Sönn svör og systraslagur á Skaga

Blogginu hafa borist nokkrar spurningar sem tengjst flestar stefnumótinu í fyrradag.

-  -  -  -  -  -  -  -  -

veður feb 2021Hvernig kynntist þú veðurfræðingnum? Ég sagði á blogginu að veðurfræðingar svæfu bara hjá þegar væri lægð yfir Grænlandi (sem er nánast aldrei). Mér var sagt það. Vilmundur hringdi frekar svekktur og vildi leiðrétta það en símtalið endaði með boði á stefnumót, hélt ég. 

Er hann sætur / spáir hann góðu veðri? Ég legg það að jöfnu. Já, hann er kjút og hann sendi mér nýlega geggjað spákort (sjá mynd) sem hann gerði fyrr á þessu ári, (besta veðrið í mínum huga) og ég eiginlega varð pínku skotin í honum þá. Ef þetta heldur áfram ...  Held stundum að þessar lægðir allar í júní séu gerðar til að heilla mig. En - ég verð að komast í fermingarveislu á Kjalarnesi á fimmtudaginn!!! Hann ætlar að reyna að seinka svakalegri lægð til föstudags.

Á að gefa honum annan séns? Well. Kannski vildi hann bara hitta mig og ræða lægðir og ég tók því sem boði um rómantískt stefnumót. Kannski er hann óreyndur. Hann er samt um sextugt eins og við Madonna.

Hvað varð af g-strengnum? Ég var að vona að hann hefði gleymst. Ég var svo lengi að reyna að koma mér í hann að ég hafði næstum misst af strætó. Ég rúllaði honum bara upp fyrir rest og skellti upp í efri skáp, þar mun hann vera, mögulega um aldir alda, svo innilega ofmetin flík og ekkert sexí. Hefði eins getað verið í gítarstreng.

Á hvernig bíl var mamman? Það þýðir ekki að spyrja mig um bíltegund, bíllinn var rauður og talan 3 kom tvisvar fyrir í númerinu. 

Var þetta dýrt deit? Já, mjög, ég þarf að semja um reikninga fyrir sílikoninu og reyna að skila rúmfötunum sem kostuðu 138 þúsund (eitt sett, án laks), aldrei notuð. Náði að staðgreiða flest annað og panta í gegnum Einarsbúð. Ætla að halda verjunum upp á djókið. Ansi hrædd um að þetta hafi verið minn síðasti séns. 

Með hverjum heldur þú á HM? Þetta er reyndar EM-2020 sem var frestað um ár - ég held oft með Englandi, leikur á morgun!!! Líka spennt fyrir Þjóðverjum. Og Dönum líka, ekki síst eftir hryllinginn í dag - meira að segja þrátt fyrir hræðilegu stjórnvöldin þar. Drottningin er töff. 

Elskar Vilmundur ketti? Já, mig grunar það. Mamma hans er alla vega með feisbókina sína fulla af kettlingamyndböndum (englum og vísdómskornum). Hann virðist sammála mömmu sinni í flestu, en við ræddum svo sem ekki um ketti í kjötbolluboðinu.

Ertu bólusett? Hálfbólusett, fæ seinni í lok júlí.

Er mamma Vilmundar afbrýðisöm út í þig? Held ekki.

Hvar kaupir þú fötin þín? Oftast í Nínu, stundum Walmart.

Ertu til í að vera með ástarráð annað slagið á blogginu þínu? Já, ekkert mál, mín er ánægjan.

Wham eða Duran Duran? Pink Floyd.

Þú vinnur við að fjarlægja villur, finnst þér í lagi að það séu jafnvel ein eða tvær villur í þínum eigin færslum? Nei.

Hefurðu einhvern séns, svona í alvöru? Já. Forspá kona (frænka mín) sagði við mig þegar ég var 18 ára að ég myndi giftast ljóshærðum manni með ættarnafn. Ég rengi það ekki. Neitaði þó að deita ljóshærðan vin Elfu vinkonu í USA, hann ber ættarnafnið Mattrass. Ég þarf þá bara að lifa með því að hafa kannski hafnað sjálfum draumaprinsinum.

 

Bröns á Galito

Hilda (+2) kíkti á Skagann um hádegi og við fórum fjórar skvísur í bröns á Galito. Með önd á vöfflu fékk ég mér mímósudrykk, eitthvað sem ég hef ekki smakkað áður, og Hilda varð mér náttúrlega til skammar, eins og svo oft ... alltaf. Kurteis þjónn kom gangandi með gult í glasi og setti upp spyrjandi svip. „Fyllibyttan er hér í horninu,“ sagði hún ruddalega og beindi geðillskulegum glyrnunum í átt að mér. Þjóninum brá, enda er þetta fínn staður og engar fyllibyttur leyfðar. Mímósa er, held ég, appelsínusafi og freyðivín saman, það var allur fyllibyttuskapurinn. Við systur borðuðum egg-benediktana okkar í fýlu og rúntuðum um Skagann alveg brjálaðar, fórum í skúrinn hjá Kristbjörgu grautfúlar og síðan í Frystihúsið til að geta orðið enn kuldalegri hvor við aðra. Kíktum svo í gallerí Bjarna Þórs til að hitta Ástu og fengum Helgu Olivers í kaupbæti. Lentum næstum í slag á útleiðinni. Ég söng: Farðu í fúlan pytt, fullan af draugum, og loks gerði hún það þegar hún skrönglaðist á bíldruslunni til Reykjavíkur um hálffjögur, ekki sekúndu of snemma. Annars bara dásamleg heimsókn, alltaf gaman að fá Hildu.

Svo er annað ... ég komst að því að Galito er ekki með vonda kaffið, ofmetna, eins og ég hélt, heldur fínasta Lavazza. Skipt var um kaffitegund þar fyrir rúmum tveimur árum. Ég hafði ekki haft hugmynd um það og neyðst til að fá mér vín með matnum (rauðvín eða mímósu) eða gos, kaffi er fínt með bröns, og í mörg ár sagt kurteislega en ískalt: „Nei, takk,“ þegar mér var boðið upp á kaffi eftir mat. Næst segi ég „Já, takk, tvöfaldan latte!“ 

Svo fékk ég ansi hreint góðar kaffifréttir nýlega. Kaffið sem ég hef mært og fæst hjá Rjúkanda (Vegamótum) á Snæfellsnesi verður til á Akureyri þegar við Hilda mætum þangað í júlí. Í Listasafninu í Gilinu ... það var áður ljómandi gott kaffi þar (frá Te og kaffi) en nýir aðilar tóku nýlega við þarna og verða með dásemdar kaffi frá Sonju Grant. Getur verið að Te og kaffi sé komið aftur í bókabúðina? Sá nýlega snapp þaðan og merkingin var eins og þetta væri Te og kaffi-staður.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Gurríar nú dýrt var deit,
drekkir sorgum sínum,
en uppá Skaga ennþá heit,
undir sængum fínum.

Þorsteinn Briem, 13.6.2021 kl. 09:30

2 identicon

Hefði nú verið gaman sð rekast á ykkur fílupúkana á Skaganum. Kíkti þangað í annað sinn á árinu. Fór til Kristbjargar og ætlaði á Galito en hætti við og fór í krónuna, léleg skipti það. 💞

Sigríður Þorgilsdóttir (IP-tala skráð) 13.6.2021 kl. 09:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 5
  • Sl. sólarhring: 282
  • Sl. viku: 1964
  • Frá upphafi: 1452164

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 1578
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • baby reindeer
  • Ove Otto
  • Gísli gerir Mart-einn

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband