Viðutan prófessor, dularfulli maðurinn og "svikula" löggan

Háskóli ÍslandsÉg heyrði einu sinni góða sögu af prófessor við HÍ sem kom allt of seint í tíma/fyrirlestur og kenndi gríðarlega mikilli umferð um. Eitthvað þótti nemendum hans þetta skrýtið þar sem þetta gerðist um tíuleytið á miðvikudagsmorgni ... en fyrir 20 árum voru færri bílar en nú. Einhverjir ákváðu að rannsaka málið, það fylgdi ekki sögunni hvernig, en þeir komust að því að elsku viðutan prófessorinn hafði lent aftast í leigubílaröð og það var ekki mikið að gera hjá Hreyfli þennan morgun ...

 

Ég setti þessa sögu í Vikuna í kringum síðustu aldamót og líka sögu um mig ... nafnlausa. Ég sagði reyndar frá þessu á gamla blogginu mínu en vinirnir þaðan hætta bara að lesa HÉR!

Blár bíllÉg man ekki alveg hvenær ég fór að taka eftir bláa bílnum sem var lagt uppi á gangstétt á Hofsvallagötunni og ég gekk framhjá á hverjum degi. Mér fannst skrýtið að einhver maður sæti daglangt inni í bílnum og skimaði í kringum sig. Ég ákvað snarlega að hann væri rannsóknarlögreglumaður og reyndi að virka einstaklega löghlýðin þegar hann sá til. Með tímanum fóru þó að renna á mig tvær grímur, vinna ekki lögreglumenn yfirleitt tveir saman? Ég spurði samstarfskonu mína nokkrum vikum seinna hvort hún hefði tekið manninum á bláa bílnum og hún hafði gert það. Hún hafði meira að segja séð hann fara út úr bílnum til að tala við tvær litlar stelpur. Við komumst að þeirri niðurstöðu að betra væri að láta lögregluna vita, bara til öryggis ... ef þetta væri nú einhver karldjöfull sem tældi börn með sælgæti ...

Ég hringdi í rannsóknarlögregluna og sagði elskulegum manni í símanum frá dularfulla manninum á bláa bílnum. Okkur fyndist vera hans alla daga svolítið grunsamleg og það væri borgaraleg skylda mín að láta vita af þessu. Löggan þakkaði mér kærlega fyrir ábendinguna og ráðlagði mér að hringja í lögregluna í Reykjavík. Þangað hringdi ég og endurtók mál mitt. Ekkert gerðist, ég átti ekki orð, hafði haldið fram að þessu að löggan okkar væri frábær. Áfram hélt perraandskotinn að sitja í bílnum sínum og glápa. Mér var skapi næst að sparka í bíldekkin þegar ég gekk framhjá en lét mér nægja að horfa með fyrirlitningu á manndjöfulinn.

Nokkrum dögum eftir að ég hafði látið lögregluna vita af þessum manni án árangurs fór ég inn í Bónusvídeó við hlið Gerplu. Fann mér spólu og þegar ég var að borga spurði ég afgreiðslustúlkuna sem ég kannaðist aðeins við hvort hún vissi hvaða maður þetta væri á bláa bílnum? Hún varð ógurlega asnaleg á svipinn en sagði að það hefði munað litlu að hún hringdi á lögregluna vegna hans. Áður en hún lét verða af því sagði henni einhver að maðurinn ynni fyrir Vesturbæjarskóla sem gangbrautarvörður, hjálpaði börnum yfir þessa hættulegu götu ...

VesturbæjarskóliNæsta sunnudag á eftir fór ég í afmæli til vinkonu minnar en hún er tengdadóttir skólastjórans í Vesturbæjarskóla. Vinkonan veinaði af hlátri þegar ég sagði henni frá þessu og heimtaði að fá að segja tengdamömmu sinni. Það hafði afleiðingar því að næst þegar ég sá dularfulla manninn í bláa bílnum var hann kominn í appelsínugult vesti yfir úlpuna sína og enginn velktist framar í vafa um það hver staða hans væri.

Ég dauðskammaðist mín en ég myndi gera þetta aftur hvenær sem er ... Maður lætur börnin njóta vafans!

Svo þarf ég að finna Frakkasöguna, hún er stórkostleg, man hana bara ekki nógu vel! Hún er um dásamlegan misskilning ...    


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hugarfluga

Hahaha frábært! Annars kannast ég vel við þessa sögu um manninn í leigubílaröðinni. Mér var sagt að þar hefði verið á ferðinni elskulegur frændi minn ; Guðmundur Matthíasson heitinn, tónlistarkennari, faðir Guðnýjar Guðmundsdóttur, konsertmeistara. Ég sel það þó ekki dýrara en ég keypti það.

Hugarfluga, 10.2.2007 kl. 22:28

2 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Hver veit nema fleiri hafi lent í þessu. Vinur minn sem sagði mér þetta nafngreindi prófessorinn sinn og bað mig að segja engum frá því hver þetta var ... svo að ég steingleymdi nafninu samstundis. 

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 10.2.2007 kl. 22:32

3 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Aðal-Gurrí, spæjarastörf hf! Hahhahaha

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 10.2.2007 kl. 23:17

4 Smámynd: Guðný Anna Arnþórsdóttir

Öldungis ótrúlegt. Ég kann nokkrar af viðutan prófessorum, en það þarf að leika þær, til að þær nái tilgangi. Hefurðu heyrt þessa um kennarann í læknadeild/hjúkrunarfæðideild sem var að kenna um kjarna og nevtrónur í frumunni? Og setti púnkt á töfluna í stofunni sem var kjarninn - og fór svo útúr stofunni fram á gang og ætlaði útá plan, að Norræna Húsínu held ég að ferðinni hafi verið heitið, til að leggja áherslu á fjarlægðina milla kjarna og nevtróna, - en hitti gamlan kórfélaga á miðri leið og fór með honum á reunjón á Borginni og gleymdi nemöndunum í stofunni.  Ha? Dásmalegt? Eða prófessorinn með banavagninn á gönguferð i kringum Tjörnina? Sú saga er gersamlega óborganleg en verður að vera leikin. Eða prófessorinn sem var að tala við eina nemöndina í dyrasímann heima hjá sér? Þetta eru svo óborganlegar sögur. Segja svo mikið um innlifun, mikilvægi augnabliksins og snilligáfu....! 

Guðný Anna Arnþórsdóttir, 11.2.2007 kl. 01:19

5 identicon

Ahhh... hahahahahahaha þetta er frábær sunnudagsmorgun Gurrí. Ahhhhhh. Segðu fleiri sögur

kikka (IP-tala skráð) 11.2.2007 kl. 11:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.7.): 4
  • Sl. sólarhring: 16
  • Sl. viku: 140
  • Frá upphafi: 1529821

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 125
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • Alltaf númer eitt ...
  • Jana Napoli frá New Orleans
  • Írskir dagar 2025

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband