Kaffi og ástarsorgartónlist

Eftir að hafa sagt kaffifarir mínar ekki sléttar í lestinni frá Belfast, hafa mér borist margar ábendingar (ég er áhrifavaldur, hvar er skyrið, hvar voru páskaeggin?) og sú allra, allra átakanlegasta er frá Norrænu, ferjunni sem gengur á milli Íslands, Færeyja og Danmerkur.

Það ætti svo sem ekkert að koma á óvart. Mörgum er svo ótrúlega mikið sama um kaffi. Hafa ekki allir farið í fermingarveislu, erfidrykkju, sjötugsafmæli þar sem kökurnar eru stórfenglegar - allt það dýrasta og besta valið, en svo eitthvað uppsópsduft notað til að drekka með kræsingunum, löngu útrunnið kaffi sem safnaðarheimilið keypti jafnvel gám af til að spara 400 krónur og þurfa ekki að vera sífellt að kaupa.

Ég hef oft lent í því og vel því alltaf gos til að drekka í slíkum samkundum. Eitt sinn keypti ég gott kaffi í brúðkaupsveislu hjá vinkonu og það var svo ilmríkt og svolítið dekkra en það sem safnaðarheimiliskonurnar voru vanar að þær settu helmingi minna magn af kaffiduftinu en vanalega ... Þetta brúna vatn hafði reyndar ágætan keim en það hefði þurft kaffidómara til að skera úr um hvort þetta væri kaffi eða eitthvað annað. 

Í erfidrykkjunni hans pabba árið 2001 hafði ég keypt dúndurkaffi með kræsingunum en áttaði mig ekki alveg á því hvað það vakti sterkar tilfinningar fyrr en ég gekk á milli borða til að heilsa upp á frænkurnar að norðan. Þær teygðu út hendurnar og gripu þéttingsfast í mig og sögðu EKKI: „Ég samhryggist þér með hann pabba þinn, Guðríður mín,“ heldur hvæstu þær nötrandi: „Hvaða kaffi er þetta eiginlega?“ Ég þurfti að skrifa niður nafnið á því og hvar ég hefði fengið það (Espressó Krakatá frá Kaffitári).

Ég man þegar elsku Hjalti föðurbróðir minn, kom ásamt Jóu sinni í eftirafmælisveislu til mín, sennilega daginn eftir, eða 13. ágúst, og sagði það minna mikið á kaffið sem Guðríður amma brenndi og malaði úti í Flatey á Skjálfanda áratugum fyrr - bragðmikið og gott. Svo kom brennt og malað kaffi í kaupfélagið með þeim afleiðingum sem flestir þekkja ...

Ég kaupi reyndar alltaf Espresso Roma (frá Te og kaffi) núna því það hefur komið best út í baunavélinni minni, ég hef prófað margar tegundir. Býst þó við að þegar ég er búin að læra almennilega á fínu græjurnar að ég noti Húsblöndu Kaffitárs - það er notað í uppáhaldslatte-inum mínum en Húsblandan fæst því miður ekki á Akranesi - ekki enn, hún Erna, kaupmaður í Einarsbúð, gerir allt fyrir mig ... best að prófa.

 

LAGIÐ;„Einmana reika um framandi og skítuga borg,“ syngur karl í ástarsorg í meðfylgjandi lagi, en ekki villtur af því að hann er karlmaður og reikar eftir korti,(sjá færslu gærdagsins).

Fór að hugsa um þetta flotta ástarsorgarlag í gær og fann það, hélt að það héti: Aleinn í ókunnu landi. Mánar voru æði, man eftir að hafa heyrt þá taka Jethro Tull-lög á tónleikum í gamla daga.

Enn finn ég ekki Upplyfingar-lag Hauks Ingibergssonar, Kveðjustund í upphaflegu útsetningunni, af samnefndri plötu - það hlýtur að koma á YouTube einhvern daginn en önnur manneskja söng það þegar það kom út á geisladiski. Ég er sem sagt ekki að meina lagið hans Fúsa frænda: „Ég elska þig svo mikið að ég gæti næstum dáiðô, heldur: „Ég hef aldrei áður elskað nokkurn eins og þig, ég hef aldrei áður upplifað svona mikla sælu, svona mikla ást-lagið. Hver sá sem getur reddað mér þessu lagi verður eftirleiðis í dýlingatölu hjá mér svo það er til mikils að vinna. P.s. Ég er ekki í ástarsorg.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 9
  • Sl. sólarhring: 313
  • Sl. viku: 1701
  • Frá upphafi: 1453211

Annað

  • Innlit í dag: 7
  • Innlit sl. viku: 1383
  • Gestir í dag: 7
  • IP-tölur í dag: 7

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Tengdamömmur
  • Kamilla, Inga, Gerry
  • Frændfólk mitt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband