Áminnt um sannsögli ...

Fólk og eldgosVissuð þið að ef hraunstraumurinn á eldstöðvunum væri „fenginn til að sjá um“ að fylla steypumótin í meðferðarkjarna hins nýja Landspítala tæki það 200 mínútur, eða rúmlega þrjá klukkutíma. Magnið sem þarf er 60 þúsund rúmmetrar en eldstöðvarnar framleiða 5 m3/sek. Grunar að íslenskar steypustöðvar eigi eftir að gefa í núna ... 

Það er mikið gantast inn á milli nöldurs og æsings yfir því meðal annars að vera innilokuð á lúxushóteli með sjónvarp og mini-bar, vegna þeirra sem hafa svikist um að halda sóttkví og smitað (og drepið?) fólk úr þessari „flensu“ sem er ekki neitt neitt, ef marka má orð Trumps og íslenskra trúsystkina hans. Að vísu skil ég alveg löglært fólk sem agnúast út í það sem mögulega stenst ekki lögin. Ég myndi samt, áminnt um sannsögli og það allt, glöð liggja og lesa, innilokuð í fimm daga, á hóteli og sleppa við að elda.

TeiknEn þetta sá ég á Facebook í dag

Sundlaugar: 0

Skíðabrekkur: 0

Almennar samkomur: 0

Veitingastaðir: 20

Trúarathafnir: 30

Gosstöðvar: 9.357

Við erum öll í þessu saman ...

- - - - -

Ég fór á Bach-fyllirí í gær, það er ekki hægt að kalla það öðru nafni. Á Rás eitt hljómaði Jóhannesarpassían í flutningi gamla kórsins míns og fleiri snillinga og tárin streymdu yfir „Rútvól-inu“, einum fegursta kaflanum. Hugurinn reikaði aftur í tímann þegar ég heyrði Jóhannesarpassíuna fyrst á tónleikum, þá með sama kór en miklu stærri á þeim tíma: 

Ég hafði verið fengin til að selja miða við innganginnm, nýhætt sjálf í kórnum, og skömmu áður en tónleikarnir hófust komu tvær erlendar konur með bakpoka, „svona lið“ sem borðaði ekki á rándýru veitingastöðunum okkar eða gistu á rándýru hótelunum okkar. Þessar konur fengu áfall yfir miðaverðinu, yfirgáfu kirkjuna daprar í bragði og komu sér fyrir á stoppistöðinni á móti kirkjunni. Öss, og strætó á þriggja tíma fresti, ef hann þá gekk, hugsaði ég, og sem Íslandsmeistari í meðvirkni skottaðist ég út og sagði þeim að koma og njóta, frítt. Mér verður aldrei framar treyst til að selja tónleikamiða. Þær sátu uppi og voru ekki fyrir neinum og nutu vonandi í botn. Kannski komu þær löngu seinna aftur til landsins, orðnar ríkar svo þær bæði borðuðu dýrt og gistu dýrt?

SpeglastTónlistarneyslunni var hvergi nærri lokið því ég sá að frú Hildigunnur stórtónskáld hafði hlustað á stórfenglega upptöku af Mattheusarpassíunni í gær í gegnum digitalconcerthall.com sem býður upp á aðgang fram á mánudag. Það þarf að skrá sig en þetta er alveg frítt í bili. Er að hlusta núna og hlakka til að hlusta aftur á dýrðina Wir setzen uns mit die tränen nieder.

Ég hef náð nokkuð langt í innilegum samræðum við Þjóðverja með að nota þessa setningu sem ég gleymi ekki, ásamt Ich liebe dich. Þeir verða kannski hissa en halda vonandi að ég sé djúpt þenkjandi og vitur. Fyrri setningin tengist grátandi trjám, hin er ástarjátning, hversu djúpt er það? Ég kann því miður ekki þýsku þótt ég hafi sungið einhver ósköp á því máli ... og latínu líka en ég man latínuna aldrei nógu vel til að geta slegið um mig með henni ...

Það minnir mig á gaurinn sem féll fyrir mér á Óðali 1983 (þá venjulegur skemmtistaður) og hélt að ég væri eitthvað, því honum fannst ég tala svo góða íslensku. Svo heimsótti hann mig daginn eftir í kaffi, og sá að ég var bara bláfátæk einstæð móðir í leiguíbúð í Æsufelli, vann á skrifstofu á Hlemmi. Hann drakk kaffið, spjallaði eitthvað og kvaddi svo með því að segja mér upp - þótt þessi nýhafni kunningsskapur hafi ekki borið með sér einn einasta mömmukoss og aldrei ýjað að nokkru öðru en vináttu. Hann hefur sennilega verið kominn með brúðgumaskóna bak við hurð í huganum og síðan orðið fyrir gífurlegum vonbrigðum með þetta hjólhýsapakk, ég var ekki einu sinni í háskólanum eins og hann hélt.

Síðan þetta gerðist hef ég lifað rólegu en innihaldsríku lífi. Ég safna köttum og sniðugum kveikjurum, ferðast um allan heim í gegnum vefmyndavélar og horfi stundum á kettlingamyndbönd í tölvunni á meðan ég hekla jólagjafir, já, ég byrja í kringum páska. En ... furðulegt en satt, það má segja að Óðal hafi í raun aldrei borið sitt barr eftir þetta, ekki einu sinni sem kampavínsklúbbur.

(Afsakið. Myndskreytingar í þessari færslu eru út í hött að mestu leyti.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 8
  • Sl. sólarhring: 359
  • Sl. viku: 2147
  • Frá upphafi: 1451883

Annað

  • Innlit í dag: 7
  • Innlit sl. viku: 1754
  • Gestir í dag: 7
  • IP-tölur í dag: 7

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Grimm
  • Í kringum ljósastaurinn
  • Baldursbrár

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband