Já, aldurinn ...

Eftir 50Ég er komin í frí ... það uppgötvaðist fyrir skömmu að ég hefði tekið allt of fáa daga sl. sumar, nú skyldi bætt úr því fyrir maí svo fríið rynni ekki út. Það er passað upp á mann á allan hátt í elsku vinnunni (Birtíngi).

 

 

Þegar þjóðin sat heima í samkomubanni var ákveðið að gleðja okkur gengið óvænt einn daginn og tvær sem vinna með mér óku alla leið á Skagann með dásamlega gjöf sem gladdi. Það var ekki látið bitna á mér að hafa keypt útsýni á sínum tíma hérna í svartholinu austan Grensásvegar.

 

 

EFRI MYND: Ég bað frænda minn að útbúa þessa mynd fyrir einhverjum árum. Það þyrfti kannski að breyta henni aðeins, láta síðustu myndina vera af 50plús-konu í ræktinni, eða næstsíðustu myndina, en ég á svo margar eldgamlarkjéddlínga-vinkonur, alveg eldri en fimmtugar, sem eru alltaf uppi á fjöllum.

 

 

Oft fara fríin hjá fólki í ferðalög eða slökun en hvorugt heillaði mig núna. Ég ræsti einkaþjálfarann og sjálfa mig úr covid-letidái og stefni að því að fara reglulega í ræktina næstu vikur (og auðvitað mánuði/ár). Það skortir hreyfingu hér á bæ. Gott samt að hafa stigana, himnaríki er á 3,5. hæð.

 

 

Nú er ég búin að uppgötva að mér leiðast gönguferðir hrottalega mikið, hélt (var sagt) frá unglingsárum að það væri leti, en nei, oft fæ ég í bakið við að ganga út í búð en eftir ræktardugnað gæti það breyst. Þá verður þetta með leiðindin endurskoðað.

 

AkrafjallFyrir mörgum árum reyndi ég að fara í skokkhóp hér við Langasandinn. Ég var svo innilega langlélegust að það var ekki fyndið (það var fyndið). Veit samt ekki hvernig hefði farið ef ég hefði ekki lent í hálfgerðu íþróttaslysi í fyrsta eða öðrum tímanum. Ég kunni sem sagt ekki að teygja, gerði það of hratt og harkalega, svo þegar þær sem stjórnuðu sögðu rólega: „Og ... skipta um fót,“ var ég búin með tíu sinnum hægri, tíu sinnum vinstri og aftur tíu sinnum hægri ... nánast sleit hásin og fann fyrir þessu í nokkur ár. Ég var í skvassi um hríð og blés ekki úr nös í 45 mín. samfleytt og hefði auðvitað átt að halda þar áfram eftir lungnabólguna miklu 1991. Þá hefði ég ekki verið langlélegust í skokkhópnum.

 

NEÐRI MYND, tekin rétt áðan: Út um eldhúsgluggann sést í Akrafjallið og ræktina mína sem er aftan við rauða íþróttabraggann og samföst honum og öllu þarna, líka sundlauginni. Ég dustaði rykið af heklunálinni og heklaði kappa fyrir gluggann, stuttan því maður leyfir engu að skyggja á hvorki Akrafjallið né Esjuna sem grillir aðeins í hægra megin. Já, Skagamenn eiga líka í Esjunni og Skarðsheiði.

 

 

Ein vinkona mín hefur ráðlagt mér að fá mér íbúð á jarðhæð ... vegna meints aldurs míns ... en önnur vinkona (sjúkraþjálfari en samt ágæt) myndi aldrei samþykkja það því stigahlaupin eru ómetanleg fyrir heilsuna og forða mér frá því að leggjast í kör. Ég er ekki móðguð út í hina vinkonu mína fyrir að gefa í skyn að síðasti söludagur á mér nálgist - hvernig væri það hægt eftir að hafa nýlega fengið spurninguna: „Gurrí, var Akrafjallið til þegar þú varst lítil?“ 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ég hélt að það væri alltaf svo mikill snjór á Akranesi á veturna vegna þess að frú Reykfjörð ferðamálaráðherra gerði grín að Reykvíkingum fyrir að kunna ekki að aka í snjó. cool

Þorsteinn Briem, 1.3.2021 kl. 15:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 163
  • Sl. sólarhring: 325
  • Sl. viku: 1680
  • Frá upphafi: 1453555

Annað

  • Innlit í dag: 154
  • Innlit sl. viku: 1403
  • Gestir í dag: 153
  • IP-tölur í dag: 150

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Cartman
  • Cartman
  • Ömmukaffi

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband