Fullt til að banna ...

PrífílmyndÉg er ekkert svo langt frá því að uppgötva að morgunverkin geti verið drjúg, eins og systir mín vill meina, svo ég er sennilega að detta í að verða miðaldra. Fer núorðið á fætur fyrir níu og er búin „að öllu“, eins og kaffi, tiltekt (meira að segja brjóta saman þvott og ganga frá) og sturtu, fyrir kl. 10. Trúði vart mínum eigin augum þegar ég leit á klukkuna ... en hvað er ég að tefja ... stórfréttir í grennd. 

Hlutirnir gerast hratt í himnaríki. Ég komst að því að mamma löggunnar er ári yngri en ég, þess vegna hló hann svona þegar ég spurði hvort hún byggi á dvalarheimili. Einhver mistök voru gerð í pöntunarferlinu í fyrrakvöld og ég skráð sem 78-módel - hann trúði því og sagði mig afar unglega í kveðjusímtalinu. Ég kunni ekki við að segja að hann væri ansi karlalegur með allt þetta skegg. Hef þó ekki gefist upp á mannaveiðum, fer út að borða um helgina með einum sem er mjög andlega sinnaður ... getur verið galli en ég gef honum séns.

 

Hahaha viðreynslaEin vinkona mín sagði að ég yrði að þjálfa mig betur til að klúðra ekki málum, stefnumót væru vinna, algjört hörkupúl, þau væru orðin þannig að fólk þyrfti að geta svarað rétt - hún hefði sjálf iðulega fengið spurningar um markmið og hvar hún sæi sig innan þriggja ára, eitthvað slíkt. Ef hún væri ekki með svör á reiðum höndum, misstu þeir áhugann. Hún kom sér upp vel æfðum svörum sem hljómuðu vel og henni hefur tekist að heilla marga karlmenn þannig, skilst mér. Hún er samt brjáluð út í markþjálfara, segir þá hafa sprottið upp eins og gorkúlur síðustu árin, og eyðilagt svo margt fyrir fólki sem er að reyna að koma sér áfram á hjónabandsmarkaði.

Svona eins og ég kenni skiltahönnuðum um versnandi tilfinningu landsmanna fyrir íslensku máli. Ég fór eitt sinn inn í búð sem heitir Mamma veit allan andskotann (ögn breytt), en á skiltinu stendur Mamma Veit Allan Andskotann. Ég spurði um ástæðu þess að heitið væri skrifað með öllum þessum hástöfum og fékk: „Sá sem gerði skiltið fyrir okkur skilaði þessu svona og okkur finnst þetta bara fínt.“ „Þú gerir þér grein fyrir því að þetta er rangt mál, er það ekki?“ sagði ég og eitt leiddi af öðru.

 

Þrátt fyrir sterk ítök mín í lögreglunni var gerð skýrsla um slagsmálin (eða slags-málið, þetta var svo lítið) sem brutust út nokkrum mínútum síðar og ég má víst ekki koma nær þessari búð en sem nemur 100 m. Ég rétt slepp inn í Kaffitár. Það væri svo töff og „pró“ að láta prófarkalesa skiltin sín áður en þau fara upp, svo þau séu ekki fyrirtækjum til eilífs ósóma, maður lætur ekki endurskoðandann gera við bílinn sinn.

- - - - - 

Sumir eru ósáttir við að búa t.d. í miðbænum af því að þar er svo mikill hávaði um helgar, langt fram á nótt - vilja af þeim sökum að opnunartími bara verði styttur svo þeir fái svefnfrið. Þetta er fólk sem ætti að vita að hverju það gekk þegar það flutti í miðborgina og ætti því að flytja sig sjálft en ekki að reyna að breyta öllu í kringum sig. Fólk með galopna glugga vill að kettir verði lokaðir inni í stað þess að gera eitthvað sem kemur í veg fyrir að kettir fari inn um glugga þess. Einn hrokagikkurinn tók kött í gíslingu nýlega fyrir norðan - enda kominn með „samþykki“ fyrir því að kettir væru meindýr og mætti koma illa fram við þá, kötturinn lá víst og svaf í rúminu hans sem honum fannst viðbjóður og hann hefur alveg rétt til að finnast það, hann hafði þó ekki rétt á því að loka köttinn inni hjá sér, ég hefði hringt á lögregluna, ekki farið í vörn. Þessum freku körlum og konum tekst kannski með að breyta einhverju, Húsavík er dæmi um það, og gera þar með lífið litlausara. Kettir eru alls ekki verstir þegar kemur að fugladrápi. Glerrúður í húsum eru skæðastar fuglum, þá eru það mávar, minkar og slíkt ... flestir kattaeigendur eru ábyrgir og loka ketti sína inni eða setja á þá stóra trúðakraga. Mínir kettir fara aldrei út, til þess er ég of hrædd um að þeir verði fyrir bíl, og nú á seinni tímum, að eitthvert ógeðið geri þeim eitthvað.

Fólk vill ekki lúsmý inn til sín, eða geitunga og fær sér net í gluggann en þessi maður heimtar að kettir fái ekki að ganga lausir, frekar en hundurinn hans. Lærði þessi maður aldrei dýrafræði? Það er gífurlega mikill munur á þessum dýrum. Ég elska hunda en ég yrði sennilega smeyk ef þeir fengju að ganga lausir, þeir eru misjafnir þótt ég hafi persónulega aldrei rekist á vondan hund. Ein besta vinkona mín á Akranesi er sjeffertíkin í næstu blokk. 

Það er hægt að skrifa endalaust um þetta - en við eigum ekki að láta freka fólkið taka stjórnina, getum við ekki lært að lifa í sátt og samlyndi, ekki alltaf reyna að breyta umhverfi okkar. Ég man vel eftir því þegar hundahald var bannað, það var frekar ömurleg og litlaus borg að búa í - og týna hundi í. Tík sem ég átti sleit sig lausa frá tengdó og fór á flakk. Ég talaði við lögguna bæði á Hlemmi og Lækjartorgi. Lögginn á Hlemmi sagði að henni yrði lógað ef hún næðist, helvítis hundar alltaf, en þessi á Lækjartorgi róaði mig og sagði hana eflaust á lóðaríi. Hvorugur trúði því að ég byggi á Akranesi, sem þó var reyndin. Gott fólk á Njálsgötu fann tíkina og tók hana inn og í gegnum Hundavinafélagið, endurheimtum við hana.

Svo eru þeir til sem hálfpartinn hatast við börn, eða er illa við þau, man alveg eftir slíku fólki úr æsku, hvernig sem það er nú hægt - börn vissulega ónáða, skemma og slíkt, pottþétt meira en kettir ... Það er eitt fjölbýlishús sem ég mun aldrei vilja búa í, segi ekki hvar, en þar er börnum bannað að ganga á grasinu umhverfis blokkina. Venjulegu grasi sem lítur ekkert betur út en grasið á næstu lóð þar sem börn mega leika sér. Ég er búin að kynna mér þetta, þarna voru bara settar ýmsar íþyngjandi reglur - af því bara - og farið strangt eftir þeim. Það er ekki sérlega eftirsóknarvert að búa í slíku húsi. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 13
  • Sl. sólarhring: 279
  • Sl. viku: 1705
  • Frá upphafi: 1453215

Annað

  • Innlit í dag: 10
  • Innlit sl. viku: 1386
  • Gestir í dag: 9
  • IP-tölur í dag: 9

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Tengdamömmur
  • Kamilla, Inga, Gerry
  • Frændfólk mitt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband