Grunsamlegar Tommaferðir

HeklÉg hekla alltaf annað slagið og það sem ég er að hekla núna fékk vinkonu mína til að roðna og reka svo upp hneykslisöskur. Hún sagði: „Hvaða dónaskap ertu að hekla núna? Ertu að gera föðurland með þú veist fyrir þú veist?“ Ég horfði reiðilegum samúðaraugum á hana en vináttu okkar er sennilega lokið, ég get ekki hugsað mér að þekkja svona þenkjandi fólk. Það var líka svo augljóst hvað ég var hekla ef hún hefði bara hugsað með höfðinu.

Ekki gengur nefnilega að hafa endalaust drullusokk sem hurðarhaldara (eða hvað þetta heitir) svo ég ákvað að breyta mínum í veglegt stáss (sjá mynd2, hún stækkar ef klikkað er á hana). Konur sem hafa verið giftar drullusokkum vita alveg hvað ég meina. Klæða þá í Gucci-skyrtu og allir halda að þeir séu svo frábærir. Snarvirkar. 

- - - - - - - - - - 

Þetta var annasamur morgunn. Við stráksi áttum erindi á vissan stað upp úr kl. 10 í morgun og ætluðum að ganga þangað. Strætó er í síestu til 11.30 svo við hefðum ekki getað notað hann þótt við vildum. Við vorum rétt hálfnuð þegar elskan hann Tommi sem hefur skutlað mér ófáa kílómetrana síðustu árin, Akr-Rvk-Akr, og bauð okkur far. Við stukkum ofsaglöð upp í bílinn á hinni óralöngu Skagabraut, og mættum eins og fínt fólk ögn fyrir tímann sem kom sér bara vel. Svo á eftir langaði drenginn í eitthvað að borða en flest svona matardæmi opnaði ekki fyrr en hálftólf - svo bíða eða kannski ... fá aftur far með Tomma! sem dúkkaði óvænt upp á Kirkjubrautinni.

Var þetta tilviljun? Þetta var og er svolítið grunsamlegt, eins og hann hefði verið fenginn til að vernda okkur, Akraneskaupstaður passar upp á sína-dæmið ... og hann vinnur einmitt fyrir bæinn. (Eru veðurfræðingar hefnigjarnir, veit það nokkur?) Tommi skutlaði okkur alla vega í Subway og þar snæddum við stráksi hádegisverð, Tommi var aftur á móti að fara í Einarsbúð að kaupa reyk-kæstan ýsuháls eða einhvern álíka hrylling sem hann elskar að slafra í sig, hann er eina manneskjan sem ég þekki sem hefur haft súrtunnu út á svölum heima hjá sér ... nema þetta sé allt blekking og hann noti tunnuna sem sýrubað fyrir óvini sína ... mig grunaði oft að hann væri njósnari, dulbúinn sem strætóbílstjóri í denn. Hann les stjörnufræði í frístundum og hefur besta tónlistarsmekk ever. Hann var í bekk með Hildu systur í gamla daga, svo hann er bara krakki (59-módel).

Dulbúinn drullusokkurMér leið eins og belju að vori eftir matinn ... með allar þessar búðir í kring, ég dró drenginn með mér í hjartkæra bókabúðina, uppáhaldsbúð beggja, komum svo við í annarri uppáhalds, eða Kaju, og keyptum Fasta(frá Íslenskri hollustu) berjadrykkinn göldrótta sem  heldur nöglunum á mér sterkum og flottum, tönnunuum óskemmdum og orkunni í góðum gír (í alvöru) og svo kattagras í dýrabúðinni, og þar keypti ég líka kattamat fyrir Villiketti (karfa þar fyrir mat og fleira ætlað Villiköttum) ætla að reyna að muna að gera það alltaf, þetta er frábært starf hjá félaginu.

Við Tommi hittumst síðast í bólusetningu í íþróttahúsinu hér á hlaðinu, fáum sennilega seinni AZ(DC)-skammtinn í næstu viku. Öllu flýtt því við sem fengum AZ erum bara 30% varin eftir eina sprautu og þetta smitandi Delta-afbrigði í nánd. Kári Stefáns sagði eitt sinn að eftir því sem afbrigðum fjölgaði yrðu þau hættuminni en mig langar samt alls ekki að fá covid, bara alls ekki.

Svona þegar ég fer að hugsa í alvöru finnst mér ekki ólíklegt að systir hans Tomma (hæ, Magga!) sé eitthvað að bralla í tengslum við okkur tvö, hvort sem dáleiðsla eða bara venjulleg íslensk systrafrekja kemur við sögu, hún hefur kallað mig mágkonu sína í mörg ár, svo maður veit hver vilji hennar er - og ef hún hefur lesið bloggið mitt óttast hún kannski að ég verði harðgift (kannski eldfjallafræðingi) löngu fyrir sjötugt en ég hef miðað við að ganga út um það leyti - í fyrsta lagi - nógur tími til að leika sér þangað til. Hún er fornleifafræðingur (samt ágæt) og væri án efa gaman að tala við hana um spennandi fornleifar í fermingarveislum í framtíðinni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 61
  • Sl. sólarhring: 238
  • Sl. viku: 1578
  • Frá upphafi: 1453453

Annað

  • Innlit í dag: 59
  • Innlit sl. viku: 1308
  • Gestir í dag: 59
  • IP-tölur í dag: 59

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Cartman
  • Cartman
  • Ömmukaffi

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband