Vannýtta auðlindin ég

Herb YTÉg veit að það á ekki að monta sig en ... Eftir hrottalega erfiða (æðislega) æfingu í ræktinni gerði ég mér lítið fyrir og breytti herbergi fóstursonarins. Með hans leyfi færði ég rúmið sem var undir glugganum svo nú er auðveldara að opna út, hillurnar fóru við vegginn til hægri og nær glugga, voru við veggnum á móti. Bið smiðina að veggfesta hillurnar hans um leið og þær í stofunni, og set kennaratyggjó undir alla muni. Síðan myndin var tekin hef ég fært eitthvað af bókum neðar í hillurnar - og drengurinn neitaði að hafa blóm á skrifborðinu.

Ég hafði vit á því að borða um hálfsexleytið, stráksi ekki í mat, síðan lagðist ég ofan á rúmfötin í rúminu mínu og hreyfði mig ekki næstu fjóra klukkutímana - í íbúfenvímu. Bakið á mér er ekki gert fyrir svona vesen.

-----

Þegar ég flutti í bæinn 13 ára gömul lét ég vinkonuleysi fyrstu mánuðina ekki hefta mig frá því að gera eitthvað skemmtilegt. Ég kom mér í handbolta þótt ég hafi aldrei spilað hann, skammt frá Bollagötunni (Hlíðarenda), ég var að kanna hverfið þegar ég spurði hvort ég mætti kannski vera með.

Það reyndist erfitt að komast inn í hópinn, ekki einu sinni þótt ég hafi varið öll mörk í fyrri hálfleik í einni keppninni ... ég var líka feimin og hafði mig lítið í frammi. Hlíðaskólastelpurnar héldu þétt saman, ekki þó gegn mér, Austurbæjarskólastelpunni, og Valur missti þannig án efa af stórkostlegri markkonu.

Hallgrímur hvað í TónabæFyrstu páskana voru haldnir afar spennandi tónleikar í Tónabæ, Hallgrímur hvað? hétu þeir - og ég fór þangað ein (engin vinkona komst með) sem var mjög erfitt en mig langaði bara of mikið til að láta það fæla mig frá. Nokkrum dögum seinna þegar mamma opnaði Morgunblaðið blasti við henni mynd af dótturinni, eins gott að ég hafði sagt henni hvert ég var að fara ... Þarna var ég sennilega komin í Álafossúlpu, farin að safna hippahári og hlusta á tónlistina hennar Míu systur og koma mér jafnframt upp eigin hljómsveitum til að dýrka og dá.

Ég reyndi vissulega að eignast vinkonu, hafði samband við stelpu sem ég hafði kynnst í sveitinni um sumarið. Hún kenndi mér á strætó (hvað væri hallærislegt og hvað ekki) sem kom sér vel, eins og að hringja aldrei bjöllunni þegar maður ætlaði út t.d. á Hlemmi, því strætó stoppaði hvort eð er alltaf þar og þyrfti ekki að hringja. En ... þegar ég sagði við hana: „Hvar finn ég fornbókabúðir?“ starði hún á mig í forundran og svaraði: „Láttu ekki nokkra manneskju heyra þetta.“

Við vorum 13 ára skvísur og hippatískan í algleymingi, fötin  keypt í Karnabæ og Faco, líka hjá 1001 nótt á Hverfisgötu ásamt reykelsum. Mér fannst áhugi á gömlum bókum alveg passa þarna inn - en við áttum ansi fátt sameiginlegt, man ekki einu sinni hvað hún heitir. Ég fann fornbókabúðir og uppgötvaði líka Borgarbókasafnið við Þingholtsstræti og tók mínar 20 bækur þar vikulega. Það var hræðilega erfitt að ganga heim með pokann en líka langt að ganga í strætó (Lækjartorg leið 6 eða 1, eða ná nr. 1 á Njálsgötu, ég gat alveg eins gengið heim á Bollagötu. Oft átti ég ekki í strætó. En hvað leggur maður ekki á sig fyrir bækur? 

GjafahusidÉg þurfti að finna mér vinnu - hljómplötur þurfti að kaupa, og fór að passa fyrir The Auði Haralds. Ég er samt ekki ein af furðulegu barnapíunum hennar sem hún skrifaði um í Hvunndagshetjunni. Mér fannst hún æðisleg, góð mamma og skemmtileg, en minni eigin mömmu fannst pössunin taka of mikinn tíma frá skólanum svo ég hætti eftir örfáa mánuði.

Ætli ég hafi ekki verið 14 ára þegar ég fór að vinna í Gjafahúsinu eftir skóla og í jólafríinu. Mest var ég á Skólavörðustígnum en stöku sinnum í litlu kjallarabúðinni við Smiðjustíg (líka Gjafahúsið), rétt fyrir neðan Laugaveg.

Ég hef gott minni á tölur ... mundi fáránlegustu símanúmer því ég þurfti einu sinni að hringja í þau ... nafnnúmer mömmu og Hildu systur sem ég þuldi hjá þrumulostnum bankastjóranum þegar ég þurfti lán, á DV-árunum lærði ég öll póstnúmer. Og í Gjafahúsinu sem var ansi hreint fín gjafavöruverslun og flestir hlutir til í fleiri en einni stærð, eins og allar körfurnar, öll kertin, kunni ég utan að verðið á hverjum einasta hlut - það voru hátt í milljón hlutir til sölu þarna! Verðið límdist við heilann á mér. Og ég sem gat ekki rassgat í stærðfræði ... því var haldið að mér (og flestum konum) að karlmenn væru betri í að reikna, vér kvenfólk ættum frekar að leggja fyrir okkur tungumál ... og ég trúði þessu bulli. Náði nú samt alveg óvart einni tíu í algebru í landsprófi. 

Hvílík vannýtt auðlind sem ég var. Nýjasta tækni og vísindi kemur í veg fyrir að ég geti haldið þessu við og þau eru ansi hreint fá gemsanúmerin sem ég kann. En samt eitt og eitt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.4.): 286
  • Sl. sólarhring: 307
  • Sl. viku: 1999
  • Frá upphafi: 1453160

Annað

  • Innlit í dag: 255
  • Innlit sl. viku: 1644
  • Gestir í dag: 243
  • IP-tölur í dag: 238

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Tengdamömmur
  • Kamilla, Inga, Gerry
  • Frændfólk mitt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband