Heppin

EldgosVinkona mín, tveimur árum eldri, hefur þegar farið tvisvar að eldstöðvunum og ekki blásið úr nös. Hetja og fyrirmynd ... samt er ég nú að safna fyrir þyrluferð þangað. Og ekki nóg með dugnaðinn, heldur greip hún með sér hraunmola til að færa mér og nú á ég bæði ösku úr Æjafjagslsajóglúgglugl og þessu gosi sem er ekki komið með fast nafn, eða hvað?

Ég átti von á vinkonu í heimsókn í dag, alla leið frá Hafnarfirði og hafði undir hádegi bakað eitt stykki súkkulaðiköku. Svo heyrði ég ekkert frá henni fyrr en dyrabjallan hringdi kl. hálffimm (ég vinn til fjögur) og þá var hún bara mætt með súkkulaðiköku úr Mosfellsbakaríi og hálft sjúklega gott birkisúrdeigsbrauð.

Bakstur minn verður bara frystur, fínt að eiga kökuna fyrir gesti, ég á orðið nokkra bólusetta (háaldraða) vini. Vinkonan sem kom í dag fór til dæmis í bólusetningu í Laugardalshöll í gær, var ein af fólkinu sem kallað var í með engum fyrirvara vegna þess að of mikið kom af Pfizer-efninu, hún er þó bara 54-módel, en MIKLU eldri en ég sem er 58-módel, en engin klíka í gangi samt varðandi bólusetningar.

„Það var eins og að ganga inn í Sigtún að koma inn í Laugardalshöllina,“ sagði hún, enda þekkti hún ansi mörg andlit þar úr djamminu síðan í gamla daga. Ég hlakka svo til að hitta mitt Skagafólk þegar kemur að okkur, enda var síðasta árgangsmót haldið árið 2017. Það var verið að bólusetja 49-módel og 50-módel á Akranesi í dag, með heitasta bóluefninu, Astra Zeniga.

Bólusetning á hlaðinuÉg er svoooo heppin, bólusett er á hlaðinu heima hjá mér, sjá mynd sem ég tók út um eldhúsgluggann einmitt í dag. Þrjár mínútur max að skokka þangað. Ég hálfkveið því að þurfa að ganga alla leið út á horn á Skólabraut og Vesturgötu þar sem fyrst var bólusett, ógeðslega langt í burtu fyrir konu sem hatar að ganga. Strætó innanbæjar tekur langan hvíldartíma fyrir hádegi sem getur verið vont fyrir bíllausar síðmiðaldra konur á leið í bólusetningu.

Að vísu er komin þessi fína ísbúð síðan sá kvíði gerði fyrst vart við sig og miklu girnilegra að leggja á sig gönguferð ef maður getur verðlaunað sig með ís á eftir. Ég er ekki hætt að borða sykur en forðast hann samt og sykurlausi ísinn og sykurlausa sósan eru hreint afbragð þarna í Frystihúsinu.

Hvaða góðu fréttir næst? Brjóstamyndataka aftur á Skagann og bjarga nokkrum kvenlífum með því? Það skyldi þó ekki vera. Konur i Borgarnesi þurfa sem betur fer ekki að fara í bæinn eins og vér kellur á Akranesi svo það er einhver von.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 74
  • Sl. sólarhring: 286
  • Sl. viku: 2033
  • Frá upphafi: 1452233

Annað

  • Innlit í dag: 68
  • Innlit sl. viku: 1641
  • Gestir í dag: 68
  • IP-tölur í dag: 68

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • baby reindeer
  • Ove Otto
  • Gísli gerir Mart-einn

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband