Skagi hinna fögru kvenna

Mitt hárrétta andlitÍ dag var komið að fóstursyninum að fara í bólusetningu. Hann fékk auðvitað Ph-Rolls á meðan ég þurfti að sætta mig við AC-Trabant í lok apríl. Ekki að AC sé verra, en það líður bara svo langur tími á milli. Hann fór beint í vinnunna á eftir, harðjaxlinn sjálfur, enda fyrirvinnan ... 

Það andar köldu ... sem sagt kuldalegt veður og enn ekkert nema frostið frá vissri persónu í Reykjavík. Stoltið kom í veg fyrir að ég hringdi í mömmu hans, það hefði verið of áberandi: „Hvað segirðu gott? Já, og hvað er að frétta af Vilmundi?“ Er það ekki? En mér skilst (mig grunar) að veðurlag hafi verið svipað síðast þegar Vilmundur var að slá sér upp, eða þegar hann var að frysta viðkomandi á brott. En við byrjuðum samt aldrei saman. Veðurfræðingar eru voldugri en maður heldur. Sennilega hef ég á einhvern hátt og alveg óvart sýnt mitt rétta andlit, V hefur sennilega gúglað mig.

Það var svakalegt að ganga inn í íþróttahúsið við Vesturgötu áðan. Fólk svoleiðis vék úr vegi fyrir mér og datt um sjálft sig í látunum, virtist hálfhrætt, sumur bældu niður öskur, aðrir gubbuðu í nærliggjandi ruslafötur og samt var ég með grímu. Mér var litið í spegil og sá að ég var hrottalega útitekin, eins langt frá því að vera slétt og felld og fögur sem foldin og hægt var (sjá myndina aftur, hún var tekin fyrir utan íþróttahúsið í dag). Hjúkkurnar tvær sem sáu um stingudæmið áttu að vera í sumarfríi, heyrði ég, en ekki var beiskjunni fyrir að fara hjá þeim, þær voru dásamlegar. Og ekkert hræddar við mig, enda vanar ýmsu hrollvekjandi. Það eru samt helst afdalabændur sem búa í tjaldi eða húsnæði sem næðir um í hvassviðri (og alltaf hvasst) sem gætu mögulega verið jafnrosalega rauðir í framan og útiteknir og ég í dag. Ég veit að Skagakonur líta óstjórnlega vel út, fyrirskipun frá bæjarstjórn (Fallegasti bærinn, fegustu konurnar, bestu kartöflurnar = kjörorð Akraness), en ég hef ekki hugsað nógu vel um útlitið síðan fyrir covid og svo var grímuskyldan afnumin allt of hratt og harkalega.

 

Madonna 62Til að stráksi/fyrirvinnan kæmist sem fyrst í vinnuna aftur tókum við strætó og bílstjórinn opnaði dyrnar að aftan til að losna við að ég gengi fram hjá honum, en það er frítt í strætó innanbæjar. Drengurinn reyndi að kenna covid um þegar ég bar mig upp við hann, að þetta hefði verið svona síðasta árið, en covid er ekki lengur afsökun fyrir neinu ... margir nota það samt enn til að loka búðum sínum of snemma dags. Allt féð sem ég eyddi í fegurð fyrir stefnumótið (kjötbolluveisluna) ... sú fegurð hvarf þegar ég fór næst í sturtu.

Bara svo þið gerið ykkur í hugarlund hvernig ég leit út fyrir sex dögum, á stefnumóti (kjötbolluveislu) við vissan veðurfræðing, eftir að hafa eytt öllu sparifé mínu (setti allt sílikon á vísa-rað), birti ég hér nýlega mynd af konu sem er fædd í ágúst 1958, eins og ég. Hún er að vísu ögn grennri, með færri hrukkur og á meiri peninga, ásamt því að þessir fjórir dagar sem hún er yngri en ég skipta eflaust einhverju ... og ég hneppti upp í háls eftir að mamma hans kom til skjalanna og var ekki með bert á milli. En ég hef reynt að ná þessu útliti alla tíð eftir að ég flutti á Skaga hinna fögru kvenna eins og landsmenn kalla Akranes, eða ættu að gera. Það er til dæmis alltaf unun að hitta gömlu skólasysturnar í Einarsbúð, þær líta nánast út eins og þær gerðu í 12 ára bekk eða í kringum brottnám mitt til Reykjavíkur (sjá Sérstæð sakamál, 3. tbl. 1971).

Eftir þessa erfiðu reynslu í dag ætla ég að taka mig virkilega á, fylla skúffur og skápa af snyrtivörum, koma mér upp hirðsnyrtidömu, klæðskerameistara og panta tíma hjá Önnu Júlíu í klippingu, og þá getur Madonna bara dinglað sér ... og  Vilmundur. Það verður unaðslegt að fara á fætur eftirleiðis, verja morgninum í nákvæma snyrtingu (nota gyllinæðarkrem undir augun, flugfreyjutrikk) og setjast svo við tölvuna og vinna, glæsileg eins og ég væri að fara í fínt matarboð eða á hirðdansleik. Held það nú.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Á Akranesi brjóstin ber,
býsna mikill hitinn,
Gurrí nú í Guðlaug fer,
gullinn fær þar litinn.

Það er alltaf svo heitt á Skaganum cool

Þorsteinn Briem, 16.6.2021 kl. 17:34

2 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Ég nota viftu til kælingar eins og alvörusiðprúð kona. Ekki sund, pott eða annan hrylling. ;) 

Guðríður Haraldsdóttir, 16.6.2021 kl. 17:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 1
  • Sl. sólarhring: 25
  • Sl. viku: 129
  • Frá upphafi: 1444954

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 106
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • Mossad
  • Keli helgar sér klakavél
  • Amælistertan handa stráksa

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband