kynhvötina (grrrr), hefur sannarlega haft góð áhrif á ekki lengri tíma. Nú vakna ég ekki á morgnana, heldur glaðvakna og er svo miklu hressari. Bjúgurinn, sem hefur angrað mig síðan ég var rúmlega þrítug og fékk óverdós af fúkkalyfjum, er að hverfa en mér hefur verið meinilla við að taka bjúgtöflur síðan ég las á fylgiseðlinum að þær gætu verið slæmar fyrir hjartað. Man eftir lækni sem starði vantrúaður á mig stokkbólgna af bjúg og sagði mér að niðurstöður viðamikillar blóðprufu hefðu sýnt að ég væri við frábæra heilsu.

Kubbur bókaormurÉg hef reynt að finna mér eitthvað hollt og gott í morgunmat í gegnum tíðina en ekki verið alveg sátt við neitt til þessa. Nú held ég að ég hafi loksins dottið ofan á eitthvað sem mér finnst gott og hefur líka góð áhrif. Í þessu eru m.a. fitusýrur, trefjar, næringarefni og meltingarensím. Auðvitað væri best að fá þetta allt úr úr fæðunni en ég þekki sjálfa mig, viðurkenni að ég hef allt of oft látið grænmeti og ávexti skemmast í ísskápnum. Gæti reyndar trúað að þessi morgunmatur sé helmingi dýrari en sá sem ég get fengið í mötuneytinu á 88 krónur (grænmeti/álegg án brauðs) en þessi gerir mér svo miklu betra. Ég finn líka fyrir minni sykurlöngun sem er bara frábært. Finnst ég hafa grennst, alla vega misst bjúg ... en þar sem ég lít á baðvigtir sem uppfinningu andskotans þá get ég ekki vitað með vissu hversu mikið.

Þetta er kannski leið letingjans að betri líðan en hver veit nema þetta verði til þess að ég fari stútfull af orku að elda sannkallaðar hollustumáltíðir á hverju kvöldi, ekki bara stundum.

Ég prófaði einu sinni Herbalife og fylltist gríðarlegri orku, eftir tvær vikur var ég farin að strauja þvottapoka og það straujar enginn þvottapoka ... en svo voru pillurnar sem fylgdu með bannaðar, þær virkuðu víst eins og argasta amfetamín. Ég á reyndar einn dunk af Herbalife núna og mun ábyggilega fá mér stundum úr honum til tilbreytingar.

Það allra besta væri auðvitað að eiga mann sem væri karlkynsútgáfa af Sollu í Grænum kosti ... en þangað til ég finn hann þá held ég mig við þetta. Hef meira að segja séð vítamínið til sölu í Einarsbúð.


Óveðrið Ágúst Ólafur?

Lekur gluggiÉg get ekki að því gert en ég fyllist alltaf miklum spenningi þegar von er á vitlausu veðri. Eini gallinn er sá að opnanlegu fögin í gluggum himnaríkis eru ekki vatnsheld frekar en nýju fínu svaladyrnar. Samt spennandi. Kvöldverkin verða því þau að troða eldhúsrúllubréfum til að þétta þau opnanlegu og setja handklæði í gluggana fyrir neðan. Búist er við snörpum hviðum á Kjalarnesi, enda austanátt í kortunum og því verður kannski bara klikkað fjör í bílnum með Ástu upp úr kl. 6.30 í fyrramálið. Mikið er gott að búa á Íslandi þar sem allra veðra er von. Hugsa þó með samúð til blaðberanna sem þurfa að berjast með dagblöðin til okkar fréttafíklanna eldsnemma í fyrramálið. Væri ekki sniðugt að nefna óveður vetrarins (þetta veður telst varla með þar sem enn er sumar) eftir alþingismönnunum okkar? Það koma varla fleiri lægðir en 63 á einum vetri, eða hvað ... Ja, ef við byrjuðum t.d. núna, svona til öryggis, þá gæti óveðrið sem hefst í nótt gengið undir nafninu Vatnsveðrið Arnbjörg Sveinsdóttir, það næsta Fellibylurinn Atli Gíslason, (ef t.d. leifar Gustavs berast hingað) þá Óveðrið Ágúst Ólafur Ágústsson o.s.frv. Annars væri auðvitað snjallara að nefna þetta veður sem skellur á í nótt Ágúst Ólaf af því að það er enn ágústmánuður.  

Ýsa var það, heillinSoðin ýsa var í hádegismat í mötuneytinu í dag, bara skrambi góð með „karpullum“ og bræddu smjéri. Ekki skemmdi fyrir að Davíð, ástkær frændi minn og systursonur, var borðherrann minn.

Davíð hóf nýlega nám í Kvikmyndaskólanum sem er staðsettur á hæðinni fyrir ofan mig í Hálsaskógi og líst ótrúlega vel á námið.Við hámuðum í okkur fiskinn og salat og skiptumst á fréttum um frábæru fjölskylduna okkar. Bara jólin.

 


Aldeilis ósléttar kaffifarir eftir vinnu í gær ...

LatteVið Ásta vorum komnar í Hálsaskóg kl. 7.05 í morgun og með þessu áframhaldi verðum við mættar í vinnuna í kringum miðnætti þegar desembermánuður gengur í garð. 

Við stöllur ætluðum að gera vel við okkur um fjögurleytið í gær, frekar þreyttar eftir annasaman dag, og komum við í bakaríi á leiðinni heim á Skagann. Þar fæst gott kaffi frá Te og kaffi. Undanfarin skipti höfum við verið afar óheppnar með kaffið þarna og starfsmaður (aldrei sá sami reyndar) sett allt of mikla mjólk út í þannig að ekkert kaffibragð finnst.

Ásta, sem er í raun algjör "gribba" fer alltaf í kerfi þegar ég bið ljúflega og kurteislega um kaffið eins og ég vil fá það, eða latte án cappuccino-froðu, heitt en ekki sjóðheitt og sokkabuxnabrúnt út í ljóst, á litinn. Hún ætti að prófa að standa í Starbucks-biðröð og hlusta á sérþarfirnar þar. Ég er ekkert miðað við óskirnar þar.

Fyrr má nú vera ...Rosalega indæl kona, svona 60 plús, afgreiddi mig og var svo sæt og ljúf. Ég byrjaði á því að segja henni kaffifarir okkar Ástu ekki nógu sléttar undanfarið og bað hana lengstra orða um að hafa mjólkina hvorki of heita né mikla. Ég kunni ekki við að gera sama og síðast, þegar kaffið varð gott, og fá að fylgjast með henni setja mjólkina út í. Ég starði vantrúuð á hana þegar hún FYLLTI annað málið af mjólk og spurði svo hvort ég vildi líka að hún fyllti það seinna álíka mikið.  „Nei, ég vildi einmitt EKKI svona mikla mjólk,“ stamaði ég gráti nær og náði að segja henni til með rétt mjólkurmagn í seinna málið. Þessi góða kona bjó til annan latte í stað þess ónýta.

Ég skokkaði út í bíl með latte í báðum og hafði keypt tvær súkkulaðismákökur með kaffinu til að gleðja okkur í tætlur. Tveir tvöfaldir latte og tvær smákökur kostuðu 1.050 krónur, mér fannst það nokkuð mikið. Úti í bíl smökkuðum við síðan á kaffinu ... og SKAÐBRENNDUM okkur í munninum.

Við Ásta skaðbrenndarÍ Kollafirðinum opnaði ég bílgluggann og reyndi að láta volgan vindinn kæla kaffið, það var enn rafsuðuheitt og ódrekkandi. „Þýðir ekkert,“ sagði Ásta spámannslega. „Þú verður að taka lokið af ef þú vilt að það kólni.“ Hún var enn smámælt eftir tungubrunann og ég var líka að drepast. Ég þorði ekki að taka lokið af, ekki á ferð í bíl, slíkt er ávísun á stórkaffislys. Það var ekki fyrr en við vorum nýkomnar út úr göngunum að við gátum dreypt á kaffinu. Magn mjólkur reyndist mátulegt en allt of mikil hitun á henni hafði eyðilagt hana, orsakað efnabreytingar þannig að bragðið var ekki gott. Fyrir mitt leyti langar mig ekki framar í þetta bakarí ... a.m.k. ekki til að fá mér kaffi.

Ég var smakkdómari nokkrum sinnum í kaffibarþjónakeppnum hérna í denn og ef keppendur hituðu t.d. mjólkina í cappuccino-ið of mikið þá þýddi það refsingu, 30 svipuhögg minnir mig. Ef fólk vill kaffið sitt rafsuðuheitt, eins og t.d. Hilda systir og Gísli Rúnar leikari, þá ætti það að þurfa að biðja sérstakleg um það. Í amerísku réttarkerfi gæti ég krafist hárra bóta fyrir andlegt álag og tunguskemmdir. Það yrði bara hlegið að okkur í Héraðsdómi Vesturlands. Veit einhver hvað tekur langan tíma fyrir brennda tungu að jafna sig? Spyr fyrir okkur Ástu báðar.

Vona að dagurinn ykkar verði góður og allt það kaffi/te/kakó sem þið drekkið verði mátulega heitt.


Kokkur í skammarkrók og dræsan hún Ylfa Ósk

tagliatelleHann doktor Gunni (eða okursíðan hans) hefur nú orðið til þess að ég skammaði góða kokkinn okkar hér í mötuneytinu. Tók eftir því að ég borgaði 365 krónur fyrir morgunverðinn og fannst það ansi hátt fyrir einn smoothie (199 kr) og smá álegg (ekkert brauð). Hef yfirleitt tekið litla slettu af kotasælu, sett tvær agúrkusneiðar, eggjasneið og paprikubita með. Það hefur kostað 40 kall, nú er rukkað fyrir hvert og eitt álegg. Þannig að agúrkusneiðin kostar 40 kall. Nú verður nesti tekið með, ekki gengur að éta mötuneytið lengur út á gaddinn og það mig. Svo skammaðist ég líka, en ljúflega, held ég, yfir kolvetnaveislunni í hádeginu, aðalréttur: spagettí með sjávarréttum og grænmetisréttur: tagliatelle í rjómasósu. Línurnar breytast skjótt í útlínur og jafnvel heilan sjóndeildarhring með svona áframhaldi.

Ylfa Ósk ÚlfarsdóttirÚlli, kokkur á Gestgjafanum, mætti með Ylfu Ósk með sér í vinnuna í gær og talaði um hana sem algjöra dræsu þar sem hún sat stillt og sakleysisleg við skrifborðið. Ylfa fékk nefnilega að pófa að vera með gæja um helgina og alla aðfaranótt mánudagsins veinaði hún svo mikið að engum í fjölskyldunni varð svefnsamt. Hún vildi meira, you know.

Nú heldur Úlli að Ylfa sé orðin hvolpafull og býst við fjölmörgum, sætum og krúttlegum úlfhundum eftir svona tvo mánuði. 


Talandi um frost ... og afmælið sem verður stranglega bannað börnum ...

Þeir hjá strætó (Akranesmegin) vita sannarlega hvað þeir eiga að gera til að vér farþegar fáum ekki leið á að ferðast með þeim. Vagnarnir eru kannski allir gulir á litinn en innréttingarnar eru fjölbreytilegar. Flottasta drossían kom og sótti okkur farþegana í morgun, vagninn með þriggja punkta öryggisbeltunum fremst, DVD, glæstum speglum og háum sætum sem bjarga manni frá sólinni.

SnjókarlBílstjórinn er alltaf í smá rabbstuði á meðan við dólum rólega út úr bænum (Akranesi) og hirðum upp síðustu hræðurnar. Hann spurði mig hvort það hefði ekki verið bongóblíða á svölunum mínum í gær. Ég sagðist forðast sólina eins og heitan eldinn eftir brunaævintýrið á dögunum ... og þá mundi hann eftir manni sem vann með honum í denn úti í Nígeríu, þar sem þeir sigldu með skreið, og voru allir hálfberir nema þessi maður, sem var hvekktur eftir sólbruna. Hann var víst ansi vel dúðaður .. vægast sagt, svona miðað við hitann sem var um 50 gráður ... bílstjórinn minn sagðist hafa verið að kafna. Næst voru þeir (áhöfnin?) sendir til Rússlands þar sem frostið var 36 gráður. Ansi mikill hitamunur og þessi skelfilega Rússlandsferð gerði bílstjórann minn að kuldaskræfu. Mér fannst hann bara fínn í lopapeysunni í morgun og sætur litur á flíspeysunni sem hann var í utanyfir. Loðhúfan var líka kúl.

Afmælistertan í fyrraNú er ágúst að skella á og ég ekki einu sinni búin að skrifa afmælisboðskort ... hvað þá ákveða það sem á að standa á tertunni. Síðustu árin hef ég sent SMS til fólks, eða jafnvel hringt og minnt það á ammlið. Halldór frændi hefur átt nokkrar góðar hugmyndir í sambandi við áritun á tertuna en hann vill helst að ég geri grín að háum aldri mínum (ég er ekki gömul) og jafnvel nísku (og ég er ekki nísk).

Fyrsta nískutertan misheppnaðist hrapallega og enginn skildi neitt í áletruninni, allt bakaranum að kenna. Það átti að standa HAPPY BIRTHDAY - QUEEN MOM, svo átti bakarinn að strika yfir Queen Mom og setja klaufalega Gurrí til hliðar.  Drottningarmóðir Bretlands átti nefnilega afmæli nokkrum dögum á undan mér). Ég átti síðan að segja við forvitna gestina að ég hafi fengið tertuna mjög ódýrt ... Bakarinn skrifaði á tertuna: Happy Birthday Queen .... og svo fyrir neðan happy kom Mom og strik yfir það og Gurrí. Mjög hallærislegt Enginn fattaði út á hvað þetta gekk, samt var ég búin að teikna upp fyrir bakarann hvernig þetta átti að líta út.

Hluti veislufangaHugmynd Halldórs að skipta kökunni með súkkulaðistrikum. Áletrað á 90% kökunnar ÞEIR SEM FÆRÐU GJAFIR og á 10% HINIR var líka ferlega fyndin. Tertan í fyrra vakti lukku en á henni stóð: Elsku Þrúða, láttu þér batna. Þeim í bakaríinu fannst þetta hrikalega fyndið, alla vega hressu stelpunni sem kemur alltaf með kökuna.

Nú er þriðja afmælið í himnaríki að fara að renna upp. Gott væri ef fólk færi að melda sig hvort það ætli að koma. Ég gerði ráð fyrir 50-70 manns í fyrra og það komu 60. Ef miða á við fertugsafmælið þá koma a.m.k. 100 manns núna ... það bætist við fólkið sem er ekki gráðugt í fermingarveislutertur um mitt sumar, heldur finnst það vera skylda sín að koma þar sem þetta er stórafmæli.. Svo koma yfirleitt fleiri þegar amlið er á virkum degi og það er á þriðjudegi núna.

Afmælið í fyrraÞað kom nokkur barnaskari í fyrra sem var bara gaman en eftir spjall við ráðgjafa mín, fasta afmælisgesti, foreldra, börn og kettina mína þá verður veislan í ár stranglega bönnuð börnum, eins og hún hefur í raun alltaf verið, foreldrum til mikillar gleði, alltaf gott að losna við þessa óþekktarorma og geta verið í friði og spjallað og daðrað um leið og brauðtertur, súkkulaðikökur og annað hnossgæti er innbyrt. Sumir foreldrar hafa svo sem verið lúmskir í gegnum tíðina, komið með börn sín, sagt þau rosalega stillt og látið síðan sem þeir hafi ekki heyrt öskrin í þeim: „SKERA SÚKKULAÐITERTU!“ „SKEINA“ „ÞETTA BROTNAÐI ALVEG ÓVART“ ÉG HENTI TOMMA ÚT UM GLUGGANN“ og svo framvegis.

Fyndnasta áletrunin hjá frænda var samt:                            Til hamingju með fyrsta fallhlífarstökkið,                  

Dofri Hvannberg - 10. ágúst 2002.

Vá, hvað fólkið hló eða öskraði upp yfir sig af viðbjóði þegar ég sagðist hafa fengið tertuna á tombóluverði, tveggja daga gamla. Sumir héldu að fallhlíf Dofra hefði ekki opnast, aðrir héldu að hann hefði hætt við ... mismunandi hræðilega þenkjandi fólk sem ég þekki. Jamm, best að hringja í Halldór og ræna nýjum hugmyndum frá honum!


mbl.is 29 gráður og sólskin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rangar verðmerkingar og pödduofsóknir

Okrað á ÍslendingumAllt er lok, lok og læs í Einarsbúð um helgar. Það venst ... og það lækkar líka vöruverðið þar alveg helling. Við erfðaprins skruppum því í lágvöruverslun í dag og ákváðum að kaupa eitthvað létt í kvöldmatinn.

Hinn íslenski neytandi hefur breyst ákaflega mikið að undanförnu (takk, doktor Gunni) og það þykir loks orðið hallærislegt að leika „greifa“ sem borgar allt á okurverði möglunarlaust svo að fólk haldi ekki að það sé blankt! Ég hef breyst líka og hika ekki við að leiðrétta mismun upp á eina krónu ... eða myndi gera ef ég lenti í því.

P�tsurÞað voru girnilegar Frísettapítsur á tilboði í búðinni, eða ein sæmilega stór á 298 krónur. Borða helst ekki pítsur en lét þetta eftir erfðaprinsinum og setti tvær í innkaupakörfuna. Minntist á það við hann að ég ætlaði að vera vel vakandi við kassann og það var eins gott, stúlkan stimplaði inn 369 krónur! Ég benti kurteislega á þetta, yfirmaður kom, gerði eitthvað þegjandi og hvarf ... og á strimlinum sá ég að ég hafði fengið aðra pítsuna ókeypis, borgaði 369 krónur fyrir hina. Fékk sem sagt skaðabætur og að auki ósköp sætt bros frá kassadömunni. Ég snarhætti við að snarhætta að fara framar í þessa búð (þegar Einarsbúð er lokuð) en ætla svo sannarlega að fylgjast vel með alls staðar. Ég stundaði þó þögul mótmæli í búðinni og keypti ekkert sem var óverðmerkt, jafnvel þótt mig vantaði það. Ég er orðin svo þreytt á því hvað farið er illa með almenning á Íslandi. Það er okrað hryllilega á okkur víðast hvar, lánin okkar eru verðtryggð og siðleysi og klíkuskapur viðgengst víða. Eins og mér þykir vænt um landið mitt.

KóngulóarmaðurinnEinu sinni ákvað ég að flytja aldrei úr landi, sérstaklega út af pöddumálum en pöddur verða reyndar sífellt fyrirferðarmeiri hérna, sbr. geitunga og býflugur sem námu hér endanlega land um miðjan áttunda áratug síðustu aldar. Ég gæti því alveg flutt úr landi skordýralega séð!

Vinkona mín býr í einbýlishúsi hér á Skaganum. Gróinn garður er umhverfis húsið hennar en ekki mikið af blómum þar. Hún er ekki sérlega pödduhrædd en er að sturlast yfir kóngulóm sem ofsækja hana í tugatali, hún bar hátt í 50 kóngulær út úr húsinu í gær. Hún er með tuskuæði en samt ná kvikindin að vefa stóra vefi í íbúðinni hennar, alla vega á meðan hún sefur. Þetta er ekki eðlilegt og hún ætlar að flytja að heiman í viku og láta eitra allt húsið á meðan. Hún hefur verið að vinna í garðinum og helluleggja. Hún þurfti að færa nokkrar hellur daginn eftir og þvílíkt pödduríki sem var komið strax undir nýlagðar hellurnar. Fiskiflugur eru líka í tonnatali í íbúðinni hennar og núna veit ég hvers vegna þær hafa ekki sést í himnaríki þetta sumarið, þetta fljúgandi, gómsæta sushi fyrir kettina mína er greinilega flutt til kattarlausu vinkonu minnar. (Fékk svo mikið sjokk þegar ég setti inn spider á google að ég ákvað að stela frekar mynd þar af kóngulóarmanninum).


Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 196
  • Sl. sólarhring: 286
  • Sl. viku: 2155
  • Frá upphafi: 1452355

Annað

  • Innlit í dag: 173
  • Innlit sl. viku: 1746
  • Gestir í dag: 166
  • IP-tölur í dag: 165

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • baby reindeer
  • Ove Otto
  • Gísli gerir Mart-einn

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband