Mögnuð sending ...

AðalstöðinÉg fékk dásamlega sendingu í dag frá gömlum samstarfsmanni mínum á Aðalstöðinni. Hann tók upp myndbrot af okkur sem unnum þar og við Einar, sonur minn, sluppum ekki - en Einar var tæknimaður hjá mér frá 15 til 19 ára. Ég kann ekki að setja inn myndbönd hér, alveg stórfurðulegt að ég geti yfirhöfuð bloggað ... en mér tókst nú samt í annarri tilraun að skella myndbandinu inn á Facebook-síðuna mína, eftir að Kári sendi það aftur, í tölvupósti.

Þetta er eina myndbandið sem ég veit um af honum, ég á myndband í símanum sem ég tók yfir úfið hafið þar sem  sjónvarpsfréttir hljóma og hann í símanum, rödd hans heyrist í fjarlægð, það er allt og sumt. Ég er afar þakklát Kára fyrir að hafa sent mér þennan demant. Kári þarf ekki að lesa lengra.

- - - - - 

Eitt sinn fórum við nokkur af Aðalstöðinni saman út að borða í hádeginu, sennilega á Sólon, ekki viss samt. Þar sagði ég fólkinu að rammskyggn föðursystir mín hefði sagt mér í erfidrykkju ömmu Guðríðar (þangað sem ég mætti með manninn sem átti eftir að giftast, eignast barn með og skilja við) að tilvonandi maðurinn minn yrði ljóshærður og bæri ættarnafn. Þessi sem sat hinum megin við mig var rauðhærður og með -son í eftirnafninu svo þetta var svolítið ruglingslegt og hefur litað líf mitt alla tíð. Sama frænka hafði skrifað mömmu bréf 1971 þegar við vorum nýflutt til Reykjavíkur, og sagði henni að hún myndi kynnast manni sem hefði S sem fyrsta staf í nafni sínu. Bíllinn hans einnig ... Siggi, seinni maður mömmu, var alla tíð mikill Saab-maður. En aftur að samtalinu á Sólon:

Kári (svarthærður): Hei, ég er með ættarnafn, tölum saman þegar ég verð orðinn gráhærður ef allt bregst.

Gurrí: Hahaha, ókei. Góð hugmynd.

Miðað við þetta loforð/bónorð Kára og að ég játaðist honum finnst mér eftirfarandi svolítið grunsamlegt:

a) Kári hefur ekki birt mynd af sér á Facebook í mörg ár.

b) Kári er fluttur úr landi.

TvíburarÞegar ég var 11 ára elti ég Mínervu ömmu sem þá var nýdáin, inn í einlyft hús á Akranesi. Ég týndi henni fljótlega en hóf að ganga upp stigana (þetta var draumur) þar til ég komst alla leið til himnaríkis og fór að spjalla við húsráðanda. Ég fékk að bera upp þrjár spurningar: 

1. Hvað verð ég gömul þegar ég dey? „38 ára,“ var svarið, mér létti, ég yrði búin að lifa mitt fegursta, hugsaði ég.

2. Hvað heitir maðurinn sem ég giftist? „Filippus Angantýr.“

3. Eignast ég tvíbura? „Já.“ 

- - - - - - - 

Það er enginn Filippus Angantýr í þjóðskrá. Ég gáði árið 1985 þegar ég hafði vinnuaðgang að mörgum bókum sem innihéldu alla þjóðina í „starwars-röð“. Spurning um Philip MacIntyre?

Besta lausnin og sennilega sú eina er að Kári bæti við sig tveimur nöfnum og sætti sig við ómegð í ellinni þegar við hlöðum niður tvíburunum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 27
  • Sl. sólarhring: 290
  • Sl. viku: 1986
  • Frá upphafi: 1452186

Annað

  • Innlit í dag: 26
  • Innlit sl. viku: 1599
  • Gestir í dag: 26
  • IP-tölur í dag: 26

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • baby reindeer
  • Ove Otto
  • Gísli gerir Mart-einn

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband