Færsluflokkur: Bloggar

Ævintýri á Álfhólsvegi og hávaðakeppni í húsinu

LagalistiNágrannaslagur í vændum? Þegar ég hjúfraði mig ofan í koddann rétt um áttaleytið í morgun með þann staðfasta ásetning að sofa rótt til 9.30 fór að heyrast hávært hljóð og miðað við lætin var verið að bora eftir olíu í grennd. Ó, hugsaði ég spyrjandi en hafði nú samt áttað mig, einhver sem hatar Skálmöld, hvernig sem það er nú hægt, og ákvað að hefna sín fyrir óumbeðna tónleika í húsinu? Ætti ég kannski að gefa þeim frí um hríð (klukkutíma, hálfan dag)?

Svo ég setti aðallagalistann minn á (youtube-veitan) og gaf í botn til að yfirgnæfa olíuborinn en ég veit svo sem ekki hversu betur lögin fara í þau sem bora. Jú, BG og Ingibjörg, Mánar (Þú horfin ert), Trúbrot, Bubbi og fleiri yndislegheit er að finna þar en líka meiri læti. Nú kemur bara í ljós hvort/hvert okkar verður sneggra til að setja á sölu, eða sættast heilum sáttum eftir að ég fæ heyrnartól eða hann/þeir eyrnatappa ...

 

Mynd af lagalista: Alls konar nýtt uppáhalds, gamalt uppáhalds og eldgamalt uppáhalds ... fjölbreytni góð við vinnuna. Ekki samt segja Davíð frænda frá efsta laginu ...

 

Við stráksi fórum í bæinn um helgina og lentum í ævintýri ... þar sem álfar og franskt kvikmyndatökulið kom við sögu ... Drengurinn hefur mikinn áhuga á álfum og sögum um þá og nýlega hittum við konu sem sagði honum að þeir væru svo sannarlega til, þá hafði einnig ein af systrum mínum viðurkennt fyrir honum að hafa hitt álf og við sama tækifæri sagt okkur veiðisögu af mömmu þar sem hún mokveiddi með aðstoð álfa ... Allavega langaði hann að kíkja á Álfhólsveg, rétt hjá skólanum, en þar er sögð vera álfabyggð. Við Hilda báðum hann að fara aðra leið til að trufla ekki sjónvarpsviðtal sem var í gangi þarna hjá álfasteinunum. Svo sátum vér systur í bílnum og ræddum heimsmálin. Viðtalinu lauk og parið sem verið var að spjalla við hvarf sjónum. Kom svo aftur og sagði eitthvað við sjónvarpsparið sem rauk á ofsahraða fyrir hornið.

„Nú eru þau farin til að mynda drenginn í álfaleit,“ sagði litla systir spámannslega en ég fussaði vantrúuð. Svo fór mig að lengja eftir honum og plataði Hildu til að keyra nær og viti menn, það var verið að mynda drenginn sem var eins og draumur hvers sjónvarpsmanns sem ætlar að gera mynd um skrítnu Íslendingana sem trúa á stokka og steina og borða úldinn mat, svo fátt eitt sé talið.

Franska sjónvarpsfólkiðMyndatöku lauk og ég kallaði á drenginn. Sjónvarpsfólkið leit græðgislega á okkur til skiptis og spurði hvort við værum kannski til í stutt spjall. Ég hef kennt drengnum kurteisi svo hann sagði bara, „yes, of course,“ og fannst þetta hálfgerð upphefð. Þau vissu ekki hvað þau voru að biðja um. Ekki er nefnilega allt sem sýnist, eins og biblíusölumenn hafa komist að raun um þegar þeim tekst að brjótast inn í stigaganginn hér og halda að þeir geti selt mér eitthvað af því að það stendur HIMNARÍKI á hurðinni, það látúnsskilti var gjöf frá Önnu minni tenerísku. Og ég harðneita alltaf að kaupa af þeim, svo ég er sýnd veiði en ekki gefin, eins og hjúskaparmálum, og nú sem góð auglýsing fyrir Ísland.

Mynd: Ef vel er gáð má sjá mig lengst til vinstri á myndinni, ég klippti hana þannig til að álfarnir fengju að njóta sín. 

 

„Trúið þið á álfa?“ spurði fallega franska, granna konan á meðan sæti kvikmyndatökumaðurinn beindi vélinn þannig að mér að ég virtist grönn, eins og hann lofaði að gera. Ég fór beinustu leið í mótvægisaðgerðir og tjáði þeim að ég gerði það bara alls ekki, þetta væri eitthvað sem notað væri á túrista til að laða þá að. Svo hélt ég áfram á minni hræðilegu ensku (ég les samt Stephen King): „Og við borðum fæst þennan hræðilega þjóðlega mat (t.d. hræring og súrsaða selshreifa) sem ferðamönnum er talin trú um að við gerum í torfkofunum okkar (og deilum með ísbjörnunum sem við höfum sem gæludýr), við borðum til dæmis alveg pasta og crossant ...“ Þau flissuðu, enda reyndi ég að setja franskan framburð á seinna orðið.

En þarna, eins og ég áttaði mig á um kvöldið, þá komin í Himnaríki, tókst mér í tveimur setningum að eyðileggja íslenskan ferðamannaiðnað. Bjarnheiður á eftir að drepa mig! Það gæti bjargað mér að ég sagði söguna af veiðiferð mömmu þar sem álfur sagði henni í draumi að hún myndi veiða vel (sem rættist) og að ein systir mín hefði séð álf þegar hún var barn. Eftir að ég sagði þetta fannst þeim skrítið að ég tryði ekki á álfa. Þau hafa greinilega aldrei heyrt talað um mótvægisaðgerðir og björgun á mannorði heillar þjóðar.  

Ég veit ekkert hvaða franska sjónvarpsstöð þetta var, en þetta verður sýnt í Frakklandi í janúar. Mig grunar að ég verði klippt út því mér skildist á þeim að 66°N styrkti þáttinn, svo er líka hægt að klippa hann þannig til að ég komi út sem villtur álfatrúari (nýyrði). 

„Þú slærð í gegn um allan heim,“ sagði Hilda hughreystandi eins og litlu systur gera þegar stóru systur líta ekki nógu vel út.

„Já, er það? Einmitt! Ég leit út eins og vélsagarmorðingi. Fór síðast í klipp og lit í júlí og var ekki einu sinni með flotta trefilinn minn um hálsinn.“

„Þetta eykur alla vega möguleika þína á að ganga út, jarðarbúar eru átta milljarðar - það hreinlega hlýtur að vera einhver þarna úti sem fellur fyrir þér og heimsækir Ísland í leiðinni. Sumum mönnum finnst bara krúttlegt að deita konu sem getur ekki sofnað af því að hún man ekki póstnúmerið á Fagurhólsmýri.“

„Kommon, Hilda ... 785 Öræfum!“   


Óútskýranleg höfnun og símtal ársins

Thom YorkeSíminn hringdi.

Thom: „Já, sæl, þetta er Thom.“

Gurrí: „Tom í Conway, Tom hennar Elfu?“

Thom: „Nei, ég heiti Thom Yorke. Mér bárust af því fregnir að þú hefðir fundið þér nýja uppáhaldshljómsveit, einhverja öskrara, Age of Terror-eitthvað, svona Thursaflokkurinn á sterum, ef heimilidir mínar eru réttar.“

Gurrí:„Ég held alveg mikið upp á ykkur en ég bara-“

Thom: „Er það út af því að við notuðum orðið fokk í Creep?“ greip hann fram í.

Gurrí: „Nei, alls ekki, „só fokking special“ passaði bara ágætlega,“ sagði ég og bætti ákveðin við: „Ekki gleyma því að ég skrifaði heilsíðugrein í eldgamla Mannlíf um Radiohead án þess að vita nokkuð meira en nafnið á þér og að þið væruð frá Oxford, ég mærði virkilega guðdómlega millikaflann í Paranoid Android ...“

Thom: „Viltu kannski að við förum að öskra meira og mögulega við undirleik Sinfó? Myndir þú þá mæta á tónl-“

Þarna vaknaði ég og með nístandi samviskubit, maður gleymir ekki gamla uppáhalds þótt nýtt fáist, ég skellti Street Spirit á fóninn og líðanin lagaðist. Hel er vissulega nýjasta uppáhaldslagið mitt í öllum heiminum og ég er að hlusta á það núna, ætla að hlusta á það aftur og aftur þangað til ég hætti að fara að skæla á einum hrærandi hápunktinum sem hefst á 5.01 og nær algjörum toppi á 5.24 og til enda. Bið hér með eigendur verslana að spila þetta lag alls ekki búðum sínum í aðdraganda jólanna, það yrði nú laglegur fjandi að bresta í grát í miðjum jólainnkaupum kannski stödd í fallegri gjafavöruverslun.

 

Bankinn minn hatar migSíðustu árin hef ég þjáðst af óútskýranlegri hálfgerðri höfnunartilfinningu. Þetta er sennilega ekkert persónulegt þótt ég taki það til mín. En ég man svo greinilega eftir því hvað ég var alltaf velkomin í bankann minn í bænum, líka í útibúið hér á Akranesi eftir að ég flutti hingað. Einn daginn var bankinn bara farinn, hættur og fluttur, og mér sagt að stunda bara bankaviðskiptin heima í tölvunni minni, eða fara í útibúið í Mosó, sem strætókerlingin ég gerði nú aldrei en svo hætti það líka. Svo fór að kosta mig peninga að hringja til að spyrja um eitthvað sem ég fékk ekki einu sinni svar við svo ég hætti að hringja. Og ef ég fer í ókunnuga banka mætir mér sums staðar kuldalegt viðmót af því að ég er hjá óvinabanka, og þarf að borga háar fjárhæðir fyrir að fá að borga með óhreinu korti mínu, sennilega fyrir alþrif á tæknibúnaði bankans. Svo ég fer helst ekki í banka lengur. Banki 1, Gurrí 0. Já, og hvar eru borðdagatölin? Ef ég dirfist að láta sjá mig í bankanum þá ...  Þú hlýtur að geta sett þessi rafrænu skilríki sjálf í símann þinn-viðmótið og ... ertu ekki með aðeins of aldraða kennitölu til að vera með gemsa?-svipurinn.

Svo fór strætó að vera með stæla, ekki bílstjórarnir, þeir bjarga þessu fyrirtæki, nema viss pólskur c.a. 14 ára bílstjóri sem sér ekki muninn á 64 ára konu og 67 ára konu.

Ég hefði átt að sjá hættumerkin þegar biðstöðin við Ártún hætti að vera upphitað hús fyrir neðan veginn, og varð að fráhrindandi ísköldum biðskýlum sem hafði verið safnað saman víða að og sýna vissulega sögu biðskýla síðustu ára en það er vont fyrir smekklega konu eins og mig að standa þarna þar sem ekkert er í stíl. Og það við Vesturlandsveg þar sem allir sjá mann. Tapað-fundið er komið í höfuðstöðvarnar og einfaldast að komast þangað á leigubíl ... Svo átti að bjarga öllu með Klappinu ... sem ég halaði óvart niður af hvatvísi þegar ég reyndi að virkja út á land-greiðsluappið. Hef ekki enn náð að koma því í gang svo ég þarf að flytja í bæinn ef ég á að geta notið ferða strætisvagna. Ég má sem betur fer borga bílstjóranum mínum á leið 57 beint með debitkorti eða peningaseðlum / klinki en ef eigandi Pfaff fær einhverju ráðið verða peningar aflagðir (af því að allir sem borga með peningum vinna svart og stunda peningaþvætti) og ef Rússar eyðileggja innviði okkar, t.d. internetið, get ég ekki borgað með debitkorti og þá kæmu seðlar sér vel. Hugsa samt að við höfum fengið marga plúsa frá Pútín fyrir að henda rússneskju hjónunum úr landi í fyrradag, meira að segja þótt þau hefðu haft loforð um vinnu hér og ekkert vesen á þaim. Ótrúlega smart líka að útvega þeim lögmann sem sagan (fjölmiðlar) segir að hafi opinberað útlendingaandúð sína. Við erum flottust.

EinarsbúðMatvörubúðirnar margar eru nú orðnar heldur betur fjandsamlegar í garð viðskiptavina sinna (nema Einarsbúð, sjá mynd af Ernu kaupmanni ásamt Ellý og Halldóru, ljósmyndari: ykkar einlæg) og Kjötborg) og nú eigum við að afgreiða okkur sjálf. Kaffihúsin tíma mörg ekki að hafa opið lengur en til fjögur (takk, covid, halló, vínbarir), sáu hvað sparaðist í launakostnaði og vilja halda því þannig, nema Bókasamlagið við Skipholt og Te og kaffi í Garðabæ (sturlað gott tíramísú þar) sem er með opið lengur og ég veit af. Ég hef ekki fylgst nógu vel með eftir að ég flutti á Skagann.

Svo langar mig að benda Bankasýslu ríkisins á að ráða prófarkalesara, einn sæmilegur slíkur hefði komið auga á kommu-punkta misræmið sem kostaði okkur rúman milljarð sem heilbrigðiskerfið hefði alveg getað notað. Skil ekkert í BB að verja þetta klúður en Þjóðhagsstofnun Ríkisendurskoðun er víst sökudólgurinn í þessu öllu saman. Ekki hefði mér dottið það í hug og ég er spennt að vita hvert Sigurður Ingi vill svo flytja stofnunina, þarf ekki að fjölga störfum á Laugarbakka (heimabæ Ásgeirs Trausta) eða færa hana kannski alla leið til Akureyrar eins og Fiskistofu? Eldgos koma því miður ekki eftir pöntun fyrir ráðafólk en það hefði nú samt ýmislegt mátt gera með speglum, grilláhöldum, gömlum upptökum og aðstoð Veðurstofu Íslands til að dreifa athygli lýðsins. Af hverju er ég ekki ráðgjafi hjá ríkisstjórninni?    


Spennandi uppgötvun ... átta árum of seint

Sumt fólk í heimsóknSíðasti skóladagurinn var í dag en þá lauk fjögurra vikna námskeiði í Íslensku I þar sem ég var leiðbeinandi. Við vorum auðvitað með partí í frímínútunum, eða úkraínska eplaköku og bland (malt og appelsín sem þeim fannst mjög gott) og smávegis sælgæti líka, íslenskt og pólskt. Frábær hópur frá þremur þjóðlöndum.

Ég sýndi þeim Love Island-Akranes, fyndna sketsinn úr Stóra sviðinu á Stöð 2, og sama morgun gátu þær líka skemmt sér við að sjá leiðbeinandann sinn snúa í þær baki á meðan hún skrifaði á töfluna - með jakkalafið gyrt ofan í nærbuxurnar. Ein úr hópnum (nú uppáhaldsnemandinn) setti stúlknamet í spretthlaupi án atrennu þegar hún þaut til mín og bjargaði heiðri mínum, svo þetta tók ekki nema sekúndur og enginn hlátur náði að brjótast út. Ef þær hefðu hlegið hefði ég hefnt mín lymskulega með því t.d. að kenna þeim dönsku með, bara til að rugla þær í ríminu. „Sko, þið segið þrjátíu og fimm við konur en við karla femogtredive ...“ Það hefði samt komið í hausinn á mér því ég er eiginlega alveg búin að gleyma þessu sérstaka talnakerfi Dananna. Leiðbeinandinn gætti þess að fara aldrei framar að pissa í miðri kennslustund, salernið er pínulítið og bara oggulítill spegill sem sýnir ekkert nema fagurt andlitiðá manni. 

 

Við fórum í nokkrar skemmtilegar vettvangsferðir um Akranes þessar vetrarvikur í góða veðrinu, aðallega í búðir, ja, eiginlega eingöngu. Heimsóttum úra- og skartgripabúðina á Akratorgi, Ramma og myndir, Gallerí Bjarna Þórs og gleraugnabúðina, fórum svo ögn seinna í Nínu. Við kíktum í Einarsbúð og At Home-búðina í gamla Skagavers- og Harðarbakaríshúsinu. Í síðustu viku fórum við í verslanaklasann nálægt mér, heimsóttum bókasafnið, bókabúðina og Lindex. Móttökurnar í bókasafninu voru tryllingslega góðar að við stoppuðum lengur þar en við ætluðum, heimsóttum því færri. En reyndar er sá íslenski siður að opna allt klukkan ellefu eitthvað sem hefði þýtt ansi hraða yfirferð og talsverð hlaup því skóladeginum lýkur kl. 11.15. Hefði viljað fara líka með þær í Omnis, í Kaju, Dýraland, Hans og Grétu og Model - en það bíður bara næsta námskeiðs. Svo er alveg eftir klasinn þar sem t.d. apótekið, Bónus, Dótarí, Dominos og Classic hárstofa eru. Það ríkti ánægja með þessar ferðir því sumir nemendurnir uppgötvuðu þarna í fyrsta sinn hvað var að finna í búðunum. Held að búðirnar hafi frekar grætt en hitt á komu okkar. Rammar og myndir leystu þær út með ljósmyndabók og ein konan er í skýjunum eftir að hún uppgötvaði að hún gæti látið taka af sér passamynd þar. Hélt að hún þyrfti að fara til Reykjavíkur til þess. 

Ein úr hópnum spilaði á gítar í frímínútunum í dag og söng tregablandin úkraínsk lög svo bekkurinn táraðist. Nema ég, auðvitað, því eftir árin mín í leyniþjónustunni hef ég náð algjörri stjórn á tilfinningum mínum. En ég hágrét auðvitað innra með mér.

 

Myndin að ofan sýnir nokkra gesti sem ég fékk alla leið úr bænum á laugardaginn. Snæddur var hádegisverður á Galito og síðan haldið í gönguferð þar sem Golíat og Herkúles þeystu ofsaglaðir um sandinn. Hilda og allt hennar lið naut bara strandlífsins á meðan ég púlaði í tölvunni í Himnaríki. 

 

Ég var að hlusta/horfa á eitthvað algjörlega meinlaust áðan í tölvunni, man ekki einu sinni hvað það var - í gegnum YouTube - þegar næsta lag (að vali YouTube) hófst skyndilega og svo annað með sömu hljómsveit og enn annað og annað ... Nú er Skálmöld orðin nýjasta uppáhaldshljómsveitin mín - þó fyrr hefði verið. Þetta var spennandi uppgötvun  og ég hefði viljað vera á Skálmaldar/Sinfó-tónleikunum. Það er bara orðið svolítið erfitt fyrir konu á mínum aldri að fara á alvörutónleika, ég rétt slapp á Rammstein í Höllinni um árið, kannski af því að ég fór þangað með nokkuð yngri manni. Þegar við Anna fórum á Megadeth-tónleikana á NASA einhverju seinna vorum við spurðar kurteislega af síðhærðu flottu tattú-mótorhjólagaurunum (alltaf veik fyrir þeim) hvort við værum þarna með börnunum okkar. Onei, við héldum nú ekki, þau væru heima að hlusta á Celine Dion. Ég fékk risastórt samúðarfaðmlag fyrir þessa lygi. Hann sonur minn heitinn hefði seint hlustað á tónlist C.D. (maður gerir allt til að fá knús) ... og svo sem heldur ekki Megadeth, held ég. Frekar Guns´s n Roses sem ég náði aldrei almennilega tengslum við, en hann kenndi mér að meta bæði Pixies og Cypress Hill, svo fátt eitt sé talið. Skálmöld er ágæt hvíld frá H-moll messunni og fleira í þeim dúr sem ég hef hlustað á upp á síðkastið. Tónlist er svo dásamleg og alltaf gaman að detta inn á eitthvað sem er nýtt fyrir manni. Skammast mín ögn fyrir að viðurkenna að Skálmöld hafi ekki verið í græjunum hjá mér fram að þessu en sannleikurinn drífur þetta blogg áfram ... eins og fólk hefur vonandi áttað sig á. Ég eiginlega skældi af hrifingu. Svona getur maður nú tapað hrottalega á því að vera lokaður fyrir möguleikum á rokkbandi og sinfóníuhljómsveit saman - sem ég var. Harðlokuð. Þetta átti bara ekki saman, að mínu mati svo ég er átta árum of sein til að komast á þessa flottu tónleika. Ég myndi vaða eld og vatn, standa af mér verstu hviður á Kjalarnesi og hvaðeina sem þarf til að komast á svona tónleika.


Fjandsamlegur teflonheili og véfrétt tekin í sátt

Auðvitað sko„Virkilega?“ sagði þrítugsafmælisbarn helgarinnar hlessa þegar ég sagði honum að ég, ólíkt flestum ættingjum okkar, hefði ekki fengið COVID. „Ert þú sem sagt ein af þessum ... uuu ...“ hélt hann áfram hikandi.

„Velheppnuðu, teflonhúðuðu, magnþrungnu, meiriháttar, fallegu?“ spurði ég hjálpleg. 

„Nei, þarna ...“ aftur skorti frænda orð. 

„Ókei, ... komin af öpum-eitthvað, bíddu?“ Ég reyndi að hugsa, rifja upp. Davíð, frændi og hkhhh (hipp og kúl hjálparhella himnaríkis), hafði lesið sér til um að sumir ættu hreinlega erfitt með að næla sér í COVID vegna einhvers, ekki kannski beint tengt öpum, meira svona DNA-snilldarsamsetningu og tengist eitthvað Neanderthal-forföður mínum ... æ, þið vitið. Sem þýðir sennilega að við Davíð séum sérlega velheppnuð eintök.

 

Afmælisfrændinn samþykkti þetta. Stundum held ég að heilinn í mér sé úr fjandsamlegu tefloni að hluta, það sem ég vil að festist þar samþykkir hann ekki en ef mér t.d. verður hugsað til Grundarfjarðar poppar upp talan 350. Sendi út reikninga á níunda áratug síðustu aldar og póstnúmer sitja föst í kollinum. Tæp fjörutíu ár síðan ég hætti að senda jólakort svo þetta nýtist ekki neitt, nema í einhvers konar montskyni og þá innan mjög þröngs hóps sem einnig man númer. Hver þarf svo ekki nauðsynlega að vita að Gjaldheimtan í Reykjavík hafi verið með síma 17920 (ef ég man það rétt, gat ekki sannreynt með gúgli) ... ég þurfti kannski einu sinni eða tvisvar að hringja þangað á níunda áratugnum en númerið kom sér fyrir í „slímhúð“ heilans eins og DV 27022 ... en ég get alls ekki slegið um mig með gáfulegum rannsóknum um the vírus! Hnuss.

 

Engin spurningBæjarferð helgarinnar var skrambi góð. Á föstudagskvöldinu ætluðum við systur að slaka á fyrir framan sjónvarpið en það varð ekki mikið úr þeirri slökun. Hilda var með stillt á skemmtiþátt (Stöð 2) sem heitir Stóra sviðið og ég vissi ekki af. Reykingalyfin árið 2020 ollu ekki bara sígarettuógeði heldur einnig hálfgerðum sjónvarpsviðbjóði. Þessi þáttur var svo fyndinn og ég hló svo hátt og mikið að ég var með hálfgerða þynnku daginn eftir, alla vega hausverk sem ég fæ nánast aldrei. Eina sem var öðruvísi þetta kvöld var öskurhlátur yfir þættinum (Hilda hefur svo sem smitandi hlátur), það var ekkert vín, bara kjötsúpa í kvöldmat og svo vatnsdrykkja. Horfi yfirleitt á Gísla Martein og Leitina að upprunanum. Gulli byggir er líka æði og allt svona gera upp íbúðir/hús-dæmi. Og auðvitað fréttir og veður.

Mig langar oft að fara í mál við reykingalyfsfyrirtækið fyrir að hafa tekið tvennt úr lífi mínu, ekki bara reykingar sem ég vildi auðvitað losna við, heldur líka sjónvarpsgleðistundir ... Þegar heyrist í sjónvarpinu t.d.: „Nú verður sýndur fyrsti þáttur af mest spennandi og skemmtilegustu þáttaröð sem nokkurn tímann hefur verið sýnd í heiminum. Leikarar: Bruce Willis, Jason Statham, Angelina Jolie og Ólafur Darri. Handritshöfundar: Jo Nesbö, Anna Ólafsdóttir Björnsson, Stephen King og Lilja Sigurðardóttir ...“  horfi ég tómlátlega á sjónvarpið og slekk. 

 

MYNDIR: Það styttist VERULEGA í að ég taki véfrétt Himnaríkis í sátt aftur. Ég tek aftur það sem ég sagði um hana nýlega eftir fjas hennar um megrunarpillur í skóinn. Hún er virkilega góð og sannspá.


Nýir refsitollar bankanna og auðveld ákvörðun

SýningVökudagar hafnir á Akranesi og við Inga og stráksi kíktum aðeins á sýningar á milli kl. 18 og 20 í gær. Í dag dró ég svo nemendur mína fyrr út en vanalega og við fórum á samsýningu 32 listamanna héðan af Skaganum, alveg rosalega flott og skemmtileg sýning á Kirkjubraut, í Grjótinu ... þar sem áður var kaffihús og í gamla daga bókasafn og löggustöð. Svo dró ég hópinn í Nínu tískuverslun og var áður búin að kenna þeim: Nei, takk, ég er bara að skoða. Eða: Já, ég er að leita að jakka ... má ég máta? Klukkan sló skólalok þegar við vorum enn niðri, þarna í útsölumarkaðnum og ég sá ekki betur en þær ætluðu einhverjar að gera góð kaup. Eitthvað svipað gerðist í annarri verslun nýlega svo líklega erum við frekar eftirsóknarverðir gestir í búðum bæjarins.

Mynd: Stráksi nýtur menningar á Vökudögum.

 

Svona dagurÍ gær þurfti ég að borga reikning sem var vesen með, mér sagt að ég yrði að fara í bankann með hann, hann var ekki á mínu nafni en ég borgaði hann samt með mínu korti.

Sko, þannig vill til að ég gerðist viðskiptavinur Búnaðarbankans við Hlemm árið 1982 eftir að ég flutti í íbúð á Hlemmi (Lau 132) og fór að vinna hjá DV við Hlemm (Þverholti). Þar hef ég verið síðan. Ætlaði að skipta um banka þegar Arion, eins og hann heitir núna, lokaði útibúi sínu hér á Akranesi fyrir mörgum árum og benti á Mosfellsbæ en lokaði því útibúi líka seinna og benti á netbankann eða eitthvað ...

Mynd: Svona dagur í gær.

 

Annar bankinn sem eftir varð á Akranesi við brotthvarf bankans míns er með lokað í hádeginu svo ég fór í hinn ... og þar kom í ljós að það kostaði 1.200 kr. að fá að borga reikninginn með korti frá öðrum banka (óvinabanka). Kannski eru þetta nýjar reglur hjá öllum bönkunum, einhvern veginn verða þessar elskur að borga eigendum sínum almennilegan arð. Hvað kemur aftur á eftir milljarði? Skrilljón?

 

 

Svo er sennilega úti draumur minn um að verða forrík eldri kerling (ég á eftir að finna út úr því hvernig) sem geymir milljónir í bankahólfi, svo ef/þegar naumlega verður skammtað af eftirlaunum verði samt hægt að standa í skilum með reikninga og kaupa eitthvað annað í matinn en haframjöl með því að skreppa í bankahólfið. Ég frétti í gær að hætta ætti með bankahólfaþjónustu (af ótta við seðlasöfnun þeirra eldri) og tala um þjónustuna sem barn síns tíma, allir hættir hvort eð er að nota peninga! Hvað með annað sem öruggt er að geyma í bankahólfi, eins og demantana mína, Fabergé-eggið mitt, afmælisskartgripina, jóladýrgripina?

Til að sleppa við innbrot glæpóna í ellinni verður vonandi hægt að fá límmiða á glugga og hurðir; Engar milljónir hér - varúð, grimmur eldri borgari.

„Guðríður, hvað ætlar þú að taka út mikið fé?“

„Ég var að hugsa um 30 þúsund.“

„Hvað ætlar þú að gera við svo mikla peninga?“

Ja, eitthvað fer í vasapening fyrir drenginn næstu vikur, svo ef ég skrepp á markað um helgina, stundum fljótlegast að geta borgað með peningum í strætó. Ég lofa því að borga ekki neinum í svörtu með þeim.“

„Hmmm. Þú færð að taka út 20 þúsund.“

„Æ, í guðanna bænum, þetta eru mí-“

„Allt í lagi, 25 þúsund en ekki krónu meira. Þú tókst út 15 þúsund í ágúst, sé ég í tölvukerfi bankans, svo þetta er að verða gott á ársgrundvelli. Ertu nokkuð með felustað undir dýnunni? Hvernig eiga yfirvöld að geta skattlagt sömu peningana þína aftur og aftur ef þú liggur á þeim heima?“

 

Við RagnarÉg hef tekið þá ákvörðun að banna alfarið myndatökur af mér að viðlögðu einhverju rosalega hræðilegu. Undanfarið hef ég séð myndir sem sýna mig alls ekki í réttu ljósi, ég virðist á einhvern undarlegan hátt bosmameiri, aldraðri og nánast krumpaðri á þeim en ég er í alvörunni, og ljósmyndararnir sýna engan lit til að klippa þær til eða reyna að laga lélegheitin, ég þurfti t.d. að gera það sjálf við meðfylgjandi mynd.

 

Þarna um daginn þegar ég fór á skemmtilegu bókarkynninguna hjá Ragnari og Katrínu og stráksi baðaði sig, munið, í aðdáun flottra kvenkynsráðherra, var tekin af mér þessi mynd með öðrum rithöfundinum, manni sem reyndar steig sín fyrstu frægðarspor í barnaþætti hjá mér á Rás 2, þá tíu ára gamall, ekkert rosalega mörg ár síðan. Eftir smávegis breytingar (að sjálfsögðu ekki fótósjopp) get ég sætt mig við myndina svona.  

 

 

Vissulega gæti ég þurft meik og augnskugga, kannski varalit, ég geri mér fyllilega grein fyrir því, það er vitað mál að það þarf að þjást til að vera fallegur, og ég hef ekki þjáðst alveg rosalega lengi. Þetta náttúru-, hippa- og covid-útlit klæðir vissulega ekki alla og kannski er ég bara of mikil gella fyrir það. En heimurinn þarf að búa sig undir ljósmyndaforðun mína um einhverja hríð.


Loksins almennilegt partí en ... furðufréttir af kóngi

Með flottum konumSamkvæmislíf mitt hefur dregist nokkuð saman (verið afar sorglegt) síðustu árin (áratugina) og í raun aðeins eigin afmælisveisla í ágúst sem munar um. Þangað til í dag upp úr klukkan fimm. Þá fórum við stráksi og Inga vinkona í almennilegt partí í Iðnó í Reykjavík.

Drengurinn hitti stjörnurnar sínar, vissi fyrir fram bara af Katrínu, en varð mjög glaður þegar hann sá Áslaugu Örnu. Ég hef vitað lengi að honum fyndist hún æði og sagði stundum til að kæta hann: „Hei, kærastan þín er í sjónvarpinu,“ og uppskar mikinn hlátur. Ég sagði Höllu frænku frá þessu, hún var á sama boðslista og ég, og hún hvatti mig til að kynna þau tvö. Áslaug reyndist vera algjört yndi og ekkert mál að ég fengi að taka mynd af þeim tveimur saman. Glaðasti drengur í heimi trúði því varla að þetta væri að gerast ... Hugrekki okkar jókst við svona fallegar móttökur svo næsta fórnarlamb var sjálf(ur) forsætisráðherra sem var heldur betur til í að vera með á mynd með svona sætum Skagamanni.

RitöfundurNú fer að verða komið ansi flott myndasafn og mál til komið að láta prenta myndirnar út, ramma inn og hengja upp á vegg. Hann á myndir af sér með flottasta fólki í heimi: Páli Óskari, Herra Hnetusmjöri, Lalla töframanni og jólasveininum og nú bættust tveir ráðherrar í hópinn. Bjarni Ben var vissulega á staðnum en fékk að vera í friði þar sem drengurinn kannaðist ekkert við hann en ég var til öryggis tilbúin að hóta öllu illu: „Veistu að ég þekki tengdaföður þinn? Hann á afmæli 12. ágúst eins og ég (og Sveinn Andri og Ásdís Rán og Halldóra Geirharðs) og fyndist sjálfsagt að drengurinn fengi ...!“ Verst samt hvað Baldvin er indæll og sennilega ómögulegt að hræða nokkurn með honum. Nei, ég var að pæla í leiðinni í því að biðja BB um að hætta með uppgreiðslugjald á lánum Íbúðalánasjóðs, skipta sumum Jónum út hið snarasta og fleira mikilvægt - en þetta var partí og í partíum er stranglega bannað að tala um stjórnmál, trúmál, fjármál og sjúkdóma.

 

Og nei, þetta var ekki ríkisstjórnarpartí og ég sérstakur ráðgjafi og hirðbloggari þar, eins og auðvelt væri að giska á, heldur fínasta útgáfuboð. Sem betur fer fann ég ekki kampavínið (nennti svo sem ekki að leita) því kampavín hefur stundum of hressandi áhrif ... Slúður: Ónefndur eldri rithöfundur ætlaði að fremja hinn fullkomna glæp þarna í Iðnó og ræna sögu um glæp. Ung kona stöðvaði gjörninginn og las honum pistilinn. Tek undir með frænku (hún var vitni að þessu) sem leggur til að skáldið fái sent eintak af bókinni með skilaboðunum: Þú gleymdir þýfinu

 

Larry forsætiskötturÉg hef reynt að vera ótrúlega jákvæð (hann hefur breyst-jákvæð) í garð Karls III (sjá færsluna: Ég vissi það, ég vissi það). Hann var að missa mömmu sína, karlgreyið, og taka við veldissprotanum ... mun síðar en hann vonaði, held ég, væri pottþétt á verktakalaunum sem þjóðhöfðingi byggi hann á Íslandi (sbr. Boga).

En ... ég fékk þær fúlu fréttir nýlega að Karl væri kattahatari (má það bara?) og er virkilega þakklát fyrir að hann sé ekki forsætisráðherra Bretlands, hvað yrði þá um Larry? Það er auðvelt að elska bæði hunda og ketti, yðar hátign.

Búseta mín á 3. hæð er líklega eina ástæðan fyrir því að ég er ekki með hund líka. Ég náði að klappa dýrlegum hundi í Grundarfirði um helgina, eigendur: kaffismekkkonur frá Stykkishólmi. Og í kvöld Husky-hvolpum við Iðnó, mjög kátum og til í klapp á milli þess sem þeir reyndu að veiða gæsir og svani við Tjörnina.

 

Það kom upp viss söknuður í kvöld eftir elsku höfuðborginni, þar sem ég bjó svo lengi. Lyktin, hávaðinn, ljósin, stemningin ... en ég held samt að það yrði ekki auðvelt að rífa sig frá Himnaríki, sjónum mínum, öldunum, fólkinu, Skagahundunum, Einarsbúð og svona ... Halla frænka stakk upp á því að ég fengi mér sumarhús/sumarbústað í Reykjavík. Ég yrði þá að vinna feitt í lottói eða gifta mig til stórfjár, hugsaði ég döpur því það eru komin hátt í 20 ár síðan líkurnar á því að ég lenti í hryðjuverkaárás jukust til muna ... og ég man ekki líkurnar í svona happdrættum og lottóum, þær eru eiginlega engar. Mig dreymdi samt nýlega fyrir peningum. Draumnum verður ekki lýst hér, ekki á þessu pjattaða bloggi.


Gleðilegt kaffi og hamingjurík álfaleit ...

Drengur með spilSamferðakonan okkar góða mætti eldsnemma í gærmorgun til að sækja okkur. Mæður á Snæfellsnesi, læsið miðaldra syni ykkar inni ... hugsaði ég af gömlum vana, en mundi svo eftir einbeittum kaffitilgangi ferðarinnar. Við stráksi drifum okkur niður og klukkan sló einmitt tíu þegar við lögðum í´ann. Vissulega ætluðum við á álfaslóðir líka en helmingur íbúa Himnaríkis (að frátöldum köttum) hefur mikinn áhuga á þeim um þessar mundir.

Samkvæmt gúgli virðist allt á Snæfellsnesi heita nöfnum með bergmáli, endurtekningum ... Hólahólar (álfabyggð), Staðastaður, Vegamótamótamót og fleira sem kætir alls ekki Jón Gnarr, skilst, hann kvartar hástöfum yfir asnalegum íslenskum orðum á borð við bílaleigubíll, borðstofuborð og fleira. Ég stórefast um að hann fari nokkurn tíma á Snæfellsnes.

MYND I: Á einum staðnum þar sem við stoppuðum notaði stráksi tækifærið til að æfa sig með spilastokkinn - blindandi ... hann er fyrir löngu orðinn jafnoki bestu töframanna á þessu sviði og eflaust langbestu gjafara í stærstu spilavítum landsins.

 

KAFFFFFFIVið byrjuðum á Rjúkandaanda og snæddum þar hádegisverð. Alltaf gott kaffið þar og ég varð sannarlega ekki fyrir vonbrigðum með Gvatemalakaffið, mjúkt og sætt (ekki með sykri samt) og keypti mér að sjálfsögðu pakka af því og annan latte í götumáli. Við fórum áleiðis til Stykkishólms en þorðum ekki að koma við þar eftir ævintýri síðasta hausts þar sem ég hafði keypt (fengið gefins) af díler (gamalli vinkonu) lyf (við bbólgu) í hjólhýsagarðinum (tjaldstæðinu) þar. Við fórum beinustu leið í Grundarfjörð og leituðum um hríð að Valeria-kaffibrennslunni en húsið stendur lágt og það sást illa í það fyrir bílum sem lagt var fyrir framan það.

 

Það var einstök hamingja að drekka tvöfaldan latte þarna. Ótrúlega margvíslegt bragð, meira að segja örlítil sýrni og smá ávaxtabragð líka sem kaffiplebbinn ég kýs vanalega að láta brenna á brott (ekki samt Starbucks-misþyrmingar) ... en sannarlega ekki í þessu tilfelli - þetta var bragðupplifun og heit ást við fyrsta smakk. Mér til gleði komst ég að því að þau hjónin sem reka brennsluna og kaffihúsið stefna að því að selja kaffi í gegnum netið og senda um allt land. Kaffivélar eru mismunandi og ég þrái heitt að bæði Valeria-baunirnar og þær hjá Rjúkanda (frá Sonju Grant) komi vel út í vélinni minni.

 

Á álfaslóðum HólahólarÓlafsvík var mjög skemmtileg líka, flott hönnunarbúðin sem Guðrún dró mig inn í og skemmtileg sjoppan sem drengurinn dró mig inn í ... hann sá eitthvað flott þar sem hann langaði í en tímdi ekki að borga sjálfur. Snjall. Og sem viðskiptavinur þurfti ég ekki að borga 100 kall fyrir að pissa í sjoppunni. Mér skildist að það kæmu oft heilu rúturnar af fólki og allir í spreng. Með því að láta borga fá þau upp í pappír, sápu og þrif.

 

Þá voru það álfarnir næst og um að gera að drífa sig í Hólahóla í Beruvíkurberi (ef ég man það rétt) og skoða dýrlegar álfaborgir sem þar standa. Við fundum vissulega ýmsa flotta kletta en gott hefði verið að hafa einhvern staðkunnugan með. Held samt að giskið okkar hafi verið nokkuð gott í sjálfu sér.

 

Þetta var ekki bara skemmtileg ferð, heldur líka lærdómsrík. Nú veit ég að maður segir Í Grundarfirði, ekki Á. Og á heimleiðinni fengum við okkur kökur og meira kaffi. Ég fékk sjálf að velja magnið af mjólkinni út í latte-inn núna og kaffið varð ekki bara gott, heldur dásamlegt. Sumum finnst mjólk skemma. Of lítil eða of mikil skemmir fyrir mér - en mátulegt magn gerir þetta að besta drykk í heimi, að mínu mati.

 

Nettó í Borgarnesi sá okkur fyrir nauðþurftum (eins og mjólk og sokkum á drenginn (með hamborgaramynstri)) en matarupplifunin var sannarlega ekki búin. Í hádeginu var sem sagt fiskur og franskar á Rjúkanda en nú ætluðum við að prófa Lemon á Akranesi (útibú á bensínstöð OB) í kvöldverð. Ég er enn í skýjunum. Þvílík samloka (avókadó gerir allt betra) og þvílíkur dásemdar hollustuþeytingur (líka með avókadói). Ég mæli hástöfum með!

 

Snæfellsnes var frábært og líka gott að koma heim á elsku Akranes. Þetta var fimm kaffibolla dagur sem er algjört met og verður sennilega ekki jafnað fyrr en í næstu ferð á Snæfellsnes. Sem verður vonandi fyrr en síðar.    


Óvæntur stirðleiki og spennandi helgarplön

Íslenska I á AkranesiÞessa dagana er ég leiðbeinandi hjá Símenntun Vesturlands og finnst alveg rosalega skemmtilegt og gefandi að upplýsa áhugasama útlendinga um dýrleg- og dásamlegheit íslenskrar tungu ... Átta mig svo sjálf á ýmsu skrítnu, eins og því hvaða furðuhljóð kemur þegar tvö L koma saman, eins og í fjall, bolli eða Eyjafjallajökull, og hvað þýðir eiginlega orðið „SVONA“? Þannig að hér í Himnaríki verður rokið út kl. 8 á morgnana næstu vikurnar eins og undanfarið. Fyrsti tíminn var síðasta miðvikudag. Ég þarf að skrifa á töflu, leyfa fólkinu að heyra upplestur, sýni því líka 20 mínútna þætti sem hafa kannski ekki elst sérlega vel ... Í dag lærðu þau til dæmis hvernig ætti að kaupa strætómiða og græna mánaðarkortið ... úreltar upplýsingar, og fara í banka til að taka út peninga, og þar var 2000-kallinn nokkuð áberandi. En íslenskan hefur auðvitað ekkert breyst og ég útskýri bara hvað er ekki við lýði lengur. Fólkinu finnst þetta skemmtilegt og fræðandi - og þetta er líka slakandi hvíld frá hinu. Í dag leyfði ég þeim að hlusta á Bubba Morthens syngja lagið Fallegur dagur. Tvö L í fallegur ... Þau þurfa að kynnast íslensku tónlistarlífi. Á mánudag Björk Guðmundsdóttir, þriðjudag Ásgeir Trausti, Dýrð í dauðaþögn ... miðvikudag sama lag en með Bríeti ... Ein frá Úkraínu þekkti sko alveg Kaleo en hafði ekki hugmynd um íslenskan upprunann fyrr en hún flutti hingað. Ég sagði henni að ég hefði heyrt lag með Ásgeiri Trausta í græjunum í vítamínverslun úti í Flórída fyrir bráðum fjórum árum. Hún fékk þó ekki að vita hvað ég var montin af því.     

 

Strætó í morgunÞegar ég kom heim á miðvikudaginn eftir fyrsta „skóladaginn“ var ég með verki um allan skrokk, dauðþreytt og hreinlega búin að vera eftir tveggja tíma hopp og skopp og þurfti að leggja mig ... meira að segja á hitapoka, á meðan ég planaði komandi elliár, að ég þyrfti að panta mér sokkaífæru og slíkt ... svona er þetta sem sagt, hugsaði ég svolítið bitur, eintómur stirðleiki og sárir verkir. En ... eftir gærdaginn fann ég varla fyrir þreytuögn og eftir þriðja skóladaginn, þennan í morgun, var ég hressari og orkumeiri en ég hef verið lengi, eins og klippt út úr kornflexauglýsingu.

Ég hafði greinilega leyft mér þann munað að leggjast í kör (covid-leti er til) með þessum asnalegu afleiðingum. Með ræktina nánast á hlaðinu ætlaði ég alltaf á morgun, í næstu viku ... bráðum bara. Ég var að detta í ótímabæran stirðleika vegna hreyfingarleysis - án þess að átta mig á því og ekkert skrítið þótt góða konan hafi boðið mér sætið sitt í fullum innanbæjarstrætó á miðvikudaginn - samt finnst mér líklegra að hún sé miðill sem sá hvað ég hafði þurft að þola um morguninn, eða að hreyfa mig rösklega í fyrsta sinn í ábyggilega tvö ár. Þetta er á þriðju hæð og mér dettur að sjálfsögðu ekki í hug að taka lyftuna. Stiginn var nákvæmlega ekkert mál í morgun.

Mikið var gott að átta sig á þessu í tíma. Ég verð kannski að endurskoða hatur mitt á gönguferðum, sundi - eða fara að hoppa upp og niður stigana heima nokkrum sinnum á dag þegar námskeiðinu lýkur - eða ... fá mér krítartöflu til að skrifa á heima og hamast fyrir framan hana í tvo tíma daglega. Og svo er ég ekki nema rúmlega korter að tölta þetta en það er svo notalegt að taka lesbrettið með og ná að lesa í strætó. Við stráksi getum þá verið samferða á morgnana sem er mjög gaman. En hann situr ekki hjá mér - alveg nóg að hangsa með kerlingu á stoppistöðinni svo hann þurfi ekki að afplána hitt líka. 

Ég hreyfi mig þúsund sinnum meira en áður því nota þarf líka leikræna þjáningu nokkuð oft til að skýra mál sitt. Sýna hlutina, núna veit fólkið til dæmis hvað og hvernig lúði er. Við töluðum um ýmsar fisktegundir í morgun, meðal annars kom lúða við sögu - og sem bónus í fiskumræðuna lét ég vita hvað lúði væri og þurfti svo sem ekki að leika mikið, nei, áhugakonan um vefmyndavélar, eldgos og jarðskjálfta þarf bara að líta í spegil. Sennilega bjargar kaffiáhuginn mannorði mínu og gerir mig ögn minni lúða. Sú er tilfinning mín. Mér leið eins og kennara, ekki leiðbeinanda, í morgun því ein á námskeiðinu gaf mér heimaræktað epli - alls ekki mútur til að verða uppáhaldið í bekknum, heldur gjöf til mín fyrir að sýna henni (eftir námskeið) hvar fiskbúðin á Akranesi væri staðsett. Ef Bjarni segir að eitthvað í kringum fimmþúsundkallinn sé ekki mútur er það rétt hjá Bjarna. Úff, hvað ég er ennþá spennt fyrir að fá vinnu hjá Bankasýslunni. „Special price for you, my friend ... en sorrí, drekk ekki hvítvín, bara gott rauðvín. Nei, frekar íbúð í miðborginni - með sjávarútsýni.“

 

Við stráksi ætlum með Guðrúnu vinkonu á Snæfellsnes á morgun - þau tvö ætla að njóta félagsskaparins, fegurðar Snæfellsness, kannski skreppa á jökulinn og athuga hvort helvíti sé enn á sínum stað þarna undir - en ég fer eingöngu á Nesið til að prufukeyra kaffið í kólumbísku kaffibrennslunni á Grundarfirði. Þar verður opið, ég tékkaði auðvitað á því. Svo þarf að smakka kaffið á Rjúkanda, athuga hvort tryllingslega góða kaffið frá 2018 eða 2019 sé komið aftur.    


Sjokk í strætó og ýmis átakanlegheit ...

AkranesstrætóEndirinn nálgast hraðar en ég átti von á ... Í hádeginu í dag var mér boðið sæti í innanbæjarstrætó - í fyrsta skipti á ævinni sem einhver stendur upp fyrir mér. Ég móðgaðist ekki út í minnst 20 árum yngri uppistandarann, en mótmælti harðlega, benti á að ég væri nánast upp á dag jafngömul Madonnu sem væri örugglega enn að hlaða niður börnum og halda tónleika en ljúfa konan af leikskólanum Garðaseli, gaf sig ekki. Kannski sá hún að mér var illt í bakinu og vont að standa, ég hugga mig við það. Á meðan ég spjallaði við leikskólabörnin sem fylltu vagninn (um kisur aðallega) leiddi ég eðlilega hugann að útför minni, og þá helst tónlistinni. Til að viðstaddir springi úr harmi og tárapollar myndist um allt, held ég að þessi tónlist sé bara sérdeilis fín:

 

-Is it true?

-For Heavens Sake (Wu-Tang Clan)

-Ertu þá farin

-Wish you were here

-Uprising 

-Tears in Heaven  

-Nothing compares 2 you 

-Final Countdown

-Það brennur

-Gangstas Paradise

Til vara: Sálumessa Mozarts í heild sinni. 

Svo getur þetta allt breyst ...

- - - - - - - - -

En áfram í þessu harmþrungna ... hér er átakanlegt æviágrip sem ég sá á Facebook, mikið sem sumt fólk þarf að þola:

Þegar ég var lítill drengur hélt pabbi fram hjá mömmu og sýndi fjölskyldunni litla væntumþykju. Seinna skildu þau og ekki löngu eftir það lenti mamma í bílslysi og dó. Við bróðir minn urðum að flytja til ömmu, í gamla húsið hennar. Öll fjölskyldan lifði á ömmu. Síðar giftist bróðir minn leikkonu og kom sér á brott. Nokkrum árum seinna dó amma. Nú þarf pabbi, 73 ára gamall, að vinna í fyrsta skipti á ævinni til að sjá fyrir fjölskyldunni. Ógæfan virðist elta okkur.“ :( Vilhjálmur prins 

 

Akranes, frá 1. jan.Talandi um ógæfu en allur þessi harmur rifjaði upp fyrir mér að um áramót fjölgar endurvinnslutunnum við hvert hús á Akranesi og þá fara pappír og plast ekki lengur í sömu tunnuna, eins og var og eitthvað fleira bætist við líka. Vona bara að hægt verði að senda drenginn, ruslamálaráðherra Himnaríkis, í þjálfunarbúðir um jólin. Og ég gæti þurft að endurhugsa eldhúsið ... Flotta karfan sem ég keypti undir plast/pappír í eldhúsinu endaði sem töff karfa undir dagblöð og það er enn sorglega óleyst hvernig hægt er að gera geggjað flokkunarkerfi sem verður eins og fyrirferðarlítið punt á eldhúsgólfinu - fyrir neðan bakaraofninn og fyrir skúffunni sem geymir bökunarformin. Mér hefur loks tekist að fá drenginn til að hætta að fleygja sumu plasti og sumum pappa í ruslið en nú flækist þetta til muna. Allt / flest lífrænt hefur alltaf farið í fuglana og heldur því áfram, mest krumma núna, en í máva á sumrin, ég kaupi líka oft eitthvað kúlulaga dæmi fyrir smáfuglana sem ég festi á svalirnar. Gaman að sjá ofsaspennta kettina raða sér fyrir framan stóra „sjónvarpið“ (svalagluggann) og fylgjast með litlu krúttunum. Hér gildir: Ekki snerta (veiða), bara horfa.

Eins gott að komi svo góðar leiðbeiningar með. Það er of stutt síðan ég komst að því að ekki mætti fleygja gleri í venjulega ruslið, í alvöru. Hilda systir hefur stundum tekið fyrir mig krukkur í poka og farið með í Sorpu en ég held að það þurfi eitthvað að gera fyrir bíllausa hér, nema strætó fari að ganga upp á hauga? eða setja upp móttökustöð (með fatagámum) á góðum stað í Akranesborg.


Ævintýri í strætóför

Mosi og KeliBorgarferð í dag því kattamaturinn var á síðustu gufunum ... þeir fá sérfæði, hjartans álagaprinsarnir, af því að Keli, sá hugumstóri pokaköttur da Kattholt, fær annars þvagsteina og það er bæði sársaukafullt og lífshættulegt. Þeir yngri njóta góðs af og ekki síst Mosi sem var ósköp venjulegur mattur húsköttur þegar hann flutti til mín um árið - en nú sérlega mjúkur og fagurgljáandi. En dýrt er það ...

 

Bílstjórarnir sem komu mér fram og til baka í dag voru ögn eldri og þroskaðri en stundum áður og rukkuðu mig báðir um fullt gjald sem ég lít á sem hrós eftir hremmingar sumarsins. Annað en 14 ára kvikindin sem gáfu mér tvisvar elliafslátt, eða einu sinni.

(Myndin er af Mosa og Kela og sýnir hvað ljósmyndir geta bætt á mann, kött í þessu tilfelli, en Keli virkar ansi þykkur hér sem hann er ekki. Við erum svo lík.)

 

Í strætóBílstjórinn sem skutlaði mér heim í kvöld er frá Rúmeníu og virkaði fyrst eðlilegur, þrátt fyrir heimalandið (Íslendingar alltaf á tásunum á Tene, þið vitið, Færeyingar drepandi grindhvali, Danir sjúklega nískir en ligeglad, Finnar þunglyndir og sífullir en ... hvað stendur Rúmenía fyrir?). Oft eru þessar lýsingar á þjóðlöndum bull og vitleysa, ýkjur og kolrangar staðalímyndir, aldrei hef ég t.d. komið til Tenerife ... en ég prófaði upp á grín að athuga hvort hvort bílstjórinn kannaðist við nafnið Drakúla, þetta voru sennilega leifar úr blaðamennskunni þegar ég var í sífelldri leit að góðum viðtölum og lífsreynslusögum og hikaði ekki við að spyrja og spjalla. Nú er ég meiri mannafæla.

Bílstjórinn leit upp frá seinvirku strætóborgunarvélinni og brosti, hann hélt nú það. Hann sagði án nokkurrar miskunnar að hann ætti heima í 40 kílómetra fjarlægð frá kastalanum! Kastala Drakúla! Þegar ég sá augntennur bílstjórans glampa græðgislega fylltist ég þakklæti í garð Hildu systur fyrir hvítlaukskartöflurnar sem hún bauð upp á með kjúklingnum í kvöld. Með hvítlauk í blóðinu var ég ábyggilega ögn minna girnileg. Hilda af ætt Ísfólksins norður í Flatey er næm og hefur sennilega fundið á sér að stóra systir myndi lenda í einhverjum hryllingi og kartöflur koma sér alltaf vel.

 

Ég þóttist lesa alla leiðina (í Storytel-lesbrettinu) en löng og greindarleg augnhárin huldu rannsakandi augu mín sem fylgdust grannt með bílstjóranum en við vorum óvenjulega fljót á Skagann. Vissulega fremur fáir farþegar miðað við næstum fullan vagn fyrr í dag, og hvergi stoppað nema í Ártúni, en mér finnst vel koma til greina að við höfum flogið einhvern hluta af leiðinni. Ekki spyrja mig af hverju mér finnst það - bara einhver sterk tilfinning sem ég fékk og gæsahúð á Kjalarnesi.

 

AndlitsrúllaNæstum komin á Garðabraut stóð ég hægt upp og fálmaði óstyrk eftir bjöllunni. Það var ekki myrkur í vagninum en samt ríkti algjört myrkur hjá tökkunum sem buðu upp á blástur, nudd, fríhafnarbjöllu og ... bjölluna sem ég leitaði að, þessa til að fá vagninn til að stöðva áður en illa færi. Þessi bílstjóri myndi ekki stoppa ef ég bæði hann um það, bjallan eða út á Akratorgi-endastöð þar sem ekkert hefði bjargað mér nema ef Frystihúsið-ísbúð væri enn opin.

 

Nokkur afar grunsamleg atriði: 

-Hann vissi aldur minn, rukkaði mig um fullt gjald án þess að spyrja (nema nýja hrukkustraujárnið sé byrjað að virka). 

-Hann býr nálægt meintum blóðsugukastala í heimalandinu.

-Það var ekki sólarglæta í vagninum.

-Hann þorði ekki að vera með Útvarp Sögu á í vagninum. Það abbast nefnilega ENGINN upp á Arnþrúði frænku.

-Það var engin leið að giska á aldur hans ...  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.7.): 4
  • Sl. sólarhring: 16
  • Sl. viku: 140
  • Frá upphafi: 1529821

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 125
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • Alltaf númer eitt ...
  • Jana Napoli frá New Orleans
  • Írskir dagar 2025

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband