Ekki leti - bara vítamínskortur

FastiÉg var vöknuð fyrir allar aldir í morgun, klukkan var ennþá 9-eitthvað, fékk mér kaffi og fór í símann til að athuga hverju ég missti af með því að fara svona snemma að sofa í gær. Í leitinni að því rakst ég á myndband sem gaf í skyn að ég gæti öðlast meiri orku með einhverri stuttri rútínu á kvöldin og ég giskaði í huganum á iljanudd, gæti alveg hugsað mér að ýta á vissan punkt hvert kvöld til að öðlast eilífan kraft. Ég ýtti á play, því miður!

 

Eftir korter af einhverju sem átti að æsa upp í manni spenning, tíma sem ég fæ aldrei til baka og hefði átt að nota til að brjóta saman þvott, kom í ljós að þetta tengdist megrun.

Það var alveg hægt að flissa yfir dramanu, átakanlegum sögum af eiginkonu hans sem losnaði ekki við spikið, sama hvað hún reyndi. Læknir ráðlagði henni að borða minna og hreyfa sig meira, þvílík ósvífni. Þegar konan, orðin vonlaus og döpur, ákvað einn daginn að prófa að skokka fékk hún vægt hjartaáfall sem er vissulega ekki fyndið en ég held reyndar að þetta hafi verið uppspurni til að selja eitthvað. Ég hef einu sinni áður látið blekkjast af svona myndbandi og það tók mig eflaust 20 mínútur af lífi mínu að skilja að það var verið að selja bók - ekki um megrun þó. Hélt að ég væri orðin ögn veraldarvanari en þetta. Svo hef ég ágæta orku eftir að ég fór að taka vítamín reglulega.

 

Já, og drekka Fasta, berjasafa frá Íslenskri hollustu, sjá mynd hér ofar, sem ég drekk vænan sopa af á morgnana - af því að ég borða ekki ber (bláber eru viðbjóður) og fer á mis við einhver vítamín vegna þess. Þessi drykkur hefur haft þær furðulegu aukaverkanir að tennur mínar skemmast ekki og ég steinhætti að naga neglurnar eftir 50 ára nag niður í kviku. Nú klippi ég þær reglulega, pirruð yfir vexti þeirra og á eitthvað um 30 tegundir af naglalakki, mér til mikillar gleði. Og orkan sem kom yfir mig um það bil þremur vikum eftir að ég fór að drekka safann varð til þess að Búkolla auglýsti bókadaga. Ég fór nefnilega að grisja og var allt í einu komin með þrjátíu kassa af bókum til að gefa Búkollu sem þá var alvörunytjamarkaður og tók við öllu nema auðvitað óseljanlegu rusli.

- - - - -  - - - - 

Það er ekki til leti - bara vítamínskortur!!! Samt, það er allt of erfitt að finna Fasta. Hann fæst í Melabúðinni og í einhverjum hollustubúðum en er því miður hættur að fást á föstudögum í Mjóddinni, með öllum sultunum og hinum söfunum. Ég treysti áður alltaf á að geta keypt hann þar - svo bara hættu þau þar. Elskan hún Karen í Kaju hér á Akranesi, fór að selja hann fyrir mín orð. Auðvitað ætti Íslensk hollusta að verðlauna mig fyrir hvað ég hef auglýst Fasta vel í gegnum undanfarin ár - en ég er svo sem orðin vön því að vera algjörlega vanmetinn áhrifavaldur.

 

FjólukremAnnað sem ég finn mikinn mun á er kremið hennar Þuríar vinkonu, eða ég fann mikinn mun þegar ég notaði það ekki - nánast allt síðasta ár, Fjólu-dag- og næturkrem (áður Móa), grænt, hollt, má borða það ... Við Þurí hittumst ekkert í fyrra, aðallega vegna COVID, og ég keypti mér eitthvað fokdýrt fegrunarsmyrsl í snyrtivörubúð og fór smám saman að sætta mig við að ég væri að eldast, hrukkurnar fjölguðu sér án nokkurrar miskunnar. Samt hætti ég að reykja í apríl ... það var ekki fyrr en um síðustu jól að ég fékk aftur kremið hennar og þá horfði ég á kraftaverkið gerast, eða fjandans hrukkurnar hörfa hratt og vel, ekki kannski hverfa, en næstum því.

 

Ég held að Icelandair selji öll íslensk hollustu-græn-krem í vélum sínum nema frá Fjólu sem vekur furðu mína - líka furðu Irene, konunnar hans Haraldar frænda í Ameríku, hún er háð þessu kremi eins og ég, og birgir sig alltaf upp af því í hverri Íslandsferð. Og Fjólu-græðikremið sem er annað, það er notað á Landspítalanum, m.a. á brunadeild, og er einstakt. Eitt sinn sólbrann ég illa í andliti, þá nýkomin heim og nýbúin að hreinsa af mér farða vegna myndatöku hjá Vikunni, og setti eitthvað feitt krem á andlitið sem ég hélt að væri hið eina rétta gegn farða, settist síðan út í sólina í korter og uppskar annars stigs bruna. Ég spurði lækninn hvort ég mætti nota græðikremið frá Fjólu, hún hringdi til öryggis á Landspítalann, fékk góð meðmæli þar og samþykkti, sagðist svo í lokin vera ansi ánægð með hversu vel þetta greri. Það myndaðist ný og falleg húð undir og hin flagnaði bara af. Besta en sársaukafyllsta húðmeðferð sem ég hef farið í ...

- - - -  -  - - - - - - 

Já, ég var að segja frá þessu vídjói sem hafði af mér dýrmætan tíma í morgun. Ég gafst upp og hætti að horfa þegar eiginmaðurinn áhyggjufulli var kominn niður í kapellu sjúkrahússins og grét þar og bað guð um að gera konu sína granna svo hún fengi ekki framar hjartaáfall. Í kapellunni hitti hann góða konu sem hann hellti úr sinni andlegu ruslatunnu yfir en góða konan tjáði honum að eitt sinn, eiginlega fyrir stuttu, hefði hún verið mjög feit. Hann trúði því varla, þessi kynþokkafulla kona, almáttugur ... já, þarna gafst ég upp, þrátt fyrir að kannski væru bara tveir klukkutímar eftir, eða fimm mínútur. Það var hægt að setja pásu á en ekki sjá lengdina á myndbandinu eða flýta því á nokkurn hátt. Maður þarf ekki martröð ef til eru svona myndbönd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 16
  • Sl. sólarhring: 19
  • Sl. viku: 421
  • Frá upphafi: 1445648

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 367
  • Gestir í dag: 13
  • IP-tölur í dag: 13

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • Himnaríki 6. mars 2023
  • Himnaríki 21. mars 2024
  • Húsó

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband