Hremmingar á netinu

TonlistÉg þarf að játa að ég virðist vera nokkuð tækniheft. Sumt fólk í kringum mig dregur þá kolröngu ályktun að það tengist aldrinum, eins og allt virðist hafa gert síðustu tuttugu árin - það mátti ekki fótbrotna eftir fertugt án þess að það væri kallað breytingaskeið. 

Ég vil ekki viðurkenna að þetta sé sjálfskapað hjálparleysi, eins og ég nenni ekki að læra hlutina. Sko, hver önnur en ég fór á Zoom-fund um daginn, vissulega bara í símanum af því að bæði tölvan og iPadinn sýndu óþekkt og vildu ekki hlaða niður forritinu? Ég reyni þó. 

Ég ætlaði að kaupa jólagjöf á netinu (í gegnum símann) fyrir síðustu jól en lenti í veseni þegar ég reyndi að borga. Tók skjáskot af meldingunni sem kom og ætlaði að senda á seljanda vörunnar en held að ég hafi óvart sent honum allar myndirnar í símanum mínum, mörg þúsund. Mig grunar að ég hafi kaffært þetta litla fyrirtæki því ég sé það ekki lengur á netinu. Ég þurfti að fara út í búð til að kaupa aðra gjöf því ekkert heyrðist frá viðkomandi þrátt fyrir hjálparbeiðni mína. Ellen frænka sá um að panta hina gjöfina sem ég keypti á netinu og hefur aðstoðað mig við sitt af hverju - einnig Hilda systir sem er alveg 16 mánuðum yngri en ég - það skiptir máli ef þetta er aldurinn sem veldur.

Ég get ekki sett Spotify-ið mitt í símann og þess vegna nenni ég ekki í gönguferðir (djók) og ég get ekki pantað hjá Domino´s í gegnum netið ... Það sem kannski verst er að ég get ekki búið til minningarsíðu á Facebook um son minn. Ég reyndi og reyndi og setti síðast inn netfangið mitt sem þarf að gera og það byrjar á gurriharalds ... - og þá breyttist bara heitið á síðunni í Gurrí Haralds - og um 47 manns hafa reynt að vingast við mig á „nýju Facebook-síðunni minni“ ... Ekki má breyta stillingum á síðu Einars sem er minningarsíða sem ekki er samt hægt að setja neitt inn á - nema hann samþykki það ... ?!?

Og ég sem vinn við tölvu - þarf að tengja mig við VPN daglega í starfi mínu og nota alveg word og svona. 

Vissulega hef ég fengið talsverða tölvuaðstoð í gegnum tíðina. Einar sagði til dæmis: „Ég skal setja upp nýja símann þinn," sem svo þýddi þegar ég skipti um síma síðast að stelpan í símabúðinni fékk það hlutverk því það óx mér svo í augum.

Ég er manneskjan sem var fengin til að tengja vídeótæki systur minnar í gamla daga, leiðbeiningarnar voru á hollensku, úrdú og grísku, eitthvað slíkt. Mér tókst að gera það svo vel að ef þú ýttir á takka nr. 2 á tækinu birtist Stöð 2, 1 og þá kom RÚV, 3 og þá kom Stöð 3 og svo framvegis. Eins og það átti að vera. Það tók mig alveg gott korter um daginn að skipta um lyklaborð á tölvunni minni, það nýja hætti að virka. Ég þurrkaði af mér svitann á eftir, alveg viss um að nú færi allt til fjandans. 

Maður getur ekki fiktað sig áfram í öllu, sumu, ekki öllu. Svo þegar hjálpin býðst, býr hjálparfólkið til lykilorð fyrir mann sem eru ekki skrifuð niður - þess vegna get ég ekki hlaðið niður Zoom-forritinu á tölvuna mína af því að ég veit ekki lykilorðið fyrir skýið ... og ég finn ekki leiðina til að panta hvítlauksolíu hjá Domino´s í gegnum tölvuna/símann og þeir senda ekki heim nema maður sé búinn að borga í gegnum netið - svo þeir geta bara f... sér, þessar elskur.

Þetta er ekkert miðað við stóra vandamálið í lífi mínu sem ég veit ekkert hvernig ég á að leysa. Ef einhver hringir í gemsann minn heyrist diskótónlist!!! Mía systir sagðist hafa dansað undir Stayin Alive með Bee Gees síðast þegar hún hringdi en hún er sveigjanleg sem hún þarf að vera sem tónlistarkennari.

Hvernig breytir maður þessu og fær Led Zeppelin, Rammstein eða Mozart í staðinn? Hvað hafa vinir mínir gert símanum mínum? Hvað næst? Mariah Carey?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 29
  • Sl. sólarhring: 287
  • Sl. viku: 1988
  • Frá upphafi: 1452188

Annað

  • Innlit í dag: 28
  • Innlit sl. viku: 1601
  • Gestir í dag: 28
  • IP-tölur í dag: 28

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • baby reindeer
  • Ove Otto
  • Gísli gerir Mart-einn

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband