Væri ekki sniðugra ...

ÞungarokkÞvílík helgi, þvílík vika ... svo er sagt að fólk hafi ekkert að gera eftir einhvern ákveðinn aldur sem ég er löngu komin yfir. En það grín. Ég bara hlæ þegar mér býðst meiri vinna. 

Eftir þessa helgi er ég oggulítið opnari fyrir sætum karli sem hefur frekar lítið að gera og kann að elda góðan og hollan mat án þess að troða hnetum, möndlum, döðlum og rúsínum í hann. Nú er þetta komið út í kosmosið. Eins og áður áskil ég mér rétt til að taka öllum eða hafna öllum. Já, og hann þarf að fíla þungarokk og ...ja,  allt nema svaðajazz og svaðakántrí. Verður ekki útskýrt frekar.

Tók mér hlé á laugardegi til þess að heimsækja mömmu, við Hilda keyptum sjónvarp í herbergið hennar og sitt af hverju sætt í Rúmfó til að skreyta með. Á báðum stöðum upplifðum við systur að væri talað niður til okkar. Mjög sjaldgæft annars. Strákurinn í Rúmfó sagði yfirlætislega: Væri ekki sniðugra að kaupa sjónvarpið fyrst og kíkja svo á sjónvarpsskenk eða borð?“ Hann vissi nú samt að sjónvarpið yrði hengt upp á vegg ... og fyrri afgreiðslumaðurinn í Elkó var nánast eins og sagði, ef ég man rétt: „Væri ekki sniðugra að kaupa sjónvarpsskenkinn fyrst?“ Vantaði bara VINAN til að við tækjum spítalavink á hann. Seinni afgreiðslumaðurinn í Elkó var svo mikið yndi að hann bætti fyrir ömurlegheitin hjá báðum hinum. Stundum vildi ég óska þess að þjórfé viðgengist hér á landi.

Eða kannski ekki.

Eða jú, hafa þjórfé, takk, ég gerði örlítil mistök þegar ég sótti um endurnýjun á lyfseðli fyrir aðra manneskju og talaði um frumlyfið í stað samheitalyfsins og það hafði ákveðinn rugling í för með sér. Starfsfólk á sjúkrahúsinu hér sem og fólkið í Apóteki Vesturlands tók höndum saman og bjargaði andliti mínu, mannorði, andlegri vellíðan og hvaðeina, fólk sem kemst örugglega illa í peysuna á morgnana fyrir vængjum, og hana nú! Það er svo gott að búa hérna á Akranesi. Vantar í raun bara Rúmfatalagerinn (eða IKEA) og KFC (fyrir fóstursoninn, eins og ég hef oft sagt, til að vera algjörlega sjálfbær.   

Öryggisbelti um hálsinnÁ heimleiðinni með átta-strætó (kl. 20 frá Mjódd) var ég að kyrkjast af bílbeltinu - en hönnun á bílbeltum strætisvagna miðast við myndarfólk í kringum 1,80 á hæð. Ég með mína fyrirsætufætur og þar af leiðandi styttri búk er með efri hluta beltisins á hálsinum (sjá átakanlega ljósmynd). Beltin passa mögulega vel fyrir lægra fólk ef það hefur stutta fætur og lengri búk.

Í flestum einkabílum er takki svo maður getur hækkað og lækkað bílbeltið en ekki strætó. Hér með er þessu komið til strætóbílbeltahönnuða framtíðarinnar.

Fyrst ég er byrjuð að kenna hönnuðum (sem þolandi hönnunar) væri snjallt að breyta segulómunarvélunum svo fólk þurfi aldrei að fara með höfuðið á undan inn í þær. Þarna eru tveir sentimetrar frá nefi og upp í loft og algjör hetjudáð að lifa af klukkutímann sem þetta tekur.

Ég tala af reynslu, fór í svona vél fyrir mörgum árum vegna bakvesenis og kveið svo innilega fyrir því að vera dregin í gegnum þessa þröngu holu á útleiðinni, mögulega ekki lífs ... fannst ég hafa verið grafin lifandi og allan þennan klukkutíma reyndi ég að klemma aftur augun og segja sjálfri mér aftur og aftur að þetta væri myndataka, ég hefði ekki verið grafin lifandi.

Geislafræðingurinn sagði mér eftir á þegar ég hrósaði happi yfir að hafa sloppið lifandi, að maður um fimmtugt hefði fengið taugaáfall deginum áður og þurft að fá róandi til að hægt væri að klára myndatökuna.

Ég slapp ekki alveg heil frá þessu, heldur upplifði nokkra innilokunarkennd um hríð og fannst til dæmis óþægilegt að fara skömmu síðar í gegnum Vestfjarðagöngin, í alvöru - en svo tók kvenmennskan yfir og ég hristi þetta af mér. Síðan eru liðin meira en 20 ár og þegar ég gúglaði segulómun sá ég margar af myndunum sem komu upp sýna þolendur með fæturna á undan inn í vélina, jesssss! 

P.s. Bold: Hope veit ekki enn að hún er móðir barnsins sem hún laðast svo að - og Steffí, keppinautur hennar í ástum, ættleiddi. Sá bara um það bil þrjár sekúndur af þættinum.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 9
  • Sl. sólarhring: 359
  • Sl. viku: 2148
  • Frá upphafi: 1451884

Annað

  • Innlit í dag: 8
  • Innlit sl. viku: 1755
  • Gestir í dag: 8
  • IP-tölur í dag: 8

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Grimm
  • Í kringum ljósastaurinn
  • Baldursbrár

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband