Harry og hringurinn dýri

AndvökuhraunÉg legg til nafnið Andvökuhraun - það skýrir sig sjálft. Sat með tveimur bráðskemmtilegum konum frá Grindavík í fermingarveislu um helgina. Spennandi en hrollvekjandi lýsingar af því að eiga jafnvel von á gosi við bæjardyrnar og fá stóra skjálfta með upptök sín örstutt frá. Og mjög oft andvaka - eins og ég og margir sem biðu stundum fram á nótt til að fá skjálftann sinn og gátu þá farið að sofa.

(Eins og sést á myndinni skrapp ég eitt kvöldið á inniskónum og peysunni á gosstöðvarnar - en mundi eftir húfu.)

Hefði sennilega ekki hitt þessar skemmtilegu konur, ekki mætt í veisluna, ef yfirvöld hefðu gefið upp í fréttum í hádeginu á sunnudaginn hvað hefði í raun gengið á um helgina varðandi smit, m.a. í fermingarveislum. Ég hlæ kuldalega og harðneskjulega innra með mér þegar ég hugsa um spjallið þarna í veislunni, alla bjartsýnina, um hvað allt væri orðið gott í þessum málum, hvað sumarið yrði mikið æði, bara engin smit. Einmitt. Beiskj, beiskj.

Ég er mjög heilbrigð, hætti að auki að reykja fyrir bráðum ári og það allt, en mig langar allllls ekki að fá þetta ógeð - sem sumir kalla nú samt smáflensu: vopn í baráttu Bill Gates til að ná að bólusetja alla heimsbyggðina með staðsetingarbúnaði. Katrín Jakobs flækt í þetta líka og öll ríkisstjórnin okkar ... Ofsalega verður gaman hjá Bill Gates að fylgjast með öllum í heiminum. „Þarna er John að fara í Walmart, já, Gurrí uppi á Íslandi að fara í ræktina, Anna bara heima í þetta góðu veðri. Mikið er þetta gaman.“ Já, svo auðvitað græðir hann ofboðslega á bóluefninu. Var ekki Dolly evil Parton flækt í þetta líka? 

 

Diana og synirNú eru fréttir af bresku konungsfjölskyldunni orðnar ögn jákvæðari. Samkvæmt einni nýlegri er Harry prins ekkert annað en dýrlingur, gjafmildur og góður bróðir ... Hann erfði dýrmætan hring eftir móður sína, Díönu prinsessu, algjört góss, og þegar Vilhjálmur var kominn á biðilsbuxurnar, alveg að fara að biðja Katrínar á hnjánum, bauð Harry honum að fá þennan fína hring Díönu, hann mætti bara eiga hann! Kannski varð þessi hringur svo til þess að Katrín sagði já! Nógu lengi hafði hún hugsað sig um.

Af hverju eru Íslendingar svona allt öðruvísi? Það hefur aldrei neinn kropið niður og beðið mín, hvað þá með hring í hönd. Ég hef alltaf þurft að kaupa mína hringa sjálf. Skástu bónorðin hafa komið bréfleiðis í ljóðaformi sem er alveg flott fyrst en verður leiðigjarnt þegar ljóðin eru bara þýddir textar úr dægurlögum. Já, eða: „Þetta var skemmtileg og rómantísk bíómynd sem við sáum hér í Stjörnubíói, en hvernig væri að við létum pússa okkur saman, Guðríður mín? Ég svara alltaf: „Hei, við vorum að kynnast, rólegur, kúreki!“ (Ekkert að þakka, Bríet.)

Ég þori reyndar ekki á Tinder vegna klaufaskapar míns í tölvu- og símamálum (Hver pókar óvart látinn mann á Facebook þegar dóttir hans er að búa til minningarsíðu um hann? Ég.). Ég myndi svo innilega óvart henda prinsum og hertogum á brott af síðunni og samþykkja alls konar froska ... en ég hef svo sem slakað á kröfunum eftir sextugt. 

 

JesuGömul vinkona fór tvisvar eða þrisvar á stefnumót með mönnum sem hún hafði kynnst á einkamal.is. Síðasta deitið var með manni sem vildi endilega fá hana með í bíltúr þar sem þau gætu spjallað saman og kynnst. Hún samþykkti það, hann hafði virkað ósköp vinalegur í spjallinu á netinu en þau höfðu aldrei hist í eigin persónu. Svona „ísbíltúr“ hljómaði bara vel, fannst henni. 

Hann mætti stundvíslega fyrir utan hjá henni, myndarmaður með fallegt bros og blik í augum. Vinkona mín settist inn og svo var ekið af stað. Maðurinn fór að tala um leið og hann ók af stað, tala um guð og Jesú, og notaði hverja einustu mínútu vel svo hún komst ekki að. Til að ekkert truflaði var hvergi stoppað til að kaupa ís eða eitthvað að drekka sem hefði gert þetta léttbærara. Í hátt í tvo klukkutíma mátti hún hlusta á þetta og var eiginlega of smeyk til að biðja hann um að skutla sér heim strax, blikið í augum hans var orðið að undarlegum glampa og brosið ekki lengur jafnfallegt. Ekkert hafði bent til þess að maðurinn væri svona ... sérstakur. Loks var hann orðinn nógu þreyttur í talfærunum til að hún kæmist að og þá bað hún hann að skutla sér heim. Hún væri orðin „þreytt“.

„Eigum við ekki að hittast aftur?“ spurði hann glaðlega í kveðjuskyni þegar hún var að fara út úr bílnum.

„Nei.“


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Það væri nú harla einkennilegt ef Íslendingar væru ekki skrítnir, flestallir náskyldir hver öðrum. cool

Helga Rafnsdóttir á um 99 þúsund afkomendur

Útlendingar hafa hins vegar bjargað því sem bjargað verður í þeim efnum, til að mynda þeir sem veiddu hér við Ísland fyrr á öldum, Englendingar, Frakkar og Baskar, og íslenskar konur sváfu hjá þegar þær seldu þeim ullarsokka og vettlinga.

Svo og breski og bandaríski herinn og nú síðustu áratugina til dæmis Pólverjar og flóttamenn, sem
Halldór Jónsson hatast við, enda þótt þeir hafi hér góðan starfa og haldi því karlinum uppi í hatursskrifum sínum gegn flóttamönnum. cool

Langar til að gera Kurdo Kebab að þekktu vörumerki

Þorsteinn Briem, 23.3.2021 kl. 15:20

2 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Veit að það er franskt blóð í ættinni minni, svo margir í móðurætt með dökkt hár og brún augu. :) 

Guðríður Haraldsdóttir, 24.3.2021 kl. 01:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.4.): 24
  • Sl. sólarhring: 333
  • Sl. viku: 2339
  • Frá upphafi: 1451534

Annað

  • Innlit í dag: 18
  • Innlit sl. viku: 1795
  • Gestir í dag: 18
  • IP-tölur í dag: 17

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Baldursbrár
  • Vigdís
  • 82 í framboði

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband