Fyrir rangri sök ...

StrætóÉg sendi harðorða gagnrýni og skammir inn á eina fb-síðu sem tengist Strætó bs - eftir að hafa skolfið í frosti og roki í 22 mínútur í vonlausri bið eftir strætisvagninum sem átti að koma kl. 17.29 á leið til Reykjavíkur. Hilda systir var að elda páskalambið og við stráksi búin að hlakka til allan daginn að fá loks almennilegan mat eftir skyr á skyrdag, sorglegan mat á föstudaginn langa og óvenju vondan heimsenda-hamborgara á laugardag.

Ég hringdi í Hildu og lýsti þessari skelfilegu þjónustu hjá Strætó, þeim væri svo drullusama um farþegana ... Ég hafði vart sleppt orðinu þegar mér hugkvæmdist að athuga hvort ég hefði ekki örugglega sett inn Akranes - Mjódd (hvaðan og hvert) á appið þegar ég athugaði klukkan hvað strætó kæmi. Úps, svo var ekki. Í fyrsta sinn sem ég geri þessi mistök. 

Ég reyndi svo mikið að eyða kvörtuninni sem var þegar komin með tvö sorgartjákn, svona samúðarlæk. Það eina sem ég gat var að eyða öllum textanum nema einum staf - annars hékk allt inni. Þannig að á þessari síðu er miðaldra-klaufastatus frá mér með einu J-i, mér til ævarandi háðungar - það er skárra en að hafa strætó fyrir rangri sök.

Svanhildur almáttugur, systir mín, tók til sinna ráða, hún hafði ekki hugmynd þá um mistök stóru systur ... henni bara ofbauð meðferðin á svo miklu, miklu eldri systur sinni (skrifað til að gleðja Hildu, ég er bara 16 mánuðum eldri en hún). Henni hugkvæmdist þó ekki að kaupa Strætó bs og reka stjórnina og stjórana, eins og ég hefði gert, og senda eftir mér myndarlegan, ógiftan, bólusettan bílstjóra sem kann að búa til sítrónufrómas, á nýjasta og flottasta vagni flotans. Hún blikkaði frekar son sinn, heilagan Davíð, sem ók í loftinu (90 km/klst) og sótti háaldraða frænku sína sem braut af sér klakann á biðstöðinni við góðu fréttirnir, hljóp heim og var nánast alveg þiðin þegar frændi ók í hlað. Það var hressandi að hlusta á Muse á leiðinni eftir allt heilaga-óperudraslið, eins og Hilda kallar það. En mikið urðum við Davíð hissa þegar fíni fákurinn bauð okkur að aka á 130 km/klst í Ártúnsbrekkunni (bíllinn sýnir hámarkshraða alls staðar) og svo aftur nokkru síðar á Breiðholtsbraut. Lögreglukórinn í fjáröflun. Dæmigert.

Lambalærið, páskagjöf frá vinnunni minni, eldað af systur minni, var hrikalega gott (takk, elsku Birtíngur) og snætt í frábærum félagsskap páskakúlufólksins míns.

Þorpið í bakg.Eftir matinn hlömmuðum við okkur í sófann og horfðum á Sjónvarp Símans, á nýjan íslenskan framhaldsþátt um þrjár vinkonur sem búa yfir erfiðu leyndarmáli, lofar góðu. Síðan nýja íslenska mynd, Þorpið í bakgarðinum. Dásamleg, mannbætandi, svona hlýtt í hjartað-mynd. Mun koma Hveragerði enn betur á kortið - ef ég væri ekki svona hrædd við sólskin, mikinn hita, gróður, kóngulær og svona, hefði ég mögulega íhugað að flytja þangað en sjóbarinn, sæmilega pöddusnauður Skaginn heillaði enn meira. Takk, Síminn, fyrir frábæra dagskrá. Hún systir mín er á leiðinni að færa sig yfir mjög fljótlega.

Við rétt sluppum í Mjódd í síðasta strætó heim kl. 23. Það er ennþá ilmandi nýjabíllykt í nýju vögnunum - en ég heyrði skömmu eftir að þeir komu að þeir væru ekki nógu góðir í snjó og roki, of léttir að framan og hreinlega of stórir.

Við heimkomu var „heilagt-óperudrasl“ sett í gang enn og aftur, og á meðan ég skrifaði bloggið hljómaði Sálumessa Mozarts (ég er samt ekki að fara að hrökkva upp af). Heilagleikinn var ekki í neinum tengslum við páskana, ég tek tarnir í klassík og á morgun held ég að það hljómi brjálað rokk í himnaríki - eða kannski ljúfar ballöður. En það verður alla vega Dimma, Andvaka í RÚV-útgáfunni (YouTube) sem ég þarf að hlusta á reglulega.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 196
  • Sl. sólarhring: 281
  • Sl. viku: 2155
  • Frá upphafi: 1452355

Annað

  • Innlit í dag: 173
  • Innlit sl. viku: 1746
  • Gestir í dag: 166
  • IP-tölur í dag: 165

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • baby reindeer
  • Ove Otto
  • Gísli gerir Mart-einn

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband