Leyndarmál afhjúpað

Peruterta a la AlbertKlukkan var enn sjö eitthvað í morgun þegar ég var komin með kaffi í bolla, búin að búa um, setja í þvottavél ... nú er aldurinn aldeilis farinn að láta vita af sér, magnað, frábært. Það er frekar fúlt að vera alveg að verða kona á mínum aldri (Hæ, Krabbameinsfélag) og þurfa samt að sofa til tíu hið minnsta. Loksins eru kostir hækkandi aldurs farnir að tikka inn. Kannski sofnaði ég frekar snemma í gær, en samt! Kannski er ég að verða búin að bæta mér það upp að hafa þurft að vakna um og fyrir klukkan sex árum saman til að ná fyrsta strætó í bæinn. Kannski.

Skilst að afmælið hennar mömmu hafi gengið alveg ágætlega í gær og minntist á í bloggi gærdagsins atvik sem ég hef ekki enn þorað að viðurkenna fyrir henni. En það er nú alveg eitt sem mamma viðurkenndi ekki fyrir okkur börnum sínum fyrr en við vorum komin vel á fimmtugsaldurinn og við erum enn í sjokki. Ég var farin að vinna hjá Vikunni og var falið að finna fimm aðila til að baka og gefa uppskrift í kökublaðið. Mér datt mamma í hug, athuga hvort hún vildi eða tímdi að gefa uppskrift að Nammi, nammi, gott, gott-tertunni sem auðgaði æsku okkar systkina sem vorum eins og litlu börnin með eldspýturnar, í huga sumra, af því að við áttum útivinnandi mömmu. Hvítur botn, vættur í perusafa, súkkulaðifrómas (sem mamma kallaði frúmas) og perur úr dós. Þessi terta var bökuð og borin fram um jól og páska, ekki mikið oftar en það, og var algjör spariterta. Ég vissi ekki um neina aðra sem fengu Nammi, nammi, gott, gott, svo sérstök var þessi draumaterta æsku minnar. Ég var ekki einu sinni með uppskriftina, hef aldrei kunnað að búa til frómas. (Myndinni rændi ég af Albert eldar, en Albert er einn allra mesti kökusnillingur í heimi, jafnvel þótt hann noti stundum hnetur, möndlur, döðlur og rúsínur ...) 

Mér til gleði var mamma alveg til í að deila uppskriftinni að Nammi, nammi, gott, gott, hún bakaði hana og svo kom Gunni ljósmyndari og myndaði bæði tertu og bakara og ég þurfti svo að taka stutt viðtal við mömmu. Þar kom sitt af hverju athyglisvert fram, eins og setningin sem er sem brennd inn í heilabörkinn á mér: „Þetta er nú bara venjuleg peruterta þótt ég hafi ekkert verið að segja börnunum mínum frá því.“ Og þetta flokkast undir enn eitt bernskuáfallið, sjokkið. Hitt stóra dæmið var að fá ekki að taka nema tvær bækur á dag í Bókasafni Akraness ... þessu helgasta musteri minninga minna (afsakið klisjutilgerð en bókasafnið var uppáhaldsstaðurinn).

 

Gos og varðskipGetur eldgos orðið hversdagslegt? 

Ég er eiginlega hætt að horfa heilluð og stjörf yfir hafið, á eldgosið, þetta er orðið að eðlilegum hlut að hafa gos handan við hlaðið; að hafa þetta í sjónvarpinu og sjá út um gluggann í góðu skyggni, alveg jafnhversdagslegt og að hafa drepsótt í gangi í heiminum, að þurfa að ganga með grímu ... Það er greinilega hægt að venjast öllu.

Mér finnst samt enn mjög merkilegt að lifa þessa tíma, fyrsta eldgos á Reykjanesskaga í mörg hundruð ár - fyrsta hræðilega drepsóttin á heimsvísu í 100 ár.

Brjálæðislega tilbreytingarlaus skólaár í barnæsku þar sem ekkert mátti gera sem hefði mátt líta á sem skemmtilegt nema fara í ljósatíma hjá skólahjúkkunni (sjá nýlega, átakanlega bloggfærslu) hefðu átt að kenna manni að gleðjast lengi yfir gosi eða pest, vera góður undirbúningur í raun upp á að geta glaðst lengi yfir öllu. Aumingja gosið hamast við að breyta sér, er til dæmis núna að reyna að líkja eftir Geysi. Boring.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hvers vegna vantar svo uppskriftin að tertunni góðu takk? :-)

Nonni (IP-tala skráð) 6.5.2021 kl. 22:29

2 identicon

Uppskriftin kemur á morgun. :) 

Gurrí (IP-tala skráð) 6.5.2021 kl. 23:23

3 identicon

Nammmmmm...........þetta er perutertan hennar ömmu.

Tomas Runar Andresson (IP-tala skráð) 7.5.2021 kl. 15:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 62
  • Sl. sólarhring: 239
  • Sl. viku: 1579
  • Frá upphafi: 1453454

Annað

  • Innlit í dag: 60
  • Innlit sl. viku: 1309
  • Gestir í dag: 60
  • IP-tölur í dag: 60

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Cartman
  • Cartman
  • Ömmukaffi

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband