Guðríður almáttugur

UtvarpMér líður eins og ég sé komin á bíl, ég gat skroppið til Reykjavíkur eftir hádegi í dag, erindast sem þurfti og var svo komin heim um hálfsexleytið. Það þurfti þó tvo bílandi ættingja í bænum til að það gengi upp.

Hilda sótti okkur í Mjóddina - ég keypti áður en hún kom bévítans strætómiðana sem ég hef reynt vikum saman að gera þótt ekki sé enn hægt að fá kvittun á kennitölu. Ég siga bara endurskoðandanum mínum á Strætó bs - eða löggunni, þetta getur ekki verið löglegt. ;)

 

 

Við fengum okkur kaffi í Kaffitári sem er iðulega fyrsta verk í hverri bæjarferð. Ögn seinna komst Davíð frændi með okkur í Elko. Fóstursonurinn er forríkur, nýbúinn að eiga afmæli og búinn að ákveða hvað hann langaði í. Okkur tókst að kaupa það sem þurfti hratt og örugglega.

Drenginn vantaði útvarp, langaði í eins tæki og ég keypti nýlega í eldhúsið og handa mömmu. Ég keypti mér að auki annað tæki inn í svefnherbergi/vinnuherbergi mitt í dag. Það er of mikið sjokk sí og æ að kveikja á sjónvarpinu þar, finna rás 11 og lenda á umræðum á Alþingi þegar mann langar bara að hlusta á fréttir og fína músík á Rás 2. Stráksa vantaði líka heyrnartól - en þráðlaus fjarstýring fyrir PS4 var uppseld og hafði verið mánuðum saman. Hann spurði að gamni hvort PS5-tölvan væri líka uppseld og starfsmaðurinn táraðist, sagði að þær tölvur hefðu aldrei komið í búðina, heldur væru seldar eftir biðlistum i gegnum netverslunina.

 

 

Í stað þess að fara næst í KFC í Kópavogi þar sem uppáhaldsmatur drengsins fæst, skutlaði Davíð okkur alla leið í KFC í Mosó. Við gætum fengið okkur máltíð þar og tekið strætó heim eftir klukkutíma en strætó stoppar einmitt í Háholti. 

Stundum er ég svo klár að það er ekki fyndið. Við stráksi pöntuðum eitthvað gott og þegar spurningin: „Borða hér eða taka með?“ var borin upp svaraði ég: „Taka með!“ Það tók í alvöru bara eina eða tvær mínútur að búa þetta til (það var lítið að gera upp úr hálffimm) og ég sagði undrandi drengnum að hlaupa með mér út bakdyramegin og út á stoppistöð. Skagastrætó (leið 57) kom í Háholtið tveimur mínútum seinna, hræðileg föstudagsumferðin bjargaði okkur sem sagt heim klukkutíma fyrr en ella. Davíð komst aðeins hraðar áfram en strætó.

Það er ekki hægt að hanga yfir einni kjúklingavefju í klukkutíma og lenda svo á fullum Akureyrarvagninum sem hefði komið klukkutíma seinna (17.30 frá Mjódd). Við heimkomu fóru vefjurnar inn í ofn á 100°C vafðar í álpappír og verða snæddar með bestu lyst þegar hungrið fer að sverfa að sem er sirka núna.

 

Jona i straetoElskan hún Jóna strætóvinkona var þarna og sat fyrir framan mig. Hún er týpan sem sagði eitt sinn: „Hva, áttu ekki lopapeysu? Kauptu lopa og komdu honum til mín, ég prjóna á þig!“ Hún gerði það á sínum tíma og líka á son minn. Meira yndið. Hún er fullbólusett, tjáði hún mér, enda ein af framlínustarfsfólkinu.

 

 

Ekki nóg með það. Um daginn, hér á þessu bloggi, bað ég þá sem hafa sambönd í neðra að gefa okkur sem búum suðvestanlands langa pásu frá jarðskjálftum. Og það hægði nánast strax á kvikuflæðinu. Nú fer ég kurteislega fram á að Janssens-bóluefnið verði allsráðandi þegar kemur að mér og öðru sprautuhræddu fólki sem kýs að fá bara eina sprautu. Og að það verði friður á jörðu.

Ekki skrítið að ég sé stundum kölluð Guðríður almáttugur.     


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þú er barasta ágæt

Ingibjörg Gestsdóttir (IP-tala skráð) 19.3.2021 kl. 19:49

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ráðlegg þér að senda Jóhannesi S. Rúnarssyni, framkvæmdastjóra Strætó, rafbréf (tölvupóst) á johannesru@straeto.is varðandi kvittanir á kennitölu. cool

Þorsteinn Briem, 19.3.2021 kl. 22:32

3 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Jamm, endar með því en ég hafði í tvígang áður beðið afgreiðslukonuna um að koma þessu áleiðis og láta laga þetta. Held að þetta sé ekki löglegt, svona í alvöru. :) 

Guðríður Haraldsdóttir, 19.3.2021 kl. 22:37

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

Um að gera að senda Jóhannesi strax þessa frómu ósk, því skilaboð komast ekki alltaf til skila, eins og dæmin sanna. cool

Þorsteinn Briem, 19.3.2021 kl. 22:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.4.): 346
  • Sl. sólarhring: 372
  • Sl. viku: 2661
  • Frá upphafi: 1451856

Annað

  • Innlit í dag: 258
  • Innlit sl. viku: 2035
  • Gestir í dag: 223
  • IP-tölur í dag: 218

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Grimm
  • Í kringum ljósastaurinn
  • Baldursbrár

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband