Ekki fleiri stefnumót - í bili

Ást á netinuEnska landsliðið gladdi gamalt hjarta mitt með því að sigra í dag en ég hef iðulega haldið með Englendingum, síst þó árið 2016, það eftirminnilega ár þegar leikirnir voru svo spennandi sumir að ég „sá“ hluta þeirra með lokuð augun eða í felum nánast á bak við hurð til að spennan bæri mig ekki ofurliði. Ég get verið dramatísk en bara þegar kemur að fótbolta, ekki t.d. ástum. Þá er ég verulega kúl eins og glöggir lesendur bloggsins hafa áttað sig á.

Tilboði mínu í bandaríska sendiráðið, eða húsakynnin við Laufásveg, var hafnað grimmdarlega um leið og ég lagði það inn. Það þarf að taka þetta allt í gegn, stærðin er ekki allt, eins og margir vita. Ég var samt farin að sjá mig fyrir mér þarna, sérstaklega afmælin mín en himnaríki er alveg nógu góður staður fyrir vini mína og vandamenn. Mér tókst að sjá til þess að gjaldtöku yrði hætt í Hvalfjarðargöngum en það dugði samt ekki lötustu gestum mínum. Ég gerði tilraun til að láta Akraborgina fara að ganga aftur en vegna misskilnings var stofnaður hamborgarastaðurinn Akraborgarinn - sem er reyndar fínt nafn. Ekki búin að smakka, aðeins of langt til að ég nenni að ganga (ég hata að ganga) og ekki er sent heim.

Vilmundur hringdi til að spjalla. Mamma hans hafði skroppið í bingó, það fyrsta eftir covid-lokun, svo hann gat um frjálst höfuð strokið, sagði hann glettnislega. Ég hafði reyndar ekki hugmynd um fyrr en í dag að hann byggi með gömlu konunni. Henni fannst það góð hugmynd, sagði hann, ódýrara húshald og hann myndi hvort eð er erfa þessa íbúð í fyllingu tímans og bara vesen að flytja.

Samkomubanni afléttHann er kominn með móral yfir veðrinu, hvítt í Akrafjalli og allt, en sagði að köld sumarbyrjun væri á sig leggjandi til að gleðja mig, ég sem sagt losnaði við geitunga í sumar. Að mestu. Þessir íslensku væru harðskeyttir og geðillir og vegna mikils magns blóma og trjáa í byggð lifðu þeir góðu lífi þar og væru vanir að stinga mannfólkið sér til hita (og skemmtunar). Eitt árið lækkaði júníhitinn víst mjög snögglega um tuttugu gráður - fór úr tíu gráðum niður í mínus tíu, minnir mig að hann hafi sagt - sem er mögulega það eina sem getur hrakið geitunga úr landi, ásamt því auðvitað að meðalhiti lækki um einhverjar gráður og fólki verði bannað að rækta stinguflugur nema hafa þær í ól. Það er mjög hentugt að þekkja veðurfræðing en ég er eiginlega búin að afskrifa hann sem stjúpföður kattanna. Veit samt að þá langar. Þeir reyna að veiða alla karlmenn sem stíga fæti inn í himnaríki, mala og knúsa, að springa úr ástreitni. Iðnaðarmennirnir mínir í fyrra voru sumir hálfvandræðalegir. 

Símtalið stóð ekki lengi, hann endurtók loforðið um að ég kæmist með strætó í fermingarveisluna á Kjalarnesi á fimmtudaginn (slæm spá á 17. júní, ekkert nýtt), sagði mér svo sitt af hverju um háþrýsting og lágþrýsting og svo kvöddumst við vingjarnlega. Enginn hjartsláttur, enginn spenningur, það var eitthvað sem kjötbollur mömmu hans káluðu endanlega, ekki þó endilega viljandi hjá henni.

Ég fæ sennilega alveg nógu mikla nánd í strætóferðum mínum sem er ansi lítil núna, engin. Tveggja metra reglan er ekki lengur í gildi, sem betur fer, svo ég ætla að taka aftur upp 200 metra-regluna mína (nema jól og afmæli). Það þarf eitthvað svakalega mikið til að ég nenni á fleiri stefnumót á næstunni. Ég er samt ekkert beisk, mér líður bara vel með bókum, kisum og kaffi - og auðvitað EM. Ætla samt að endurskoða þetta í kringum 12. júlí.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Fyrir margt þeir fengu stig,
fimin því nú veldur,
eins og Clausen opnar sig,

með Englendingum heldur.

Enskir landsliðsmenn heimsóttir á Hótel Sögu

Þorsteinn Briem, 13.6.2021 kl. 17:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.4.): 223
  • Sl. sólarhring: 330
  • Sl. viku: 2398
  • Frá upphafi: 1450937

Annað

  • Innlit í dag: 186
  • Innlit sl. viku: 1868
  • Gestir í dag: 182
  • IP-tölur í dag: 181

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Rauð útidyrahurð
  • Mosi og skugginn
  • Eldum rétt í kvöld

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband