Eftir rúmt ár í rólegheitum

Fyrirheitna íþróttahúsiðFljótlega eftir hádegi áttaði ég mig á því að ég væri að fara að hitta fjölda fólks úti í íþróttahúsi, þar af heilan helling af sætum körlum, og það eftir örskamma stund. Þetta sló mig því eftir rúmt ár í rólegheitum þar sem slæmur héradagur* skipti engu, ég hef ekki farið í klipp og lit vikum saman og andlitið leit út eins og filma sem þurfti að framkalla. Eftir dauðaleit að snyrtivörum fann ég hjá öllum milljón pennunum einn maskara í veskinu mínu, sem ég keypti eiginlega í djóki í matvöruverslun ...  en það fannst ekki einn einasti varalitur.

EN VASELÍNIÐ? hugsaði ég gáfulega og mundi eftir einni vinkonu sem notaði aldrei annað en hið danska illfáanlega á Íslandi Klöver-vaselín til að gera sig kyssilega í denn, og ég keypti slíka dós í Einarsbúð fyrir nokkrum árum. Ég fann dolluna (hún var eins og ný og líka innihaldið) og makaði vaselíni á varirnar, þetta var skárra, miklu skárra. Ég skokkaði af stað í fínu Lindex-regnkápunni minni, heldur betur ánægð með mig, og þá mundi ég eftir því að allir áttu að vera með grímu! Fyrsta almennilega samkvæmið þar sem maður HITTI ALLA og það eyðilagt með andskotans grímu. Ég tróð ógeðinu í andlitið á mér við innganginn og fann hana klessast á vaselínið en ég reyndi að vera jákvæð. Bannað að vera í fýlu á svona hátíðisdegi ... ég hugsaði til ýmissa vina og Þórólfs sem fengu seinni sprautuna í bænum en grunaði ekki að þau slyppu við grímu. Lappeletjandi laugardagslið ...

*Slæmur héradagur. Röng þýðing í sjónvarpi á orðinu bad hairday fyrir nokkrum árum. 

- - - - - - - - - - - - - - - - - - - - 

Seinni bólóSeinni sprautan?“ spurði hjúkkan áhyggjufull (maskarinn sjokkerandi?) „Nú, fannstu ekkert fyrir þeirri fyrri? Þú gætir fengið smávegis aukaverkanir af þessari,“ sagði hún umhyggjusöm. Ég kvaðst ætla að reyna að muna að taka panodil við heimkomu. „Ekki íbúfen,“ ráðlagði hún og ég lofaði því. Elsku krúttin, fagmennska og gleði, ekkert annað. Ég tók eina panodil fyrir hennar orð en er frísk og hress eins og amerísk kornfleksauglýsing. 

Maskarinn fór ekki algjörlega forgörðum því ég var auðvitað tekin á löpp eftir bólusetninguna, eða 15 mín. biðtímann á eftir, bara við útganginn hjá sjúkrabílnum, og við enduðum á stefnumóti í Kallabakaríi. Mig grunar að hárið á mér sem er farið að krullast, ekki af pirringi, heldur sem fegurðarauki, hafi líka heillað. Fínar aukaverkanir af AZDC, ef það eru þær sem gera hárið svona fínt. Ekkert annað hefur breyst og engar aukaverkanir aðrar nema oggulítil eymsli síðast í nokkra daga á stungustað (á handleggnum, ekki íþróttahúsinu).

Karlmenn (karlar eru líka menn) koma mér alltaf á óvart, að hafa verið ógift svona lengi hjálpar lítið til að kynnast eðli þeirra. Ég játaði fyrir þessum sem mig minnir að heiti Sólmar, að ég hafi notað sumarsængina mína síðan í vor en viftan sé líka stundum í gangi, eða þegar hitinn fer upp í óbærilegar 11°C plús. Ég er mjög hot. 

Sólfinnur vildi nú ekki meina að ég bæri ábyrgð á að sumarið væri svona kalt, hann gæti ekki ímyndað sér að ég ögraði nokkru eða nokkrum með því að hafa farið að nota hana, eins og ég dirfðist að búast við hlýju sumri (skynsamur karl) ... og sagði mér svo að hann ætti kínverska sæng úr silki - sú tryggði honum alltaf sama hitastigið hvernig sem veðrið hamaðist úti, sól og viðbjóður eða hríð og hamingja ... eins og ég myndi orða það, vetrardrottningin sjálf. Ég var svo hissa, karl sem notar kínverska silkisæng? Í raun hef ég alltaf séð fyrir mér druslulegar gólftuskur sem hafa verið saumaðar lauslega saman sem hina einu sönnu karlmannlegu sæng, og ljót sængurver ef  nokkur ... Kannski hef ég lesið of margar bækur um Jack Reacher og Morgan Kane ... ég hef ímyndað mér karlmenn sem tilfinningalausar ástarsorgarmaskínur (sem valda ástarsorg) og yppa bara öxlum og bíta á jaxlinn þegar þeir mæta mótlæti. Frábær rithöfundur og nú fréttamaður klökknaði þegar ég orðaði þetta við hann fyrir mörgum árum, og ég hélt að hann væri kannski undantekningin sem sannaði regluna.

Sólröður virkaði ljúfur svo sennilega hef ég kolranga sýn á karla. Nú eru mörg ár síðan ég hætti að drekka mig út úr á veiðum, berja þá á bakið og segja eitthvað groddalegt: „Djöfull var sólarlagið væmið og viðbjóðslegt í gær.“ Það virkaði aldrei - ég er viss um núna að taugakerfi þeirra sé fínlegra en ég hélt og þeir mögulega viðkvæmir ... eins og til dæmis Ronaldo þegar hann kemst ekki í átta liða úrslit.

Nú hef ég öðlast takmark í lífinu ... að eignast kínverska silkisæng sem tryggir gott líf sumar sem vetur, sæng Sólgarðs kostaði um 18 þúsund kall, en hann keypti hana í Kína svo ég efast stórlega um að ég fái hana í Rúmfó. En ég er hræðilega léleg í því að kaupa á netinu svo þetta verður mikil áskorun.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 3
  • Sl. sólarhring: 16
  • Sl. viku: 189
  • Frá upphafi: 1445654

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 175
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • Himnaríki 6. mars 2023
  • Himnaríki 21. mars 2024
  • Húsó

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband