Stórmerkilegur koss

Gos eða Uriah HeepHef séð ótrúlega fallegar myndir frá gosstöðvunum og aðrar ansi hreint sjokkerandi. Ég viðurkenni fúslega ótta minn um fólkið sem virðist ekki bera nokkra virðingu fyrir náttúruöflunum eða er ekki nógu spennt fyrir því að halda lífi.

Nú eru aðvaranir yfirvalda orðnar háværari, enda stækkar gosið og myndirnar verða svakalegri (af glannaskap sumra). Veit af vinahjónum sem fara sennilega að gosstöðvum á morgun og ætla rétt að vona að þau fari sér ekki að voða. Mig langar í lítinn hraunmola (ég á ösku síðan Eyjafjallajökull var með læti, fékk litla dós af ösku í afmælisgjöf um árið) en langar samt ekki að skoða eldgos í návígi. Mögulega væri hægt að segja að ég væri gömul, ég hef heyrt það síðan ég var 25 ára og nennti ekki á djammið. Voðalega ertu eitthvað orðin gömul, Gurrí, svo það virkar ekki.

Þessi mynd af fólki í kringum hraun (Brian Emfinger, photojournalist) færði mig beinustu leið á Hótel Ísland fyrir mörgum árum (þegar hljómsveitin Uriah Heep lék á tvennum tónleikum). Hraunið er sviðið, glannalega fólkið tónleikagestirnir. Ég fór á þá fyrri og fámennari sem fóru fram á afmælisdegi Hitlers og Gyðu vinkonu, 20. apríl. Þetta var hljómsveit unglingsáranna og ég hefði sungið hástöfum með hefði ég kunnað texta, ég hlusta yfirleitt ekki á texta, tek bara inn tónana svo það er eins og að fleygja perlum fyrir svín að yrkja mergjaða texta við lög þegar kemur að fólki eins og mér. Sennilega fannst mér rapp allaf svo flott, þegar ég lærði loks að meta það, þótt það kæmi yfirleitt eitthvað dónalegt fram í textum og siðprúðar konur ættu að hneykslast en ég sönglaði bara fokkífokkí með viðlaginu, án þess að pæla nokkuð í merkingunni.

Hótel ÍslandÞegar tónleikunum lauk var ég komin niður, stóð við sviðið með nokkrum öðrum, hópi sem hafði safnast umhverfis það. Aðalgaurinn (ég veit ekki hvað hann heitir, stofnfélagi?) gekk meðfram enda sviðsins og tók í veifandi hendurnar á grúppíunum af báðum kynjum. Mér þótti þetta frekar hallærislegt og klappaði bara. Ég var síðust í röðinni þarna og Uriah Heep-gaurinn teygði óvænt út aðra höndina sem ég kunni ekki við annað en að grípa í, neonbleika peysan sem ég var í skein svo skært að hann gat ekki annað en séð mig ... togaði mig að sér og kyssti mig ... á kinnina. Þetta var ein af stærri stundum lífs míns, áttaði ég mig á síðar, þótt ég viti ekki almennilega hvað maðurinn hét (en hann var í Uriah Heep og með góðan smekk á kvenfólki), því ég hitti Hrefnu, gömlu barnapíuna mína, við útganginn nokkru seinna og hún sagði yfirkomin af spenningi fyrir mína hönd: „Ætlarðu nokkurn tímann að þvo þennan koss af þér?“

Ég hélt nú ekki og hef staðið við það þótt hausinn á mér halli sífellt meira til hliðar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 17
  • Sl. sólarhring: 17
  • Sl. viku: 422
  • Frá upphafi: 1445649

Annað

  • Innlit í dag: 16
  • Innlit sl. viku: 368
  • Gestir í dag: 14
  • IP-tölur í dag: 14

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • Himnaríki 6. mars 2023
  • Himnaríki 21. mars 2024
  • Húsó

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband