Ekki kona á mínum aldri

Barist um músinaEnn er eldgosið uppáhalds þegar kemur að sjónvarpsefni. Mig langar þó ekki að fara á gosstöðvarnar - af sömu ástæðu og ég hef ekki nennt á útihátíðir síðan ég var 16 ára ... hvar á að pissa, hvar er hægt að kaupa gos (fliss) og rækjusamloku með einni rækju? Reyndar var það hægt á Vor í dal eða Rauðhettu. Já, ég er þetta gömul.

(Myndin tengist ekki beint efni færslunnar en hún er af okkur Kela að berjast um mús)

Í spurningakeppninni á Rás 2 sl. sunnudag sem fjallaði öll um tónlist, gat ég svarað með glans einni spurningu sem var: „Madonna og Michael Jackson eru bæði fædd í ágúst 1958, hvort er eldra?“ Mér leið eins og ég hefði fengið spurningu um póstnúmer á landsbyggðinni í Útsvari. Sko, ég er þann 12., Madonna 16. og Jackson 29.. Hér í denn (og stundum enn) þá þegar mér fannst ég gömul minnti ég mig á að ég væri bara fjórum DÖGUM eldri en Madonna sem væri enn að hlaða niður börnum og halda tónleika. Það þurfti alveg stundum. Við stöllur lítum ekki út fyrir að vera deginum eldri en 61 árs.

PutinNú er ég búin að fá bréf um að ég, Skagadrósin, eigi að fara í brjóstamyndatöku Í REYKJAVÍK, í Skógarhlíð, hús Krabbameinsfélagsins, svo mín versta martröð varð að veruleika. Ég voga mér að gráta þessar fokdýru færanlegu myndavélar sem voru gefnar Krabbameinsfélaginu á sínum tíma til að ná sem flestum konum í skoðun, sem sagt líka okkum landsbyggðartúttum sem eiga ekki allar bíl. Af því að þetta er vesen þá er svo mikil hætta á því að við frestum ... og svo líða árin. Það var svo góð þátttaka þegar myndatakan fór fram á sjúkrahúsinu hér.

Í bréfinu var ég í fyrsta sinn ekki kölluð kona á mínum aldri! Einnig kom fram að skimað er víðs vegar um landið og þurfi að bíða eftir auglýsingum hvers landshluta fyrir sig. En samkvæmt bréfinu á það ekki við um Skagakonur, því miður. Ég get bara hoppað upp í bílleysið á mér. Vissulega hef ég reynt að fá að vera samfó - spurt en fengið kannski: Æ, ég fór í síðustu viku ... Það þarf einhvern grjótharðan í málið, kannski karl fyrst ekki er hlustað á okkur konur? Kára? Pútín?

Nú þarf að fara að púsla til að reyna að komast frá í hálfan dag plús, plús. Ég vona líka heitt og innilega að hún sé ekki hætt, hjálpsama konan í afgreiðslunni sem með augunum mælir konurnar út og tilkynnir sloppastærð hverrar og einnar hátt og snjallt svo glymur um alla Skógarhlíð. Listinn yfir stærðir hangir reyndar uppi á vegg í skiptiklefanum - en ef við værum nú ólæsar? Eða rasistar og vildum ekki lesa tölustafi af því að þeir eru arabískir?

Ég þurrkaði Krabbameinsfélagið út úr erfðaskránni minni og nú þarf að finna leið til að taka heilbrigðisráðuneytið þaðan líka. Hvernig felur maður stæður af tíuþúsundköllum í dýnunni sinni? Er að spyrja fyrir einhvern annan.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring: 18
  • Sl. viku: 186
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 172
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • Himnaríki 6. mars 2023
  • Himnaríki 21. mars 2024
  • Húsó

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband