Maðurinn sem þokan gleypti - ævintýri á Írskum

Áður en þokan skall áÞá er Írskum dögum lokið og fjörugri bæjarhátíð er vandfundin. Það var svo mikið að gera að ég gat ekki bloggað og þá er nú mikið sagt. Samt drakk ég ekki dropa af víni en þeim mun meira kaffi. Þó eru atburðir helgarinnar svolítið eins og í þoku hjá mér. 

Ég fann mann drauma minna og ég týndi honum í þokunni sem skall á um kvöldið á laugardeginum þegar rómantíkin var að ná hámarki, ég fékk líka sjálfan Helga (f.) Björns á hlaðið hjá mér og sá hann ekki fyrir þoku svo ég veit ekki hvort þetta var hann sem söng svona fallega eða Thom Yorke í Radiohead*. Ég trúi ekki á tilviljanir, einhver forríkur óvinur minn gæti átt verulega góða reykvél, ég sá hann auðvitað ekki vegna „þoku“. Svo er þessu svokallaða eldgosi líka kennt um en það hefur nú heldur betur komið sér vel fyrir ríkisstjórnina, nú er hálf þjóðin límd við sjónvarpsskjáinn eða tölvuna við að horfa á meint eldgos - og mótmælir ekki á meðan of lágu fjármagni í heilbrigðiskerfið eða að konur á Akranesi þurfi að fara til Reykjavíkur í brjóstamyndatöku sem var ekki áður. (Hver man ekki eftir Fækkum Skagakonum-átakinu hjá Krabbameinsfélaginu fyrir nokkrum árum?)

Helgi Björns og kóÉg horfði mikið á Holuhraun (vefmyndavélarnar) um árið, svo mikið að ég kannast alveg við suma strókana sem við fáum að sjá í þessu meinta eldgosi núna. Ég tel afar líklegt að „gosstaðurinn“ sé í kvikmyndaþorpinu í Gufunesi og til að gera allt trúlegra eru svokallaðir fávitar sendir fyrir framan vélarnar með reglulegu millibili, aðeins of reglulegu, ef þið spyrjið mig, sem veifar, stendur fyrir hraunrennslinu eða jafnvel múnar (þeir sem fá best borgað). Ótrúlegt að fólk gleypi þetta hrátt (ég gerði það fyrst, samt svona gáfuð) en að lama baráttu- og mótmælaþrek þjóðarinnar var auðvitað ekki eina takmarkið, það þurfti líka að fá ferðamenn og hvað laðar þá að eins og skógarbjörn að hunangi í teiknimynd? Jú, eldgos. Hvernig ætli þeir séu blekktir? Með ... lyfjum? dáleiðslu? speglum? grilláhöldum? Ég dáist að snilldinni.

 

Við erum misskilin, við sem bendum á sannleikann og neitum að láta heilaþvo okkur, og sum okkar eru í meiri hættu en aðrir. Sjálf er ég alltaf með læst að mér og fer ekki út fyrir dyr. Ég rétt slapp í seinni bólusetninguna en var ekki búin að opinbera efa minn þá svo sem - en stundum held ég að gemsinn minn lesi hugsanir, ef ég hugsa til dæmis um vel hnýtta flugu á veiðistöng kemur seinna sama dag auglýsing á Facebook frá sportveiðiverslun ... Þori ekki að segja meira í bili. Of gömul fyrir rokkið en of ung til að deyja, sungu Jethro Tull um árið en það á svo sem ekki við um mig því ég hlusta mikið á rokk.

 

Ég meira að segja villtist í meintri þoku á leið minni í matarvagnana og komst aldrei þangað. Það eldar enginn Skagamaður þessa helgi, nema kannski er grillað við þær götur þar sem kærleikur, samstaða og vinátta ríkir, sennilega ekki í minni götu, við borðuðum bara plokkfisk á föstudagskvöldinu, alsæl, alla vega alein, ég og drengurinn. Er ég beisk yfir getuleysi Jaðarsbrautar við að skella í sameiginlegt, ljúft og stórskemmtilegt götugrill og kynnast betur, eiga saman æðislega stund í góða veðrinu með öldunið í eyrum, blik í augum og geta jafnvel séð grilla í meint eldgos á meðan grillað er? Nei, nei. En ef Gamla blokkin og Nýja blokkin )við Höfðabraut) slá saman í grill á næstu Írskum? Væri það ekki eitthvað? Ég mun muna þetta næst á föstudegi fyrstu vikuna í júlí. 

HundurEinhver hafði fengið þá hugmynd að láta matarvagnana leggja á vitasvæðinu á laugardeginum, í margra klukkutíma göngufjarlægð frá flestum Skagamönnum (mér), en ég ætla samt ekki að kvarta. Fékk ég ekki bólusetningarhöllina nánast upp að dyrum heima hjá mér? Og brekkusönginn með Helga f. Björns? Og stoppa ekki matarvagnarnir yfirleitt alltaf nánast á bílaplaninu heima, nema þessa helgi?

Við stráksi fengum okkur fínustu löngu í Gamla Kaupfélaginu í hádeginu á föstudaginn, síðan ís á eftir, en ... nú kemur sturluð staðreynd: einn af eigendum Frystihússins á Great Dane-hund (sem ég þrái að hitta).

 

Ég var svo ölvuð af hrifningu á manninum sem þokan gleypti að ég man eiginlega ekkert um hann, bara að hann kann að búa til sítrónufrómas og ætlaði að kenna mér að grafa eftir bit coin, hvað sem það nú er.

*Og hvernig Ellen frænka kemur inn í þetta allt saman er mér hulin ráðgáta en litli kettlingurinn hennar fékk nafnið Þoka fyrir örfáum dögum! Ellen á afmæli 7. október eins og fyrrnefndur Thom Yorke. Þetta verður bara skrítnara.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 13
  • Sl. sólarhring: 296
  • Sl. viku: 1705
  • Frá upphafi: 1453215

Annað

  • Innlit í dag: 10
  • Innlit sl. viku: 1386
  • Gestir í dag: 9
  • IP-tölur í dag: 9

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Tengdamömmur
  • Kamilla, Inga, Gerry
  • Frændfólk mitt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband