Að spúa eitri

InkedKattahatari_LISíðustu þrjú árin, eða síðan sonur minn dó, hef ég forðast að koma mér í aðstæður sem valda streitu, ég reyni að sofa vel, borða hollt, tek ekki að mér of mörg verkefni og ... les sjaldnast kommentakerfin á samfélagasmiðlum, ekki síst ef ég sé að stefnir í einhvern viðbjóð. Þetta hefur virkað vel fyrir sálartetrið, ég er farin að þekkja og forðast fréttir, klikkbeitur, sem eiga að fá fólk til að vera á móti einhverjum eða með, aðallega móti. Þá skríða ýmsar rottur úr holum sínum og láta viðkomandi heyra það ... eins og í stóra prestsmálinu á Siglufirði. Kattahatarar náðu allt í einu vopnum sínum ... minnir ögn á Trump-fólkið sem fékk rödd 2016 og mátti bara alveg vera rasistar og öskra það á götum úti.

 

Guðsmaðurinn má auðvitað halda með sínum fuglum gegn köttum en það er alveg hægt að halda með báðum - kannski líka lesa sér til um gang náttúrunnar - og jafnvel temja sér umburðarlyndi gagnvart öllu sem lifir, ekki bara sumu. Ég reyni það sjálf gagnvart kóngulóm og geitungum, læt ekki eitra fyrir þeim, hleyp bara hratt inn ef kvikindin verða of aðgangshörð. Hef þó alltaf vissa samúð með flugunum sem kóngulærnar veiða í vefi sína. Spurning um að banna kóngulær, halda þeim inni, eða kannski ekki.

 

Ég segi ekki að allt logi á minni eigin Facebook-síðu vegna síðasta bloggs, enda eru Fb-vinir mínir annáluð prúðmenni og -kvenni en það hafa verið skoðanaskipti. Þegar ég fletti í gegnum almennu Facebook áðan sá ég akkúrat alvörukveikjuna, þá sem olli því að ég mundaði pennann í gær, eða reyndi að skrifa köttum til varnar. Þarna sá ég að eitthvert illmennið hafði skriðið út og tjáð sig, sjá efstu mynd. Það er akkúrat þetta sem guðsmaðurinn hefði átt að geta sagt sér (nema honum sé bara alveg sama), að öll ógeðin kæmu út úr holum sínum.

 

 

MosiSvo finnst mér ekki hægt að bera saman hunda og ketti, „ég þarf að vera með hundinn minn í bandi, af hverju má kötturinn vera laus?“ Þessi dýr eru mjög ólík. Presturinn lét að því liggja að kattaskítur væri um allt og fólk gæti gengið í hann ... hann veit greinilega ekkert um ketti. Margt af því sem hann sagði er byggt á sögusögnum, einhver hafði séð kött veiða fugl og sagt honum.

Ég ætla samt að fara til Sigló í sumar, eins og venjulega, heimsækja mitt fólk, minn frændkött og minn frændhund, drekka góða kaffið hjá Fríðu og njóta. Ég get ekki gert upp á milli hunda og katta - væri án efa með hund í dag ef ég byggi öðruvísi. Þótt ég eigi ketti og geti kallast kattakerling, elska ég hunda alveg jafnheitt. Ein besta vinkona mín á Akranesi er sjeffertíkin í næsta húsi, alltaf miklir fagnaðarfundir þegar við hittumst. 

 

Ljóta kommentið kom kattavinum eðlilega í uppnám en mér fannst áhugavert sem ein konan sagði í þræðinum um þetta komment, hér er það orðrétt: „Ég leigði hjá miklum fuglaáhugamanni í Danmörku, hann ferðaðist um heiminn til að skoða fugla og var í hinum ýmsu félögum og ráðum um fugla, m.a. á vegum hins opinbera. Hann sótti ráðstefnur út um allan heim, þing um fugla. Þessi maður var og er með kött og ég spurði hann hvort þetta færi saman og hann hélt nú það og sagði að þetta væri náttúran. Ég benti honum á að margir héldu því fram að kötturinn væri aðskotadýr en hann sagði þvert á móti, bæði gerði kötturinn gagn og svo væru miklu fleiri dýr sem færu í fuglana og kötturinn alls ekki sá skæðasti.“

 

Med hunda i heimsoknAnnað merkilegt í þessum umræðuþræði. Kettir og kattaeigendur á Siglufirði hafa orðið fyrir aðkasti, þökk sé guðsmanninum, en á heimasíðu Fjallabyggðar er listi yfir þá sem eru með leyfi fyrir kisum, og bæjarstjórinn neitar að fjarlægja nafnalistann, sem er sennilega brot á persónuverndarlögum. En eru ekki örugglega kosningar á næsta ári? Kattaeigendur gætu án efa breytt málum. Ég myndi láta atkvæði mitt koma svona fólki frá, þótt ég þyrfti að kjósa allt annan flokk en vanalega.

 

Annað: Ég hvet kattaeigendur til að halda köttum sínum inni á þessum viðkvæma tíma, ekki síst yfir nóttina, kaupa á þá litríka og stóra kraga svo þeir reyni ekki að færa eigendum sínum björg í bú. Frændkötturinn minn á Siglufirði er afar rólegur og heldur sig mikið heima, hjá hundinum og fólkinu sem hann á ... Ég hef aldrei heyrt veiðisögur af honum en hann hlýtur samt að vera í hættu núna, af því að hann er ekki fugl.

 

Neðsta myndin (frá 2019) er af (f.v.) Krumma, Mosa og Kela sem virða fyrir sér tvo sæta smáhunda, Herkúles og Golíat, frændhunda mína, sem koma stundum í heimsókn. Allt of sjaldan samt.

 

Svo vona ég það besta fyrir hönd Fjallabyggðar. Það er laust starf í Akraneskirkju fyrir prest og væri áhugavert að vita hvort þessi prestur, ef hann sækti nú um og fengi djobbið gæti einnig klofið okkur Skagamenn í herðar niður - kannski með eða á móti fótbolta? Banna hestareið á Langasandi á sumardaginn fyrsta? Hann myndi finna eitthvað spennandi en fengi aukastig hjá mér ef hann kæmi mávunum, vinum mínum, til varnar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Undirritaður hefur átt bæði hunda og ketti, ég hef búið í mörgum löndum en hvergi í heiminum hef ég séð fleiri ketti og fugla á hvern fermetra en í miðbæ og vesturbæ Reykjavíkur. cool

Í Reykjavík var almennt bann við hundahaldi í 82 ár, á árunum 1924 til 2006, enda var Sjálfstæðisflokkurinn með meirihluta í borgarstjórn mest allan tímann, en nú á annar hver Reykvíkingur hund og hinir eiga kött. cool

Þorsteinn Briem, 13.5.2021 kl. 16:44

2 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Ótrúlegur fjandi að banna hundahald í Reykjavík. Það eimir enn svolítið eftir af þessu að hundar eigi bara heima í sveitum. 

Ég bjó í London í eitt ár og í hverfinu bjó mikill fjöldi hunda og katta, allt í sátt og samlyndi. Á Íslandi er mikið nöldrað yfir gæludýrum, við kunnum ekki að búa á mölinni, held ég. :) 

Guðríður Haraldsdóttir, 14.5.2021 kl. 10:28

3 identicon

Hvers eiga kisi og hvutti að gjalda.?

Tomas Runar Andresson (IP-tala skráð) 14.5.2021 kl. 11:35

4 identicon

Bý á Húsavík, hér finnst mér altaf jafn vinalegt þegar einhver kisi hefur stolist  út og ber fyrir augu mín, Þarna vitnar klerkur til þess að hafa þetta eins og "á Húsavík" þar hafi kettir "sín útivistar hús t.d." Leitt þegar "fulltrúi sannleikans" telja í lagi að fara með hálf sannleik. Hér er einn kattareigandi sem útbjó "netkofa" svona í anda gömlu dúfnakofanna, nema alveg lokað með neti og úti á palli hvar kisi getur gengið út og inn um gluggafag og notið útiveru þegar hann vill. Ég held að þetta sé eini kisinn hér á Húsavíkinni sem býr við slíkt atlæti.

Náttúran blessuð í allri sinni dýrð er og  verður alltaf bæði blíð og grimmm, taki mannskepnan framfyrir hendur náttúriunnar hefur hún alltaf safnað vopnum sínum og mamminum hefnst fyrir það.

Þegar fólk flutti "á mölina" vegna breyttra lifnaðarhátta, ma tækinvædðingar til sveita og því minnkandi þörf á mannskap til bústarfa. Þá kynslóð einkendi viðhorfið "dýr eiga bara að vera í sveit" Hestar áttu bara að vera brúkunarhross en ekki sýningargripir. Nú eru haldin horssamót og enginn andmælir, Hér eru haldnar hunda og kattasýningar og enginn(amk fáir) mótmæla því........ felst ef ekki öll þessi dýr eru haldin af fólki sem býr í þéttbýil svo afhverju að banna eina gæludýrategund á grundvellis skoðana fólks um hvað  "sé eðli" hennar, hvert er t.d. eðli hunda eftir tegundum?

Nóg að sinni. Flakkaði út á Langanes í gær (einhver frídagur) og komst þá að því að það eru til amk þrjár Paradísar. Ein á einhverri suðurhafseyju, ein rétt utan Þórshafnar á Langanesi og svo auðvitað sú besta Húsavík Norðurþingi við Skjálfandaflóa......ps ég er ekki alveg hlutlaus í því mati.

En Það er víst bara til eitt Himnaríki skilst mér......og ég ættaður "af Skaganum" er auðvitað 100% sammála staðsetningu þess.

Sverrir Einarsson (IP-tala skráð) 14.5.2021 kl. 13:00

5 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Húsavík er náttúrlega dásamlegur staður, þar fékk ég rauðgraut 5 ára - sem endaði í sjónum á leið út í Flatey að heimsækja afa og ömmu í Uppibæ. Hef ekki komið í Flatey síðan en einu sinni eða tvisvar til Húsavíkur, spurning um að kíkja við í sumar. Er ekki gott kaffi þar? Þetta er að verða frægasti bær landsins, Gaman að fá kommentið þitt. :) 

Guðríður Haraldsdóttir, 14.5.2021 kl. 13:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 4
  • Sl. sólarhring: 22
  • Sl. viku: 409
  • Frá upphafi: 1445636

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 356
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • Himnaríki 6. mars 2023
  • Himnaríki 21. mars 2024
  • Húsó

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband