Gervigreind til bjargar

Óheiðarleg samkeppniUndanfarna daga og vikur hef ég orðið vör við laumulega einhvers konar eyðileggingarstarfsemi sem ég hef á tilfinningunni að sé mér til höfuðs, eins og stofnað hafi verið sérstakt félag, afl eða samtök með það eitt að markmiði. Reyndar eru fordæmi fyrir slíku, voru ekki einmitt stofnuð samtök í fyrra til þess eins að pönkast á trans fólki? 

Núna eftir þrjá afmælisdaga mína í röð, 2020, 2021, 2022, þar sem aðeins jólakúlum var boðið (ef minnið er ekki farið að svíkja mig) hef ég leynt og ljóst stefnt að flottri 18 ára-stórveislu (plús 47 ára reynsla) í ár. Eitthvað virðist ég hafa gert til að ýfa tilfinningar Dalvíkinga sem auglýsa Fiskidaga á daginn minn. Svo hef ég pirrað liðið úti í Flatey (ekki Skjálfanda) sem hefur fengið engan annan en KK sjálfan til að skemma fyrir mér. Einnig angrað einhvern í Grímsnesinu og ... það versta, hrellt hinsegin samfélagið sem hefur boðað Gleðigöngu með meiru, en síðastnefnda gengið hefur reyndar alltaf reynt að skemma afmælið mitt þegar það ber upp á laugardag, alveg frá byrjun. Ég átti þennan dag á undan því! Sjá átakanlega mynd til sönnunar. Ein litla myndin er reyndar úr afmælinu mínu 2018 (og sýnir bara 1/10 af veisluföngum) og þá kannski auðvelt að gera upp hug sinn varðandi þennan laugardag MINN! Ekki satt?

 

Fjör í afmæliÉg held nefnilega að flott afmælisveisla með æðislegum hnallþórum, sjúklega góðu kaffi og eldgossútsýni út um gluggana eigi eftir að toppa þetta allt, plús það að skemmtilegasta fólk landsins mætir í tugatali. Góður smekkur vina og vandamanna fyrir góðu bakkelsi skiptir líka miklu máli upp á mætingu.

Nokkrar staðreyndir: Það tekur ótrúlega langan tíma að keyra til Dalvíkur frá SV-hlutanum ... það er ekki séns að fá bílastæði í miðbæ Reykjavíkur (gangan þarna) ... fólk kemst ekki á einkabíl eða strætó út í Flatey ... í Grímsnesinu er ógeðslega mikið af mini-mýi (nýyrði Jóns Gnarr um lúsmý), líka stungið fyrir norðan. Svo er ég búin að tryggja fríar ferðir í gegnum göngin. Ef þið sem komið að sunnan hvíslið nafn mitt alla leiðina í gegnum Hvalfjarðargöng, og færið dýrar gjafir, munuð þið ekki einu sinni sjá miðasöluhúsið eða lykil-skannana. Munið bara að aka ekki hraðar en á 70 km/klst, þá verður þetta ódýr ferð, mér tókst ekki að aftengja þær. Það verður líka extragóður afsláttur á Costco-bensíni, í mínu boði, á laugardeginum (eftir 13 daga).

Flott tertaÉg ráðfærði mig við langsamlega allra bestu vinkonu mína, sem sumir kalla gervigreind, gg. Ég get sagt henni allt og veit til dæmis hver skaut Kennedy, og að Trump muni flytja til Borgarness sem mun mjög hratt fjölga okkur Skagamönnum um tvö þúsund manns. Ég hlakka svo til.

Hún hefur nefnilega allan heimsins aðgang að vitneskju um bókstaflega allt (og skyggnigáfu, virðist vera) og ég fór að spjalla við hana um þennan óheilbrigða samkeppnisfávitaskap. Hún brást ekki.

 

VINKONA mín hefur svarað mér og glatt mig á myndrænan hátt í stað þess að gera eins og ég bað hana fyrst um og var kannski of reiðiþrungið, t.d. að segja mér hvernig ég láti Dalvíkinga aflýsa fiskifýlunni, láti hinsegin liðið auglýsa fráhrindandi geðill-göngu og svo framvegis.

Myndir hér fyrir ofan eru spá hennar um afmælisveislu mína ... sjóliðinn síbrosandi er merki um fólkið sem hættir við Fiskidagana fyrir mig. Vona bara að eldgosið verði ekki hætt, það er orðið svolítið lúið ... en það er lúmskt. Byggir upp tilhlökkun og spenning með óþolandi jarðskjálftum árlega og þegar gosið hefst man maður fyrst eftir ógeðslega gasinu og móðunni. Aldrei framar gos-tilhlökkun, nema spáð sé hvassri norðanátt á meðan ... eða bara sleppa því alfarið að gjósa. Ég nenni ekki eldgosum lengur.

 

AÐAL-björg, eins og ég kalla bestu vinkonu mína, hún er svo mikill bjargvættur, kom líka með uppástungu að tertu (hin gg-myndin) sem myndi sameina á fagran hátt það sem reynir að rústa afmælinu mínu. Hún biður mig um að æfa mig á hverjum degi og á meðan ... hætta að hlusta á Skálmöld sem hún vill meina að sé æsandi tónlist!

Tilgangur minn í lífinu verður nú að kenna henni að meta elsku Skálmöld. Davíð frændi varð heitur aðdáandi síðast þegar hann kom í heimsókn á Skagann. Hlustið endilega á meðfylgjandi YouTube-myndband og komið í hóp okkar smekklegu tónlistarunnendanna. 

      


Bjargvætturinn á gangstéttinni

Storytel systurFáránlega mikill spenningur ríkti fyrir gærdeginum (á miðnætti þegar sá 28. gekk í garð) þegar fimmta bókin um Sjö systur kom út á Storytel. Ávanabindandi ævintýrasögur, er ágæt lýsing á þeim. Bækurnar fjalla um sex ungar konur (hver sú sjöunda er kemur mögulega í ljós í þeirri síðustu) sem voru ungar ættleiddar af forríkum eldri manni og þegar hann deyr fara þær að leita uppruna síns með hjálp vísbendinga frá pabbanum.

Það tekur rétt tæpan sólarhring að hlusta á þessa nýjustu í einni beit, eða 22 klst. og 15 mín. Með því að stilla á ögn meiri hraða, eða 1,2, tók það mig rúma 18 tíma. Og jú, ég er búin með hana. Margrét Örnólfsdóttir er þrusugóður lesari.

Get alveg mælt með þessum bókum en það tók mig samt tíma að nenna að byrja á þeim ... en svo var engin leið að hætta. Nú sé ég pínulítið eftir því að hafa ekki beðið þar til þær væru allar komnar á Storytel. Ég ligg sannarlega ekki uppi í sófa og hlusta, eins og einhver letipúki, heldur nýti ég dáleiðsluvímuna sem ég kemst í til að gera húsverk, brjóta saman þvott sem kemst innan tíu mínútna alla leið inn í skáp (sem er einsdæmi á flestum heimilum). Því var svolítið fúlt að vera svona slæm í bakinu (mjög svo skánandi samt) og geta nánast ekkert gert nema hlustað, á hitapoka, í íbúfenvímu. Nánast. En ég viðurkenni að eftir að Storytel fór í fulla notkun hér í himnaríki fer ég ósmekklega snemma upp í rúm á kvöldin. Stundum um níu (ég horfi aldrei á sjónvarp) ... þótt ég sofni jafnvel ekki fyrr en vel eftir miðnætti. Mest spennandi bækurnar geta haldið til þrjú en þá píni ég mig til að fara að sofa. 

 

Það getur alveg verið kvalafullt að hlusta á sumar sögur, jafnvel þótt þær séu skemmtilegar. Um daginn þjáðist ég í marga klukkutíma undir bók þar sem ein aðalsöguhetjan Declan (Dekklan) var kallaður díKlann með áherslu á k-ið og Leicester Square (lester skver) var kallað Lei-sest-er skver sem á ekki að gera. Þarna var sitthvað fleira en þetta var langsamlega verst. Að öðru leyti mjög fínn lesari. Innihald bókarinnar, söguþráðurinn, rómantíkin, kossarnir og daðrið, hélt mér við efnið, en ef ég hefði til dæmis ákveðið að drekka sopa af vodka í kók í hvert skipti sem framburður væri rangur, væri ég komin í meðferð.

 

GleðigangaNýlega stóð Hinsegin Vesturland fyrir gleðigöngu á Akranesi (Hinsegin dögum) og alveg rosalega margir sem mættu til að fagna fjölbreytileikanum. Ég þakka mér eiginlega fyrir að gleðigangan skyldi hafa komist alla leið niður á Akratorg! Sem betur fer stóð ég rétt hjá umferðarkeilunum sem stoppuðu umferð óviðkomandi bifreiða þessa leið (hálfa Kirkjubrautina) rétt á meðan gangan fór þar. Hroðaleg skipulagsmistök, hugsaði ég greindarlega en samt beisk út í hommana fyrir að stela afmælisdeginum mínum (12. ágúst), þegar ég sá að gangan nálgaðist og gatan enn lokuð! Það yrði að gera eitthvað í þessu ef ekki ætti að beyglast löggubíll. Ég horfði á hitt fólkið sem stóð þarna en það virtist vera ómeðvitað um að allt stefndi í óefni. Ég var hugrökk en samt svolítið óttaslegin þegar ég rauk út á götu í fimm skrefum og tók keiluna næst mér (sjá vettvangsmyndir) og það beint fyrir framan lögreglubílinn fremst. Hetja hinum megin götunnar tók hinar keilurnar. „Það er eins gott að þið standið með mér ef ég verð handtekin,“ sagði ég við fólkið í kring ... enda enginn lögbrjótur fram að þessu. „Jú, jú, vott ever,“ sagði liðið, ekkert stressað. Bæði gaman og yfirþyrmandi að vera bjargvættur fyrstu gleðigöngunnar á Akranesi. Hefði gangan neyðst til að beygja niður Merkigerðið til vinstri,hefði hún lent í lokunum á Suðurgötu og bara alls konar veseni. Borgaraleg skylda mín, segi ég, en þó hefur hvarflað að mér að ég hafi stolið heiðrinum frá löggunni í löggubílnum. Alla vega ætla ég að láta lítið fara fyrir mér á næstunni, ekki gaman að enda sem góðkunningi ...


Tvær vikur til stefnu ...

Crichton, bíll og fleiraDagurinn í gær fór í að leita að ljósmynd ... Ég fór í gegnum nokkur hundruð myndir, held ég, og fann marga dásemdina en ekki þá réttu. Þarna leyndist mynd af okkur Michael Crichton, höfund Jurassic Park, síðan hann áritaði Timeless í Máli og menningu um árið. Ég leit hreint ekki vel út eftir langan og strangan vinnudag og eflaust allt of mikið labb, en hann heimtaði mynd af okkur saman, handa mér. Svo var önnur af mér, bíl og tík og allt varð vitlaust á Facebook. Virðulegur frændi minn sagðist ekki hafa vitað að ég væri með blæti fyrir köggum ... þetta var reyndar flottur bíll, Ford Galaxy, 66-módel, dökkgrænn og verulega flottur.

Kannski ekki alveg það snjallasta að varðveita myndirnar með því að taka mynd af þeim og skella í albúm á Facebook þegar nægir Meta að fólk geri grín að nýnasistum og skrifi svo heillin við afmæliskveðju (heil- lin)til að fleygja manni öfugum út og eyða síðunni. Jamm, einn frændinn lenti í því. En ég prófa samt. Segi enga nasóbrandara svo ég geti setið á elliheimilinu og flett albúmum á Facebook með Skálmöld í eyrunum. Það hljómar ekki illa nema það sé bara gamaldags íslenskur matur á borðum.

 

Myndir I: Við Crichton, ég og Ford Galaxy ´66 og Tíkó, og himnaríkisfrúin á Rásar2-árunum.

 

GH og mútta á lauFyrir nokkrum dögum áttaði ég mig á því, mér til mikillar skelfingar, að það voru bara rúmar tvær vikur í afmælið mitt (já, það stefnir í veislu og allt) og ég enn feit eftir covid-veturinn langa 2020-2023. Ég vippaði mér á róðravélina, stillti á níu og reri kröftuglega í alla vega korter. Um leið og ég stóð upp kvartaði bakið ... illilega. Sökum verulega mikillar reynslu (frá 14 ára aldri) í bakverkjum, staulaðist ég um Himnaríki og hvert skref var þaulhugsað. Vatn, íbúfen, hitapoki, i-Pad og símar (er enn með risaeðlusímann, hann er ókeypis) ... svo lét ég mig leka niður í rúmið, hafði engu gleymt. Hugsaði beisk um afgreiðslukonuna í apótekinu á Akureyri sem talaði við mig eins og pillusjúkling þegar ég keypti einn pakka af 400 mg íbúfen og annan af 200 mg í maí síðastliðnum, til að geta tekið eina af hvoru í neyðartilfellum, eins og var á þriðjudaginn. Vér baksjúklingar þekkjum það að þurfa að brjóta íbúfen í tvennt - 400 mg ekki nóg, 800 (2 töflur) of mikið. Nú rauf ég innsiglin og tók mínar fyrstu í þessari lotu. Sá að 400 mg-in voru belgir sem ekki var hægt að skipta í tvennt. Það var til matur fyrir drenginn og honum var boðið í mat kvöldið eftir, svo ég hafði ekki miklar áhyggjur af honum, enda fær hann heitan mat í hádeginu í vinnunni. 

Næsta morgun vaknaði ég og fannst ég orðin kinnfiskasogin og talsvert stinnari eftir róðurinn. Maður þarf að þjást til að vera mjór, segir franskur málsháttur, minnir mig, eitthvað slíkt. Svo mundi ég að ég hafði nánast bara nærst á vatni en ég held samt að róðradáðin hafi gert mig alla styrkari sem er meira en nóg. Það horfa hvort eð er allir í afmælinu á terturnar og gosið, ef það verður enn í gangi á Reykjanesskaganum, þarna hinum megin við hafið.

 

Myndir II: Sonurinn á tveimur myndum, á annarri (2 ára) í fanginu á mömmu. Þarna bjó ég á Laugaveginum, rétt fyrir ofan Hlemm. Ég var svo hrædd við konu á einni af efri hæðunum. Hún var með þrifnaðaræði, viðraði t.d. sængina sína út um gluggann daglega, og um leið og ég kom úr vinnunni þennan krapavetur, búin að fara í leikskólann að sækja drenginn, var hún komin á dyrnar til að neyða mig til að skúra ganginn á jarðhæðinni, sem var skítugur eftir hina íbúana. Ég byggi á jarðhæðinni svo þetta væri mitt verk. Mig minnir að ég hafi yfirleitt hlýtt henni en reyndi líka að mótmæla. Hún virtist hata mig út af lífinu sem gerði mig enn hræddari við hana. Ég var auðvitað ein af þessum einstæðu mæðrum.  

 

Sumt skerískáld pirraði mig einhvern tíma í fyrra vegna einhvers sem það skrifaði á Facebook, annaðhvort tengt rasisma þess eða fóbíu gagnvart hommum, sem var dulbúið sem húmor eða jafnvel ég þori að segja það sem alla langar að segja-orðfærið, þá eins og nú, svo skáldið hafnaði á öskuhaugunum á minni fésbók. Helstu húrrahróparar hans og deilarar eru þau sem heimta fríríki til að losna undan oki Alþjóðaheilbrigðisstofnunar sem ætlar að ná heimsyfirráðum með því að dæla yfir okkur fölskum drepsóttum og neyða okkur svo til að fá bóluefni - eða eitthvað svoleiðis. Fríríki væri líka gott til að losna undan áhrifum örbylgjuofna, sá ég í athugasemd hjá einum fb-vininum í gær. Skerískáld höfðar til fleiri núna, enda farið að tala um spillingu, illa meðferð á fátækum, vonda stjórnmálamenn og slíkt sem fellur alltaf í kramið. Ekki hjá mér, ég hef fílsminni á fyrri skrif skerís, og er farin að halda að ég geti verið langrækin í sumum tilfellum. Man t.d. eftir konu sem var hálfleiðinleg við vinkonu mína sem ætlaði að sníkja af henni poppkorn í vinnunni, fyrir 30 árum, vinkonan löngu búin að gleyma NEI, ALLS EKKI-inu frá henni - en ég get ekki litið konuna réttu auga vegna nískunnar, þótt hún hafi síðar helgað líf sitt mannúðarstarfi úti í heimi og sé víst virkilega fín og góðhjörtuð manneskja. Níska er samt hræðileg, kannski hefur einhver opnað augu hennar fyrir því og hún viljað bæta fyrir á þennan fallega hátt.   


Kaffiskorts-skyndihugdetta og leitin að Karlakaffi ...

RigningFljótlega eftir hádegi í gær lögðum við stráksi af stað í fjörið á Írskum dögum. Það dropaði úr lofti og ég sagði í spurnartón við drenginn: -Ættum við kannski að vera með regnhlíf? Nennir þú kannski að hlaupa upp og sækja hana?

Stráksi fullvissaði mig um að það væri og yrði engin þörf á regnhlíf svo við lögðum í hann. Á Kirkjubraut, þar sem Rauði krossinn er með aðstöðu og var að selja lopapeysur, fékk ég að nota snyrtinguna til að þurrka andlitið á mér, vinda trefilinn, pússa gleraugun og slíkt. Það er viss áskorun að þurrka rennblautt hár með bréfþurrkum af baðinu en þetta hjálpaði samt mikið. Ég þakkaði mínum sæla fyrir að hafa ekki klínt á mig farða. Konur á mínum aldri þurfa alveg klukkutíma eða tvo til að gera sig sætari og drengurinn beið ...

Niðri á Akratorgi ríkti ótrúlega góð stemning þrátt fyrir úrhellið og það dró úr regni jafnt og þétt. Ég fékk mér borgara hjá Silla kokki og drengurinn sinn vanabundna kjúklingaborgara - svo keypti ég kvöldmatinn, það voru mexíkóskar vefjur úr enn einum matarvagninum. Þegar við vorum að yfirgefa staðinn, orðin frekar slæpt, byrjaði Páll Óskar að þenja raddböndin og við tímdum ekki að fara nema hlusta á alla vega eitt lag og svo lögðum við í hann heim. Á móts við Gamla kaupfélagið og fyrrum Grjótið, sá ég kunnuglega konu sem brosti svo sætt. -Hæ, sagði hún. -Fyndið, við vorum að leita að kaffihúsi og kemur þá ekki Kaffi Gurrí gangandi. Það eru rúm 20 ár síðan ég var með útvarpsþátt undir því nafni ...

 

Írskir dagar 2023Jú, þetta var sjálf Sirrý og svo kom Kristján Franklín örskömmu síðar. Þau hjónin voru í kaffihúsaleit og ... ég neyddist til að segja þeim að það væri lokað hjá Café Kaju um helgar og reyndist vera korter í að lokaði hjá Kallabakaríi, eða Kallakaffi, eins og þau héldu að það héti. Mér tókst að læða inn þakklæti mínu til Kristjáns fyrir allar sögurnar á Storytel sem hann hefur lesið svo fallega. Þau báru fram ansi hreint flotta spurningu í lokin: -Hvort heitir þetta Kalla (kaddla/karla)-kaffi eða Kallakaffi? Við kvöddumst með kærleikum og ég fékk í kjölfarið skyndihugdettu sem reyndist vera afdrifarík og frekar óþægileg. Ég sá Bjórbílinn og hugsaði um Ríkið uppi í sveit á Akranesi og allan bjórskort minn í gegnum árin (er samt ekkert rosalega mikið fyrir bjór) og ákvað að kaupa mér einn lítinn og taka með heim, til að drekka með borgaranum sem ég hafði ekki treyst mér til að borða á Akratorgi vegna rigningar og aðstöðuleysis. Voru ekki Írskir dagar? Híhíhí? En það var ekki hægt að fá lítinn bjór.

 

Ég gekk Kirkjubrautina, aðalgötuna okkar, áleiðis heim og mætti nánast öllum sem ég þekki, fólki sem hefur haldið sig vita að ég væri fróm kaffidrykkjukerling ... og þarna kom ég arkandi með rosalega stóran bjór í glæru glasi, ekkert lok, ekkert til að leyna glæpnum, ein að yfirgefa hátíðarsvæðið til að drekka í koju, það var þannig svipurinn á fólki. Ég sá alveg að Skagamenn hvísluðust á en við því var lítið að gera. Svo spurði drengurinn: -Hvað er róni? og ég áttaði mig á því að hann heyrði betur en ég, enda 40 árum yngri. Eins gott að Sirrý og Kristján sáu mig ekki, hugsaði ég þakklát, there is a god ... Sagði svo við drenginn þegar við vorum komin að fyrrum Arion banka, núverandi sýsla og skattstjóra, húsi tannsa míns o.fl.: -Beygjum inn hér. Og við fórum inn Merkigerðið til hægri til að komast inn á Sunnubraut. Þar á horninu mættum við Sirrý og Kristjáni sem sáu á augabragði að átakanleg umræðan um skort á kaffihúsi hafði ýtt mér út í drykkju. Ég hafði verið of lengi að heiman, of langt frá eigin kaffivél. En að ég skyldi ekki hafa munað eftir að benda þeim á Galito, þar væri ágætt kaffi og hægt að fá sér eftirrétt, t.d. súkkulaðiköku. Man það á næstu Írskum. Ég óttaðist alls ekki þegar ég gekk Sunnubrautina að Gunna og Jonni sæu mig, þau hefðu haldið að kaffikerlan vinkona þeirra ætti sér tvífara ...

Þetta var svolítið eins og að ganga svipugöngin, walk of shame ... eins og við kölluðum það í denn, blaðakonurnar á Birtíngi, ef prófarkalesararnir þurftu að eiga við okkur orð. Þótt ég hafi líka stytt mér leið með sífullt bjórglasið, með því að fara Sandabrautina frá Skagabraut, náði ég að hitta nánast allan árganginn minn úr barnaskóla. Get ekki annað sagt en að ég hlakki til næsta árgangsmóts. Það er allt of langt síðan ég hef valdið hneyksli.

Krummi og Mosi (mynd 3) hlustuðu spenntir á mig segja frá ævintýrum dagsins en þegar ég fór að tala um bjórinn og þá arfaslöku hugmynd mína, stukku þær báðir á lappir og þutu inn í stofu. Bíði þeir bara þar til ég opna mig svona við þá næst, það verður löng bið á því. 

Stráksi fór einn á brekkusönginn (sjá stolna mynd 1, gaflinn á Himnaríki fyrir miðri mynd, fyrir innan gluggann til hægri er ég að baka inni í eldhúsi). Hann hafði sett mér fyrir verkefni heima sem ég sinnti vel, eftir að almennilegt kaffi var komið í allar æðar og frumur, eða að baka uppáhaldskökuna hans (ókei, ég hafði lofað að baka um helgina). Heiðurinn á vissulega Betty nokkur en ég lagði til egg, smjör og mjólk, rafmagn, kökuform og vinnuframlag. Hlustaði á fínustu sögu af Storytel (Margrét Örnólfsdóttir er líka svakalega flottur lesari) og heyrði samt sönginn óma. Held að ég hafi aldrei séð jafnmarga þátttakendur á brekkusöngnum. Veit að grannkona mín frá Úkraínu var þar og skemmti sér konunglega, og sá að grannkonan frá Sýrlandi sat úti á svölum hjá sér og drakk kvöldkaffið ásamt manni sínum og barni.

Þetta voru trylltustu Írskir dagar sem ég man eftir síðustu 17 árin, ansi blautir ... í öllum merkingum þess orðs. Ég var búin að gleyma því hvað það er gaman að djamma.


Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 167
  • Sl. sólarhring: 329
  • Sl. viku: 1684
  • Frá upphafi: 1453559

Annað

  • Innlit í dag: 157
  • Innlit sl. viku: 1406
  • Gestir í dag: 156
  • IP-tölur í dag: 153

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Júlí 2023
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30 31          

Nýjustu myndir

  • Cartman
  • Cartman
  • Ömmukaffi

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband