Díana, Megan og ískaldur veðurfræðingur

ÍsbirnirEkkert heyrst frá veðurfræðingnum í sólarhring. Óþolandi gelgjulegt af honum að hætta bara að tala við mig, eins og til að gera mig spennta. Virkar ekki. Kann ekki við að hringja í mömmu hans en geri það kannski á morgun eftir hádegi ef ég heyri ekkert frá honum í fyrramálið.  Kannski eru veðurfræðingar landsins á neyðarfundum vegna kuldans núna, er ekki hafís kominn nálægt landi og þá kannski ísbirnir? Þetta er fínasta veður fyrir minn smekk en fólkið á Facebook (hinu heimili mínu) er ekki ánægt - ég veit um fjölskyldu sem hlær tryllingslega yfir veðurfréttum þar sem sjaldgæf orð að sumri, eins og frost og slydda, koma fyrir, þau kalla þetta skemmtiþátt og telja orðin.

Hitabylgjur koma iðulega í júlí og ágúst, ef veðurminni mitt er rétt. Man eftir svo heitum degi eitt árið 12. ágúst að afmælistertan mín úr Bernhöfts byrjaði að bráðna (súkkulaðið í áletruninni) frá kælibílnum að dyrunum hjá mér á Hringbraut, tíu til tólf skref, hann lagði uppi á gangstétt beint fyrir framan. Það var viðbjóður. Hugsa sér, tugir gesta í 56 fermetra íbúð og vel yfir 20 stiga hiti úti og ekki búið að finna upp viftur, brauðtertur um öll borð og allt of lítill ísskápur. Það heitt þennan ágúst að geitungarnir dóu (ææ, sveppir í búum þeirra) áður en þeir gátu farið að geðvonskast skömmu seinna. Ekki skrítið að ég hafi flutt á Skagann við sjóinn þar sem oft er gola, ekki nærri því nógu oft samt. Vilmundi finnst ég of lægðasjúk, hann sagði það í gær en ég hélt að hann hefði verið að grínast, eða að þetta væri hrós. Þetta er mögulega orsökin fyrir ískaldri þögn hans í dag en virkar ekki á mig.

Ég eldaði ansi hreint góðan mat í kvöld - átti að vera venjulegt hakk og spaghettí en kjötsósan varð svolítið öðruvísi, samt fínasti vetrarmatur sem hlýjaði sem ekki veitti af þar sem kuldaleg þögnin ríkir enn úr Reykjavíkinni. Ég átti ekki tómata í dós og var búin að gleyma grænmetisteningunum ... kryddaði hakkið með salti, pipar og Hlöllabátakryddi, setti litla tómatpúrédós, síðan skellti grænmeti í bitum (gulrótum, blómkáli og brokkolí, áður frosnu) út í hakkið, rjómaosti með karmellíseruðum lauk (hálf dolla, þurfti að klára) og smávegis rjóma (sem var að renna út). Enn fannst mér vanta eitthvað og setti matskeið af kanil út í og þá varð þetta fullkomið. Náði svo spaghettíinu algjörlega al dente og þetta var hrikalega gott. Líka fyrir unglinga en minn bað um meira. Afgangurinn er kominn inn í ísskáp, ekkert myndað en kanill er svo góður í mat þegar eitthvað vantar í bragðið ... þetta var óður til kanils og já, ég hlakka til jólanna.

- - - - - - - - - - - - - 

Díönutattú VilmundarÉg held að hirðin í Buckingham-höll sé voldugri en flesta grunar og stjórni ansi hreint miklu (með samþykki sumra). Held að Díana hafi lent í hakkavélinni en barist á móti. Megan er alls ekki nógu fín fyrir fjölskylduna, bandarísk, áður atvinnuleikkona og hálfsvört að auki, eitthvað sem fjölskyldan sjálf myndi aldrei viðurkenna. Þá er gott að hafa vel tengda hirð sem getur stjórnað umræðunni ... miskunnarlausri pressunni.

Fyrst upplifði Megan andstyggilegheit og dónaskap, hún kvartaði (ólétt og viðkvæm) og þá lásum við um í blöðunum hversu frek og ömurleg hún væri við starfsfólkið, öskraði á það og allt. Pabbi Megan er ómetanlegur hirðinni án þess að vita það. Ungu hjónin flýja loks til Bandaríkjanna, láta svo Opruh plata sig í lélegt viðtal um ekki neitt sem gerði ekkert gott fyrir þau. Harry elskar fjölskylduna og litla barnið er látið heita í höfuðið á ömmu hans til að sýna það og rétta fram sáttarhönd. Hirðin brjálast og lætur leka út að Elísabet sé alls ekki hrifin og hafi ekki veitt leyfi fyrir notkun nafnsins, Harry reynir að leiðrétta það en er ofurliði borinn. 

Ég ætla nú samt að tala við einn af sérfræðingum mínum í breska kóngafólkinu, Borghildi vinkonu, og vita hvað hún heldur. Hún bjó lengi í London og veit miklu meira um kóngafólkið en ég. Í lok ágúst 1997 kom hún í útvarpsviðtal til mín á Aðalstöðina og við ræddum mál Díönu prinsessu í rúman klukkutíma. Díana lenti í bílslysinu banvæna sama kvöld. Furðuleg tilviljun, nema Karl hafi verið að hlusta. Eða Elísabet, sögðu ekki klikkuðu samsæriskenningasmiðirnir að hún hefði lært að gera við bíla í stríðinu, þá kornung kona, og hefði farið til Parísar þetta kvöld og skemmt bílinn sem Díana og Dodi voru í?

Ástæðan fyrir því að ég fór að tala um Díönu er að Vilmundur er með tattú af henni, hann sendi mér mynd af því í gær. Mamma hans húðlúraði hann, held ég. Sennilega hef ég ekki hrósað því nóg (húðflúrinu) og þess vegna frystir hann mig úti. Hefur hann aldrei heyrt talað um annan séns eða misjafnan smekk? Annars er mér alveg sama, þetta virkar ekki á mig.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Í höllinni er mæðan mörg,
Meghan þaðan flúði,
Díana var oft þar örg,
því eitri hirðin spúði.

Þorsteinn Briem, 15.6.2021 kl. 07:47

2 Smámynd: Ingibjörg Magnúsdóttir

Takk fyrir áhugaverða uppskrift af Spakk og hagetty (grínorð sem ég nota yfir réttinn til að stríða börnunum í fjölskyldunni), ég prófa mig áfram í þessari uppskrift við næstu matseld á þessum rétti.

Ingibjörg Magnúsdóttir, 16.6.2021 kl. 00:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 6
  • Sl. sólarhring: 18
  • Sl. viku: 411
  • Frá upphafi: 1445638

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 358
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • Himnaríki 6. mars 2023
  • Himnaríki 21. mars 2024
  • Húsó

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband