Vonandi ekki berdreymin ...

Hekls angels-veislurHannyrðaklúbburinn minn hugumstóri, Hekls Angels, hélt sinn fyrsta fund í dag eftir langa mæðu, eða síðan fyrir covid ... og það var svo gaman. Lítið heklað, mikið talað og sérlega góðar vöfflur með heimagerðri, geggjaðri jarðarberjasultu snæddar með bestu lyst. Myndin tengist móttökunum sem við Bára fengum í dag en óbeint þó.

Það var ansi hamingjusöm kerla sem kom við í Einarsbúð á leiðinni heim til að kaupa engjaþykkni með nóakroppi ... fyrir stráksa sko ... og fleiri nauðsynjar, nógu léttar til að geta borið þær upp á Kirkjubraut, á strætóstoppistöðina rétt hjá spítalanum. Í strætó áttum við stráksi nefnilega stefnumót, vel tímasett, hann að koma úr matarboði og ég þurfti sárlega aðstoð hans við að bera vörurnar upp stigana. Hlaupameiðsl mín síðan á laugardag voru ekki jafnmikil og ég hafði óttast. Til öryggis gekk ég löturhægt heim til Gunnu skömmu fyrir klukkan þrjú, það er ögn lengra en í Einarsbúð, til að hlífa áverkunum eftir mögulegt næstum hásinarslit eftir óþörf hlaup laugardagsins. Ég verð orðin sallafín eftir örfáa daga.

 

Svo er vitlausu veðri spáð á morgun, fimmtudag, og mér finnst jaðra við happdrættisvinning að þurfa ekki að fara út fyrir hússins dyr, fer bara að brjóta saman þvott og sinna alls konar húsverkjum, vei! Eftir örfáar vikur, eða um mánaðamótin, breytist þó allt og ég fer að vakna um miðjar nætur (upp úr sjö), hætta mér út í kannski hálku og stórhríð og það í boði Símenntunar Vesturlands. Algjört HÚRRA fyrir því! Afskaplega skemmtilegt og gefandi að kenna útlendingum íslensku. Ég kem úthvíld og hress í þetta strax eftir Glasgow-ferðina.

 

DraumarVonandi er ég ekki berdreymin ... eina nóttina fyrir skömmu fannst mér koma ótrúlega stór jarðskjálfti þar sem ég var stödd heima hjá mér í Himnaríki. Húsið lék á reiðiskjálfi en það brotnaði ekki ein rúða og ekkert skemmdist þrátt fyrir mikið rugg. „Það var nú gott að ekkert brotnaði,“ sagði draumspakur ættingi minn en ég veit hreinlega ekki hvað hann (reyndar hún) myndi segja við næsta draumi, fyrir örfáum dögum, en þá datt Himnaríki alveg á hliðina í risaskjálfta en engan sakaði, það var fólk hjá mér og allir rólegir yfir þessu, rúður brotnuðu ábyggilega en allir stóðu á fótunum, ég þar með talin, á meðan húsið liðaðist í sundur og fór á hliðina. (Draumspakir vilja meina að húsið manns í draumi sé maður sjálfur, líkami okkar, og þá er ég að hruni komin núna! Undirmeðvitundin að reyna að láta mig vita að ég sé í klessu án þess að átta mig á því?)

 

Það sem ég held er að ég sé enn að venjast nýja RB-rúminu og áhrifum þess á daglegt (nætur)líf mitt. Nokkrum sinnum hef ég fundið hristing sem er síðan ekki jarðskjálfti, heldur köttur að hreyfa sig, sennilega stökkva upp í til mín. Eina nóttina vaknaði ég við jarðskjálfta, mjög stóran (ég finn bara þá sem eru yfir 4 að stærð, frá Reykjanesskaga) og fór beint í símann, kíkti á vedur.is, valdi jarðhræringar og beið eftir uppfærslu Veðurstofu Íslands - sem kom svo aldrei. Þetta var bara köttur ...

NEMA Veðurstofan sé farin að slaka á kröfum til starfsfólksins? Sem er ótrúlegt. En ég trúi svo sem ýmsu eftir að Broddi Broddason hætti hjá RÚV, til dæmis því að jarðskjálftar séu þaggaðir niður af því að Broddi hætti og enginn finnist sem getur róað þjóðina eins og hann ... Það skyldi þó ekki vera? Og kettirnir mínir þá sárasaklausir. 


Möguleg Gnarr-styrjöld og nauðungarhlaup yfir hálfan Skagann ...

Georg BjarnfreðarsonBæjarferðin sem var farin á laugardag var dásamleg á ýmsan hátt en nokkuð óvænt líka þarna strax í byrjun. Þegar maður heldur að maður þekki einhvern ... Hilda systir sótti okkur í Mjódd og við héldum beinustu leið í Kaffitár á Höfða. Létum dásemdar-kaffið kólna ögn í bílnum á meðan við skutumst inn í Húsgagnahöll þar sem litlasystir hafði áður keypt sófa og borð, glimrandi flott og fínt. Nú átti að bæta við glimrandi fínu hliðarborði í stíl.

 

Á leiðinni upp rúllustigann heyrðist kallað: „HÆ, GURRÍ!“

Stráksi hnippti í mig þar sem ég litaðist um, til að benda mér á hvar kallandi maðurinn væri. Ég kallaði fagnandi  á móti og sendi meira að segja fingurkoss, eins og maður gerir. Þessi samskipti tóku um þrjá sekúndur. 

„Hvaða maður var þetta?“ spurði stráksi.

„Við unnum saman á Aðalstöðinni í gamla daga,“ svaraði ég en bætti svo við: „Heyrðu, þú og hinir krakkarnir á starfsbraut hafið verið að horfa á Vaktirnar (Næturvaktin, Dagvaktin, Fangavaktin ...), þetta er maðurinn sem lék Georg Bjarnfreðarson,“

Drengurinn stökk næstum hæð sína í fullum herklæðum. „VAR ÞETTA Jón Gnarr? En hann var svo glaður ... og alveg venjulegur!“ Eftir smáræðu um vissa leiksigra, muninn á því að vera í vinnunni og ekki í vinnunni, héldum við áfram að aðstoða Hildu við að festa kaup á hliðarborðinu sem kemur til landsins vel fyrir jól og var á góðu verði, eins og hitt, á tilboði, með kynþokkaafslætti og alls konar. Hittum Petu og Grímar (mömmur.is-foreldrarnir) en mig grunar að helgarnar þeirra fari margar í að fagna sigrum með efnilegu körfubolta-barnabörnum sínum.

 

Sögunni var alls ekki lokið. Halldór fjandi hringdi í mig þegar við vorum nýkomin út í Hildubíl og sátum enn fyrir framan Húsgagnahöllina. Þetta var myndsímtal og rannsakandi augnaráð frænda míns olli mér engum óþægindum til að byrja með. „Þú virðist hress?“ sagði hann í spurnartón og ég kvað svo vera, enda með gott kaffi í annarri og að smella á mig bílbeltinu með hinni. 

„Varstu í Húsgagnahöllinni?“ spurði hann sakleysislega en ég sá í gegnum hann í hvelli og fannst þetta grunsamlegt, hann er búsettur lengst úti í Evrópu, frekar svalt á morgun, 13°C, en fer upp í 19°C á miðvikudag og 22°C á fimmtudag (ég er með veðurapp í gemsanum). Eftir talsvert þref og þras komst ég að því að fyrrum samstarfsmaður minn sendi frænda mínum ekki bara fréttir af ferðum mínum, heldur FALSFRÉTTIR! 

 

Skilaboð Jóns til fjanda voru svohljóðandi:

„sá Gurrí áðan veltast um í stiganum í Húsgagnahöllinni. ég skal ekki sverja fyrir það en mér sýndist hún drukkin. sem er auðvitað skrítið rétt uppúr hádegi. hún var amk illa áttuð. ég kallaði á hana en hún virtist annaðhvort ekki heyra það eða skilja. þá hnippti einn drykkjufélagi hennar í hana og  hristi hana til. þá var eins og hún rankaði aðeins við sér og brosti sínu breiðasta og vinkaði til mín. ég veit samt ekki hvort hún þekkti mig eða vissi hvar hún væri.“

 

Meintur drykkjufélagi minn var stráksi!

Fjandi var hliðhollur mér í u.þ.b. fjórar mínútur (ættarböndin) sem var tíminn til að ná skilaboðunum út úr honum, en svo tók karlameðvirknin, strákasamsærið, Ken-hollustan yfir og hann sagði Gnarr að hann óttaðist að ég ætlaði að nota textann gegn honum, mögulega níða af honum skóinn.

„Drykkjufólk þróar alltaf með sér gremju,“ svaraði Gnarr!!! Mögulega og vonandi bara var hann að stytta orðið kaffi-drykkjufólk ... ég hef vissulega þróað með mér gremju yfir ódrekkandi kaffi sem boðið er upp á allt of víða. 

 

Lögmenn mínir hafa samt þaullesið textann í þeirri von að finna refsiverðar móðganir. Nákvæmlega svona verða sögurnar til! 

 

GarðabrautÉg held reyndar að ég sé að detta í sundur (líkaminn) en slagaði samt alls EKKI eins og drukkin í rúllustiganum í Húsgagnahöllinni. Eins gott að ég pantaði tíma hjá nýjum kírópraktor hér á Skaga í lok október.

 

Nokkrum klukkutímum fyrir þessa atburði stóð ég virðuleg og beið eftir strætó 57 á leið í bæinn þegar grannkona mín, sem einnig ætlaði í bæinn, sýndi mér skilaboð frá Vegagerðinni um að Garðabraut væri lokuð og strætó færi aðra leið. Ég sá ekkert sem gæti mögulega orsakað lokun en treysti skilaboðum Vegagerðarinnar - í síðasta sinn.

Þegar ég sit sem oftar í biðskýlinu mínu við Garðabraut, sé ég í fjarlægð stoppistöðina á undan minni, Bæjarskrifstofur, heitir hún, er við Stillholt, rétt hjá Galito. Í raun eina von okkar til að ná strætó á laugardaginn var að spretta úr spori. Ég sem hef varla hlaupið að nokkru ráði í mörg ár tók til fótanna. Bílstjórinn beið sallarólegur, virtist eiginlega njóta þess að sjá virðulegar frúr á besta aldri, þjóta þessa óbærilega löngu leið, þetta var alveg hálf Garðabrautin, yfir hringtorgið stóra (það var lítil umferð), fram hjá bensínstöðinni á vinstri hönd og Landsbankanum, Flamingo og Dýrabæ á hægri hönd. Ég gekk virðulega síðustu metrana til að æla ekki blóði og sá mér til gleði að þessi örlitla strætóseinkun vegna hlaupa okkar, hafði orðið til þess að vinir okkar stráksa, Keli og Gaur, náðu strætó. Gaur er svartur labrador og með þeim allra, allra fallegustu. Við Keli spjölluðum saman alla leiðina og þar sem Gaur var ekki í vinnunni á meðan við vorum í strætó, fékk ég að klappa honum að vild. Ég þakka það reykleysi mínu til bráðum fjögurra ára að ég gat yfirhöfuð talað, ég var svo ótrúlega fljót að ná andanum. Ég hefði ábyggilega orðið vör við ef ég hefði rifið hásin - en verkirnir benda þó til einhverra áverka.

 

Mynd, samsett úr fjórum - til að útskýra hlaupin:

1. uppi t.v.: Tekin frá enda Garðabrautar, þegar ég var komin langleiðina, það sést í strætó á stoppistöðinni við Stillholt. Ég þaut yfir umferðareyjuna.

2. uppi t.h. Eldgömul hálkumynd sem sýnir leiðina að stoppistöðinni við Garðabraut, ég er farin að ganga með salt á mér. Græna blokkin stendur sem sagt við Garðabraut en skýlið mitt er vinstra megin og sést ekki fyrir bílskúrunum fjær. 

3. niðri t.v.: Biðskýlið, gat ekki setið því vindurinn kom svo kaldur í bakið, ekki svona vel þrifið, heldur brotið.

4. niðri t.h.: Kort af leiðinni sem ég neyddist til að hlaupa, leiðin merkt með bláu, teiknuðu myndirnar af strætó sýna stoppistöðina mína, Garðabraut, lengst til hægri og sú við Stillholt er lengst til vinstri.

 

Það hræðilegasta var að bílstjórinn (frá Litháen) sem beið sallarólegur í Stillholtinu, flissaði góðlátlega og sagði að akkúrat þennan dag færi hann Garðabrautina eins og venjulega svo við hefðum ekki þurft að hlaupa. Ætti ég að fara í sjúkranudd og -þjálfun og senda Vegagerðinni reikninginn? Eða jafnar þetta sig ef ég ligg í rúminu í viku? Fundur hjá Hekls Angels á miðvikudag svo það gengur ekki. Eða á ég að láta lögmenn mína sjá um stóra hlaupamálið líka?

 

Nanna og ValskanDónabókin kláraðist á laugardagskvöld og var bara orðin mjög kjút í lokin. Það gerðist visulega fátt bitastætt fyrstu ellefu klukkutímana (hljóðbók) en svo varð allt vitlaust og ég þurfti að laumast til að hlusta undir sæng um tíma, munið.

 

Fór reyndar í bókabúð í gær og keypti nýju bókina hennar Nönnu Rögnvaldardóttur. Hafði frétt frá mjög áreiðanlegum heimildum að þetta væri harðkjarna torfbæjaklám. Mér fannst ég þurfa að tékka á því, er samt alls ekki orðin vitlaus í djarfar bækur. Byrjaði samt að lesa krimma sem ég keypti í leiðinni, hann fór vel í veski á meðan ég erindaðist í dag og ég gat lesið aðeins á biðstofu meðal annars. Valskan verður nú samt lesin fljótlega. Hef heyrt svo gott um hana.


Algjör umbreyting ... og mál málanna

HlustaSkjótt skipast veður í lofti - nú er ég að tala um fremur langdregna ástarsögu (vægast sagt) sem ég var við það að gefast upp á eftir 11 klukkutíma hlustun. Fyrsti kossinn kom klukkustund síðar (sbr. blogg gærdagsins) og upp úr því fór að hitna í kolunum. Ég hélt að ímyndunarafl lesandans fengi að ráða restinni þegar kom: Og þá leystist veröld hennar upp - eins og það væri ekki nóg. Nei, aldeilis ekki, þetta var rétt að byrja. Bókin breyttist mjög skyndilega í harðkjarna erótík, sem er mjög vægt orðalag. Þau hvíldu sig varla, borðuðu ekki, fóru varla í sturtu, gáfu sér rétt tíma til að fara í flugvél og fljúga heim og héldu þá áfram ... Eiginlega frekar lærdómsríkt samt en aðallega vandræðalegt þar sem ég var ekki ein heima. Ég lá um hríð náföl undir sæng með símann og hlustaði. Var ég þá svona spennt? Nei, auðvitað ekki, vildi bara heyra hvernig færi.

 

Myndin lýsir ástandi gærdagsins alls ekki. Ég er bara ekki sérlega góð í að gúgla myndir sem eiga við.

 

Tortilla-turnÞegar klukkan var langt gengin í sjö í gær og garnirnar farnar að gaula í steríó í Himnaríki, neyddi ég mig til að slökkva á Storytel og staulaðist svo fram í eldhús, heit og rjóð eftir sængina yfir mér um hábjartan dag. Ég stakk upp á því við stráksa að hann færi í langa gönguferð fyrir matinn, það væri svo gott veður, og svo gaman og hollt ... Hann var meira en til í það og þegar ég sá út um baðgluggann að hann var kominn út á Höfðabraut hélt ég áfram að hlusta. Það reyndist mjög flókið að elda. Halda einbeitingu við Eldum rétt-uppskriftina, hlusta á verulega djarfar lýsingar og fylgjast með því hvort stráksi væri að koma heim. Ekki auðveldaði að ég var að elda turn, tortilla-turn, ekki gott fyrir hugrenningatengslin. Eftir að stráksi kom heim og við borðuðum ansi hreint ljúffengan tortilla-turninn hef ég ekki getað hlustað á bókina. Mér finnst hann sitja um mig og birtast óvænt á fimm mínútna fresti, og alltaf þegar ég er við það að ýta á play. 

Tryggði þetta ástarsögurugl rómantíska drauma síðastliðna nótt? Nei, aldeilis ekki. Mig dreymdi bara hesta, heilu stóðin.

 

Kisuguð rostykVið stráksi ætlum í bæinn á eftir og kettirnir undirbúa sig undir ástarorð á úkraínsku. Þeir dá og dýrka Svitlönu og Rostyk sem eru óspör á klapp, knús, leik og nammi. Eins og allir vita er ég mikið fyrir að hafa plan B í öllu.

Allir dallar fullir af kattamat, dugir eflaust í nokkra daga, þeir búnir að fá blautmat í dag, Keli lyfin sín.

Vatnsbrunnurinn ekki bara fullur af hreinu vatni, heldur eru líka tvær fullar skálar í vaskinum í eldhúsinu, svona ef rafmagnið færi af og brunnurinn stoppaði. Og allt þrátt fyrir svona góða og mikla pössun.

 

Nú, ef eitthvað ... þá gætu þeir bjargað sér í nokkra daga. Þá er ég að tala um ef ég þyrfti til dæmis að komast gangandi upp á Akranes, það þarf að gera ráð fyrir öllu! Lífstíðarbann í strætó er ólíklegt en hvað veit ég ...

 

AÐ MÁLI MÁLANNA:

 

Vitið þið hvern er best að tala við til að skipuleggja tónleika með Skálmöld hér á Akranesi? Miðað við fyrirspurn mína á feisbúkk eru þeir til í að koma, elsku yndin. Íþróttahúsið á Jaðarsbökkum væri tilvalið (fyrir bíllausa kerlu). Orðið frekar langt síðan ég sá Jethro Tull hér og löngu seinna Dúndurfréttir, eða skömmu fyrir covid.

 


Myndafundur, fyrsti kossinn og snjólétta Akranes

Akrafjallið grátt og smartGránaði í fjöll í gær, eins og stundum áður á þessum árstíma? Já, ekki mikið en það finnst vel fyrir kuldanum og spurning um að leggja sumar-alltofhlýja-jakkanum og taka fram dúnúlpuna. Esjan var þó miklu grárri því snjór virðist forðast Akranes (sjúkk). Þekki ungan mann sem bjó á Akranesi og fékk ógurlega flottan sleða í jólagjöf þegar hann var kannski níu eða tíu ára. Það festi ekki snjó á Skaganum næstu árin og þegar það loks gerðist langaði hann ekki í sleðaferð, enda orðinn unglingur og hafði miklu meiri áhuga á stelpum en sleðum, vill móðir hans meina. Ég hef reyndar einu sinni á mínum 17 árum hér, frá 2006, upplifað meiri snjó á Skaganum en í höfuðborginni. Einu sinni. Kannski var bara meira mokað í Reykjavík en ég held samt ekki. Myndina tók ég út um eldhúsglugga Himnaríkis og yfir Nýju blokkina, eða næstelstu blokkina á Skaganum. Þar bjó ég um tíma með foreldrum mínum og þar fékk ég alla heimsins barnasjúkdóma áður en bólusetningar voru fundnar upp við þeim. Rauða hunda, skarlatssótt, mislinga, og allt hvert á eftir öðru fyrir, um og eftir jólin. Þarna kynntist ég Boggu vinkonu minni og vináttan hefur haldist óslitin síðan, eða alveg í rúm 30 ár ...

 

Hræðilega bókin sem ég skrifaði um í síðasta bloggi og eiginlega lofaði Steingerði að hætta að lesa, lífið of stutt, sagði hún, fyrir leiðinlegar bækur (ég segi, fyrir vont kaffi) tekur tæpa 15 klukkutíma í lestri (á eðlilegum hraða) og það var ekki fyrr en eftir tæpa tólf tíma sem þau kysstust í fyrsta sinn. Stráksi kom heim um eittleytið í dag, ég að setja í uppþvottavél og hlusta, og þá skall á koss sem fékk hann til að flissa í dyrunum. „Almáttugur,“ argaði ég og slökkti á sögunni. Það fannst honum mjög fyndið. Kannski er hann til í að hlusta á sögur núna, fyrst það eru kossar þar. Hann hefur aðgang að Hljóðbókasafninu og ætti auðvitað að hlusta á skemmtilegar bækur þar. Ég las inn bækurnar um Lúlla mjólkurpóst, orðljótan og strangan karl sem alla strákana í bænum langaði samt að vinna fyrir með skólanum. Svo hrikalega fyndnar að ég skellti nokkrum sinnum upp úr, tæknimanninum til lítillar gleði. Ég fékk fyrir nokkrum árum að hlusta á örlítinn part af upplestri mínum (síðan á síðustu öld, mögulega níunda áratugnum) og ég hljóma eins og tilgerðarleg fegurðardrottning að tala um frið á jörðu. Með fullri virðingu fyrir öllum dásamlegum fegurðardrottningum. Að sjálfsögðu er ég að tala um útlenskar, annað hvort væri það nú. Bendi stráksa á Lúlla mjókurpóst. Og fyrst ég á bara þrjá tíma eftir ætla ég að klára kvikindið - hún getur ekki versnað úr þessu. Bækur sem svona gott er að sofna við eru vandfundnar. 

 

Hlaupvídd sex á AkranesiÍ látunum í kringum fegrun skópalls Himnaríkis þurfti ég að finna nýjan stað fyrir albúmin og að sjálfsögðu datt ég ofan í þau, alltaf gaman að skoða gamlar myndir. Ég var frekar dugleg að taka myndir á Kodak Instamatik, eða hvað sem það hét ... með flasskubbi og allt. Árið 1978 var leikritið Hlaupvídd sex sett á svið á Akranesi og hér er mynd af fögrum leikkonunum sem tóku þátt, allar spariklæddar nema ég lengst til vinstri, enda þær í ástandinu ... Ég var Áslaug, á móti hernum og sönn talskona þjóðlegra gilda. Ótrúlega gaman að taka þátt í þessu, og í Línu Langsokk næsta ár á eftir þar sem Helga Braga steig sín fyrstu spor á leiklistarbrautinni, sem Lína. Kannski gerði Guðfinna það líka, þarna í Hlaupvídd sex árinu áður, en hún er við hliðina á mér á myndinni og leikur m.a. í nýlegri og bráðskemmtilegri Icelandair-auglýsingu.

 

HagnýtÉg fann myndirnar úr skólaferðalagi hagnýtrar fjölmiðlunar 1998-1999 til New York og Washington DC og rifjaði upp góðar stundir þar. Ævintýrin ... þegar spákonan í Brooklyn reyndi að kúga mig til að senda sér andvirði um 200 þúsund króna fyrir kristalla sem ég átti að hugleiða yfir og senda henni til baka, og hún síðan að láta nornir syngja yfir svo líf mitt yrði gott. Það sem hefur verið reynt að frelsa mig yfir í alls konar, það gerir aulasvipurinn og svo stendur auðvitað AUÐBLEKKT á enninu á mér, ranglega. Ég er nú samt alveg rosalega tortryggin og jarðbundin.

 

Jú, bekkurinn úr hagnýtri heimsótti Jón Baldvin og Bryndísi í sendiherrabústaðinn í Washington. Við fengum fínar móttökur, snittur og hvítvín, en þrátt fyrir að þetta hafi verið gaman, skilaði það voðalega litlu nema góðglöðum skvísum og nokkrum ljósmyndum í albúm á Akranesi. Myndi ég nenna að vera sendiherra og þurfa í sífellu að standa í svona tilgangslausum móttökum? Nei, nema jú, kannski í Englandi, en hætta fljótlega eftir heimsóknina í Buckinghamhöll. Já, svona getur maður verið tækifærissinnaður.

 

Mynd: Þarna sitjum við saman eftir móttöku JB og Bryndísar og komnar á einhvern voða fínan veitingastað þar sem ég borðaði ostrur í fyrsta sinn og hvítvín, jæks, hvað það var ... ekkert sérstakt. Skelfiskur, nema humar og rækjur, finnst mér ekki góður og ég er meiri rauðvíns- en hvítvínskona, eiginlega bara helst kaffikona. Minnir að kaffið westra hafi ekki verið sérlega gott, aðeins örfá ár síðan Starbucks kom til New York sem var 22. apríl 1994 og ekki enn á hverju götuhorni, og ári áður, eða í mars 1993, til Washington DC. Þetta DC ... Það var ekki fyrr en ég heimsótti Elfu vinkonu fyrst að ég skildi hvers vegna allir sögðu DC (District of Columbia) fyrir aftan heiti borgarinnar. Jú, af því að borgin Washington (DC) er svo sannarlega ekki í ríkinu Washington, þar er Seattle og þar er Conway þar sem Elfa býr, og höfuðborgin tilheyrir engu ríki.

Á myndunum má þekkja tvær RÚV-konur úr mínum bekk, en önnur þeirra bjó nokkuð fyrr í sama húsi og ég (á Hringbraut) um hríð (í þrjá mánuði) og opnaði fyrir syni mínum þegar hann lokaði sig úti, lét hann lofa sér í leiðinni að hætta að spila Cyprus Hill á hæsta, og kenndi mér að búa til bestu grænmetissúpu í heimi! Inniheldur m.a. chili (með fræjunum) og hálfan lítra af rjóma sem gerir  hana sterkmjúka, mjúksterka? Frábær þessi bekkur og þessar Siggur - þetta ár í hagnýtri var eitt það skemmtilegasta í lífi mínu. Eftir það sogaðist ég inn í tímaritabransann; annríki, álag, vikulegt deddlæn, frábært samstarfsfólk, skemmtilegir viðmælendur ... og hviss, bang, árin liðu hratt og nú er bráðum aldarfjórðungur liðinn frá því þessar myndir voru teknar! Svo er ég farin að skrifa oggulítið fyrir Lifðu núna, vefrit fyrir fimmtíu plús. Fjölbreytt og skemmtilegt.          


Eyðileggjandi stundvísi ... og örlítið frægafólksmont

OndúleringOndúlering átti sér stað í gær hjá Classic hárstofu á landamærum bæjar og sveitar í 300 Akranesi og tengist því að verða sem fínust úti í Glasgow, til að verða ferðafélögum ekki til skammar. Þeim hefur fækkað sem þora að spyrja: „Af hverju ferðu ekki frekar til Edinborgar?“ Ég tek því ekki vel og skánandi bak mitt orsakar alls konar frábærlegheit, eins og að eiga léttara með slagsmál.

 

Fyrir mörgum árum sagði einhver við mig: „Ef þú ætlar að finna draumaprinsinn, þarftu sennilega að fara til Skotlands.“ Mig dreymdi nefnilega, þegar ég var 12 ára, nafnið á tilvonandi eiginmanni mínum; Filippus Angantýr. Hef bloggað um það áður. Langt síðan. Nafnið finnst ekki í þjóðskrá. Einhver snillingur í vinahópnum vildi meina að það hefði verið of flókið fyrir mig svona unga að heyra Philip MacIntyre, gæti það orðið skoskara?) og ég hefði aldrei getað skrifað það rétt strax um morguninn, enda ekki byrjuð að læra ensku þá, bara dönsku. Ég var sem sagt að spjalla við guð í draumnum og hann sagði að ég myndi eignast tvíbura (gekk ekki eftir), deyja (í hárri elli) 38 ára (gekk ekki eftir) og eignast mann með þessu nafni (enn er von). En ... miðað við alla mína fyrrum eiginmenn væri sennilega langauðveldast að taka stafi úr nöfnum þeirra og búa til Filippus Angantý, nægur afgangur fyrir fleiri nöfn. Þegar ég heyri nafnið Filippus, man ég líka flissið í mömmu þegar hún var að skrifa jólakort eitt árið og bað mig að skrifa utan á umslögin. Ég var kannski 10-11 ára. Filippía sem mamma þekkti átti að fá jólakort og ég skrifaði að sjálfsögðu Fillipía (fyllipía) sem mömmu fannst alls ekki ganga svo ég varð að skrifa utan á annað umslag. Það er eins og mig minni að sú kona hafi verið tengdamamma Didda fiðlu. (Name dropping er leyft á þessari síðu, einnig í athugasemdum, þó með takmörkunum).

Frægafólksmont, er það gott orð? Kannski frægafólksgrobb?

 

Anna Júlía klippti mig og litaði og þrátt fyrir mikinn mun til hins fegurra urðu engar umferðartafir og slíkt rugl við brottför mína. Anna tjáði mér að hún hefði séð dulbúinn lögreglumann sitja í ómerktum bíl fyrir utan, örugglega ekki að mæla hraða, eins og eflaust einhverjir héldu, heldur út af klippingunni, til að hafa hemil á fólkinu sem vildi sjá. Það eru einhverjar lokanir á Akranesi og bílstjóri strætó benti mér á að koma yfir götuna því hann sneri ekki við, eins og hann á að gera við Hausthúsatorg. Það þýddi að ég hljóp á eftir strætó í fyrsta sinn í mörg ár og gekk bara vel. Það gerist alltaf eitthvað spennandi á hverjum degi! Oft á dag, stundum.

 

Nýstárlegt puntÉg er afskaplega stundvís, eða reyni það eftir bestu getu, kem helst of seint ef strætó er seinn, ég sef yfir mig (gerðist stundum í gamla daga) eða ég treysti á bílfar með fólki með ekkert tímaskyn. Þegar ég var komin í skóna í gær sá ég að það voru alveg fimm mínútur þar til ég þyrfti að leggja af stað til að ná strætó. Var búin að taka til fleiri bækur í gefins-hilluna og ætlaði að fara að koma þeim smekklega fyrir þegar ég andaði á svarthvítu myndina (frá c.a. 1968 í 1. maí-göngu en í þá daga fóru allir sem gátu gengið í allar göngur, enda ekkert annað í boði nema bókasafnið og KFUK. Myndinni hafði ég tyllt ofan á hilluna svo hún datt á mig og tók blómapottinn með gervi-mánagullinu með sér í leiðinni en sá fór á gólfið. Hann brotnaði en ég varð að skilja þetta eftir svona (sjá mynd) til að mæta á réttum tíma í klipp og lit.

 

Fyrir öndunMaður þarf að þjást til að vera fallegur ... og líka stundvís. Stundvísi getur greinilega líka verið eyðileggjandi. Einhvers staðar á ég kennaratyggjó og ætti að festa myndina þannig að hún hrynji ekki við næsta andardrátt einhvers. Að setja þarna bækur sem gestir mínir taka með sér og mega eiga eða gefa áfram, hefur mælst einstaklega vel fyrir. Enda fínustu bækur, að sjálfsögðu.

 

Bókin sem ég er að lesa núna er ekki í þeim flokki, held þó í þá von að hún lagist. Ég keypti mér hana fyrir mörgum vikum, þegar hún var nýkomin út, en hef lúsast áfram með hana, ekki næstum því hálfnuð sem er nánast óhugsandi því ég er hraðlesari og get auðveldlega lesið meðalkilju á einum degi, og það með vinnu, húsverkjum, gestakomum og alles. Hún mætti á Storytel og ég ákvað að prófa hvort hún væri þolanlegri í upplestri og það er hún, samt er hún frekar óþolandi og kemur sér aldrei að efninu, eða brúðkaupi systurinnar þar sem aðalpersónan ætlar að mæta með þykjustukærasta (erfiðum samstarfsmanni sem býðst til að leika kærastann). Það eru eilíf augnaráð, misskilningur á annarri hverri blaðsíðu, yfirlið, hún alltaf í megrun ... en fyrrum kærasti hennar er kominn með nýja upp á arminn og verður að auki svaramaður tilvonandi mágs hennar, svo hún "verður" að bæði líta vel út (grennri) og vera líka með kærasta (gervi). Ekkert slæm hugmynd að þægilegri, auðgleymanlegri og klisjukenndri ástarsögu þar sem hún endar að öllum líkindum í örmum gervikærastans en ég hefði átt að hlusta á kunningjakonu mína sem ég hitti í bókabúðinni: „Ætlar þú að kaupa þessa? Hún hefur reyndar fengið frekar misjafna dóma ...“ Ég hef lesið svo mikið af svona bókum síðustu árin, hef hreinlega þurft á góðum endi að halda en þetta er ekki gott. Hún svæfir mig alla vega hratt á kvöldin og ég hirði ekki um að „spóla“ ögn til baka til að missa ekki af neinu, enda er ég svo sem enn að hlusta á eitthvað sem ég hef lesið og leiðst yfir og eiginlega gleymt. Það eru nokkrar góðar (held ég) á leiðinni.

 

Neðsta myndin var tekin áður en allt fór satans til. Ég átti enn eftir að fjarlægja tvær bækur (sem verða ekki gefnar) og þarna er blómapotturinn í heilu lagi. Svarthvíta myndin er ekki sérlega skýr en við Bogga vinkona til áratuga stikum þarna áfram framarlega fyrir miðju, og Gunnhildur, bekkjarsystir okkar, fyrir framan okkur. Ég keypti þessa mynd af Ljósmyndasafni Akraness eitt árið en pantaði hana þó allt of stóra ... Það er nánast ekkert veggpláss eftir í Himnaríki. Héðan í frá verða bara pantaðar og keyptar myndir í passamyndastærð nema ég skipti um íbúð. Nú sé ég eftir að hafa rifið vegginn á milli stofu og svefnherbergis fyrir 17 árum. En samt ekki, frábært að hafa stóra stofu.         


Morgungestir og misskilningur vegna myndbirtingar ...

MorgungestirÓvæntur morgunverður snæddur í himnaríki í morgun. Fékk veður af þessu um áttaleytið í morgun, stillti klukkuna á hálftíu og var orðin spikk og span þegar þau komu um tíuleytið. „Þú hefur breyst,“ sagði Kamilla en hún hefur ekkert hitt mig síðan FYRIR RÚM (FR). „Þú ert orðin eitthvað svo há og grönn,“ gaf hún greinilega í skyn og vildi meina að líkamsburður minn væri breyttur, fegurri og meira fjaðrandi, sýndist mér á augnaráði hennar. Hún er læknir og ætti að hafa vit á þessu. Gerry hennar er listamaður og virtist líka fullur aðdáunar, hefur afskaplega gott listamannsauga, ef svo er. Það munaði minnstu að þau byðu mér í gönguferð þar sem ég er farin að geta gengið meira en fimm sentimetra án þess að fá í bakið en ég var fljót að stoppa það, þótt ég geti nú gengið út í bókabúð og til baka án þess að þurfa að leggjast á hitapoka sem ég gerði iðulega FR. Mæli með að fá sér gott rúm, þetta extra stífa RB-rúm hefur bæði yngt mig og fegrað á innan við mánuði. Ýkjulaust.

 

Tók mynd af Gerry og setti á Snappið á meðan Kamilla skar í sundur rúnnstykkin frammi í eldhúsi, tók svo mynd af þeim saman til að setja á bloggið. Það rigndi yfir mig snappskilaboðum; „Hvaða myndarmaður er þetta?“ „Úhú, flott hjá þér ...“ „Góð ...“ „Bíddu, bíddu, eitthvað sem þú þarft að segja mér!“ 

Nei, krakkar mínir, ég fer alltaf afskaplega leynt með alla mína kærasta og skyndigaura* (*föstudagar, mjólkurkælir, Einarsbúð) og birti ekki myndir af þeim á samfélagsmiðlum, í allra mesta lagi brúðkaupsmyndir og bara ef ég er enn skotin í þeim eftir athöfnina. Ég er meira að segja með leynilyftu í Himnaríki, kalla hana Amor, hún er á bak við ísskápinn (já, smávesen) en hefur aðstoðað mig við að halda orðspori mínu sem meinlaus kattakerling. 

Þessi viðbrögð segja mér samt að aðdáendur mínir (u.þ.b.30) á snappinu vilji mögulega eitthvað ögn meira æsandi en myndir af flottum köttum, æðislegum Eldum rétt-mat og mögnuðum öldum við Langasand en á Langasandi sjást reyndar oft karlkynsskokkarar, berir að ofan, sem er það næsta sem margar konur komast kynlífi eftir fimmtugt. Að sjálfsögðu tala ég ekki af reynslu. Auðvitað hef ég tekið myndir uppi í rúmi en þar sjást bara fjörugir en oftast sofandi ofsasætir kettir og bækur, reyndar nokkuð oft SPENNUbækur ... alveg spurning um að ég færi mig á næsta stig og fjölgi þannig snappvinum upp í 40. Þarf bara að hugsa hvað ég geri, ekki óttast, það verður ekkert of djarft. Ég er dama.

 

Grátvíðir bókFyrir tíu í morgun kláraði ég ansi hreint fína bók sem ég byrjaði á í gær, hún heitir Grátvíðir og er eftir Fífu Larsen. Bókin er vel skrifuð og líka það spennandi að ég vakti allt of lengi yfir henni, eða fram á nótt. Annars hefði ég sennilega sagt morgunverðargestunum að koma fyrr ... Bókin gerist á Ítalíu og segir frá íslenskri konu, ekkju sem býr með ungum syni sínum og ítölskum tengdaföður. Lögreglan hefur samband við hana eftir að lík af konu finnst og með miða þar sem símanúmer þeirrar íslensku var skrifað. Segi ekki meira - mæli hástöfum með. Og konan sem les (Sigrún Hermannsdóttir) er virkilega góð.  

 

Vinkona mín vinnur á frekar stórum vinnustað en um 50 samstarfsmenn hennar sitja nú heima með covid-19. Það er ýmislegt gert til að halda mér í landi og koma í veg fyrir Glasgow-ferðina. Vonandi verður covid ekki eitt af því. Daginn sem ég flýg út verður nefnilega KVENNAFRÍDAGUR! Ætli verði þá bara karlkynskrúttmolar í öllum störfum á Leifsstöð? Vonandi eru til nógu margir flugmenn (kk) og flugliðar (kk) svo allar konurnar geti tekið sér frí.

 

 

Stráksi er alla vega búinn að fá frí í skólanum og mér var fyrirgefið þótt ég hefði óvart valið ranga viku (haustfrí vikunni á undan), ég lofaði að vera dugleg að kenna honum sitt af hverju nytsamlegt í ferðinni. Hann kemur alltaf miklu lífsreyndari og klárari úr hverri ferð og með enn betri enskukunnáttu. Nú þarf ég meðal annars að kenna honum að nota skoskan framburð til dæmis við buxnakaup. Maður segir víst ekki tráses, heldur trúsars ... sönn saga.  

 

 

Ég heyrði undarlegt hljóð áðan. „Hvað ertu að gera?“ spurði ég stráksa sem var víst að sveifla hurðinni að herbergi sínu til að búa til vind (lofta út). „Leysa vind með hugarorkunni,“ svaraði hann. Hér eru prumpbrandarar fullkomnnaðir.  


Ein á palli ... fyrir og eftir

Afmælisveisla InguDugnaðurinn við að gera næsta pall ögn bærilegri var allnokkur í gær og enn meiri í dag þrátt fyrir afmælisveislu í næstu götu. Tvær af dásamlegustu manneskjum í heimi mínum eiga báðar afmæli í dag, önnur bauð í vöfflur (sem var nú aldeilis meira en það) og það var Inga. Hin (Steingerður) býr í Kópavogi en er samt æðisleg.

 

Margt var rætt í afmæli Ingu, eins og alltaf þegar gáfað og fallegt fólk kemur saman. Nánast um allt nema stjórnmál, veikindi, trúmál og var ekki eitthvað eitt enn sem er bannað í veislum? Jú, fjármál veislugesta, skilst að það sé líka bannað, svona ef mann langar að verða boðið aftur. Talið barst að tilvonandi mögulegri hótelbyggingu á þyrlupalli Himnaríkis. Mér heyrðist á öllum að sá staður hugnist þeim ekki svo mjög, frekar staðurinn þarna í grennd við sements-sílóin, smábátahöfnina og þar. Verulega flott sjávarútsýni þar, en þá þyrfti ég að ganga alla Faxabrautina eftir latte-bolla sem yrði eini gallinn við þá staðsetningu. Æ, þetta fer eins og það fer, ekkert vit í að fárast yfir einhverju sem verður kannski allt öðruvísi en sögur segja. Ein spurði hvort væri þörf á hóteli hér, við hreinlega vissum það ekki, en sennilega, með alla þessa útlendinga sem koma til Íslands. Við vorum nokk sammála um að staða fatlaðra barna við það að verða 18 ára geti orðið rosalega flókin og nokkrar dæmisögur fengu að fjúka. Þetta voru alvarlegri málefnin, auðvitað ræddum við helling um bækur, eins og alltaf er gert í góðum boðum. Held að við getum ekki beðið eftir jólabókaflóðinu. Hver getur það?

 

Fyrir og eftirPallurinn niðri er sannarlega ekki búinn, ég er að máta, það þarf, og þigg alveg tillögur smekklegra vina og vandamanna. Hann var mjög ljótur en hefur skánað til muna. Blómin þrjú sem voru þarna niðri eru í gjörgæslu í eldhúsinu. Sennilega get ég bjargað yngri jólakaktusinum en ég held að liljan og stóri kaktusinn (bráðum fimmtugur) séu búin að missa lífsviljann. Gerviblóm eru málið, Mánagullið ofan á hillunni er ekki ekta. Svo er gott að hafa stól þarna niðri, ólíklegasta fólk þiggur með þökkum að fá að tylla sér við þá athöfn að klæða sig í skó. Vetrarskór krefjast þess yfirleitt en líka hægt að setjast í stigann.

 

Kósíhornið

Þetta vandræðadæmi þarna hægra megin við kringlótta borðið eru nokkrar marmaraflísar upp á rönd (frá endurbótunum 2020, ef brotnar á baðinu) en ég fór með þær niður á pall (fékk aðstoð) þegar ég fann engan stað fyrir þær í Himnaríki, þær eru svo ofboðslega þungar og myndu skemma og brjóta skápbotninn á fataskápnum. Ég var búin að vefja hvítri gardínu utan um þær en sé á myndinni að á hliðinni sem sést þarf að gera það betur. Smiðirnir mínir ætluðu að taka flísarnar og geyma fyrir mig í trésmiðjunni en það gleymdist alltaf og ég ætla ekki að ónáða þessar greiðviknu elskur. Hillan hvíta úr kósíhorninu er betri þarna vinstra megin og ég fékk þá hugmynd að geyma í efstu hillunni bækur sem gestir mínir geta valið úr og mega eiga. Krimmarnir fara þó til hirðrafvirkjans. Ég þarf aðeins að grisja þar, sá ég áðan, og taka eina eða tvær með mér upp aftur. Svo er spurning um stærra kringlótta borðið, skákborðið sem er komið upp, hvort ég leyfi því að gossa, það skjöktir og er orðið ansi sjúskað enda eldgamalt ... er til í allt nema of mikið af húsgögnum og munum, ég nýt þess svo innilega að hafa minna dót og drasl í kringum mig eins og hefur verið eftir 2020.

Það er frekar mikil rúst í himnaríki núna, allt skúrað og sjænað fyrripartinn í gær - svo fékk ég hugmyndina. Samt ábyggilega betra en að vera að breyta og taka til í leiðinni. Þið hafið tillögurétt og málfrelsi í stóra pallsmáli Himnaríkis (Inga hélt að ég væri að vesenast með einhvern útipall, þekkir hún mig ekki betur?)

Vantar ekki blóm (gervi) í gluggann sjálfan? þótt ég trúi ekki þannig séð á Feng Shui er ég sammála ýmsu þar, eins og því að passa upp á flæðið, láta ekki þrengja að sér. Ef ég hefði sett stólinn við hlið borðsins, með bakið upp við vegginn hægra megin hefði hann orðið hindrun fyrir neðstu tröppuna, auðvitað prófaði ég það fyrst en það kom ekki vel út. Það hefði verið sniðugt til að fela betur flísarnar. Ég mun máta, jafnvel prófa annan stól, kannski koll. Þetta er ferlega gaman.

 

Myndin átakanlega, þessi neðsta, var tekin inn í kósíhornið í gær, þegar ég var að byrja lætin. Fyrir miðri mynd er semsagt hillan sem er komin niður á pall, guli innkaupapokinn var farinn að fyllast af bókum sem tóku síðan bara hálfa hilluna niðri. Já, og ég finn eitthvað þarna í staðinn, kannski stóran kistil sem er inni hjá stráksa. Kommer í ljós.     


Smámunir og slaufandi langrækni

Drög að smámunasafniLeigumarkaðurinn er villtur, alveg eins og hann var á níunda áratug síðustu aldar þegar ég flutti tíu sinnum á fimm árum. Samt var ég draumaleigjandi, gekk vel um, aldrei hávær partí, leigan borguð á réttum tíma og það allt.

Ungt par, tengist ættingja mínum, ætlar að kveðja foreldrahús og fara út á þennan hryllingsmarkað. Það datt aldeilis í lukkupottinn þegar því bauðst fínasta tveggja herbergja íbúð í Ljósheimum og það á ótrúlega góðu verði. Bara verðið hringdi viðvörunarbjöllum hjá ættingja mínum sem bað parið um að fara varlega. Samt munaði minnstu að þau borguðu þriggja mánaða leigu fyrir fram sem tryggingu til að festa sér íbúðina ... og til að fá að skoða hana. Fyrst borga - svo skoða, átti samkomulagið að vera. Það tókst sem betur fer að bjarga unga parinu frá því að lenda í klóm svindlara.

 

 

Þegar ég bjó í Æsufelli 6, ágætri íbúð sem var leigð út til hálfs árs, var ég byrjuð nokkrum vikum fyrir flutninga, að auglýsa eftir annarri (vann hjá DV) og man eftir karli sem hringdi og var með ansi hreint ódýra íbúð í þessu sama risastóra átta hæða húsi sem Aspar- og Æsufell er. Annaðhvort var ég ekki nógu tilkippileg í spjalli okkar eða of saklaus til að skilja eitthvað sem karlinn sagði undir rós, að hann missti áhuga á því að leigja mér. Svo komst ég að því löngu seinna að þessi karl var til í alvörunni og átti nokkrar íbúðir. Jæks. Nei, þá var nú betra að flytja milljón sinnum en að lenda mögulega í einhverju óþægilegu rugli.

Það var ekki fyrr en í næstsíðustu leiguíbúðinni sem leigusali minn þar sagði: „Ég skil ekki af hverju þú hefur flutt svona oft, þú ert svo ljómandi fínn leigjandi.“ Hún leigði mér fyrir orð vinar míns, frænda hennar, og leist samt ekkert á í fyrstu að fá einstæða móður sem missti húsnæðið reglulega ... þá áttaði ég mig á því hversu illa þetta leit út, það voru sennilega bara leigjendur sem áttuðu sig á því hve leigumarkaðurinn var ömurlegur, aðrir ekkert endilega að pæla í því. Síðustu leiguíbúðina fékk ég svo í gegnum vinkonu en móðir hennar átti fína kjallaraíbúð við Hávallagötu og leigan þar var enn lægri, enda íbúðin minni. Þar bjó ég þar til ég gat keypt verkóíbúð á Hringbraut, íbúð sem ég seldi svo 18 árum síðar og flutti í Himnaríki þar sem ég hef verið í 17 ár. Ef ég flyt í bæinn á næsta ári er það eingöngu talnaspeki og göldrum að kenna.

 

Mynd: Drög að smámunasafni. Fræg verk, styttur, byggingar og slíkt í dúkkustærð OG á viðráðanlegu verði. Danska hafmeyjan og Notre Dame sem var í eigu mömmu. Óþekkti embættismaðurinn við Iðnó (Listasafn Reykjavíkur), hljómplata (reyndar diskamotta, fékk nokkrar í jólagjöf), Omaggio-vasi, danski Kay Bojesen-apinn og múmínbolli. Svona er nú hægt að eignast heimsfræga hönnunarhluti. Ég á meira að segja Hugsuðinn eftir Rodin en ekki í smámunastærð. Skima nú eftir góðum stað heima til að hafa smámunina á, þar sem þeir njóta sín en þangað til eru þeir á bókahillu, rétt fyrir neðan bleiku fokkjú-styttuna.      

 

Líka á FacebookFólk á Facebook deilir svolítið frétt af Snorra Mássyni, fyrrum fréttamanni á Stöð 2 og frekar sniðugum gaur, sem ætlar að verða ríkur af því að stofna fjölmiðil, segist vera að þessu fyrir peninga og leitar að ríkum og vondum bakhjörlum. Ég hef ekki kynnt mér þetta frekar, hvort þetta sé grínfrétt eða bara nýr hlaðvarpsþáttur, EN ... gleymi samt aldrei hvernig hann tók á frétt um fækkun farþega í landsbyggðastrætisvögnum. Hann skellti sér í Mjóddina og hreinlega taldi stoppistöðvarnar á milli Reykjavíkur og Akureyrar, eins og þar lægi vandinn. Allt myndi fyllast aftur ef stoppistöðvum yrði fækkað. Það yrði vissulega þægilegt fyrir bílstjórana að fækka þeimm en ekki farþegana. Strætó er nefnilega ekki rúta. Það er allt annað en fjöldi stoppistöðva sem fækkar farþegum. Eins og bara covid, hrunið 2008 þegar fólki var sagt upp í stórum stíl og þurfti ekki lengur að fara á milli Akraness og Rvíkur, hækkun fargjalda, fækkun ferða, hringl með greiðslumáta og fleira. Á meðan þess er krafist að almenningssamgöngur skili gróða er auðvitað allt gert til að auka gróða en minnkandi þjónusta fækkar farþegum. Vonum bara að strætó breytist ekki í rútu.

 

Mynd: Líka á Facebook. Langsveltir innviðir og hæstánægð stjórnvöld með að við snúumst hvert gegn öðru í stað þess að beina spjótum að þeim - í einu ríkasta landi heims sem hefur sannarlega efni á að gera miklu meira fyrir "okkar" fólk ... og sýna fólki í neyð mannúð. Það er líka vinsælt að láta sem svo að "þetta fólk" vilji bara leggjast upp á okkur.

 

HeklÉg vil ekki vera langrækin, alls ekki út í strætó eða hinn skemmtilega Snorra þótt hann hafi ráðist að lífsöryggi mínu með því að dissa of mikinn fjölda stoppistöðva, að hans mati (skýring: t.d. hálka, fótbrot á leið út á stoppistöð langt í burtu), en ég mun þó aldrei gleyma misgjörðum Krabbameinsfélagsins í garð kvenna á Akranesi þegar brjóstaskimunin var flutt í bæinn. Hef því ekki keypt Bleiku slaufuna síðan, jafnvel þótt heilsugæslan í Rvík hafi tekið við og haldið áfram að hóa í Skagakonur í stað þess að koma hingað í tvo daga á ári og stuðla þannig að peningasparandi-til- lengdar og lífsbjargandi-heilsuvernd. Björgunarsveitirnar, Kvennaathvarfið, Líf án ofbeldis, SÁÁ og Sundfélag Akraness fá minn stuðning reglulega í staðinn.

 

Eitthvað fleira til að nöldra yfir, frú Fussríður? Ja, ég get vissulega fussað yfir sjálfri mér fyrir að nota ekki fríhelgina mína til að slaka á og horfa á gera upp íbúðir-þætti á Stöð 2 plús. Lesa uppsafnaða bókabunka, bæði í raunheimum og netheimum, í stað þess að hlusta bara. Neibbs, sannarlega ekki, ég er búin að mæla fyrir hillu til að flytja úr gamla kósíhorninu og setja niður á pallinn fyrir neðan Himnaríki, koma þar fyrir skóm og kannski einhverju fallegu punti líka. Þetta er vandræðastaður sem hefur aldrei verið fínn. Mig langar að klára þetta NÚNA þótt ég sé að hvíla kvartandi bakið með því að henda í blogg. Ég er komin með svarta beltið (bakbelti úr Eirbergi) utan um mig svo ég get nú barist gegn bakverkjum og óréttlæti í heiminum - og mun líka reyna að hreyfa mig hægt, eins og þokkafullur strandvörður á Langasandi. Minnsta mál. Tek myndir fyrir og eftir. Ef þetta kemur illa út, mun ég sennilega ekki sýna neitt ... bara fussa skriflega yfir heimskulegri hugmynd. Maður á samt ekki að kaupa allt, frekar nýta það sem til er, eins og bráðum tóma bókahillu vegna grisjandi hugarfars undanfarið. Gangi mér vel. Íbúfen inni í skáp og sjúklega góð dýna til að sofa á, hitapoki, nuddtæki, ég hef enga afsökun, dríf í að gera þetta. 

 

Jú, enn eitt af Facebook. Maður að nafni Timothy (sjá mynd 3) fékk verðlaun fyrir mjög flott teppi sem hann heklaði. Uppskriftin að teppunum er eftir Tinnu okkar Þórudóttur Þorvaldar (ekki Þorvaldar Þorvalds- og Ólínusonar af Akranesi) sem hefur skrifað alla vega þrjár heklbækur. Peysan sem ég ætla að hekla í Hekls Angels, ef ég get, er einmitt eftir hana. Tinna er með afar vinsæla fb-heklsíðu, Tinna´s Crochet Club, og þar eru gríðarlega margir meðlimir. Sumir halda að ég sé snillingur að hekla en svo er alls ekki. Ég kann að fara eftir einföldustu uppskriftum og framleiddi mikið af treflum og sjölum í jólagjafir. Geta og framleiðslugeta er alls ekki það sama.     


Gjörbreytt ásýnd og fleiri einnota fyrirtæki

Morgunstund gefur gullMorgunstund gefur svo sannarlega gull í mund. Sumar litlusystur hafa stundum mögulega kannski svolítið rétt fyrir sér. Eftir að hafa dúllað mér við tiltekt eftir sturtu, frá u.þ.b. kl. 11.15-11.47, var ásýnd eldhúss Himnaríkis gjörbreytt. Það sem er ekki hægt að gera með smávegis vatni og einum eyrnapinna ... Talsverður munur, finnst mér, sjá samsetta mynd.

 

Ég bæði óttast áhrif rúmsins og gleðst yfir þeim, nýja rúmsins, harða og dásamlega, óttinn er við að ég geti ekki lengur vælt yfir bakverkjum þegar ég bið stráksa að þrífa upp af gólfinu uppköst kattanna (aðallega Krumma sem ælir af skelfingu þegar fer að minnka í dallinum, og étur síðan of mikið þegar ég fylli á sem þýðir að hann endurtekur gubbskapinn). 

Er orðin miklu skárri, finnst ég meira að segja hreyfa mig hraðar, stundum alveg hviss-bang af því að ég þarf ekki lengur að óttast að fá þursabit við eina óvarlega hreyfingu. Svona leið mér líka eftir að ég keypti gömlu dýnuna, fyrstu c.a. þrjú árin en svo bara gafst hún upp á mér og sveik loforðin. Enginn áhugi þegar ég kvartaði, svo fyrirtækið varð einnota í mínum huga, eins og Ak-tak-dæmið, sem vinur minn kallar Rændu -spændu ... Mér skilst að RB-dýnur gefist ekki svo glatt upp á eigendum sínum. Hægt að snúa þeim alls konar og þegar þær fara að linast eftir kannski 20 ár, er hægt að láta gera þær eins og nýjar.

 

Edda úr Angist með SkálmöldFrétti hjá elsku Einarsbúð áðan að það væri þjóðarskortur á eggjum. Nei, tengist ekki ketó, heldur vegna nýrrar reglugerðar um hamingjusamari hænur sem er auðvitað dásamlegt. Við eigum að fara vel með dýr. Margir eggjabændur hættu út af þessu og því er skorturinn. Svo datt mér í hug að kannski væri hægt að hafa slátrun kjúklinga mannúðlegri, eins og að skutla þær, en láta dýralækni horfa á, til að það sé ekkert sárt. Hægt að ráðgast við Kristján Loftsson ... sem Gummi bróðir hafði næstum ruglað saman við Gissur Pál Gissunarson óperusöngvara í erfidrykkju um árið, munið. Hefði ég átt að stoppa hann, eins og ég gerði? Nei.

Hversu dásamlegt hefði verið ef einhver hefði ruglað mér saman við t.d. Marilyn Monroe ... eða nei, hún dó viku fyrir fjögurra ára afmælið mitt. Ja, kannski frekar ef einhver segði ofsaspenntur við mjólkurkælinn í Einarsbúð: „Bíddu, bíddu, ert þú söngkonan Edda úr Angist?“ Þá hefði ég getað svarað: „Uhhh, takk, ég gæti verið mamma hennar, hún er vissulega í miklu uppáhaldi. Hún söng með í laginu Hel með Skálmöld og Sinfó.“ Sennilega hefði ég bara bilast úr hlátri ... en samt ... Ég leyfði úkraínskri grannkonu minni að heyra Hel og hún varð óttaslegin, fannst þetta vera djöflarokk. „But you are in Heaven,“ hefði ég auðvitað átt að segja.

 

Inga vinkona kemur í mat í kvöld, í Ljúffengt kotasælulasagna. Það uppgötvaðist villa í uppskriftinni og Eldum rétt sendi SMS upp á líf og dauða með leiðréttingu, þetta hefði orðið ansi þurrt annars, munar alveg um 60 ml (fyrir tvo) af vatni. Við verðum þrjú í mat en ég keypti efni í meira salat með, og eftirrétt líka, eða fokkings engjaþykkni með satans nóakroppi. Bara jólin? hugsið þið eflaust, já, alltaf jól í himnaríki. Og nei, ég er ekki farin að skreyta.

 

Af Facebook:

Á meðan Kristján Loftsson langar að veiða hvali, verða hvalir veiddir, skrifaði einhver mæðulega áðan.

BananarúllutertaÁ minni eigin síðu, Fb rifjar upp frá 2015: „Rakst á gamla stafsetningarvillu eftir mig á prenti: Hjartnær (hálfa öld). Er þetta ekki bara ágætt nýyrði? En yfir hvað?“

Svo eru komin níu ár síðan ég sjokkeraði (í 2 sekúndur) afgreiðslukonu hjá Bakarameistarum, ég hafði keypt bananarúllutertu (8-12 manna) til að gleðja soninn. „Viltu kassa?“ spurði hún. „Nei, takk, ég ætla að borða hana hér!“ Eftir að hafa verið um tíma á fb-síðu þar sem afgreiðslufólk kvartar yfir viðskiptavinum sem reyna að vera fyndnir, fékk ég samviskubit og er hætt þessu. Þetta var uppáhaldskaka lífs míns en mér var refsað fyrir húmörðinn, eins og stráksi orðar það (húmor og ömurð saman?), og kakan er ekki lengur í boði!!! Jói Fel gerði svipaða en hafði vínbragð í kreminu sem var ... Ja, ég viðurkenni fúslega að ég er fanatísk á móti víndropum í bananarúllutertum.


Hlegið að þrifum, furðuframburður og ómannúðlegur matur

Allt í drasliHálfkæfður hlátur hljómaði um Himnaríki. „Af hverju ertu að hlæja?“ spurði stráksi sem var á næstu grösum. Ég sprakk þá alveg og reyndi að útskýra að einhver nánast ókunnug hjúkrunarkona (sjá síðasta blogg) hefði heimsótt aðalsöguhetjuna og síðan farið að þrífa heimili hans. „Og hvað er svona fyndið við það?“ spurði þessi efnilegi fulltrúi feðraveldisins.

 

Sko, ég hélt að hjúkkan yrði bara pínulítil aukapersóna, upp á kannski eina og hálfa blaðsíðu, en eitt kvöldið, ögn aftar í bókinni, heimsótti hún söguhetjuna heim til hans til að segja honum að hún hefði séð grunsamlegu konuna sem þóttist vera blaðamaður á sjúkrahúsinu, vera að afgreiða í skartgripabúð. Hann bauð henni inn og henni ofbauð svo draslið (sjá mynd) að hún tók sig til daginn eftir, með hans leyfi, og hreingerði íbúðina. Miðaldra konur hafa svo gaman af því að taka til hjá óþægum ungum piparsveinum og vera svolítið móðurlegar við þá. Í lok bókar var hún æviráðin hjá honum og blindu, fallegu kærustu hans sem fékk sjónina aftur vegna kænsku kærastans sem einnig leysti nokkur flókin morðmál fyrir lögregluna.

 

Ég er komin á þriðju bókina í þessum bókaflokki (gamlar ástarsögur) og masókistinn í mér nýtur þess sífellt meira að hlusta. „Eldgamla“ orðið meðaumkun virðist hafa vikið fyrir orðinu samúð í íslensku máli, hjá yngri lesurum alla vega, sem virðist ekki vita hvernig eigi að bera það fram, hún segir: meða-umkun. Í alvöru! Ekkert slæmar bækur, bara börn síns tíma. Pirringur minn yfir því að söguhetjur þurfi að fara á símstöð til að hringja í lögguna hefur minnkað og ég er ákveðin í því að skemmta mér yfir þessum bókum á meðan ég bíð eftir nokkrum nýjum afar girnilegum sem eru væntanlegar. Ég flissaði mikið þegar lögreglan var næstum búin að handtaka konu af því að hún var ekki nógu yndisleg. Í alvöru.

 

Ég er alveg risaeðla á ýmsan hátt, sennilega get ég ekki kennt aldri um því vinkonur mínar og ættingjar á svipuðu róli í árafjölda (RF(rúmlega fimmtug)) eru allar/öll miklu betri í þessu en ég, ein er tölvusnillingur, ég skil til dæmis alls ekki hvað gemsinn minn er að segja mér: Exposure Notifications are off ... Your iPhone will no longer log nearby devices and you won´t be notified of possible exposures. Þarf eitthvað að gera í þessu - og hvað þá? Ef ekki, hvernig losna ég við að sjá þetta í hvert skipti sem ég virkja skjáinn, áður en ég opna símann? Ég skal tengja vídeótæki fyrir hvern þann sem veit eitthvað um þetta. Ef þetta kemur í veg fyrir að ég fái fréttir frá löggunni um hraunrennsli nálægt Akranesi vil ég endilega fá þetta lagað.  

 

HamborgarinnHamborgari var eldum rétt-aður í kvöld (allt of sjaldgæfur matur, segir stráksi) og ekki fyrr en ég fór fram til að elda, undir hálfsjö, að ég sá að ég hefði átt að taka kjötið út klukkutíma áður. Ég setti því allt í algjöran hægagang ... gerði hvert einasta handtak fyrir fram (ekki jafnóðum) áður en eldamennskan hófst, náði þannig að tefja eldun hamborgaranna sjálfra. Eina sem ég gleymdi var að pipra sósuna almennilega. Þetta var samt gott. Laukur er svo æðislegur. 

 

- - - - - -

Á Facebook:

Á íslenskunördasíðu spyr einhver Guðríður hvort eigi að segja meða-umkun eða með-aumkun - og hvort meðlimir viti almennt hvað þetta orð þýði. Viðbrögðin hafa verið nokkur: Er þetta frétt? Is this still available? Á þetta heima á þessari síðu? Prófaðu edik og natron!

 

Ein fb-vinkonan búin að reynsluaka 14 bílum frá því á föstudag. Hversu langan tíma tekur eiginlega að finna bíl í flottum lit?

 

Umræða um strætó í Mjódd, af hverju ekki gengur að hafa biðstöð stærstu skiptistöðvar landsins opna jafnlengi og strætó gengur, eða lengur en til kl. 18, og hafa salernin opin. Einhver útvistuð þrifþjónusta hætti að þrífa klósettin og þá var þeim bara lokað. Hvað ætli bensínstöðin á móti hafi grætt mikið á fólki (m.a. mér, oft) í spreng sem verður að kaupa eitthvað til að fá að pissa?

 

Uppáhaldssíðan mín, Gamaldags matur, er farin að missa marks, vill einn meðlimurinn meina, allt of margir póstar úti á túni, segir hann. Þetta er uppáhaldssíðan mín af því að ég er svo fegin að hafa sloppið lifandi frá því að hafa þurft að borða matinn á sjöunda áratug síðustu aldar. Hræringur, spagettí soðið í hálftíma, súrt slátur, sigin ýsa, kæst skata, hamsar, þverskorin ýsa, lúðusúpa ... Ég horfi með hryllingi á ljósmyndirnar á síðunni og held oft að fólk sé að blekkja þegar það segist hafa borðað með bestu lyst alls konar svona mat á meðan búðirnar eru fullar af einhverju miklu mannúðlegra.      


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.7.): 11
  • Sl. sólarhring: 24
  • Sl. viku: 149
  • Frá upphafi: 1529849

Annað

  • Innlit í dag: 11
  • Innlit sl. viku: 132
  • Gestir í dag: 11
  • IP-tölur í dag: 11

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • Alltaf númer eitt ...
  • Jana Napoli frá New Orleans
  • Írskir dagar 2025

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband