Draumur eða aðvörun ...

Að ganga sér til lífsFjöldi fólks auðgar mannlífið á Akranesi um þessa helgi, fótboltamót fyrir litla krúttmola stendur yfir. Vona samt að dúlluforeldrarnir skemmi ekki áætlun mína um að fara með fóstursyninum og bragða Akraborgarann sem hann er spenntur fyrir. Mér skilst að innanbæjarstrætó gangi - en bara fyrir gestina, ég beið eitt sinn spennt á stoppistöð þegar svo stóð á (með þungan poka) og vagninn ók með þjósti fram hjá mér af því að ég var ekki fótboltabarn, heldur þekktur farþegi. Strætó gengur annars ekki eftir kl. 18 og ekki um helgar. Það eiga allir bíl hér nema ég og börn yngri en sautján.

Ég fer með drengnum þótt það þýði óbærilega langa göngu, miðað við nennu, og skrepp í búð og kýs flotta konu ... Það tók því ekki að panta í Einarsbúð í gær, svo fátt vantaði, nánast bara mjólk. Í stað mjólkurglass í gærkvöldi stakk ég lymskulega upp á því við stráksa að hann fengi sér frekar kakó; heitt vatn og kókómalt og rjóma - svo ég ætti nú mjólk út í kaffið í morgun, annars hefðu hrikalegir hlutir getað gerst ... já, ég er búin að horfa á tvo þætti af Kötlu.

Í gamla daga, FC (fyrir covid), hefði ég hámhorft á Kötlu en það gerðist eitthvað í fyrra sem olli því að ég nenni varla að horfa á sjónvarp, öfugt við svo marga landsmenn. Svona í alvöru held ég að lyfið sem ég tók til að hætta að reykja (Champix?) hafi haft sterk áhrif á fleiri nautnir. Á meðan þjóðin dillaði sér yfir dýrlegum (eflaust) tónlistarþáttum í samkomubanni var slökkt á mínu tæki og ég las bækur. Ég fékk nánast ógeð á sjónvarpi (Nenni ekki einu sinni að horfa á Glæpahneigð!!!). Er með Sjónvarp Símans Preminum (fullt af frábæru efni og stöðvum), Stöð 2, Stöð 2 sport 2 (EM) og Netflix ásamt RÚV. Ég er með Storytel í símanum og hef hlustað á eina heila bók sl. tvö ár ... en alltaf á leiðinni að hlusta á meira. Besta leiðin til að afbera að brjóta saman þvott og ganga frá honum inn í skáp er að hlusta á bók á meðan. Það kenndi Hilda systir mér. Útgáfur og höfundar fá engar greiðslur nema maður hlusti á bækur þeirra.

 

Loksins kurteis gæiÉg veit að ástamál mín hafa truflað (jafnvel pirrað, jafnvel mjög mikið) marga, að ég sé komin yfir sextugt og ætti að halda mig á mínum stað (baka kleinur og hlusta á Uriah Heep) en það sem lyfið skemmdi ekki í fyrra var æði mitt í súkkulaði ... og karlmenn. Ekki endilega í þessari röð en það er samt mun auðveldara að nálgast súkkulaði, þetta (karlar) er allt gift eða stórskrítið, hefur mér skilist á vinkonu sem þorir að nota Tinder. Ég þori það ekki en fórna mér á þennan hátt hér sem áhrifavaldur og berorður bloggari, dreg ekkert undan í frásögnum mínum af stefnumótum á blogginu, þannig að aðrar „örvasa kerlingar“ viti að þær þurfi ekki að drepast úr öllum æðum þótt einhverjir tölustafir og reyndar allt umhverfið reyni að telja þeim (okkur) trú um að þetta sé bara búið ... En að hugsa sér, bara af því að ég minntist á Tinder munu hlutabréf fyrirtækisins hækka til muna! Jafnvel þótt ég hafi aldrei þorað að skrá mig þangað inn og eigi því ekki frægðarsögur þaðan, þori ekki eftir ævintýrin hroðalegu á einkamál.is um árið þar sem ég tolldi samt ótrúlega lengi, eða í svona fjórar eða fimm óbærilegar vikur. Ég er of mikil tepra (hefðardama?) til að hleypa alls kyns sora inn í líf mitt þótt það þýði að fögru blómin innan um verði aldrei mín, eða almenntilegir gaurar.

Það fer samt að draga til tíðinda, held ég, finn það á mér. Mig dreymdi Skagakonuna Evu Laufeyju Kvaran matreiðslusnilling til marks um það ... nema henni hafi að tekist að troða sér inn í drauma mína til að ráða mér frá því að reyna fyrir mér sem matarbloggari. Það getur alveg verið, samkeppni er rutt úr vegi á margvíslegan hátt en þessi leið er frumleg, það verður að segjast. Ég sat heima hjá henni (í þessum draumi) og spjallaði við hana, sem kannski þýðir að við verðum saman með matreiðsluþætti næsta vetur? Hef samt ekki tíma til þess, verð að segja henni það næst þegar við hittumst, þ.e.a.s. ef nálgunarbannið er runnið út.     


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Uriah Heep og gimbrapíkur er hörku cokteill.

Tomas Runar Andresson (IP-tala skráð) 22.6.2021 kl. 08:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 1
  • Sl. sólarhring: 16
  • Sl. viku: 187
  • Frá upphafi: 1445652

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 173
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • Himnaríki 6. mars 2023
  • Himnaríki 21. mars 2024
  • Húsó

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband