Borgarferð, samsæri karla og borgarlínan

HálkaÉg heimsótti elsku höfuðborgina á föstudaginn og gisti eina nótt. Systir mín aðstoðaði mig við að raða 2020-bókhaldinu (hrollur). 

 

Þetta var nú ljómandi góð helgi samt. Við hættum við að fara í IKEA vegna biðraðar, sem gaf svolítið tóninn um hversu góð helgin yrði. En fórum þó í Costco. Ég þurfti að skila jólagjöf, náttfötum sem voru næstum því í small-stærð, takk, elsku Dagbjört frænka, þú ert og verður uppáhalds.

 

Ekki nægði að segja að þetta væri jólagjöf, heldur þurfti kennitölu frænkunnar sem ég mun sennilega aldrei gleyma eftir þetta. Númeraminni mitt kom sér þó best á meðan ég sendi jólakort því ég kunni fest ef ekki öll póstnúmer landsins utan að ...

 

Costco_-_BurlingtonÉg fékk endurgreitt hjá Costco - þessi annars flottu náttföt voru ekki lengur til svo ég keypti mandarínur og tómatsósu. Tók ekki einu sinni körfu með inn. Ég missi nefnilega lífsviljann í búðum og vil komast út, helst strax. Eins og í fína, flotta vöruhúsinu í Ameríkunni með Halldóri fjanda, sem stoppaði mig á flóttanum eftir að hann var búinn að fata sig upp, og var snöggur að finna á mig bæði kápu og úlpu (í stærðum 22 og 24, ég nota nr. 16) ég mátaði mjög hratt og sagði FÍNT, þetta passar!

 

 

Úlpan var æði, ég hefði vissulega getað verið í fimm lopapeysum undir henni en það kom aldrei rétta fmmpeysu-veðrið svo ég gaf úlpuna fyrir rest, en gat selt fínu kápuna.

Aldrei láta búðaleiða koma í veg fyrir að maður kíki á miðann sem segir til um stærð á flík. Og aldrei láta neinn segja sér að konur elski búðarferðir og karlar hati þær. Mín reynsla rústar þessari staðarlímynd gjörsamlega. Ég veit núna að þetta er hið stóra samsæri karla - að segja okkur stelpunum þetta svo þeir sleppi við að fara út í búð. Og ef þeir fari - séu þeir hetjur.

 

Við fórum líka í Elko og keyptum útvarp handa mömmu, ég stillti það á Rás 1. Reyndi svo að brjóta stöðvatakkann af án árangurs. Það var akkúrat verið að spila eitthvað fallegt úr Töfraflautu Mozarts svo ég vona ... Síðast þegar við mamma fórum saman út á djammið var það í Hörpu, einmitt á Töfraflautuna. Langar ekki til að mamma fari að hlusta á X-ið, FM957 eða eitthvað þaðan af óhollara, ég er auðvitað að grínast með X-ið og FM957 en meina allt sem ég segi um "þaðan af óhollara". Mamma býr á Eir þar sem fer sérlega vel um hana, hún situr og ræður krossgátur daginn út og inn, þjálfar þannig hugann. Ég er hrifnari af orðaleit, Hilda systir af sudoku og Mia af myndagátum ... spennandi að vita hver okkar mun halda sér best andlega. Ég veðja á mig, kannski af því að ég elska rapp ... en mamma var nú hrifin af Coolio í gamla daga, þessu eina lagi þarna úr bíómyndinni.

 

Ég hef ekki kynnt mér vel fyrirhugaða borgarlínu en ef einn Facebook-vinur minn hefur rétt fyrir sér, líst mér ekki á blikuna. Svo virðist sem meira verði hugsað um sparnað en góða þjónustu - þannig að notendur í úthverfum neyðast, ef rétt er, til að ganga mun lengri vegalengdir en áður út á stoppistöð - sem er blátt áfram heimskulegt í íslensku veðri. Þá er þessi annars frábæra hugmynd um skjótar almenningssamgöngur eiginlega dauðadæmd áður en hún verður að veruleika. Það er ekki hægt að segja að fólk sé ekkert of gott til að ganga í tíu mínútur, tuttugu mínútur Það urðu heilmiklar breytingar fyrir hvað ... tuttugu árum, hraðleiðirnar 1, 2, 3, 4, 5 og 6 urðu eins konar borgarlína og í stað þess að rölta upp á Hofsvallagötu (bjó á Hringbraut á milli Hofsvallagt. og Bræðraborgarstígs) þurfti ég að ganga út að Þjóðminjasafni til að ná sexunni eftir að vinnan mín flutti í Höfðabakka. Að sumri til allt í lagi að rölta í 10-15 mín. en ekki í hálku og hríð. Um veturinn tók ég vagn við Hofsvallagötu og hitti sexuna á Lækjartorgi - sem var allt í lagi en miðað við það sem Facebook-vinur minn segir eftir að hafa kynnt sér þetta vel, er að Hofsvallagötumöguleikinn verði þá ekki lengur fyrir hendi. Af hverju ekki bara lestarkerfi, ekki ísköld og vindasöm drög að lest ... Mig langar alltaf svo mikið að vita hvort strætófarþegar fái að leggja orð í belg þegar svona stórvirki eru í vinnslu - eða hvort það séu jeppaakandi verkfræðingar og reglustika eingöngu? Segi nú svona. En ef ég flyt einhvern tíma aftur í bæinn myndi ég fá mér íbúð nálægt stoppistöð.

 

Efri mynd; Það tekur mig um mínútu (ef þarf ekki að klappa hundum á leiðinni) að ganga út á stoppistöð á Garðabraut, skúrarnir fjær vinstra megin skyggja á stoppistöðina. Þegar er mikil hálka, eins og á myndinni, tekur um 20 mínútur að skríða þangað.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Hægt verður að ferðast með strætisvögnum að og frá Borgarlínunni. cool

Í Nýju leiðaneti eru skilgreindar tvær megingerðir leiða: Stofnleiðir og almennar leiðir.

Stofnleiðirnar verða sjö og þær munu tengja saman sveitarfélögin og stærstu hverfin á höfuðborgarsvæðinu.

Borgarlínan verður að mestu leyti í sérrými með forgangi á gatnamótum og vagnar á stofnleiðum munu koma á 7-10 mínútna fresti á annatíma. cool

Ferðatíminn á milli Hamra­borgar í Kópavogi og Háskólans í Reykjavík, svo og á milli Seltjarn­ar­ness og Kringlunnar mun til að mynda styttast um ellefu mínútur.

Vagnar Borgarlínunnar verða liðskiptir og ýmist 18 metra langir (einn liður) eða 24 metra langir (tveir liðir) og því lengri en hefðbundnir strætisvagnar og geta tekið allt að 160 farþega.

Vagnarnir verða rýmri en hefðbundnir strætisvagnar og með tröppulaust aðgengi frá brautarpöllunum.

Fargjaldið verður greitt á brautarpöllunum og því hægt að ganga inn um allar dyr á vögnunum. cool

Borgarlínan - Leiðanet

Borgarlínan - Athugasemdir og spurningar

Þorsteinn Briem, 8.2.2021 kl. 19:53

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Borgarlínan verður að mestu leyti í sérrými með forgangi á gatnamótum, á þetta nú að vera. cool

Þorsteinn Briem, 8.2.2021 kl. 21:52

3 identicon

Þetta er skemmtilegur pistill Guðríður. 

Ég er orðinn það fullorðinn að ég sakna SVR, það var strætókerfi með viti, því það virkaði fyrir notendur. 

Mínar leiðir voru einkum Hagar-Sund, fjarkinn, og Grandi-Vogar, tvisturinn. 

Nú er þetta allt komið í svo mikið rugl með útvistaða nýfrjálshyggju fyrirtækinu Strætó að það á að auka enn meira ruglið með einhverju sem enginn skilur til hvers verði, Berlínar-Hjálmars Borgarlínan.  Jú, Steini trommari þykist skilja þetta, en hann mærir ætíð alla vitleysu.

Ps.  Ég er ekki mikill búðarmaður, en stundum gerist ég þó hetjulegur og læt til leiðast að fara m.a.s. í Ikea.  En hugsa þá mest um að fá mér þar að borða.  Þá gerist ég svo kosmópólitan þar á pallinum; Costco þar í grenndinni.

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 9.2.2021 kl. 12:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 55
  • Sl. sólarhring: 372
  • Sl. viku: 2194
  • Frá upphafi: 1451930

Annað

  • Innlit í dag: 49
  • Innlit sl. viku: 1796
  • Gestir í dag: 48
  • IP-tölur í dag: 48

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Grimm
  • Í kringum ljósastaurinn
  • Baldursbrár

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband