Færsluflokkur: Sjónvarp

Lestur, vinna, spælandi kökuferð og blessað boldið

GönginHér í himnaríki hefur bara verið unnið og lesið. Las skemmtilega barnabók, svolítið óvenjulega, Funhildur heitir hún, er búin með Guðmund Andra, dásamleg bók alveg, er svo með tvær í takinu núna, glæpasöguna góðu eftir Jón Hall og ævintýralega unglingabók sem heitir Göngin. Ég hef varla tíma til að vera til, hvað þá hafa magasár yfir kreppunni. Aumingja sjónvarpið, ég vanræki það þvílíkt, eins og bloggið, en ekki boldið. Og auðvitað ekki Kiljuna sem var mjög skemmtileg að vanda í kvöld.

KakaSvo var ég aðeins á ferðinni í dag með ljósmyndara sem myndaði glæstar tertur í kökublaðið okkar sem er í undirbúningi en þar sem voru döðlur í öllum kökunum og hnetur, möndlur og rúsínur, ásamt döðlum í einni var þetta ekki fitandi ferð. Síður en svo, eiginlega bara frekar spælandi kökuferð.

 

TaylorLitla stúlkan með engilsásjónuna, Alexandría, eyðilagði brúðkaup föður síns, Thorne, og væntanlegrar stjúpmóður, geðlæknisins Taylor, (sem drap óvart mömmu hennar með því að keyra drukkin á hana) með því að klippa brúðarkjólinn í tætlur sem fattaðist nokkrum mínútum fyrir athöfnina. Hún fékk faðmlag fyrir og var sagt að hún væri bara ekki tilbúin. Ef þarna er ekki verið að búa til fjöldamorðingja framtíðar þá veit ég ekki hvað. Forrester-fjölskyldan hélt blaðamannafund og sagði frá nýstofnaða tískufyrirtækinu og Nick, sem á núna gamla Forrester-fyrirtækið, horfði stjarfur af reiði á þetta í sjónvarpinu. Hann sagði mömmu sinni að hann ætlaði að ná sér niðri á þeim með afdrifaríkum hætti. Svo man ég eiginlega ekki meira. Nú er það bara upp í rúm að sofa og hlakka til spennandi strætóferðar í fyrramálið.


Magnaðar móttökur í molli, barnaspælingar, nýju bankastýrulaunin og örbold

kringlan_700966.jpgAuðvelt var að fá bílastæði við Kringluna í dag, enda ekki jafnmargir á sveimi þar og síðast þegar ég kom þangað. Það er algjör misskilningur að okkur Íslendingum, múslimum norðursins, mæti alls staðar slæmt viðmót vegna ábyrgðarlausra gjörða okkar í heiminum, stelpan í sjoppunni í Hagkaup, útlensk og allt, var ekkert nema almennilegheitin. Sama má segja um starfsfólkið í Kaffitári þar sem við vinkonurnar fengum okkur sjúklega góðan latte. Þótt ég hafi dregið saman seglin, eins og flestir Íslendingar, ætla ég ekki að sleppa því að fá mér gott kaffi í kreppunni og sá að margir hugsa á svipaðan máta, biðröð myndaðist hratt fyrir aftan okkur og setið var við flest borð. Maður á að vera góður við sig! Mikið langaði mig að vera ofsagóð við mig og kaupa bol í rekka með öðrum góðum bolum en á honum stóð: Börnin eru það dýrmætasta sem við eigum núna, seljum þau!

BankarnirJamm, svo heyrði ég því fleygt að hámarkslaun í bönkum núna séu 950 þúsund (bankastýra) á mánuði í stað 70 milljóna eða svo. Algeng laun millistjórnenda innan við hálfa millu og síðan fengi venjulegt bankafólk talsvert lægra að vanda. Það fékk mig til að hugsa um góðærið sem svo margir tala um að hafi ríkt hérna. Mig minnir, leiðréttið mig ef mér skjátlast, að t.d. ræstingafólk, fólk sem vann við umönnun barna eða aldraðra, margt skrifstofufólk, verkafólk eða hreinlega stór hluti íslensku þjóðarinnar hafi lapið dauðann úr skel, launalega séð. Eini munurinn var sá í góðærinu að flestir gátu fengið lán, lán sem þarf samt að borga til baka með vöxtum og verðtryggingu. Ég er svo fegin að iðnaðarmaðurinn minn sveik mig/gleymdi mér. Ég ætlaði að gera breytingar á baðinu og í eldhúsinu. Eldhúsbekkurinn við vaskinn er t.d. ónýtur vegna vatnsleka (áður en ég flutti inn), blöndunartækin nánast ónýt og fleira. Allt komið á HOLD, enda er himnaríkið mitt algjört himnaríki þótt það sé ekki „fullkomið“ í augum einhverra og Innlit-Útlit myndi ekki láta sjá sig hjá mér.

Jackie ræðir við erkióvininn StefaníuGat ekki horft á allt boldið en ... Jackie og Nick eru náttúrlega í rusli yfir uppákomunni á tískusýningunni og Nick eðlilega ógurlega sár út í geðþekka geðlækninn Taylor sem lét hann rifja upp hræðilegu minningarnar um æskuna þegar Jackie, mamma hans, seldi sig ... og fyrir að snúa svo baki í dyrnar þegar hún las þetta inn á segulband sem gerði Stefaníu, erkióvini Jackie, auðvelt fyrir með að hlusta. Taylor er svo reið yfir þessu öllu að líkurnar á því að hún giftist Thorne, syni Stefaníu og bróður Ridge sem hún var einu sinni gift og á öll börnin með (Tómas og tvíburana), eru nú sáralitlar.

Hnakkus - skyldulesning:

http://hnakkus.blogspot.com/2008/10/leiarvsir-fyrir-reia-og-rvillta.html#links

 


Höfundur kreppujeppanna, smá bold og nýja faðmlagakerfið

BummerGame OverÞegar Halldóri frænda leiðist þá gerist alltaf eitthvað skemmtilegt. Hann dúllaði sér m.a. við að gera Game Over-jeppann sem hefur ferðast helling um netheima. Nú hefur hann skapað nýjan bíl (myndin til hægri) sem segir allt sem segja þarf, eins og hinn. Það er kannski ljótt af mér að segja þetta ... en vonandi leiðist honum sem oftast!

Boldið var svakalegt í dag. Stefaníu tókst með klækjum að rústa flottu tískusýningunni fyrir mæðginunum Nick og Jackie. Eftir að glæstar stúlkur höfðu sýnt línuna hans Garrisons (heitir leiðinlegi Mæðginin Jackie og Nickhönnuðurinn það ekki?) rotaði Thorne hann og Stefanía lét gamla skipperinn sem keypti afnot af Jackie í gamla daga ganga eftir pallinum í stað Garra, öllum til undrunar, líka þeim gamla sem hélt að hann væri í öðrum erindagjörðum, eða að hitta hina fögru Jackie aftur sem saknaði hans eða eitthvað. Steffí fór síðan í hátalarakerfið og kynnti þann gamla sem einn af fjölmörgum elskhugum Jackie sem hefði unnið fyrir sér sem hóra á árum áður. Með þessu vonaði Steffí að stjórn Forrester-tískuhússins heimtaði að það fari aftur í hendur gömlu og réttmætu eigendanna. Taylor, sem er við það að fara að giftast Thorne, hitti bróður Thornes og fyrrum eiginmann sinn til margra ára, hann Ridge, og komst að því hjá honum að eitthvað væri í bígerð. Hún mætti með Ridge á tískusýninguna en of seint. Steffí, móðir Thorne og Ridge og fyrrum og tilvonandi tengdamóðir Taylor, rústaði Jackie fyrir framan elítuna í tískubransanum og fjölda fréttamanna. Tjaldið féll þarna og við tók óbærileg bið eftir næsta þætti sem verður kl. 17.28 á morgun.

P.s. Áríðandi viðbót. Hef ákveðið að loka á faðmlagakerfi mbl.is hjá mér vegna neyðarástands ... a.m.k. í bili! Hef nefnilega fengið c.a. 40 faðmlög bara frá einum bloggvini sem er ekki einu sinni karlkyns ... og litla pósthólfið mitt stíflaðist. Þetta er einhver bilun, viðkomandi bloggvinkona sendi mér bara eitt "knús" og segist hafa fengið mörg frá mér. Ef ég væri t.d. snertifælin væri ég hreinlega komin í köku við allt þetta knús ... hvað er moggablogg að pæla? Kommon, ég á ketti! Er þó búin að endurgjalda knús til þeirra sem sendu mér en nú er allt lok, lok og læs. Já, ég er vond manneskja. 


Föstudagurinn langi ...

Háholti kl. 18.30 í kvöldSvo mikið var að gera í dag þegar ég slökkti á tölvunni í Hálsaskógi voru aðeins fimm mínútur í brottför 17.45-strætó frá Mosó. Ekkert hlaupahjól í grennd og því klukkutíma bið eftir næsta vagni. Náði leið 15 hálftíma of snemma við Vesturlandsveginn og gerði mér enga grein fyrir því þá hversu tryllingslega mikil heppni það var. Horfði síðan ótrúlega beiskulaust á hlýjan og notalegan Skagastrætó sem beið neðar í Háholtinu (sjá mynd), alveg farþegalaus, Kiddi bílstjóri í pásu og ég í hlýjum sokkabuxum. Svo kom leið 15 korteri seinna og sniglaðist þunglamalega upp brekkuna. Út úr vagninum flæddi hópur barna, örugglega 50 stykki, ef ekki fleiri. Vagninn hafði verið troðfullur og um leið og fækkaði í honum sá ég nokkra saklausa farþega blása út og ná fyrri stærð. Vér Skagamenn þjöppuðum okkur saman í eina hrúgu á stoppistöðinni og einn í hópnum giskaði nöturlega á að þetta væri vafalaust skátahópur og við gætum gleymt því að dorma á heimleiðinni við undirleik fréttanna, þyrftum líklega að taka undir Kveikjum eld og Ging gang gúllí. Okkur til mikils léttis voru þetta fótboltabörn. Ekki reyndist vera pláss fyrir þau öll í rútunni (Skagastrætó) og voru óþekkustu börnin örugglega skilin eftir í Háholti því að þetta reyndust vera algjör englabörn, eða svona vel öguð. Restin af hópnum þurfti að bíða eftir næsta strætó þar sem svona stór hópur þarf að láta vita af sér í tíma til að hægt sé að gera ráðstafanir. Skagastrætó lýtur öðrum lögmálum en venjulegir strætóar, eitt sæti á mann og allir í beltum. Sat við hliðina á Dipu, badmintonþjálfara okkar Skagamanna, eiginmanni indversku vísindakonunnar, Shymali. Við vorum menningarleg á því á heimleiðinni, hann las Newsweek og ég fletti áhugaverðri kjarneðlisfræðibók.

PeningarVið heimkomu gat ég ekki stillt mig um að hringja í nokkra bankamenn í vinahópnum. Jú, jú, eitthvað meira en venjulega var um úttektir í dag en enn meira var um tilfærslur úr sjóðum yfir á reikninga. Það hlýtur samt að vera gósentíð fyrir innbrotsþjófa núna, meira fé en vanalega undir einhverjum koddum um helgina.

Ég heyrði í mömmu áðan sem sagðist ekki ætla að láta þennan múgæsing hafa áhrif á sig og skrilljarðarnir hennar eru grafkyrrir í Landsbankanum. Annars var símtalið ansi stutt, Ég fattaði ekki að maður hringir ekki í fólk þegar Útsvar er í gangi. Eina sem ég get gert núna er að vonast til þess að yfirdrátturinn minn týnist á einhvern undursamlegan hátt í öllum þessum látum. Plís, plís!

AskaAska í úlpuMikið var annars gaman að Útsvari og ég hefði rúllað upp Hringadróttinssöguspurningunum ... hmmm, nema þeirri síðustu. Of langt síðan ég las bækurnar. Það verður gaman að fylgjast með hinu nýja liði Skagamanna. Ásta er viss um að það fari alla leið, eða í fyrsta sætið. Ekki dettur mér í hug að efast um orð hennar. Hún bauð mér í gómsætt lasagna um daginn og þar smellti ég myndum af Ösku, voffanum hennar. Ösku í körfunni og Ösku í úlpunni. Aska á hlýrri úlpu en ég.


Reykt ýsa, heimsókn til Línu og jólastemmning í boldinu

ÝsaÞað fór sem eldur í sinu í vinnunni að það yrði reykt ýsa í hádeginu, risotto sem grænmetisréttur og sitt sýndist hverjum. Nokkrir hlupu upp í Taí-matstofu og var ég ein af þeim. Fékk kúfaðan disk af alls kyns gómsætum taílenskum réttum og borgaði 1.000 kall fyrir. Alveg þess virði til að sleppa við ýsuhelvítið og halda samt fullum starfskröftum.

Ella, Inga og LínaKíkti á Línu við heimkomu og var mikið fjör á heimilinu að vanda. Ella og Kjartan kíktu með Eygló skömmu seinna. Strákarnir „mínir“ eru í skólanum á fullu og líkar mjög vel, litla snúllan er ekki jafnhress þegar hún þarf að kveðja mömmu í leikskólanum en það er bara eðlilegt, Ella sagði henni að hálfum mánuði eftir að Eygló hennar byrjað í leikskólanum hefði hún einn daginn sagt bless, ekkert vesen lengur og þá var það eflaust mamman sem skældi af söknuði. Nadeen á viku í það. Lína er byrjuð í íslenskunámi líka og segir það mjög skemmtilegt. Hún er að læra muninn á framburðinum á sérhljóðunum og ... úff, hvað íslenskan er nú flókin fyrir útlendinga, sá það eitt augnablik með augum hennar. Framburðurinn mun samt greinilega ekki vefjast mikið þeim, fannst mikið til um þegar strákarnir spurðu mig á góðri íslensku: „Hvað heitir þú?“ Svo spurði ég þá að nafni og þeir svöruðu: „Ég heiti ....“ og svo komu nöfnin. Strákarnir eru bæði í sundi og fótbolta, alsælir. Þeir fóru einmitt í sund áðan með vinum sínum. Lína bauð okkur upp á safa og nammi, núna er ramadan búið og þriggja daga „jól“ standa yfir. Þegar við kvöddum var Inga einmitt að koma heim úr vinnunni, en hún býr í sama húsi og Lína. Myndin hér að ofan er af Ellu, Ingu og Línu, tekin um daginn þegar túlkarnir komu og við gátum talað saman af hjartans lyst, engin leikræn þjáning þar á ferð.

Vertu úti, kerlingNú eru líka jólin hjá Forrester-fjölskyldunni og Stefanía heldur hjartnæma ræðu um leið og hún segir „Gjörsovel“. Hún talar um fjölskyldugildin og þá ást sem hún beri til barna sinna, eiginmanns og annarra ástvina. Þá hringir dyrabjallan. Úti stendur móðir hennar og óskar henni gleðilegra jóla. „Hvað ert þú að gera hér?“ spyr Stefanía og útihurðin hrímar. „Jólin eru tími fjölskyldunnar,“ segir mamma hennar ámátlega. „Vertu úti!“ skipar Stefanía og er algjörlega ósveigjanleg. Fjölskylda er ekki sama og fjölskylda.

Darla heitin og ThorneAndi Dörlu heitinnar er á sveimi í kringum Thorne og littlu dóttluna og er Darla heitin alsæl með hversu hamingjurík jól dóttir hennar upplifir. Eftir þennan þátt er greinilegt að það er líf eftir dauðann.


Yndisþokka úthýst ...

Búið er að finna nýtt Skagafólk í Útsvar. Máni, snillingur og múmínálfaviskubrunnur, heldur áfram og Þorvaldursvo bætast tvær mannvitsbrekkur við, Þorvaldur Þorvaldsson er annar þeirra, man ekki hver sá þriðji verður. Taka á þessa keppni með trukki og þá þýðir ekkert að velja keppendur eingöngu eftir útliti, eða kvenlegum yndisþokka með dassi af visku um póstnúmer Íslands og Oliver Twist, eins og gert var sl. vetur. Þorvaldur er náttúrlega bara snillingur, gáfnaljós og góður húmoristi. Þegar ég var nýbúin að eignast erfðaprinsinn og lá á fæðingardeild Sjúkrahúss Akraness kom hann í heimsókn ... í pabbaheimsóknartímanum. Á þessum tíma (aldri) vildi ég að allt væri eins og það ætti að vera (kvaldist t.d. yfir því að aðrar konur á stofunni hefðu eðlilega fengið blóm frá eiginmanninum en ég ekki ...) og Þegar fegurðin ríkti í Útsvarispurði Þorvald hvort hann vildi virkilega missa mannorðið með því að mæta í PABBA-tímanum. Það drundi í Þorvaldi: „Er ekki fínt að fá bæði eiginmanninn OG barnsföðurinn?“ Rétti pabbinn gekk inn á stofuna akkúrat þarna og hafði lítinn húmor fyrir þessu. Mér fannst þetta pínku fyndið þótt ég léti ekki á neinu bera en enn fyndnara eftir því sem á leið.

Mikið verður gott að sitja í stofunni heima og horfa og vita fleiri svör, finnst alltaf jafnfyndið hvað vísbendingaspurningarnar eru léttar heima en ofboðslega flóknar í stressinu í sjónvarpssal. Ekki gekk heldur að láta mig mögulega keppa við Álftanes og stefna þar með rúmlega 20 ára vináttu okkar Önnu í stórhættu ... hehehe. Áfram Akranes!


Ótrúleg afköst og innslagið frá BBC ...

Í himnaríki í morgunVel- og glaðvaknað var í morgun og ótrúlegt hvað „vakn“ fimm mínútum fyrr en vanalega munaði miklu, engin hlaup og ekkert stress. Ég náði að baka nokkrar sortir, hreingera baðherbergið, prjóna hosur fyrir veturinn og skrifa fyrstu drögin að inngangi að formála um sögu fílsins í átta bindum ... og allt þetta áður en ég bjó til latte og fékk með hollustudótið mitt.

Við stuðningsfjölskyldur Línu kíktum á hana í gær og höfðum að láni túlk í klukkutíma til að spjalla við hana. Það var ótrúlega gaman ... annars hefur henni farið helling fram ... í uuuu ... enskunni eftir að hún kom. Og er spennt að læra íslenskuna sem hún kann nokkur orð í. Hún skellihló þegar ég sagði henni Allah-brandara ... um það þegar íslenski eiginmaðurinn öskraði yfir yfirfulla verslun eða markað í Marokko: „ALLA!!! ALLA MÍN, hvar ertu?“ og allir sneru sér forviða við og gláptu á þennan guðrækna mann.

Ein konan úr hópnum var í viðtali hjá BBC World og gaman að sjá m.a.  Báru og Dodda heima hjá henni og negla upp mynd ... og strákinn á heimilinu fara á hestbak „í sveitinni“ hjá Nínu, stofnanda stórverslunarinnar Nínu (þar sem Dorritt hefur verslað ...). Doddi ók í bæinn um daginn rétt áður en brjálaða veðrið skall á, frekar óvanur að keyra í Reykjavík, rataði ekki um í Breiðholti en fann samt yndislegu konuna sem gaf hjól fyrir stálpaðan strák (ja, fullorðinshjól). Strákurinn þráði hjól heitast af öllu. Ég fylltist afbrýðisemi fyrir hönd Línu þegar ég sá að "konan þeirra" er með uppþvottavél ... heheheh, nei, nei, uppþvottavélar eru ekki jafnsjaldgæfir gimsteinar og áður, það fylgdi t.d. með í kaupunum á himnaríki heilt stykki uppþvottavél sem ég elska mjög, mjög heitt. Þessi kona var bara jafnheppin og ég. 

Læt slóðina að innslaginu frá BBC World fylgja með ... þessi fréttakona var víst engu lík og það var upptökuliðið hennar sem þurfti að elta kvikmyndavélar um móa og mýrar í öllu rokinu um daginn. http://www.youtube.com/watch?v=olehN_FwJ4M

Vona að dagurinn ykkar verði skemmtilegur, spennandi, gefandi og guðdómlegur!


Minna skutl og meira bold

InnanbæjarstrætóÞað var greinilega hárrétt ákvörðun hjá Skagayfirvöldum að hafa frítt í strætó því mikill fjöldi fólks notfærir sér þjónustuna. Bílstjórinn sagði mér áðan að oftast væri vagninn þéttsetinn og oft alveg stútfullur. Í svona veðri skil ég að krakkar nenni ekki að rennblotna á leiðinni í skólann eða kerlingar á leið úr sjúkraþjálfun vilji halda sér þurrum og þá er strætó frábær kostur. Það hlýtur að vera mun minna um skutl foreldra og erfðaprinsa á þessum háabensínverðstímum og þá er tilganginum náð.

Nick er á bömmer yfir Forrester-fyrirtækinu, hlutirnir ganga ekki eins vel og hann bjóst við, sigurinn ekki jafnsætur. Jackie, mamma hans, reynir að stappa stálinu í strákinn. Ég sá ekki betur en Thorne og Taylor sofi nú saman og hann búinn að gefa henni hring. Taylor er líklega svolítið siðlaus geðlæknir, hún lofaði Thorne sínum að hún stefndi að því að endurheimta fyrirtækið fyrir fjölskylduna, hún hefði boðið Nick í geðlæknismeðferð ... Það er eins og mig minni að kristalskúlan mín hafi sagt að það leiði til ástarsambands þeirra.

Taylor og PhoebePhoebe, dóttir Taylor og Ridge, er svolítið skotin í garðyrkjumanninum grunsamlega sem bar ekki vitni í máli Taylor sem var, eins og allir muna, fyrir rétti fyrir að hafa ekið full og réttindalaus á Dörlu, konu Thorne, og valdið dauða hennar. Garðyrkjumaðurinn er á flótta undan lögreglunni, var barinn á ströndinni og býr nú í skjóli dr. Bridgetar að beiðni Phoebe. Ridge hefur sagt dóttur sinni að líta ekki við svona lúser en Phoebe vorkennir honum, hver sér ekki rómantík í subbulegum flækingi sem mögulegt væri að bjarga?

StefaníaUm daginn tilkynnti Stefanía að hún ætlaði aldrei framar að tala við móður sína. Það misheppnaðist algjörlega tilraunin til að hugga barða barnið í henni með að fá mömmuna til að biðja afsökunar á því að hafa ekki varið hana fyrir pabbanum með fúsa hnefann. Systir Steffíar tók upp hanskann fyrir hana í uppgjörinu og sagðist muna eftir hræðilegum atvikum.

Jamm, alltaf stuð í boldinu.


Símtöl, misskilningur og fullt af boldi ...

KvikmyndavélFékk skemmtilega upphringingu áðan frá gamalli nágrannakonu í bænum. Hún vinnur við nýja, íslenska spennuþætti sem verið er að taka upp fyrir sjónvarp og vantaði góða manneskju til að sjá um kaffið ofan í mannskapinn á mánudaginn þegar tökur fara fram rétt við Akranes. Hefði hlaupið til sjálf ef ég væri ekki að fara að vinna. Er búin að finna góða og hressa Skagakonu í verkið og henni fannst þetta bara skemmtilegt. Samt sagði ég henni að það væri ekkert víst að Baltasar Kormákur væri einn leikaranna. Hún hló bara og sagðist eiga svo sætan karl að það skipti engu ... hehehe

Í vikunni fór ég á góðan og fróðlegan fund hjá Rauða krossinum vegna komu palestínsku flóttakvennanna á Skagann. Að mörgu þarf að huga og m.a. tungumálamisskilningi ... Flóttamannafjölskylda, sem hafði verið um hríð á Íslandi, fékk bréf frá Rauða krossinum sem hófst á Kæra fjölskylda. Konan sem opnaði bréfið þekkti orðið fjölskylda en fletti upp í orðabók á kæra ...

Shane grunsamlegi garðyrkjumaðurinnBOLD: „Þessi rotta er að plana eitthvað, sérstakan kvöldverð kannski,“ sagði slökkviliðsmaðurinn Hector áhyggjufullur og átti við Shane, garðyrkjumanninn grunsamlega, sem hefur ofurást á Phoebe og hún þorir ekki að hafna því að hann er lykilvitni í réttarhöldunum gegn Taylor, móður Phoebe. Nokkuð er til í þessu þar sem sérstakur kvöldverður bíður Phoebe, kertaljós og krúttlegheit. Hún sendir Shane út í vínbúð til að kaupa kampavín og hringir síðan óttaslegin í Hector. Verst að Shane hafði gleymt veskinu og kom til baka þegar hún var að tala ... og hafði líka nýlega uppgötvað ljósmyndir af sjálfri sér uppi á vegg hjá Shane.

Harry, vinur Phoebe, og ég veit ekkert um, keyrir í ofboði og finnur heimili Shane og bankar upp á. Hann vill bjarga dömunni sem vill þó ekki láta bjarga sér, segist ráða við þetta. Phoebe segir við Shane að hún laðaðist vissulega að honum en væri ung og þetta gengi allt of hratt fyrir sig. Réttarhöldin eiga að vera daginn eftir og þau gætu vonandi fagnað saman eftir þau. Shane gleðst við þetta.

Saksóknari kallar dr. Taylor (geðlækni) lygara og morðingja í opnunarræðu sinni og kviðdómurinn horfir á doktorinn með viðbjóði. Þetta verður erfitt verk fyrir Storm lögfræðing sem er, held ég, bróðir Brooke.

Bridget talar við barnsföður sinn, Dante, mann og barnsföður Feliciu, systur Bridgetar, og segir að hún sé búin að missa fóstrið. „Ó, ég trúi þessu ekki, barnið okkar!“ segir Dante. „Ég er svo misheppnuð,“ segir Bridget en þetta er í annað skipti sem þessi elska missir fóstur.

Shane kemur ekki sérlega vel fyrir í vitnastúkunni, enda hefur hann unnið sem garðyrkjumaður hjá Taylor í einhverja mánuði og saksóknari lætur hann líta út fyrir að vera tryggan starfsmann sem myndi ljúga fyrir atvinnuveitanda sinn.

Þegar Storm verjandi gagnspyr Shane og er kominn vel af stað þarf dómarinn að gera hlé til næsta morguns ... og Phoebe í djúpum skít, þarf að hitta ógeðið hann Shane ... Harry liggur í leyni og þegar Shane gerist nærgöngull stekkur hann fram og kýlir Shane. Shane kýlir til baka og Harry rotast. Hector, sem BB-aðdáendur vita að blindaðist í eldsvoða, kemur með beisbollkylfu og slær út í loftið. Þátturinn endar áður en áhorfandinn fær að vita hvort hann hitti Shane eða Phoebe! Það blæðir alla vega úr einhverjum ...

Símtal áðan: „Ég ætla að vera rosalega góð við þig ... og kynna þig fyrir Herbalife!“ Ég keypti auðvitað margra ára birgðir og svo er ég líka að hugsa um að verða Vottur Jehóva eftir fróðlegar heimsóknir undanfarið ...


Frænkueinelti á Útvarpi Sögu og smá bold

SímaatHalldór frændi hringdi í mig áðan úr númeri sem ég þekkti ekki. Hann var óvenjukurteis og virðulegur í tali, sagðist reyndar fyrst hringja frá kynsjúkdómadeildinni og spurði hvort ég væri ekki örugglega sitjandi, hann væri nefnilega með niðurstöðurnar. Ég flissaði subbulega en datt samt ekki enn í hug að hann væri að hringja í beinni útsendingu. Það kom í ljós þegar hann bauð mér óskalag og vildi að ég veldi eitthvað gamalt, lummó og dásamlegt. Fyrsta dásemdin sem mér datt í hug var Kveiktu ljós með Blönduðum kvartett frá Siglufirði, ég hef lengi haldið upp á það, eða síðan ég var lítil og hlustaði á það í Óskalögum sjúklinga. Þetta gæti Halldór svo sem hafa vitað síðan hann var um tíma tæknimaður hjá mér á Aðalstöðinni í gamla daga. Og viti menn, það lag beið undir nálinu hjá kvikindinu. Þetta gekk svo smurt að það var eins og við hefðum æft það. Síðan fékk ég annað símtal sekúndum seinna: „Gurrí, hvað dettur þér í hug þegar ég segi Dalvík?“ „620,“ svaraði ég um hæl, enda límist margt svona notadrjúgt eða ekki við heilann á mér. Frænkueinelti, ekkert annað, en samt svolítið skondið!

JackieJackie er vöknuð úr kómanu og er full ... hefndarþorsta. Hún stingur upp á því við Nick að hann reyni að ná tískufyrirtækinu af Forresterunum sem skaðabætur fyrir gjörðir Stefaníu. Stefanía er í vondum málum fyrst Jackie kýs að ljúga, skrýtið samt að hún skuli muna slysið svona greinilega, hún sem getur varla sagt heila setningu. Þetta er bara fjárkúgun. Jackie heldur að þetta komi Brooke endanlega til Nicks aftur. Nick sér fyrir sér að Jackie, mamma hans, stjórni Forrester. Hvar er pabbi Nicks núna, Massimo, gamli ástmaður Stefaníu og blóðfaðir Ridge? Hann myndi koma vitinu fyrir Nick og bjarga Stefaníu úr þessari klípu.

Svo er aumingja Phoebe, dóttir Taylors og Ridge, í hroðalegum vandræðum. Garðyrkjumaðurinn sem öll vörn Taylors byggist á, þessi sem varð vitni að slysinu þegar Taylor ók á Dörlu, notar aðstæðurnar til að reyna við aumingja stelpuna sem lætur ýmislegt yfir sig ganga til að styggja ekki kvikindið og þiggur matarboð hans. Hvernig fer þetta eiginlega?  


Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.4.): 94
  • Sl. sólarhring: 306
  • Sl. viku: 2409
  • Frá upphafi: 1451604

Annað

  • Innlit í dag: 69
  • Innlit sl. viku: 1846
  • Gestir í dag: 67
  • IP-tölur í dag: 64

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Baldursbrár
  • Vigdís
  • 82 í framboði

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband