Af daðri og lauslæti

Gos gosEkki dettur mér í hug að segja eitthvað ljótt um þetta fallega gos en það hefði samt mátt hefjast í betra veðri, t.d. á heiðskíru kvöldi.

Þá hefði bjarminn sést alla leiðina upp á Skaga. Ég sá fjölmarga bíla hér við Langasand í gærkvöldi, fólk í leit að gosbjarma en án árangurs.

 

Í gærkvöldi, eftir miðnætti reyndar, stóð ég sjálfa mig að því að vera með kveikt á útvarpi OG sjónvarpi ásamt því að fylgjast með fréttum af eldgosinu í tölvunni, á netinu.

Þegar RÚV slúttaði sínum fréttum, slökkti ég á öllu og fór að lesa spennandi krimma. Hugsa að ég hefði sofið í stól við gluggann hér áður fyrr, alla vega ef veðrið hefði verið skárra, og með kíki í hönd, álpoka til taks, áttavita, landakort og nesti. Að fara að gosstöðvunum heillar mig ekki, fyrst ég er ekki fréttamaður eða skjálftafræðingur, strætó gengur heldur ekki til Grindavíkur, hvað þá að Fagradalsfjalli.

Ég er ekki týpan til að ganga mikið, hvað þá úti á landi þar sem t.d. lúsmý, geitungar, eldgos, mannýg naut og annað slíkt getur ógnað andlegri eða líkamlegri heilsu manns.

 

P1090343Það náðist af mér einstök mynd þegar ég fór í fyrsta skipti á ævinni til Þingvalla og gekk ögn um svæðið. Hef farið tvisvar síðan. Þarna átti ég þrítugsafmæli. Vinkonurnar ákváðu að koma mér á óvart og sjanghæjuðu mig til Þingvalla, áttuðu sig sennilega ekki á því að mér fannst viss stíll yfir því að hafa aldrei komið þangað. Það er ekki jafnmikill stíll yfir því að hafa aldrei svamlað í Bláa lóninu sem ég mun aldrei gera, bæði vegna verðlagningar þar og strætóleysis. Ég fór út í Flatey á Skjálfanda fimm ára, að heimsækja afa og ömmu, svo ekki er hægt að segja að ég hafi ekkert ferðast.

Við fengum okkur heitt súkkulaði og ristað brauð í morgunverð á Þingvöllum. Hótelstýran (Auja) hafði haft veður af því að hér væri stórafmæli í gangi og færði okkur kampavín í boði hússins.

Á þessari sérstöku mynd á óvenjulegum stað fyrir mig og í þokkabót með brennivín í fanginu, virðist ég afslöppuð og kát en ég var pínku stressuð því ég átti von á fjölda manns um fjögurleytið.

Kampavín er sko alls ekki vont, ég forðast það samt, það vekur upp daðurdrósina í mér, nánast lauslæti - siðprúðar kerlur af Skaganum verða að gæta að orðspori sínu. Ég sagði t.d. bara einn brandara allan tímann á meðan verið að gera upp íbúðina mína, eitthvað um að allir þyrftu að eiga einn smið / pípara / rafvirkja ... eitthvað í þeim dúr, ég bað þeirra sannarlega ekki en samt stirðnuðu þeir upp og héldu sjálfsagt að ég væri að daðra. Þeir mega eiga það að þeir hlupu ekki öskrandi út. Sjaldan hefur jafnlélegur brandari fallið í jafngrýttan jarðveg. Eins gott að ég var ekki búin að drekka kampavín.

 

Ein frettNú eru allar fréttir um gosið, auðvitað, eins og á síðasta ári þegar allar fréttir voru um COVID-19 á einn eða annan hátt.

Það var alltaf góð tilbreyting þegar frétt um eitthvað allt annað birtist í fjölmiðlum.

---

Dagurinn í dag hefur farið svolítið í tiltekt og þrif, enda allt komið í rúst því ég gat fátt gert á meðan ég var að drepast úr harðsperrum eftir síðasta tíma. Þjálfarinn minn finnur nýja og nýja vöðva til að þjálfa í hvert skipti, vöðva sem ég vissi ekki af ... en í alvöru talað, ég finn gífurlega mikinn mun á mér eftir að ég byrjaði, ég stökk eins og léttfætt hind upp stigana heima í gær - þrátt fyrir að vera enn með harðsperrur. Viljinn er líka meiri til að gera hlutina ... eftir að ég fór að taka vítamín af fullri alvöru. Ég held að ég hafi þjáðst af vítamínskorti (forðast meira að segja sólina á sumrin) í nokkra áratugi - eins og sjálfsagt stór hluti Íslendinga. Mæli með vítamíni sem fæst í spreyformi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 227
  • Sl. sólarhring: 378
  • Sl. viku: 1744
  • Frá upphafi: 1453619

Annað

  • Innlit í dag: 200
  • Innlit sl. viku: 1449
  • Gestir í dag: 198
  • IP-tölur í dag: 195

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Cartman
  • Cartman
  • Ömmukaffi

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband