Stóri brandarinn - eina tilbreytingin

Ungur Stephen KingUm daginn heyrði ég auglýsingu í útvarpinu: Kína túra, eða Kínatúra, jafnvel Kína-túra og skildi ekki hvað verið var að auglýsa. Svo áttaði ég mig ... Key Natura sem er hollustu-eitthvað, held ég - en það skiptir svakalega miklu máli hvernig auglýsingar eru lesnar. 

Einu sinni fékk nokkuð vinsæl hljómsveit hér á landi ekki að auglýsa tónleika (ball?), RÚV harðneitaði að lesa hana upp og Mogginn að birta hana - af því að nafn hljómsveitarinnar var svo óviðeigandi, svo dónalegt. Jú, þetta var hljómsveitin Sjálfsfróun. Nú þurfti að leggja heilann í bleyti, og loks kom einhver með lausnina ... og það var hljómsveitin Handriðið sem spilaði einhvers staðar eða lék fyrir dansi. Dásamlegt.

Stóri brandari æsku minnar var þegar þulurinn í útvarpinu mismælti sig, sagði óvart: Foreldrakjöt, foreldrakjöt i heilum og hálfum skrokkum ... Hugsa sér hvað lífið var leiðinlegt, alla vega tilbreytingarlaust, þegar þetta var það fyndnasta af öllu fyndnu. Jú, það var sérlega gaman að heyra nafnið sitt í útvarpinu þegar ferðir flugvélarinnar Guðríðar Þorbjarnardóttur komust í fréttir

Ekki skrítið að maður hafi flýtt sér að læra að lesa til að upplifa bara eitthvað. Bækur voru samt margar svo hræðilega fullar af boðskap að það var ekki fyndið. Fátækt fólk var gott, ríkt fólk var flest mjög vont og var sko alls ekki hamingjusamt þótt það ætti fyrir reikningunum sínum, þá væri nú betra að vera fátækur ... og aðeins guðhrætt fólk var gott fólk. Hreint hús ... það voru auðæfi fátæka fólksins og ég var næstum fallin fyrir því, sátt við að vera fátæk í hreinu húsi, hjarta mitt var að minnsta kosti hreint ... en svo kom peningagræðgin upp í mér þegar ég var orðin fullorðin og kaus að vera ekki fátæk og sæl, heldur rík og sæl, eða sæmilega rík og sæl, en það er enn í framkvæmd, áratugum seinna. Samt, þegar ég horfi á Bold and the Beautiful og sé hvað ríka fólkið er óhamingjusamt ... 

 

Það var sterk innræting í mörgum af þessum bókum; Leyndarmál Winthers gamla - Blómakarfan - Pollýanna ... og alls ekki slæmt að kenna börnum að vera heiðarleg og góð við menn og dýr, en að fátækir ættu að sætta sig við molana sem féllu af borðum þeirra ríku og svo framvegis hefur aldrei verið mér að skapi. Kannski er ég bara bölvaður kommi.

Á árabát í KaríbahafiÉg man hvað ég þráði tilbreytingu, horfði oft út um ganggluggann í skólanum, þar sem sást til norðurs, að Snæfellsjökli, og dreymdi um árabát svo ég gæti róið út í buskann, það var allt betra en þetta. (Draumurinn rættist löngu síðar, sjá mynd, ég komin í bát og meira að segja með bæði kaffi og bók). Samt var ég alls ekki þunglynd, fannst bara að lífið hlyti að bjóða upp á eitthvað meira en þetta. Stappaði niður fótum þegar mamma sagði að lífið væri ekki dans á rósum, og sagði að maður ætti að reyna að láta það vera þannig, rósum án þyrna samt. Og hálfri öld síðar, í öllu framboðinu af tilbreytingu, er ég hætt að nenna að horfa á sjónvarp, nema frá gosstöðvunum og fréttir - en ég hlusta enn mikið á tónlist og les líka mjög mikið. Svo mikið að ég hef frestað ellifjarsýni minni um 20 ár, les mikið án gleraugna sem heldur víst augunum í þjálfun.

Það allra mest spennandi í skólanum var þegar maður fékk að fara í ljós, mátti fara úr miðjum tíma jafnvel. Ég reyndi að vera aumingjaleg á svipinn, eins veikindaleg og ég gat, þegar Jóna skólahjúkka skoðaði krakkana í bekknum og valdi úr þá sem þurftu extra D-vítamín. Þótt kirkjan haldi því fram að það sé eldgamall siður að skólabörn fari í kirkju fyrir jól er það ekki rétt, ég er ekki eldgömul og ég fékk aldrei að fara neitt (ekki heldur sonur minn, f. 1980). Ég hefði orðið hrikalega ánægð með að einn dagur yrði brotinn upp og við fengjum að fara í kirkju, bara eitthvað út úr skólanum. Útrásina fyrir að kynnast trú fékk ég þegar ég tölti mér stundum á samkomur hjá KFUK, hjá Kristrúnu, en það var mjög öflugt trúarlíf í gangi á Akranesi, fyrir utan skólana.

Undir lokin á skólagöngu minni í Barnaskóla Akraness bryddaði elskan hann Rögnvaldur sem kenndi okkur síðustu tvö árin, upp á byltingarkenndri kennsluaðferð í landafræði. Við nemendur hans (um 30 alls), 3-4 í hóp, fengum úthlutað einu landi, áttum að teikna það upp á stórt spjald og lita það, standa síðan fyrir máli okkar, með kennaraprik í hönd, sýna t.d. höfuðborgina og allt það merkasta við landið - og landafræði breyttist í uppáhaldsfagið um tíma. Hjálmar teiknikennari var reyndar annar svona frábær kennarinn, eitt sinn langaði mig að teikna húsin sem sáust út um gluggann á stofunni og fékk leyfi til þess, slíkt var nánast algjört einsdæmi. Maður átti að sitja kyrr. Myndin varð ógurlega flott en týndist því miður í flutningunum til Reykjavíkur ... eða „týndist“.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Að sjálfsögðu eiga Mörlendingar að sakna þeirra tíma þegar þeir drukku frá sér ráð og rænu á föstudags- og laugardagskvöldum en álitu þá drykkjusjúklinga sem fengu sér rauðvínsglas á miðvikudagskvöldi. cool

Í góðu lagi var að menn keyptu brennivín en þeir máttu alls ekki kaupa bjór, unglingar voru almennt sauðdrukknir á útihátíðum og slagsmál á sveitaböllum þóttu sjálfsagður hlutur.

Hommar voru barðir sundur og saman og flúðu land.

Gert var grín að andlega veiku fólki, Ómar Ragnarsson leitaði uppi alls kyns furðufugla, enn skrítnari en hann sjálfur, sýndi þá í sjónvarpinu og hlegið var að þeim.

Og barnaníðingurinn Bjartur í Sumarhúsum var aðalhetjan.

Mörlendingar sváfu hjá ættingjum sínum og skyldleikaræktin því í heiðri höfð en útlendingar sáust varla á landsbyggðinni, hvað þá svart fólk. cool

Helga Rafnsdóttir á um 99 þúsund afkomendur

Og tengdamóðir mín fyrrverandi á Húsavík spurði þegar hún átti þar von á heimsókn svartrar söngkonu:

"Borða svertingjar pönnukökur?" cool

frétt ársins

Þorsteinn Briem, 4.5.2021 kl. 10:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring: 18
  • Sl. viku: 186
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 172
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • Himnaríki 6. mars 2023
  • Himnaríki 21. mars 2024
  • Húsó

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband