Spýtum í lófana og sigrum þessa deild!

Í morgun átti ég von á niðurdregnum farþegum í Skagastrætó eftir tapið hræðilega í gær gegn Blikum. Við erum engir aumingjar, Skagamenn, og vælum eitthvað, heldur spýtum bara í lófana og sigrum þessa deild ... ef okkur sýnist svo ... eða ef við nennum. Þetta er svo skrýtið, Gaui Þórðar er með bestu þjálfurum landsins, hnattarins ... hvað er eiginlega í gangi?

Þorvaldur HalldórssonÞorði ekki annað en að kíkja á vegagerðarvefinn til öryggis áður en ég lagði í hann. Hviður á Kjalarnesi voru ekkert hættulegar (spennandi) svo ég skellti mér bara í bomsurnar og setti trefil um hálsinn. Þegar ég skalf þrátt fyrir það úti á stoppistöð vissí ég að ég hefði átt að fara í sokkabuxur. Brrrrrr. Ég settist fremst í leið 15 og sá því vel þá sem komu upp í vagninn. Ég varð vitni að því þegar ung og falleg stúlka kom inn, svartklædd með hvítan trefil. Henni tókst að borga fargjaldið í einseyringum og á svo niðrandi hátt að ég engdist. Hún var greinilega ekki hress með að þurfa að taka strætó með svona lúserum! Enginn fýlusvipur, bara prinsessufas ... sem mig grunar að hafi verið til að leyna því að það voru kannski bara 253 krónur sem hún borgaði, ekki 280 eins og kostar. Í stoppistöðinni Ártúni, biðskýli í Ártúnsbrekku, stóð enginn annar en Þorvaldur Halldórsson söngvari (Á sjó og fleiri flott lög). Ég heilsaði honum og kynnti mig... efaðist þó um að hann muyndi eftir því þegar ég tók viðtal við hann og konu hans fyrir sjö árum en ég man sko vel eftir þeim. Hann þóttist þó alveg muna eftir mér ... Þau hjónin eru flutt til Selfoss og að sjálfsögðu spurði ég hvernig þau hefðu farið út úr jarðskjálftanum í maí! „Jú, bara vel, það skemmdist ekki mikið hjá okkur!“ Ég varð að monta mig af óvenjumiklum skemmdunum í himnaríki á Akranesi og segja honum m.a. hvað munaði litlu að erfðaprinsinn hefði fengið lögfræðingatalið í nokkrum bindum yfir andlitið ... ja, ef jörð hefði skolfið um nótt þá hefði hann verið í rúminu og fengið skruddurnar í andlitið. Þorvaldur fór með bílinn sinn í viðgerð í Reykjavík í morgun og beið þarna eftir rútunni til Selfoss. Leið 18 kom á undan rútunni og ég vona innilega að rútubílstjórinn hafi munað eftir að stoppa og taka Þorvald með.

Björk umhverfisvænÓ, þið fólk á bílum ... hvað þið missið af miklu að taka ekki strætó. Þið hefðuð ekki náð að spjalla við gömlu popphetjuna Þorvald Halldórsson í umferðarsultu einhvers staðar ...Ég hef hitt ýmsa SVOOO fræga á stoppistöðum og í strætó í gegnum tíðina. Ókei, kannski ekki alveg Björk, Bubba eða SigurRósu. Já, sem minnir mig á ... af hverju er fólk að skipta sér af því um hvað Björk Guðmundsdóttir syngur og hvar hún kýs að syngja? Þetta er sama og femínistar þurfa iðulega að þola. Dæmi: Hvar eru femínistarnir núna? Af hverju sinna þær þessu máli ekki frekar en hinu? O.s.frv. Annars held ég orð Bubba hafi verið gripin á lofti og jafnvel svolítið snúið út úr þeim. Bubbi talar bara út frá sjálfum sér og hefur fullt leyfi til þess. Hann og fleiri mega svo ekki gleyma því að umhverfisvernd er ekki tískufyrirbæri, heldur dauðans alvara!

Jamm, komst blaut og frískleg og alveg klakklaust í vinnuna. Kaffið, sem kom rétt fyrir lokun á föstudaginn, þegar fattaðist að það var kaffilaust í fyrirtækinu, var drukkið af mikilli áfergju. Er nú með nýlega plötu í eyrunum, Andvakar, með hljómsveit sem heitir Andrúm. Rosaflott tónlist, minnir pínkulítið á Pink Floyd upp á sitt besta og gítarhljómurinn svolítið á Jet Black Joe. Söngkonan heitir Jóna Palla og er virkilega góð. Annars á ekkert að vera líkja tónlistinni þeirra við eitt eða neitt, en samt gott að vita að þetta er ekki svona Mariah Carey eða Celine Dion-tónlist. (hrollur). Hitti þýðandann á leið út úr leið 18. Hann sagði mér hreykinn frá því að Beagle-tíkin hans hefði eignast fimm hvolpa fyrir örfáum dögum. Kona þýðandans er nú í fæðingarorlofi að þessum sökum. Ógreiddi maðurinn var ekki sjáanlegur en Indverjarnir hressir og sætir að vanda.

AmmælisneglurnarÍ fyrra hélt ég upp á 40 ára nagla-nag-afmælið mitt og bjóst við að geta haldið upp á hálfrar aldar, eða gullafmælið eftir níu ár. Ég veit að ég á ekkert að vera hreykin af þessu, heldur skammast mín því að þetta er t.d. það eina sem kemur í veg fyrir að karlmenn biðji mín og líka það eina sem orsakar að ég kemst aldrei á topp tíu yfir best klæddu konur landsins. Nú ber svo við að ég hef ekki við að naga, neglurnar vaxa eins og þær fái borgað fyrir það.

Það stefnir greinilega allt í drossíuneglur á afmælinu, hvað er í gangi? Svo er andlitið á mér sléttara og flottara en það var fyrir bruna, það er eins og ég hafi farið í sérstaka andlitsmeðferð. Ég er sem sagt bæði falleg OG flott þessa dagana. Ætla að njóta þess til fullnustu að vera algjör gella þessa allra, allra langsíðustu daga mína sem fjörutíu plús.


mbl.is Blikar kafsigldu Skagamenn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Jú Gurrí mín, því miður er þessi „umhverfisvernd" eins og hún er að ýmsu leyti rekin núna tískufyrirbæri þar sem hver lepur eftir öðrum, lúkasarmál að breyttu breytanda. Það er svo auðvelt að taka undir gaspur annarra án þess að skoða hvað þar býr að baki, sjáðu líka bara froðusnakkið og lýðskrumið um upptöku Evru og aðild að ESB.

Að öðru leyti vona ég að allt sé í himnalagi -- þó mér þyki ótímabært að vita af þér í himnaríki!

Sigurður Hreiðar, 21.7.2008 kl. 11:58

2 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Ertu þá ekki í flegna bolnum sem þú fékkst í fyrra?? eða er mig að misminna með bolinn??  Skemmtileg færsla eins og alltaf. Það hefur nú ekki verið leiðinlegt fyrir Þorvald að hitta strætófarþega Íslands no.1 og fá að spjalla við þig. Njóttu dagsins krúttið mitt  Kisses 

Ásdís Sigurðardóttir, 21.7.2008 kl. 12:39

3 identicon

Áfram Fram!!!

H.T. Bjarnason (IP-tala skráð) 21.7.2008 kl. 12:42

4 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Þjálfari; no commentó.

Þú; frábær.

Jenný Anna Baldursdóttir, 21.7.2008 kl. 12:47

5 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Nú er Guðjón bara hættur með ÍA og viðræður standa yfir við tvíburana knáu! Spyrjum svo að leikslokum. Hefði þó haldið að Gaui næði okkur á toppinn. Mr. Bjarnason, skammastín! (heheheh) Þú líka, Jenný  Enginn fleginn bolur í dag, Ásdís, hann er bara fyrir mávana, eða þá sem eru mjög hávaxnir og geta kíkt á svalirnar hjá mér á 4. hæð. ´Já, Siggi Hreiðar, það er margt froðusnakkið núna!

Guðríður Haraldsdóttir, 21.7.2008 kl. 13:03

6 identicon

Það versta við það þegar fólk er að fárast yfir því hvað Bubbi, Sigurrós og Björk eru að gaula fyrir þá gleymist aðal málið.

....að sjá til þess að Björgvin Halldórsson hætti að syngja!

Breiðholtshatarinn (IP-tala skráð) 21.7.2008 kl. 13:15

7 Smámynd: Linda Linnet Hilmarsdóttir

knús á þig elskulegust

Linda Linnet Hilmarsdóttir, 21.7.2008 kl. 13:55

8 Smámynd: Þröstur Unnar

Sniðugt. Alltaf þegar "tvíburarnir" skipta um starf,,,,,,vúú ég er að rifna,,þá er talað við þá báða í einu. Mætti halda að þeir væru samvaxnir. Er ekki hægt að fá bara annan þeirra í þjálfunarvinnu e-hvað? Verður hinn þá óstarfhæfur? 

*Djö sem þetta pirrar mig, jétið úldin fisk.

Þröstur Unnar, 21.7.2008 kl. 14:37

9 Smámynd: Aprílrós

Svona eru tvíburar, ég á tvíbura og þekki þessa samvinnu í fótboltanum og öðru hjá þeim.

Alltaf jafn skemmtilegt að lesa bloggin þín Gurry.

Hafðu góðan dag.

kveðja Guðrún Ing

Aprílrós, 21.7.2008 kl. 14:43

10 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Gleður mig að heyra með neglurnar. Hvað ertu að éta kona sem orsakar þennan rosalega vöxt. Og það er sem sagt von á bónorði innan tíðar. Eða jafnvel bónorðum. Þú leyfir okkur að fylgjast með.

Jóna Á. Gísladóttir, 21.7.2008 kl. 16:44

11 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Hollan morgunmat, held ég, Jóna. Fæ mér "álegg" á morgnana, ekkert brauð, heldur kotasælu með paprikum, gúrkum og slíku. Bónorðin hljóta að fara að fjúka inn þar sem "útlitsgöllum" fækkar svona ...

Eineggja tvíburar, ein sál, Þröstur minn. Þolinmóður!

Vona að dagurinn þinn verði líka góður, Guðrún, og knús á þig Linda.

Jenný, þú áttir BARA að fá hjarta þetta virkaði eins og ég væri að "skamma" þig eins og HTBjarnason. Alveg óvart, elskan.

Guðríður Haraldsdóttir, 21.7.2008 kl. 17:07

12 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Ljóta ástandið já á Skagaliðinu, er nú ekki viss um að það sem tókst einu sinni hjá sonum gamla eitilharða bakvarðarins úr Þór/ÍBA, Gunnlaugs Sölvasonar, takist aftur!

Við spyrjum jú samt að leiksslokum, en það er einhver deyfð og vangeta núna sem veldur auk meiðsla auðvitað hjá litlum hóp.

Magnús Geir Guðmundsson, 21.7.2008 kl. 17:52

13 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Annars svolítið gaman hvernig þú ert farin að blanda saman laufléttu hversdagsatburðunum saman við háalvarlegar hugsanir!

Magnús Geir Guðmundsson, 21.7.2008 kl. 17:58

14 Smámynd: Brynja Hjaltadóttir

Bloggið þitt er ávanabindandi...verð að lesa það áður en ég fer að sofa..og skemmti mér alltaf jafn vel við lesturinn. Þúrt snillingur Frú Guðríður...ehmm...Fröken...Guðríður.

Brynja Hjaltadóttir, 22.7.2008 kl. 21:54

15 identicon

er þorvaldur í klassík ? eða er ég bara að ruglast

Hulda (IP-tala skráð) 23.7.2008 kl. 00:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 15
  • Sl. sólarhring: 280
  • Sl. viku: 1974
  • Frá upphafi: 1452174

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 1588
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 15

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • baby reindeer
  • Ove Otto
  • Gísli gerir Mart-einn

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband