Hvítar lygar

IMG_6800Stundum finnst mér alveg réttlætanlegt að plata svolítið ef það er nógu saklaust. Það gerir til dæmis hálfan desember mun auðveldari hjá mörgum foreldrum, say no more.

 

 

Það var kannski á mörkunum þegar börnum var hótað hræðilegum afleiðingum ef þau höguðu sér ekki vel, en það var algengt á þessum tíma. Eins og þegar mamma hótaði mér því að senda mig í Villingaholt til BRODDA þegar ég var óþæg. Pabbi hafði verið óhæfur í að flengja úr okkur óþekkt áður en þau skildu, það varð að finna eitthvað hræðilegt.

Ég sá nú samt fljótt í gegnum þetta hjá mömmu þótt ég viðraði efasemdir mínar ekki upphátt, það gat enginn staður heitið Villingaholt!

  

Í fyrra tók ég saman nokkrar svaðalegar „lygasögur“ fyrir Vikuna, margar komu úr eigin æsku. Eins og þetta með poppkornið, að ef maður borðaði of mikið af því yrði að taka úr manni botnlangann. Enn í dag borða ég eiginlega bara popp þegar ég fer í bíó, sem er allt of sjaldan.

 

Ég var auðvitað afar klár krakki og fann það út alveg sjálf að það sem orsakaði öldugang í sjónum væri seltan. Jú, sjórinn væri nú bara venjulegt vatn með salti í. Til að sanna þetta gerði ég tilraun. Ég fyllti baðvaskinn af vatni og hellti salti út í ... og svo meira salti, alveg þar til baukurinn tæmdist. Ég beið milli vonar og ótta en mikil urðu nú samt vonbrigðin þegar engar komu öldurnar. Sennilega í fyrsta sinn sem ekki var til salt út í grautinn á æskuheimili mínu.

 

Mér var harðbannað að benda á flugvélar á flugi, þá myndu þær hrapa - og ef ég dræpi járnsmið (skordýrið) myndi sjómaður drukkna.

 

Ég var þess fullviss að allur matur sem ég borðaði safnaðist upp, frá fótum og smám saman upp líkamann. Þegar hann næði upp í háls myndi ég deyja. Eins og með saltan sjóinn komst ég alveg sjálf að þessari gáfulegu niðurstöðu um líf og dauða. Var reyndar ansi ung þegar þetta var. Segið svo að börn hugsi ekki.

 

Sennilega var ég um það bil sex ára þegar mamma sagði mér að allar konur færu í reiðtúr í hverjum mánuði til að þær gætu eignast börn. Þær þyrftu að vera með bindi, svona dömubindi. Ég hét mér því að eignast aldrei börn, var svolítið hrædd við hesta.

 

Og vinkona mín sagði mér þessa sögu: „Ég man ekki eftir neinu sérstöku nema þá helst lækninum sem reyndi að telja mér trú um að ég væri með rauða hunda. Ég var lasin og fannst hann reyna að gera lítið úr veikindum mínum. Ég átti ekki neina hunda.“ 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 32
  • Sl. sólarhring: 152
  • Sl. viku: 1724
  • Frá upphafi: 1453234

Annað

  • Innlit í dag: 29
  • Innlit sl. viku: 1405
  • Gestir í dag: 26
  • IP-tölur í dag: 26

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Tengdamömmur
  • Kamilla, Inga, Gerry
  • Frændfólk mitt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband