Þvííkur laugardagur

Bröns a GalitoEr farin að vaka eftir næturskjálftanum til að ná góðum svefni fram á morgun. Vel sofin fór ég í góðum félagsskap á Galito, hér á Akranesi, í bröns sem er í boði alla laugardaga frá kl. 12-15. Hér er mynd af hluta dýrðarinnar sem í boði er, ég er mjög hrifin af egg benedict og hér voru þrjár útgáfur á súrdeigsbrauði ... Þetta var allt of mikið fyrir mig, hélt þegar ég pantaði að þetta yrðu sýnishorn, ekki matur fyrir allan salinn, en ég gat smakkað allt og fékk góða aðstoð fóstursonarins, enda sá hann eftir því að hafa bara pantað franskar. Það var allt fullt í Galito og ég fer örugglega aftur.

Síðan lá leiðin niður í bæ þar sem nýr staður opnaði fyrr í dag, eða Frystihúsið, ísbúð sem selur líka kaffi. Þar var Herra Hnetusmjör staddur, söng á Akratorgi fyrir glaða gesti, og var alveg til í að vera með á mynd með fóstursyninum. Akkúrat þegar ég minnti hann á að ég væri systir hennar Hildu í sumarbúðunum, brosti hann svo fallega. Þið megið, ef þið viljið, nota þetta ráð til að fá fólk til að brosa fallega á myndum.

Med hr HnetusmjorNú á drengurinn mynd af sér með Herra Hnetusmjör(i), Páli Óskari og jólasveininum (eldgömul mynd) ... flottustu mönnum í heimi.

Ég viðurkenni að ég var nokkuð tortryggin á kaffið, kannski ekkert skrítið eftir ferð mína norður á land í fyrrasumar þar sem kaffilandslagið hafði breyst talsvert til hins verra, að mínu mati. Þetta var ekki lengur skemmtiferð hjá mér, sumarfrí, slökun, heldur örvæntingarfull leit að almennilegu kaffi. Með góðri hjálp fannst gott kaffi á Akureyri, í listasafninu í Gilinu, Guðrún Pálína frænka (við erum bræðradætur) benti mér á það, líka í Sykurverki, takk, Magnús, og Hofi, minnir mig. Ég prófaði auðvitað ekki alla staði á Norðurlandi. Svo var líka sjúklega gott kaffi á Siglufirði, hjá Fríðu sem er einnig súkkulaðigerð. 

Mig dreymir enn um kaffið á Rjúkanda (gömlu Vegamót?) á Snæfellsnesi sumarið 2018 ... jiminn, hvað það var gohhooottt! Gaman að vita hvort enn séu sömu eigendur og sama kaffið, þess virði að fara sérferð bara fyrir kaffið - en reyndar er ógurlega fallegt á Snæfellsnesi svo ekki skemmir landslagið fyrir kaffinu. Hvern langar að bjóða mér í bíltúr þangað? 

Já, Frystihúsið er með lífrænt ræktað og ógurlega fínt kaffi, þessu var búið að hvísla að mér - en ég tek bragðið eiginlega fram yfir allt en, mér til mikillar gleði, var lífræna og fína kaffið ljómandi gott. Það heitir Honest, held ég, og er það sama og hjá Sykurverki á Akureyri. Sú sem bjó það til blandaði fullkomlega tvöfaldan latte og hafði hann hvorki of kaldan né heitan svo úr varð algjör snilld. Vona að hún verði hlekkjuð við kaffivélina. Börn vinkonu hennar Hildu systur reka þennan stað, þaulvön eftir að hafa unnið í Erluís frá fæðingu.

SumarliðiÞetta er nýi uppáhaldsstaðurinn minn. Nú hvet ég landsmenn alla til að kíkja á Skagann, svamla í hinni verðlaunuðu hönnunarsnilld Guðlaugu við Langasandinn, fá sér bröns á Galito og ljúka ferðinni svo í Frystihúsinu með góðu kaffi eða ís. Með viðkomu kannski í vitanum. En hér eru flottar búðir (vantar bara Rúmfó og KFC (og dýralækni) til að verðum sjálfbær). Einarsbúð er til dæmis eins og besta Kjötborg (eða öfugt) ... svo eru æðislegar tískubúðir, verslanir með flotta sérvöru (punt og svona), bókabúð, bókasafn, sætar löggur, góðar kartöflur, fínir fótboltamenn ... bara allt. Held meira að segja að 2 herb. íbúð í stigaganginum mínum sé til sölu sem er eiginlega ótrúlegt. En það kaupa sér svo sem ekki allir sjóinn með íbúð, eins og ég gerði á sínum tíma. Þetta er svona stór lítill staður með hátt í átta þúsund manns.

 

Og annað, það finnst mun minna fyrir jarðskjálftum á Akranesi, en á sumum öðrum stöðum sunnar ... Skjálftarnir þurfa að fara vel yfir fjóra til að þeir nái að rugga manni í svefn!!! Hugsa sér hvað maður er orðinn rólegur yfir þessu, ég er farin að gantast með skjálfta ... magnað.

 

Á myndinni er hann Sumarliði hjá Frystihúsinu, Steinunn, systir hans, var nýlega rokin út svo ég náði ekki mynd af henni. Út um gluggann má sjá sturlað stuðið sem ríkti á Akratorgi, a.m.k. hluta stuðsins.

Þvílíkur laugardagur. Svo verður Eurovision-lagið frumsýnt í kvöld ... ég tímdi ekki að horfa á sjóræningjaútgáfuna af því svo ég fæ þetta bara ferskt í æð. Fóstursonurinn er spenntur, enda mikill Eurovision-aðdáandi - eða var ... kannski nennir hann ekki að horfa með mér, það kemur í ljós í kvöld. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 160
  • Sl. sólarhring: 322
  • Sl. viku: 1677
  • Frá upphafi: 1453552

Annað

  • Innlit í dag: 152
  • Innlit sl. viku: 1401
  • Gestir í dag: 151
  • IP-tölur í dag: 148

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Cartman
  • Cartman
  • Ömmukaffi

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband