Fríhelgi ... eða hitt þó heldur

Ég eftir helgiFríhelgi fram undan en það er víst mesta rangnefni því þessar helgar sem stráksi gistir að heiman eru notaðar í alls kyns verkefni sem hafa setið á hakanum. Skápatiltekt, þvotta, sukk eða svínarí en syndsamlega lítið karlafar. Nú verða jólagjafirnar teknar föstum tökum. Jú, ég hef vissulega keypt nokkuð margar (þrjár sniðugar í Glasgow) en þarf að fara að flokka og pakka inn (setja í jólapoka sem ég keypti í Costco) svo ég kaupi ekki of margar, það er nefnilega hægt. Keypti bók fyrir eina frænkuna en mundi þá að ég hafði keypt eitthvað vellyktandi og dásamlegt í búð sem selur uppáhaldsmerkið hennar, svo ég hirði sennilega bókina sjálf. Eiginlega bara tilviljun að ég keypti nokkuð ytra, var í borgarferð, ekki innkaupaferð. Ég hélt að ég gæfi svo fáar gjafir en með þriðju vaktinni sem ég tek fyrir stráksa sýnist mér þetta vera hátt í þrjátíu. Er að hugsa um að raða gjöfum á umbúið rúm mitt, skrifa miða með öllum gjafahöfum mínum, setja réttan miða við rétta gjöf ... pakka inn og kaupa, ef vantar, eitthvað handa lausu miðunum. Ég gef eitthvað sem er fólki lífsnauðsynlegt, eins og bækur, góða lykt, sælgæti ...

 

Ég er gleymari. Einn af örfáum, ef nokkrum, göllum mínum. Hafði keypt dýrindis meðlætisskála-skál handa Hildu systur eitt árið - í afmælisgjöf (18. des.), gaf henni hana nokkuð fyrirfram og steingleymdi því svo þegar ég rambaði inn í sætu búðina hennar Dýrfinnu gullsmiðs, skáhallt á móti spítalanum, og festi kaup á fallegu hálsmeni, einmitt í afmælisgjöf. Hilda tók þakklát við afmælissteinagullhálsmeninu en svolítið hissa. „Varst þú ekki búin að kaupa afmælisgjöf handa mér?“ og minnti mig á meðlætisskálaskálina. Ég er alltaf snögg að hugsa og svaraði: „Svona dásemd eins og þú á aðeins skilið það besta, eða tvær afmælisgjafir!“ Hún samsinnti því og ég fékk án efa talsvert dýrari og flottari jólagjöf frá henni fyrir vikið. Maður kann þetta. Lymsku-Gudda í essinu sínu.

 

TásurSvo pantaði ég mér fótaaðgerðartíma áðan, í fjórða skiptið á ævinni, og kemst að rétt fyrir jólin, pantaði fulla þjónustu en sökum lítillar notkunar á fótum (ég hata gönguferðir, munið, og get ekki gengið í hælaháum og þröngum skóm) er skammarlega lítið sigg á hælum en fínt að fá klipp og krem því þótt þurfi lítið að gera líður mér svo vel á eftir, svíf. Fór síðast fyrir tveimur eða þremur árum til konu í heimahúsi, en fannst erfið og skrítin orka í gangi þar - svo ég ætla annað. Mig minnir að upplifunin hafi verið einhvern veginn svona:

„Gjörðu svo vel og sestu hér.“ Þögn.

„Ertu héðan?“ spurði ég eftir fimm mínútur til að reyna að létta andrúmsloftið sem var svolítið þvingað. Það var sem sagt ekki gott að þegja með henni.

Löng þögn. „Nei, aðflutt,“ píndi hún sig til að segja.

„Hefurðu unnið lengi við þetta?“

Löng þögn. „Í einhver ár,“ svaraði hún varlega.

Ég gafst upp, enda betra að sitja, loka augunum og njóta þess að fá nudd og góð krem, og vonaði að hún léti varkárni sína í garð viðskiptavina ekki bitna á fögrum tám mínum. Sá að hún var álíka varkár (ég þoli ekki fólk-fálát) í garð næstu manneskju á eftir mér. Held að hún sé hætt, eða kannski bara flutt eftir að hafa snyrt skessurnar hérna á Skaganum. Hef ekki séð hana lengi, lengi. Kannski voru þetta uppgrip og hún með aðstöðuna að láni, að kaupa íbúð í Reykjavík og vantaði pening. Hún var ódýrari en annað í boði. Ég gerði einu sinni "uppgrip" í litlum bæ úti á landi og átti þar með fyrir litlu sjónvarpi til að gefa syni mínum í fermingargjöf. Tók eina helgi, frítt fæði og húsnæði hjá góðu fólki.

 

Hún reyndi alla vega ekki að selja mér Herbalife, eins og nuddarinn í Baðhúsinu um árið og gat ekki nuddað á meðan hann talaði og hann talaði allan tímann. Hún gæti svo sem hafa frétt af árum mínum í Leyniþjónustu Íslands og haldið að ég ætlaði með kurteisisspjalli í upphafi að fá upp úr henni öll subbulegu atvinnuleyndarmálin. Eins og að setja vaselín úr Bónus í tómu krukkurnar utan af rándýru fótasmyrslunum, að spara 50 aura á hvern kúnna með því að hafa vatnið alltaf fimm gráðum kaldara, að vera með á "biðstofunni" stolin tímarit frá tannlækninum hennar ... eitthvað slíkt. Maður veit aldrei! Sú sem var í gamla Arionbankahúsinu, þar sem tannlæknirinn minn er, og ég farið áður til var æði en þegar ég ætlaði næst í tásnyrtelsi ákvað ég að velja stofu sem hentaði betur að fara á og lenti í þessu. Ákvað að fara aftur til frábæru Arionbankahússkonunnar en hún bara hætti og ný kom í staðinn. Áður en ég gat farið til hennar flutti hún (í dag, í hús sem ég heimsótti daglega í nóvember þar sem ég tróð íslensku í námfúsa, dásamlega útlendinga). Hún virkar ansi fín og ég hlakka til að fara.

 

LampiÍ þjónustustarfi skiptir máli að vera almennilegur, sýna oggulítinn áhuga á fólkinu sem borgar t.d. núna tólf þúsund kall á tímann. Við Anna Júlía spjöllum stundum mikið, stundum lítið, þegar ég fer í klipp og lit, en mér líður alltaf eins og ég sé innilega velkomin. Það þarf þó enginn að vera eins og ein vinkona mín lýsti mér þar sem ég vann í Gjafahúsinu á Skólavörðustíg fyrir jólin (13 ára) og nánast hneigði mig fyrir viðskiptavinum, af einskærum almennilegheitum. Ég hef svo sem sagt frá því áður að þar hefði ég átt að skilja að stærðfræði væri mitt fag, eða eitthvað tengt tölum. Ég kunni verðið á hverri einustu vöru í búðinni og þær voru rosalega margar, alls konar kerti, körfur, punt og annað fínirí. Ég man flest póstnúmer eftir vinnu við að senda út póst á níunda áratugnum, og er ekki í rónni fyrr en ég fæ að vita hvað skjálftinn var stór eða var yfir því hversu margir greindust með covid á Vesturlandi. Tölurnar fullkomnuðu atburðinn í mínum huga, furðulegt. Kannski hefði ég verið best geymd hjá núll þremur (ja.is símleiðis). Ég fékk alla vega nokkur skrítin símtöl þegar ég vann í hálft ár á skiptiborðinu hjá DV (1983?) og fékk símtöl með spurningum um símanúmer.

MYND: Þennan fallega bláa lampa sá ég á netinu nýlega og sem nokkuð fallegulampasjúk manneskja féll ég fyrir honum. Hefur nokkur séð eitthvað í líkingu við hann hjá antíksölum hér á landi?  

 

KettirnirNú fer stráksi alveg að fara. Ég þarf að nota tækifærið áður en ruslamálaráðherra Himnaríkis fer að heiman, að skipta um kattasand og senda hann svo út með allt rusl, pappa, plast og það allt. Þetta eru fínar helgar án hans og það er svo gaman að fá hann aftur, og miklir fagnaðarfundir vegna fjarverunnar. 

Já, og svo er runninn upp sá tími að ég þori ekki að borga neitt sem kemur í heimabankann minn, valkvæðar greiðslur, heitir það, ekki þó að mig langi að styrkja það í eitt skipti. Í fyrra gerði ég það og fékk í kjölfarið upphringingar frá viðkomandi félagi með von um meiri peninga. Ég er með Kvennaathvarfið, SÁA, Samtök gegn ofbeldi og Landsbjörgu í hverjum mánuði og borga það með gleði, nokkrir fá árlega, en get ekki bætt við nema henda öðrum út sem ég tími ekki. Finnst þetta frekar leiðinleg aðferð við fjáröflun. Samt er svo mikil synd að við fólkið þarna úti þurfum að halda uppi alls konar góðgerðarfélögum þegar ríkið ætti að sjá um það. Ég hætti þó öllum stuðningi við Krabbameinsfélagið árið sem það hætti að koma til Akraness með brjóstaskimunarvél, tvo daga á ári. Það þurfti að fækka konum því það voru of fáir læknar til að lesa úr myndunum og okkur Skagakonum var fórnað, eins og ég hef oft skammast yfir. Ein afsökunin var reyndar sú að vélarnar væru ekki nógu nákvæmar en samt er farið með þær til Borgarness, eru þær þá nógu góðar fyrir konurnar þar? Samt veit ég að Krabbameinsfélagið gerir margt gott - en ég er enn grautfúl, eins og Gyrðir sem ætlar aldrei aftur að sækja um listamannalaun ... Það er víst algjört flækjustig að sækja um þau og ekki á allra færi. En ég vil endilega hafa listamannalaun, annars fengjum við bara Arnald og Yrsu (þau lifa á skrifunum) fyrir jólin. Við myndum hætta að vera þessi mikla menningarþjóð og berklaveikum ljóðskáldum undir súð myndi fjölga til muna. Svo er heilmikil vinna í kringum hvern sem fær listamannalaun, ef ég tek rithöfunda sem dæmi: prófarkalestur, útlitshönnun, prentun og alls konar.     


Heilsuléttir, tónleikaraunir og lausn á íslenskukennslu

TónleikarHálfnuð við að kaupa miða á Tix.is, á Skálmaldartónleika föstudaginn 1. nóvember á næsta ári, þar sem lög af m.a. plötunni Börn Loka (þar er Hel) verða leikin í Eldborgarsal Hörpu (þar sem í loftinu er birkikrossviður sem verkfræðingur sagði mér eitt sinn þegar ég skrifaði grein um myglu að væri algjört flopp að nota, ávísun á myglu, of rakur til að hann megi einangra/loka ... grenikrossviður væri miklu betri.) Ég stoppaði í miðjum klíðum, hikaði við að kaupa þessa tvo miða - ekki nenni ég ein og hverjum á ég að bjóða með mér? Ætti ég kannski að sækja um í kórnum sem syngur með? Það væri sennilega enn skemmtilegra.

 

Mér hefur sýnst að ég sé sóló í þessari óvæntu aðdáun og ást á Skálmöld sem mér skilst þó að forseti Íslands deili með mér. Hvað myndi Eliza segja ef ...? Væri samt kúl að fara á forsetabílnum. Mögulega væri Davíð frændi til í að koma, sá smekkmaður sem hann er á tónlist, en samt, nennir hann með háaldraðri móðursystur sinni á rokktónleika? Jafnvel þótt hún lofi að vera mjög stillt og ekki syngja hástöfum með? Svona geta nú einföldustu hlutir flækst fyrir manni. Legg ekki í að spyrja hann svo tix-dæmið verður á bið eitthvað áfram. Spurning um að fara á Tinder og finna þar tónleikafélaga, með fríðindum ef sæmileg huggulegheit eru til staðar, eða ef hann andar.

 

ApótekiðNýlega, eða á meðan ég var enn að kenna útlendingum íslensku í næsta nágrenni við 301 sveitina, notaði ég tækifærið og fór í apótekið. Ég spurðist fyrir um visst krem/dropa sem eru við vægu exemi og mitt útrunnið, hvort ég gæti fengið nýjan skammt út á fyrri lyfseðil frá lækni. Viðurkenndi að ég kynni lítið á Heilsuveru sem ég hefði ekki vitað af eða tekið í notkun fyrr en fyrst í covid, til að halda utan um bólusetningar, fyrir mig og stráksa. Elskuleg kona tékkaði á þessu fyrir mig og kom svo náföl og sjokkeruð til baka: „Það er EKKERT inni á gáttinni hjá þér!“ Svona eins og hefði komið tölvuvírus og allt horfið. Ég sagði henni að það gæti alveg passað, ég væri heilsuheppin en myndi prófa mig áfram í Heilsuveru til að reyna að fá nýjan lyfseðil fyrir dropunum. Henni létti en þetta vakti mig til umhugsunar, væri ég, kona á mínum aldri, afskaplega löt við að heimsækja lækna, kannski með dulinn sjúkdóm sem hefði ekki verið meðhöndlaður sem gæti endað með ósköpum, reykti ég ekki í áratugi (til 2020), væri ég ekki brjáluð í appelsínusúkkulaði, hataði ég ekki heilsusamlegar gönguferðir og virkaði ég ekki frekar feit á myndum?

Bíddu, bíddu, hugsaði ég, það væri kannski sniðugt að láta tékka á sykursýki, las ég ekki eitthvað um að það gæti verið mjög lúmskur sjúkdómur? Augun í mér eru stundum of þreytt til að ég geti lesið á vanalega mátann, nema loka hægra auga, móðgaði ég ekki fólk iðulega með því að sjá ekki inn í bíla hjá því og veifa til baka, af því ég sá það ekki, og fyndi ég ekki stundum fyrir þorsta (sérstaklega þegar ég hleyp upp stigana), eitthvað sem gerðist aldrei hér áður fyrr? Það var einmitt auglýsing á netinu þar sem fólk var beðið um að vera á verði gagnvart sykursýki 2. Ég hafði auðveldlega getað hakað í tvö box þar, minnti mig.

 

Þegar ég fór næst í apótekið, í hádeginu eftir kennslu, einmitt til að sækja dropana eftir að hafa getað stautað mig áfram á Heilsuveru, spurði ég hvort hægt væri að kaupa blóðsykurspróf þar. „Það er frítt,“ sagði sama elskulega konan. „Ég skal aðstoða þig.“ Og hún gerði prófið á mér á meðan ég sagði henni frá grunsamlegum einkennum mínum; hálfgerðum sjóntruflunum og þessum nýtilkomna þorsta (ja, síðustu misserin). Ég hefði sjaldan fundið fyrir þorstatilfinningu í gegnum tíðina. Hún horfði á niðurstöðuna, leit upp og sagði: „Ja, kannski ertu bara farin að finna fyrir eðlilegum þorsta því blóðsykurinn eftir að hafa borðað morgunmat (súrmjólk, púðursykur og kornflex) er 5,3 sem er í fínu lagi! Það væri ekki galið að prófa aftur og þá fastandi,“ bætti hún við.

 

Ég dansa við skrifborðiðÞetta var léttir og hvetur eiginlega til frekari heilsudáða, ég er farin að dansa aftur við skrifborðið ... sennilega get ég þakkað 10-þúsund-skrefum-á-dag-ferðinni til Glasgow og almennu hoppi og skoppi í kennslunni alla virka daga í fjórar vikur, fyrir að hafa lést um nokkur hætt-að-reykja-kíló því mér líður ekki lengur eins og ég sé að hrynja. Drama? Já, pínku.

 

Minni áhugasamt jólafólk á að seinni jólamarkaðsdagarnir verða um næstu helgi, lau og sun, í Landsbankahúsinu gamla við Akratorg. Það var svo ótrúlega margt flott og skemmtilegt að sjá þar síðast og verður án efa nú um helgina. Ég ætla alla vega aftur. Svo mikið líf og fjör.  

 

Facebook-njósnir dagsins:

 

Hildur nokkur Gunnarsdóttir segir á fb:

„Þetta ætti að hífa okkur aðeins upp listann.

Orðflokkagreining kennd með aðferðum Ólafar á Mýrum (og spyrjið mig ekki hvur í andsk. hún er): 

 

Nafnorð: er orð sem hægt er að setja -djöfullinn eða -djöflarnir fyrir aftan. t.d. pottdjöfullinn, bíldjöfullinn, kattardjöfullinn.

Lýsingarorð: er orð sem hægt er að setja drullu- fyrir framan, t.d. drullubrjálaður, drulluskemmtilegt, drullusúrt.

Sagnorð: er orð sem hægt er að setja „eins og andskotinn“ á eftir, t.d. drekka eins og andskotinn, hlaupa eins og andskotinn, reykja eins og andskotinn.

Hér er komin drullufín leið til að kenna eins og andskotinn krakkadjöflum íslenska orðflokka.“        


Leyniferðir, nýtt jólatré og ... mörkin

JólatréÆsispennandi ástand ríkir núna, alls konar leyniferðir farnar til að plata suma stráka því þetta er uppáhaldsárstíminn hans stráksa. Hér trúum við að sjálfsögðu á heilagan Nikulás og vonum að hann kíki við í nótt ... en ef ekki, þá allt í lagi. Sennilega er ég orðin of rígfullorðinn til að fá eitthvað en mögulega sleppa sumir við aldurstakmörkin.

 

Í hádeginu var farin sérstök leyniferð tengd nákvæmlega þessu en Inga bjargaði öllu með skutli þangað, því síestan sem innanbæjarstrætó tekur setti heilmikið strik í reikninginn varðandi leynd, ekki gaman að hitta á stráksa í strætó á leið hans heim úr skóla, sem hefði getað gerst, þá hyrfi nú leyndin. Svo þegar stráksi kom heim klukkan eitt, var Inga í kaffi hjá okkur, "nýkomin" og nú lá leiðin í Húsasmiðjuna til að kaupa jólatré. Ég fann eitt hátt (1,80 m) og grannt og keypti það, svo nú má aldeilis fara að jólast. Er ekki sagt að maður kaupi alltaf jólatré sem líkjast manni sjálfum? Ja, mér datt alla vega ekki í hug að kaupa lágt og breitt tré ... sem var líka til sölu þarna. Ég er 1,70 m að hæð sem slagar hátt upp í 1,80 og er talsvert fyrirferðarminni en tréð sem verður sýnt hér fullskreytt einhvern daginn. Vona að allir bíði spenntir ...

 

Nágrannastrákarnir mínir, sætu og góðu, fá gjafir sem við stráksi fundum í bæði bókabúðinni og Lindex ... og svo hittum við foreldra þeirra óvænt á bílaplaninu fyrir utan. Ég flissaði að sjálfsögðu innra með mér ... ef þau bara vissu, múahahaha. Flott föt á góðu verði og spennandi dót úr bókabúðinni. Þær hafa safnast upp gjafirnar og nú bara verð ég að fylla út listann, sjá hvað vantar og drífa í að pakka inn því sem komið er. Svo verða skiptin góðu í afmælinu hennar Hildu sem er ansi þægilegt fyrir bíllausa kerlu.

Ég hoppaði inn í Krónuna og ætlaði enn einu sinni að leita að Önnu Mörtu-pestóinu sjúklega góða en greip í tómt. Var svo heppin að finna afar liðlega starfskonu sem tjáði mér að pestóið hefði verið til en lítið selst, sem ég skil betur nú því ég leitaði alltaf á röngum stöðum, eða í kæli, eins og Hagkaup geymir það, eða geymdi, fann það ekki þar síðast, svo hún ætlar að reyna að panta það fyrir mig. Það skiptir greinilega ansi miklu máli hvar hlutir eru staðsettir, ekki hefði mér dottið í hug að leita í ítölsku vörunum hjá Jamie Oliver-pestóinu ... ég grannskoðaði allar kælihillur alls staðar oft og mörgum sinnum án árangurs. Ég er ekkert fyrir pestó - en þetta frá Önnu Mörtu (og Lovísu) er bara eitthvað annað og sletta af því yfir salat, á pítsu eða nánast hvað sem er gerir einhvern galdur. Þær systur (eineggja tvíburar) gera líka súkkulaði-Hringina sem eru til fjórar gerðir af, allar með hnetum, möndlum, döðlum eða rúsínum ... því miður svo ég kem ekki nálægt þeim, en gaf Ingu einu sinni og þetta var besta súkkulaði sem sú smekklausa (djók) vinkona hefur smakkað. Kannski ekki rúsínur, en hitt er allt þarna. Dæs.

 

PalestínaFólk er orðið ansi reitt og kannski styttist í búsáhaldabyltingu, miðað við það sem maður sér á samfélagsmiðlum, ósanngjörn meðferð á fötluðum og börnum af "röngum" lit er farin að valda fleirum en mér vanlíðan og reiði. Hvenær er mæting á Austurvöll? Ég kem, öskureið. Ég get bara ekki trúað því að landið mitt viðhafi svona stefnu í útlendingamálum ... og þegar valdafólk segir að það sé verið að fara eftir lögum, þá eru það nú bara nýleg lög sem Jón Gunnarsson setti, eftir að hafa verið látinn í skítverkin, nákvæmlega til að gera þetta. Ég er verulega reið út í ríkisstjórnina núna, eins og ég kann þó vel við sumt fólkið sem þar situr. Reiðin er sannarlega ekki bundin við kjósendur stjórnarandstöðunnar ... einhvers staðar eru mörk og það er verið að fara yfir þau núna, nefnilega. Við höfum auðvitað ekki getu til að hjálpa öllum en það er heldur ekki verið að biðja um það.

 

MeinsemdFacebook-fréttir:

Svo sem ekki margt í gangi akkúrat núna, ótrúlega margir að deila undirskriftalista vegna Palestínudrengjanna sem á að senda til Grikklands - og svo eru fréttir af heppni starfsmanna Landsbankans sem fá 200 þúsund í jólagjöf frá L.Í., ef ég skil það rétt. Fínt ef hinn almenni starfsmaður fær eitthvað, ekki bara þau sem stjórna og eru hvort eð er á himinháum launum. 

 

Á náttborðinu:

Var að enda við (að hlusta á) Meinsemd eftir hjónin Kim Faber og Janni Pedersen, bók nr. 2 sem hefur verið þýdd á íslensku. Var búin með Kaldaslóð sem er sú fyrsta. Ferlega fínar bækur, þykkar og safaríkar löggusögur. Sú þriðja heitir Kyrkjari og ég bíð spennt eftir henni á Storytel. Þarf að kíkja til augnlæknis því ég stend mig að því að hlusta frekar en að lesa (ég á þessar bækur allar þrjár nefnilega) því augun þreytast fljótt, hef sennilega lesið yfir mig á síðustu áratugum. Bunkinn sem bíður eftir að lesi, ekki hlusti, stækkar ört svo augnlæknir verður það á nýju ári.  

Nú er ég að hlusta á bókina Miðnæturrósin (eftir Lucindu Riley, sama höfund og bækurnar um systurnar sjö). Sannkallaður yndislestur. Er að hugsa um að hraðhekla teppi handa litlu nágrannastrákunum mínum til að þeir fái nú almennilega gjöf frá "ömmu" á meðan ég hlusta á hana (enn 12,5 klst. eftir á hraðanum 1,2), hún er ekta kósíbók sem hæfir síður við tiltekt og annað húsverkjatengt.      


Afasaga, JFK-uppljóstranir og flottar tungubreytingar

KennedyFacebook getur verið svo gefandi og allt of langt síðan ég hef birt skemmtilegan fróðleik þaðan. Ég sá ansi hreint fræðandi samtal þann 22. nóv. síðastliðinn og er fúl yfir því hvað margt hefur farið fram hjá mér!

Maður setti eftirfarandi stöðufærslu hjá sér fyrir ofan mynd af Kennedy forseta: „Sextíu ár liðin síðan melurinn hann L.B. Johnson lét drepa þennan snjalla mann.“

 

Athugasemdir

„CIA pottþétt, sjá JFK-myndina.“

„Kennedy var drepinn vegna þess að hann vildi taka seðlaprentunina úr höndum seðlabankans. L.B. var bara asni og strengjabrúða. Eigendur svikamyllu bankakerfisins drápu Kennedy.“ 

„Það voru Bush og félagar sem sáu um framkvæmdina, restina getur þú rakið til Svíþjóðar!“ Svar: „100 pr sammála.“

„Sömu menn og drápu hann stjórna Íslandi í dag. Finnst ykkur það ekki æði?“

 

Ef þetta síðasta er rétt er búið að finna upp yngingarlyf (Eilíf æska-hvað!) án þess að láta okkur hin vita. Ég hefði haldið að þau/þeir/þær sem bera ábyrgð á morðinu væru löngu komin/komnir/komnar undir græna torfu. Það voru vissulega slagsmál í Krónunni í Lindum nýlega út af "snyrtivörum" sem gæti þó sett þetta í samhengi. Leyfið mér að hugsa.

 

UppeldiSvo sá ég annað og enn betra á Facebook, aðallega um afa og ömmur sem við vitum öll að eru besta fólk í heimi. Hér er ein sagan: 

Afi nokkur varð fyrir því að kónguló beit hann. Eitthvað bar hann sig aumlega á eftir svo dóttursonurinn fór til að sækja græðandi smyrsl handa afa. Hann var að fara út úr herberginu afi hans sagði: „Kominn á þennan aldur höndla ég bara alls ekki þá ábyrgð að vera Kóngulóarmaðurinn.“

 

Uppeldi var svo gjörsamlega allt öðruvísi í gamla daga. Mín kynslóð þurfti að borða mjög vondan og oft næringarsnauðan mat og samviskubit okkar var virkjað ef við reyndum að leifa hryllingnum. Þá var talað um svöngu börnin í Biafra. Litla systir spurði mömmu eitt sinn hvort mætti ekki senda matinn hennar þangað ... ég hefði ekki dirfst. Okkur var ekki skutlað, það hefði gert okkur óþekk. Við systkinin fengum vasapening sem dugði fyrir ís en ekki dýfu sem hefði gert okkur óþekk. Ég segi ekki að við höfum verið flengd góða nótt en það hefði ekki þótt tiltökumál á mörgum heimilum. Svo fór ég að heyra sögur frá Svíþjóð, þá komin yfir tvítugt. Ef sænsk börn köstuðu steini í glugga sem brotnaði sagði foreldrið: „Æ, ástardúskurinn minn, þetta var svo lítill gluggi, viltu ekki frekar brjóta þennan stóra, engilssnúllan?“

Ó, hvað það var gott að hneykslast á þessum frjálslyndu Svíum sem voru greinilega að búa til handónýta, ofdekraða kynslóð, það var nú annað en við.

 

Brúðkaup foreldraÞað var nú samt talað við okkur af minni kynslóð eins og við værum dekruð börn, því foreldrar okkar höfðu það svo skítt, að sögn, (mamma fékk reiðhjól í fermingargjöf, ég fékk skatthol, kommon) hvað þá afar okkar og ömmur.

Í nokkur ár eftir skilnað við fyrsta eiginmann minn var ég í eilífum þvottavandræðum, fékk að setja í vél hjá góðu fólki eða góð aðstaða með vélum fylgdi húsinu sem ég bjó í þá stundina. Svo þegar ég keypti á Hringbraut árið 1988, Einar var þá átta ára, tók ég lífeyrissjóðslán og keypti mér þvottavél og þurrkara sem dugðu vel til ársins 2020 sem segir helling um AEG-heimilistæki. Eldri kona sem ég þekkti hreytti út úr sér þegar ég sagði henni glöð frá nýkeyptu vélunum og þar með lausn á öllum mínum þvottavanda: „Þið þessar nútímakonur, hafið aldrei þurft að dýfa hendi í kalt vatn. Aldrei þvoði ég í sjálfvirkri þvottavél fyrr en eftir að börnin mín voru öll uppkomin.“ Hmm, hugsaði ég, send í sveit til að vinna frá 11 ára aldri, barnapía fyrst, svo heimilisverkaaðstoð, byrjaði 14 að verða 15 ára í fiski á sumrin (Grindavík, Vestmannaeyjar) og hef sennilega unnið við flest nema að vera þjónn á veitingastað, bókavörður eða starfsmaður á spítala. Ég notaði þennan barnaþrældóm þó aldrei sem vopn á son minn (f. 80) sem fór sjálfur að vinna 14 ára hjá BYKO með skólanum (Hagaskóla), til að geta keypt fyrstu tölvuna sína - og hann var í sveit flest sumur og stóð sig vel. Sú, þessi sem fussaði, hefði snúið sér við í gröfinni þegar ég fékk litla uppþvottavél (sem stóð á borði) í þrítugsafmælisgjöf frá fjölskyldunni. Þessar nútímakonur ... svei.

 

Svarthvíta myndin er síðan í gamla daga (1955?), úr giftingarveislu foreldra minna sem eru fyrir miðju. Pabbi stendur fyrir aftan skælbrosandi mömmu. Mínerva amma situr lengst til hægri.

 

Börn í dag? Nei, mér finnst við ekki ofdekra þau, við verndum þau kannski betur í breyttum heimi sem er þó bæði betri og verri en þegar ég var að alast upp. Þegar ég segi betri, á ég við að það er betri aðgangur að öllu, eins og t.d. tónlist og svo er hægt að gúgla* nánast allt.

 

Fyrir og eftirÍ gær kom Ellen frænka ásamt Elvari sínum í stóran og mikinn hjálparleiðangur. Það þurfti að hengja upp myndir í herbergi stráksa, ég þurfti ráð við einangrunar-plastdæmi í sturtuklefanum, klósettrúlluhaldarinn var dottinn af vegna fikts ... í Kela sko, eitthvað sem Elvar reddaði á núll einni á meðan Ellen bjargaði kommóðunni því ein kommóðuskúffan var ónothæf, skrúfa laus þar. Ég hafði því verið í vandræðum með síðbuxurnar mínar í margar vikur, því ég raða skipulega í skúffurnar, nánast í starwarsröð. Nærföt efst, þá sokkar, síðan bolir, svo buxur, næstneðst náttföt og í neðstu fer eitthvað sem erfiðara er að flokka (þykka föðurlandið úr Walmart, fínt í 20 stiga frosti, útprjónaðir ullarsokkar, of fallegir til að nota oft og lævíslegar strákaveiðigræjur, sem sagt bara eitthvað sem ég nota ekki (nógu) oft).

 

Eitt óvænt sem E og E gerðu var að snúa tungunni á tungusófanum og hafa hana hægra megin (sjá neðri myndina af þeirri samsettu, sú efri er fyrir-myndin) sem þýddi að þau þurftu að skrúfa hann allan í sundur til að geta gert það, elsku dúllurnar. Nú hefur stofan stækkað um nokkra fermetra, segir augað. Það sést kannski best þegar maður gengur inn í stofuna, af ganginum, en ég átti ekki slíka mynd til samanburðar.

Þrátt fyrir að hafa sópað saman glerbrotunum og ryksugað minnst tvisvar eftir að myndin af Kór Langholtskirkju í Flórens 1985, datt úr hillu og glerið brotnaði föstudaginn hræðilega þegar allt skalf í Grindavík og nötraði líka á Akranesi, náði elsku Elvar að stinga sig á glerbroti í öllum látunum við að breyta sófanum. Held að brot hafi leynst í fínu persnesku mottunni sem ég fékk á svo góðu verði í Portinu í Kópavogi. Hann fékk plástur á hnéð, eiginlega þrjá, vegna stöðugs blóðstreymis sem hætti ekki fyrr en við Ellen skipuðum honum að kósí-setjast á tunguhliðina og horfa á restina af Liverpool-leiknum. Myndirnar sýna að ég er ekki mikið fyrir að breyta ... held að séu alla vega tvö ár á milli þeirra.

 

Það er ekki orðið jólafínt hjá mér en ég er virkilega ánægð með útkomuna og það verður gaman að fara að jólast á næstunni. Pálmadóttir, hönnuðurinn sem hjálpaði mér við breytingarnar á Himnaríki ætlaði að snúa tungunni svona en gat það ekki þarna árið 2020, það virkaði algjörlega ómögulegt en Ellen frænka gúglaði* sófann (Jysk) og sá að það var hægt að ráða hvar tungan yrði. Og þá tóku þau upp skrúfjárnin. Ég var ánægð með sófann áður en finnst hann samt betri svona og gerir líklegra að ég nenni að setjast í hann og hafa það kósí á meðan ég horfi á eitthvað skemmtilegt í sjónvarpinu. Það hefur safnast svo mikið upp af góðu efni á þessum rúmu þremur árum sem ég hef varla nennt að kveikja á sjónvarpi. Í covid las ég villt og galið og fannst það æði. Samt með næstum allar sjónvarpsstöðvar sem hægt er að hafa. Jú, ég er manneskjan sem horfði næstum heilluð á Maður er nefndur í æsku því sjónvarp var svo mikið æði. Karlar að tala við karla um eitthvað óbærilega leiðinlegt en ... samt horfði ég. Og þegar kanasjónvarpið var, lögðum við systkinin eitt sinn pabba í mikla lífshættu í brjáluðu veðri þegar loftnetið á þakinu fauk til og við gátum ekki horft á Felix the cat. Ég sem man voða lítið frá þessum árum man þetta vel. Örvæntinguna miklu, alls ekki út af pabba að príla uppi á þaki á tveggja hæða húsi án öryggisbúnaðar, heldur yfir því að missa af barnatímanum! Börn í dag sem eru sjúk í síma og spjaldtölvur ná ekki með tærnar þar sem við systkinin höfðum hælana! Vondi maturinn, dýfulausi ísinn, það að þurfa að ganga heim með gaddfreðið hárið eftir sund og leikfimi og annað hræðilegt, var kannski mótvægisaðgerð - svo allt þetta sjónvarpsdekur gerði okkur ekki óþæg. Það skyldi þó ekki vera ...          


Húsfreyjugleði, strætósögur og kökuuppskrift

BjallanÓreglan er að verða algjör á þessu heimili. Ég vaknaði um áttaleytið í morgun (á sunnudegi!!!). Reyndar eftir níu tíma svefn. Dormaði að sjálfsögðu áfram með kött fast upp við bakið á mér. Krummi (miðköttur) tók upp á þeim svefnvenjum fyrir tæpu ári, hann er 12 og hálfs. Ég vissi ekkert hvað ég átti af mér að gera, í myrkri og í raun dagurinn ekki hafinn - þá dormar maður.

 

Þegar ég tók strætó heim á sunnudaginn fyrir viku (aldrei aftur klukkan 17.30 Akureyrarferðin) var vagninn troðfullur. Ég settist næstum aftast hjá öðrum villingi, pólskum manni sem býr á Hvammstanga. Hann fékk vinnu þar sem kokkur hjá Sjávarborg, geggjuðum matsölustað við sjóinn. Ég sagði þetta skemmtilega tilviljun, þar sem ég þekki fjölda fólks í 530 ... og ekkert smávegis frábært fólk, hann væri sannarlega heppinn með stað. Ég fann að ég þurfti ekkert að segja honum það. Nú bíður hann spenntur eftir almennilegum vetri og ég lofaði honum að hann fengi alveg örugglega meira en hálfs sentímetra háa snjóskafla eins og algengt er á Akranesi. Þannig að ég mun plata systur mína enn einu sinni að koma við á Hvammstanga (þarf ekki að pína hana) og snæða eins og eina góða máltíð hjá Davíd von Pólland.

 

Mynd 1: Ég svipaðist um eftir bjöllu, þar sem ég sat í fremsta sæti fyrir aftan afturdyrnar. Kannski yrði stráksi að standa upp til að ýta þegar við nálguðumst Garðabraut. Það var ekki fyrr en maðurinn sem sat í sætinu fyrir framan mig, hinum megin við ganginn hringdi bjöllunni við hnéð á mér að ég sá að ég sat á besta stað. Heklaði trefillinn sem grillir í er að sjálfsögðu eftir mig, allt of langur nema í frosti til að vefja fjórum sinnum um hálsinn. Hann er úr plötulopa og mjög hlýr.

 

JarðarberjatertaSmávegis bras var með greiðslu í strætó þegar ég fór í bæinn á föstudaginn, þannig séð, ég sagði bílstjóranum að drengurinn greiddi hálft gjald en ég fullt. Það hefði orðið sorglegur misskilningur í fyrrasumar sem nánast endaði með ofbeldi þegar ungi pólski bílstjórinn lét mig borga hálft gjald, hann sá ekki muninn á tæplega 64 ára konu og 67 ára með elliafslátt. Elsku bílstjórinn, þessi í fyrradag, er frá Úkraínu og bara í afleysingum, sagði þetta hræðilegt, svona gerðu bílstjórar ekki. Hann heitir Slava og hefur ekið mikið um bæði Noreg og Svíþjóð á trukkum. Hann sagði frábært að keyra hér, miklu minni vetur hér á suðvesturhorninu en hann ætti að venjast ... en eitt nýtt hefði bæst við hér - eða rokið. Oft þyrfti hann að ríghalda í stýrið (Hafnarfjall, Kjalarnes) til að haldast á veginum. Svo ók strætó út á veg 51 áleiðis að göngunum og við hættum að spjalla. Synd að hann verði bara í mánuð, eini ungi maðurinn á leið 57 sem hefur vit á aldri kvenna. Nema þessi frá Litháen, hann virðir okkur ætíð vandlega fyrir sér og stimplar inn rétt fargjald. Annaðhvort aldursglöggur eða farinn að þekkja okkur stráksa. Ef ekki væri fyrir frábæru bílstjórana myndi ég heimta nýja Akraborg. Ég sakna hennar svo mikið.

 

Mynd 2 tók ég á hárgreiðslustofunni þegar ég fór í klippingu um daginn. Húsfreyjan (jólablað) lá frammi og ég laumaðist til að taka mynd af einni uppáhaldsuppskriftinni (sem ég á nú samt einhvers staðar). Anna Júlía (hármeistari minn) sagði blaðið fullt af gömlu góðu uppskriftunum svo sennilega leita ég blaðið uppi og kaupi. Mjög sniðug hugmynd að mjög svo eigulegu blaði.

 

Gestirnir eru á leiðinni, þá þarf að hætta bloggeríi, klæða sig eftir sturtuna og finna eitthvað gott til að bjóða þeim. Hefði átt að fara á fætur þegar ég vaknaði, þá hefði ég getað bakað, ég er idjót. Ég á reyndar alls konar sælgæti sem ég keypti á jólamarkaðnum í gær, get alveg eins boðið upp á það í stað þess að lauma því með í jólapakka sem ég ætlaði að gera - það er hvort eð er allt morandi í sælgæti yfir jólin.     


Karlhylli á Kex hostel og djörf jólakúla í safnið

Allt karlkynsGærkvöldið fór í djamm í tilefni af fertugsafmæli Rásar 2 þar sem ég vann einu sinni fyrir bráðum fjörutíu árum. Ég var búin að lofa miklu slúðri og kjaftasögum en neyðist til að svíkja það, allir voru svo rólegir en um leið glaðir og enginn spennandi hneyksli. Upp á síðkastið, eða reyndar síðustu árin, hef ég orðið vör við aukna aðsókn alls karlkyns í mig (sjá mynd nr. 1 þar sem sjást fjórir af ótal mörgum aðdáendum mínum) og glaðst nokkuð yfir því án þess þó að veiða nokkuð að ráði út á karlhyllina - sem er furðulegt. Fyrir gærkvöldið fannst mér Siggi Gunnars einhver sá allra dásamlegasti og yndislegasti maður sem ég hafði aldrei kynnst og þar skjátlaðist mér ekki þegar ég hitti hann og kynntist í gærkvöldi. Ég er ekki alveg týpan til að vaða í ókunnugt fólk og heilsa, jafnvel þótt ég hafi verið búin að drekka hálfan bjór. Það sem bjargaði öllu var að hann hafði sest við hliðina á treflinum mínum og úlpunni á staðnum þar sem ég hafði verið fyrst og það var komið  fararsnið á mig eftir tveggja tíma skemmtun. Tónlistaratriði: Una Torfa, Mugison ... mjög flott. Ég brosti til Sigga og hann rétti mér útifötin mín og sagði um leið: „Gaman að sjá þig, ég hlustaði oft á þig í gamla daga (á Aðalstöðinni)“ og svo komu einhver falleg orð. Ég er orðin svo meyr núna á seinni árum að ég nánast klökknaði - settist smástund hjá honum og spjallaði. Nú veit ég að ég er jafngömlul bæði Madonnu og mömmu hans Sigga. Siggi er eiginlega miklu meira æði en ég hélt, svo mannþekking mín í gegnum fjölmiðla er bara nokkuð góð. Eins með Pál Óskar sem allir halda að sé svo næs, við unnum saman um skeið og hann var stundum dyravörður í afmælinu mínu ... en hann er akkúrat enn meira næs en fólk heldur.

 

Myndin sýnir þessa tvo og aðra tvo ... svo ekki verður um villst - ég nýt heilmikillar karlhylli.

Svipmyndir

Þegar ég mætti um sexleytið (ef mér er boðið kl. sex, mæti ég kl. sex) settist ég við hliðina á Þorgeiri Ástvalds - þarna sátu þau hjónin og voru einu andlitin sem ég kannaðist við. Ég var svo sem búin að kenna nemendum mínum að Íslendingar mættu sumir jafnvel nokkrum klukkutímum of seint í boð, en verð alltaf jafnhissa yfir óstundvísi landans. Á móti mér sat ungur og skemmtilegur maður (Úlfur Kolka). Hann var með þætti um rapp ... Saga rappsins heita þeir og eru komnir á Storytel of oll pleisis. Á þá ætla ég svo sannarlega að hlusta fljótlega og hlakka mikið til. Svona er Rás 2, svo ótrúlega mikil fjölbreytni ríkjandi. Næst tekur Úlfur rapphljómsveitir fyrir, eina í hverjum þætti og ég mun alls ekki missa af þeim. Það opnaðist eitthvað hjá mér þegar ég keypti áskrift að MTV árið 1995 og ný og æðislega flott tónlist fossaði yfir líf mitt. Ég hafði verið stöðnuð í Pink Floyd, Jethro Tull, Led Zeppelin, Mozart, Bach og slíkri dýrð en hafði svo sannarlega pláss fyrir meira og vona að svo verði um aldur og ævi. En sama hversu Siggi er dásamlegur held ég að honum takist aldrei í lífinu að fá mig til að hlusta á sálartónlist, soul, af nokkurri gleði - en hver veit? Hann sagðist hrifinn af sálartónlist og þungarokki! Svo ef einhver lína er þar á milli gæti soul-ið náð til mín. Hjálp!

 

Hverjir voru hvar-slúður:

Þarna voru m.a.: Lilja Dögg ráðherra, Óli Palli, Gunni bróðir hans, Kolbrún Halldórs, Friðrik Ómar (hann er svooo fyndinn), Þorsteinn J., Nanna og Fúsi tæknimaður, Goggi tæknimaður (sem sagði svo hræðilega setningu að hún verður ekki endursögð nema í mjög myrku bakherbergi sem búið er að hljóðeinangra og leita að hljóðnemum í og ég búin að drekka þrefaldan vodka í beilís ... Mætt var Arnþrúður frænka Karlsdóttir, Sigurður Pétur (Landið og miðin), Skúli Helga, Helga Vala, Kristján Sigurjónsson, Bogi Ágústsson, Hulda Geirs, Siggi Hlö., Andrea sjálf, Felix Bergsson og svona 100 í viðbót. Svo hefur kannski bæst við eftir að ég fór. Það var svooooo gaman að hitta gamla liðið og líka það nýja sem ég kynntist ögn. Ég dreif mig nú samt heim til Hildu þarna um áttaleytið og horfði á spennumynd frá 1999, Double Jeopardy. Hlýtt í hjarta eftir góða kvöldstund.

Bílstýran á Hreyfli sem ók mér í Kópavoginn þekkir einn af allra fyrstu fyrrverandi eiginmönnum mínum og lofaði að skila innilegri kveðju til hans og konunnar hans, þar sem hún er að fara til Spánar (á afmælisdegi Jóns Gnarr) og mun hitta þau í sólinni og hitasvækjunni ...  

 

David HasselhofVið stráksi tókum strætó heim kl. 12.30 í dag frá Mjódd en þegar ég var í appinu að leita að ferð heim var ég spurð hvort ég væri að fara frá ... og svo kom nákvæmt heimilisfang Hildu systur ... og satans-appinu fannst alveg upplagt að ég færi fótgangandi úr Kópavoginum í Mjódd, ég yrði bara 20-30 mín að skokka þetta. Datt ekki í hug að segja Hildu frá því, kannski myndi henni finnast það voða sniðugt líka og hætta við að skutla mér! Öpp eru misjafnlega góðhjörtuð, sum hreinlega ofmeta hrifningu Íslendinga á gönguferðum í kulda og trekki. Sem minnir mig á, ég er komin upp í tæplega 5.000 skref í dag. Veit ekki hvort það er mikið eða lítið, en mér líður samt eins og ég hafi afrekað heilan helling. Þetta er eini kosturinn við að innanbæjarstrætó tekur sér hvíld um helgar (og á kvöldin). Bíóhöllin tapar sennilega mest á þessu en kannski munar ekkert um okkur stráksa, það eiga allir aðrir Skagamenn bíl. 

 

Mjög skemmtilegur jólamarkaður er á Akratorgi, inni í gamla Landsbankahúsinu, bæði á fyrstu og annarri hæð. Hann verður þessa helgi og þá næstu. Ég missti mig gjörsamlega, keypti djarfa jólakúlu með mynd af David Hasselhoff. Sjá mynd. Hún fer í hópinn með flottustu jólakúlunum mínum. Axel í hjólabúðinni seldi mér skóreimar og skóáburð, Smári kokkur og fjölskylda var með konfekt, súkkulaði, varasalva, sápur, kerti og aðrar dásemdir, bókasafnið með bunka af bókum "gefins" en það voru reyndar frjáls framlög svo ég tók reyfara sem ég hafði þráð að lesa og borgaði, ágóðinn rennur til Mæðrastyrksnefndar. Þarna var Gulli (Sigfússon frá Borgarnesi) að selja LP-plötur - það var meira að segja ein með Skálmöld! Ég veit ekki hvort ég hafi pláss fyrir plötuspilara heima en vá, hvað væri gaman að eiga alvörugræjur og spila plötur. Svo voru jóla- og aðventuskreytingar í boði Skagamannsins knáa (ég og nöfn) sem á eiginmann á Dalvík (þar sem þeir búa og reka loppumarkað í bílskúrnum) og tilheyrir skemmtilegustu fjölskyldunni þaðan. Held að ein systirin (mágkona hans) sé með Gísla, Eirík og Helga-kaffihús, önnur býr á Akureyri, er með Mynju (verslun), ég fylgi henni á Instagram (Svana Símonar) og hún er æði. Held að maðurinn hans (flugþjónn) hafi einhvern tíma uppfært mig á Saga Class af því að ég var með svo mikinn dóna fyrir framan mig sem hallaði sætinu alveg niður í fangið á mér - og svo náði ég ekki netsambandi þótt ég hefði borgað fyrir það. Icelandair græddi reyndar á því ... ég hef splæst á mig á S-Class tvisvar síðan en held samt að ég myndi aldrei í lífinu tíma að fara þannig til Seattle, átta tíma flug, kostar nokkur hundruð þúsund fyrir einn, held ég. Þarna voru vörur frá elsku góðu Nínu minni, söngkonu og "fiskikerlingu" (sem söng um íspinna í laun fyrir dugnað í fiskvinnslu) og keilusnillingi, sem passaði Einar lítinn fyrir mig hér á Akranesi í denn og ég keypti ansi hreint jólalega rabarbarasultu af henni sem hún hafði sett kanil og negul út í. Vörur frá Silla kokki voru víst þarna en ég gleymdi að fara aftur og kíkja á fyrstu hæðinni, skilst að gæsakæfan sé vanabindandi. Takk, elsku Akraneskaupstaður, fyrir að standa fyrir þessum skemmtilega viðburði. Mikil stemning í gangi. Kannski förum við aftur á morgun, og mögulega um næstu helgi líka. Annars held ég að það verði gestkvæmt hjá mér á morgun en spurning um að draga gestina niður í bæ þegar ég verð búin að þræla þeim út. Það þarf að hengja upp myndir og kíkja á eina kommóðuskúffu. Fínt að fá hjálp við það fyrir jólin. Og ... ég er ekki byrjuð að skreyta!     


Besta og huggulegasta fólkið

401431424_10230757494070931_3207022623968770405_nÁrgangurinn okkar, sá besti, hittist um síðustu helgi í stúkuhúsinu sem er svo gamalt að það er komið á byggðasafnið. Þetta var vitanlega ansi hreint góð skemmtun, fólkið hafði ekkert breyst, konurnar stórhuggulegar og karlarnir glæsilegir. Ég upplýsti í stuttri ræðu hver ástæðan fyrir því er. Og af hverju þau okkar sem eru sléttust í framan sofa á grófum múrsteini til að reyna að búa til á sig hrukkur til að einhver trúi því að þau séu komin yfir fimmtugt. Það virkaði ekki en fjölgaði sjúkraþjálfurum umtalsvert á Akranesi. Við endurtókum leikinn, við Guðbjörn, og létum taka mynd af okkur saman. Sjá mynd. Myndin í skólaferðalaginu þegar við vorum 12 ára, sýndi gífurlega yfirburði mína þegar kom að sentímetrum. Ekki grunaði mig þá að ég væri hætt að stækka og yrði ekki höfðinu hærri en hann svo miklu lengur. Sjá mynd. Við spjölluðum saman um hríð og í spjallinu kom í ljós að hann afði verið fótboltamaður, um tíma atvinnumaður. Og ég vissi það ekki. Hafði horft á Liverpool gegn Manchester City fyrr um daginn ... en við vorum ósammála um tvennt - að Evrópukeppnin í fótbolta hefði verið 2016 (ég sagði það) og að við hefðum sigrað England í þeirri keppni sem G sagði að hefði verið 2018, HM (sem var rétt). Svona er nú hægt að tala um skemmtilega hluti á árgangsmótum. Enginn var drukkinn, þeir sem drukku voru mjög penir og Carlsberg-jólabjórinn sem Kamilla gaf mér í kveðjugjöf kom með mér heim aftur því einn bekkjarbróðirinn splæsti í rauðvín og hvítvín á liðið. Ég fór snemma heim því ég átti far í bæinn strax um kvöldið og síðan daginn eftir var það upplestur í Hörpu ... upp úr bestu bók jólabókaflóðsins ... Þá breyttist allt

Nú er það partí í kvöld, gamall vinnustaður heldur upp á stórafmæli og það verður svo gaman að hitta fólkið. Strætó fer eftir hálftíma eða svo, svo best að drífa sig. Kjaftasögublogg á morgun ef gerist eitthvað stórfenglega hneykslanlegt. 


Nóa-konfektslóð og Skálmaldartengsl

Næstum öllÞær hvimleiðu og kolröngu kjaftasögur fóru í gang að ég hefði gengið yfir mig í Glasgow (10 þúsund skrefa-hryllingurinn, munið) og væri enn að ganga saman en allt gengi nú samt vel. Jú, allt gengur vel, það er hið eina rétta af þessu. Síðustu fjórar vikurnar hef ég til dæmis verið hoppandi og skoppandi sem leiðbeinandi og kynnt íslensku fyrir fólki af níu þjóðernum. Fólkið var hvert öðru dásamlegra og heilmikil tilhlökkun að mæta í vinnuna á morgnana. Tungumálin sem það talaði voru ansi mörg; þýska, franska, norska, arabíska, spænska, litháíska, lettneska, sómalska, ítalska, rúmenska, kínverska, enska, úkraínska, pólska, rússneska ... ég er ábyggilega að gleyma einhverju. Þvílíkur fjársjóður að fá þetta fólk til landsins.

 

Mynd 1 sýnir hluta hópsins í bókabúðinni síðasta daginn. Ásta sést í baksýn bæta við nýjum jólabókum ... ég elska þennan árstíma. Eins og vanalega bætir myndavélin á mig fimmtán kílóum.  

 

Fallegt sólarlag 30.11 23Strætó númer 2 kom rétt fyrir átta á morgnana norðanmegin á Garðabrautinni og ók öfugan hring, eða niður í bæ og svo þaðan upp í sveit (Bónushús) þar sem vinnan mín er. Held að leið 2 fari fjóra eða fimm hringi á dag, til að létta á leið 1 og svo er líka frístundastrætó sem ég kann ekkert á. Ég hef verið rengd nokkrum sinnum varðandi leið 2, það væri enginn strætó númer 2 á Akranesi. „Kíktu bara á akranes.is,“ sagði ég síðast nú í hádeginu, stödd í strætó 1 á leið í klipp og lit. „Ég er ekki með tölvu og kann ekki á tölvu,“ sagði konan enn vantrúuð. Sonur hennar er hirðrafvirkinn minn og ég bið hann um að sýna henni þetta. Annars eru nýju rafmagnsvagnarnir ansi fínir en sniðnir að börnum, ekki bara leiðaáætlunin. Ef ég stelst í sætin merkt eldri borgurum með staf hef ég pláss fyrir fæturna, annars ekki. Ég myndi að sjálfsögðu þjóta upp úr eb-sætinu ef einhver eb kæmi inn í vagninn. Sætin (stærðin) eru miðuð við barnsrassa, og eiginlega of þröngt fyrir tvo fullorðna að sitja hlið við hlið þótt grannir væru. Held að innanbæjarstrætó sé aðallega hugsaður til að spara skutl á börnum, því leið 2 gengur t.d. ekki á meðan frí eru í skólum. Eins gott að ekkert slíkt var í nóvember. Reyndar ... flesta morgna skutlaði elskan hún Svitlana mér í skólann. Þá var ég búin að hella upp á í vinnunni, gera kennslustofuna klára, hlusta á músík og fullt áður en hitt starfsfólkið mætti. Langfyrst. En langseinust ef ég tók strætó, þá kom ég 8.15 sem er samt korteri fyrir byrj.

 

Mynd 2: Himinninn var ansi smart í dag, eftir lit og klipp, þar sem ég stóð þarna og tók myndina var kallað í mig. Hjördís (mömmur.is) spurði hvort okkur vantaði far, stráksi hitti mig þarna eftir skóla. Ekki í fyrsta sinn sem gott fólk býður okkur far. Stráksi var þó heldur dramatískur þegar hann sagði: „Hjördís, þarna bjargaðir þú lífi okkar.“ Svo minnti hann okkur á áðan þegar hann sagði í gríni að hann vildi frekar Hjördísi sem fósturmömmu af því að hún byggi til svo flottar kökur. „Það var sko grín,“ sagði hann en efinn skein úr augum hans. Ég þarf að baka oftar.    

 

Hjartans yndin hjá Símenntun Vesturlands, Hekla og Steinar, gerðu allt, bókstaflega allt til að auðvelda mér tilveruna í kennslunni. Ég spurði Steinar einn morguninn eftir að hafa fengið tölvuaðstoð frá honum: „Segðu mér, ertu með eðlilega tölvukunnáttu eða hefurðu menntað þig sérstaklega í tölvum?“

„Uuu, bara ósköp venjulega,“ svaraði hann og þá vissi ég stöðu mína þar.

Nokkrum morgnum seinna hljóp ég inn á skrifstofu til hans og montaði mig af því að hafa getað allt sjálf ... hann nefnilega kenndi mér um leið og hann stillti allt rétt. Ef einhver hafði notað kerfið á eftir mér deginum áður, þurfti að endurstilla og það var mikið sjokk (fyrir snilling á öðrum sviðum, eins og mig). Núna get ég eiginlega næstum því titlað mig tölvunarfræð - ekki alveg -ing, það er lögverndað. Ég keypti tvo kílókassa af Nóakonfekti á fimmtudaginn fyrir viku, annan fengu hjálparhellurnar mínar hjá Símenntun á föstudeginum og hinn fór í að gefa nemendunum smakk af þessari dásemd síðasta daginn, eða á mánudaginn síðasta. Þá fengum við inni í bókasafninu á Akranesi. Móttökurnar voru svo góðar þar, gott kaffi og önnur skemmtilegheit. Mitt fólk dáðist að jólatrénu sem Dúlluhópurinn heklaði um árið, ég sýndi þeim líka Akrafjallið, heklað úr dúllum (ég gerði tvær) sem við gerðum í tilefni 150 ára afmælis safnsins. Undir lokin horfði ég á grannt starfsfólkið og svo á mig, síðan aftur á starfsfólkið og skildi um það bil 900 grömm af Nóakonfekti eftir handa því, aukakílóin fara nokkuð jafnt á þau en engin á mig sem er ansi gott. Held að þetta heiti að skilja slóðina eftir sig, konfektslóðina.

 

AlexVið kíktum næst út í bókabúð við hliðina og fólkið mitt átti varla orð yfir jólabókahefðina hjá þessari litlu þjóð. Næst heimsóttum við Omnis, frábæra raftækjabúð sem hefur nokkrum sinnum komið í veg fyrir að ég noti góðvild Davíðs frænda of mikið ... (t.d. geturðu hjálpað mér að færa gögnin úr gamla símanum?) Svo lá leiðin út í Flamingo, sýrlenska matsölustaðinn, stutt stopp þar og við enduðum hjá Hans og Grétu (flottri fatabúð) og Model (geggjuð gjafavörubúð, blóm og raftæki). Alltaf gott að vita hvar hlutirnir fást.

 

Á Ísafirði voru eitt sinn erlendir íslenskunemar dregnir á barinn og látnir panta sér á íslensku, ef það gengi þyrftu þeir ekki að borga. Ég nýtti þessa afbragðshugmynd nema við fórum í ísdeildina í Sbarro, og ég var búin að æfa þau. Það mátti líka segja: Nei, ekki svona, eða já, takk ... og allir stóðust prófið. Móttökurnar hjá Sbarro voru æði, tveir sem afgreiddu og þeim fannst þetta bara gaman. „Eru þau á fyrsta árinu?“ spurði Alla sem vinnur þarna. „Neibbs, voru að klára fyrsta mánuðinn!“ svaraði ég. Alla kallaði til þeirra: „Mikið eruð þið dugleg!“ og meinti það. Það gladdi okkur mjög, mér fannst það líka. 

 

Mynd 3: Litli fallegi nágranni minn, Alexander, kíkti í heimsókn fyrir nokkrum dögum. Stóri bróðir hans gisti hjá mér nóttina þegar Alex kom í heiminn. Sá stutti var yfirkominn af öllu því nýja sem hann sá í himnaríki en svo fór hann að brosa á fullu. Kettirnir urðu ofsaglaðir að hitta stórabróður sem tekur alltaf þegar hann kemur í heimsókn, smávegis mat úr dallinum þeirra og færir þeim, hvar sem þeir liggja í slökun. Þeir kunna að meta það - og þeir elska börn.

 

Hluti af íslenskukennslunni er að tala um samfélagið hér og að sýna þeim nytsamlegar feisbúkksíður, benda á antíkskúrinn, Búkollu, leigusíður og slíkt, en um daginn vorum við frekar háfleyg og lífslíkur Íslendinga bárust í tal. Ég komst að því í spjallinu að lífslíkur úkraínskra karlmanna eru að meðaltali 65 ár! Sá sem sagði mér það á örfá ár í að ná því sjálfur svo ég harðbannaði honum að snúa aftur til Úkraínu. Hann glotti nú bara en kommon, fólk er bara rétt síðmiðaldra 65 ára (tala af reynslu).

 

Einhverjar flensur hrjáðu okkur eins og aðra landsmenn, ég dældi í mig flensulyfi úr Ameríkunni fyrstu vikuna og líka Pepto Bismol þegar maginn var með stæla einn morguninn í síðustu viku. Fékk PB og flensulyf með elsku Anne þegar hún heimsótti mig í sumar og það kom sér aldeilis vel. En ekki eiga allir svona lagað svo einn daginn voru bara fimm eða sex nemendur mættir, allt frekar miklir töffarar svo ég skellti á tónlistartíma og spilaði m.a. ásamt íslenskum lögum, Eurovision-lög frá þeirra löndum til að kynna fyrir hinum ... og svo leyfði ég þeim að heyra HEL með Skálmöld og Sinfó. Well, þau klöppuðu eftir lagið, þeim fannst þetta svo flott, svo það er til fleira smekklegt fólk en ég! Ég gat bætt við gleði þeirra með því að segja þeim að gítarleikarinn í Skálmöld byggi á Akranesi (ef heimildir mínar eru réttar).


Skafandi og skutlandi nágrannar frá Himnaríki ...

MyndFrá jarðsögu-, eldgosa- og hamfaralegu tilliti er mjög gott að búa á Akranesi, skilst mér, þekki eina sem á eintóma ættingja í jarð-, veðurfræðinga- og eldgosakreðsunni, möguleg flóð kannski hér en sérlega litlar líkur á eldgosi við bæjarfótinn. En við finnum vel fyrir stærri skjálftunum á Reykjanesskaga. Ég vorkenni mér nú samt ekkert mikið, hugsa bara til elsku Grindvíkinga, þetta hlýtur að vera ansi óþægilegt, svo vægt sé til orða tekið. Svefnlaus fyrrinótt hjá þeim eins og mér, mér tókst þó að halda mér vakandi við íslenskuítroðið í gær. Þvílíkur munur var svo að vakna í morgun eftir nægan svefn sl. nótt. Svo hófust lætin. Nú hef ég ekki tölu á jarðskjálftum sem hafa tröllriðið öllu hér í Himnaríki og hrætt kettina mína, brotið glerið á innrammaðri mynd af Kór Langholtskirkju og fylgifiskum þar sem við vorum stödd í Flórens í júní 1985, ef ég man rétt. Myndinni hafði ég tyllt upp á hillu í stofu og hún hrundi niður við einn stóran. Í einhverjum af þeim fyrri datt pakki með tepokum á gólfið í eldhúsinu. Óþægilegt en ekkert miðað við það sem er í gangi hinum megin við hafið, í 56 kílómetra fjarlægð í beinni línu. Elsku Grindvíkingar, ég væri orðin ansi strekkt á taugum í þeirra sporum (varlega orðað). "Kristallarnir" á lampanum mínum úti í glugga hafa dinglað nánast látlaust í dag og kvöld, eins og ljósakrónurnar þarna hinum megin. Áður en stráksi fór í helgargistingu spurði hann mig til öryggis hvort við myndum deyja, hann náði nokkrum stórum hér heima, en var samt ekki sérlega áhyggjufullur. Hann er í sundi í þessum skrifuðum orðum, og nýtur lífsins. Ég er komin með jarðskjálftariðu, kíki reglulega á lampann þegar ég hristist, hann er ekki alltaf á sama máli.    

 

Valur að skafaNágrannakona mín frá Úkraínu, kattahvíslari með meiru, vinnur ekki langt frá mínum vinnustað og hefur skutlað mér undanfarna morgna í vinnuna. Í morgun biðum við í frosnum bílnum eftir því að miðstöðin hitaði rúðurnar svo sæist út, en allt í einu birtist sjálfur Valur nágranni sem skóf rúðurnar með ljóshraða, eða á innan við hálfri mínútu. 

Ef ég flyt í bæinn, sem gæti alveg orðið, svona ef ég tími ... þá ætla ég að taka hvern einasta nágranna hússins með mér (og Hekls Angels og Ingu og fleiri). Þeir vita ekki af því en mér tekst einhvern veginn að sannfæra þá um nauðsyn þess að við höldum áfram að búa öll saman. Það hlýtur að hækka fasteignaverð til muna að geta auglýst svona góða nágranna.

 

Myndin (þessi gula) sýnir hinn frábæra Val (að skafa) sem flýtti för okkar til muna í morgunsárið.

 

Það var hroðalega hált í morgun og ekki hafði það skánað í hádeginu. Ég hét því eiginlega að ef ég slyppi óbrotin heim myndi ég halda mig inni þar til í vor. Svo sá ég að spáð er hlýrra veðri næstu daga svo ég endurskoða það. Strætó ók ofboðslega hægt (næstum 10 mínútum á eftir áætlun) sem er hið eina rétta í svona ástandi, það var eins og ísfilma yfir öllum götum og gangstéttum. Sem betur fer er nokkuð um gras hérna sem óhætt er að ganga á, en ég kveið bara fyrir því að ganga yfir hlaðið, bílaplanið fyrir utan himnaríki. En ... sennilega var Valur búinn að salta því þar var nákvæmlega engin hálka! Eða kraftaverk, auðvitað.

 

Facebook-fréttir:

Ansi hreint margir hafa deilt tíu ára gömlum flökkustatus á íslensku í dag um að þeir gefi Facebook alls ekki leyfi til að nota myndir þeirra ... o.s.frv. Færri brandarar fyrir vikið.  


Fljúgandi kettir og sterkur áhrifavaldur

super-MosiFljúgandi kettir-heilkennið heldur áfram í Himnaríki og nú bíð ég bara eftir því að Krummi leiki listir sínar. Í dag hoppaði Mosi lengst upp á eldgömlu IKEA-samstæðuna - eitthvað sem ég hélt að hann gæti ekki lengur, vegna frekar mikillar matarlystar. Hér er mynd því til sönnunar.

Jú, vissulega nota kettirnir sófa og stólbök til að taka tilhlaup en samt ... elsku Ofur-Mosinn minn. Ef myndin hefur prentast vel má sjá grilla í mávastellið mitt í neðstu hillunni vinstra megin í glerskápnum. Eða drög að mávastelli, tvo bolla, sem er betra en ekkert. Er samt ekki að safna, komin með þetta fína matarstell frá Kristbjörgu í antíkskúrnum og á líka allt of marga bolla. Það þarf svo sem frekar marga bolla fyrst uppþvottavélin fer bara í gang tvisvar í viku. Í gær kenndi ég stráksa að taka hreint úr vélinni og ganga frá sem tókst mjög vel en Tetris-hæfileikana þarf að æfa til betur gangi að setja í vélina. Ég hef með góðum árangri notað stafrófsröð (t.d. gafflar, hnífar, skeiðar í aðra körfuna). Hann er samt efnilegur.

 

Mikil áhrifÁhrifavaldar á Instagram eru sumir virkilega skemmtilegir og aðrir nokkuð leiðinlegir, án þess endilega að ætla sér það (fólk sem nær smávinsældum og fer í kjölfarið að tala alveg rosalega mikið í myndavélina og með skoðanir ...) og sumir eru ofboðslega, rosalega máttugir án þess að ætla sér það, og jafnvel án þess að vera virkir á Instagram, bara á Facebook og stundum Snapchat. Mér þykir þetta svo leitt með fiskidaginn mikla, ég var í alvöru ekki reið yfir því að hann hafi verið haldinn 12. ágúst sl., á afmælinu mínu, við getum auðveldlega deilt deginum. Hættir kannski gleðigangan ef daginn ber upp á laugardag, eða verður hún flutt og haldin viku fyrr, eða um verslunarmannahelgina? Þetta var bara nöldur því ég óttaðist að þessir viðburðir fækkuðu afmælisgestum hjá mér ... og það var óþarfur ótti.

 

Kvefið er á nokkru undanhaldi - góð hvíld um helgina, bara allra nauðsynlegustu húsverkir unnir, sett í þvottavél, sett í uppþvottavél og drasl fært til yfir á minna áberandi staði áður en hægt verður að ganga frá. Ég dái flensupillurnar mínar sem ég tek samt sparlega. Einu sinni yfir daginn og svo fyrir nóttina. Því miður er eitthvað í þessum næturpillum sem gerir mig syfjaða svo ég sef sennilega af mér byrjun eldgossins ef það hefst með hressum skjálfta.

Mér skilst að Almannavarnir geti ekki bannað Bláa lóninu að hafa opið, gæti þýtt feita málsókn og háar skaðabætur ef ekkert gerist í gosmálum. Hvað er himinhár aðgangseyrir (15.000?) sinnum kannski fimm hundruð manns á dag? Jú, sjö og hálf milljón, og svo fer að gjósa annars staðar? En það á að upplýsa gesti lónsins um það sem er í gangi sem mér skilst að hafi ekki verið gert.

Sökum kvefs og aumingjaskapar komst ég ekki í bæinn og missti þar með af vatnslitasýningu Önnu vinkonu sem opnaði í gær í bókasafninu í Garðabæ, missti líka af troðfullum fundinum í Háskólabíói um Palestínu og hryllinginn sem þar stendur yfir. Ég mæli með grein Hlédísar Sveinsdóttur sem hefur verið deilt mikið á samfélagsmiðlum í dag. Afar vel skrifuð og rökstudd grein sem heitir Ég skil ekki

 

Fréttir af Facebook

Stöku grein, m.a. um slæmar jólagjafir: 

Tengdamamma gaf mér flík í stærð 14 en ég nota fatastærð 8. Hún sagði við það tilefni: „Ég valdi þetta því mér sýnist þú hafa bætt svolítið á þig upp á síðkastið.“ (Þetta er mjög móðgandi komandi frá tengdamömmu)

 

Stöku brandari

Læknir: „Einhver dæmi um andleg veikindi í fjölskyldunni?“

Maður: „Nei, við erum öll trúlaus.“

 

Stöku krúttlegheit:

Diego á sínum stað í A4 í Skeifunni.

 

Stöku nöldur:

Ein ekki ánægð með að auglýst sé leikfimi fyrir 60 plús og á tíma þegar vinnandi fólk kemst ekki. Vildi meina að unga fókið sem ákveður svona tíma fyrir "eldgamla" fólkið haldi að sé allt meira og minna hætt að vinna. (Sem er alls ekki. Ég er t.d. enn í þremur störfum, svona mestmegnis með eitthvað þrennt í gangi en af því að ég er forréttindadrós og ræð að mestu mínum vinnutíma (nema núna næstu vikur) gæti ég farið í svona leikfimi ... nema ég myndi aldrei nenna að fara í morguntíma. Ég hélt í alvöru (og vonaði) að maður þurfi minni svefn með árunum og yrði að hressum morgunhana.          


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.7.): 11
  • Sl. sólarhring: 19
  • Sl. viku: 147
  • Frá upphafi: 1529828

Annað

  • Innlit í dag: 9
  • Innlit sl. viku: 130
  • Gestir í dag: 9
  • IP-tölur í dag: 9

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • Alltaf númer eitt ...
  • Jana Napoli frá New Orleans
  • Írskir dagar 2025

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband