Hryggur ... ekki með kanil

Hálfur hryggurNú mallar hálfur hryggur inni í ofni, sannkallaður hátíðisdagur í dag þegar England nær gullinu og eldgosið orðið sjáanlegt aftur. Því ákvað ég að elda hrygg, reyndar fyrir mig eina þar sem ég er í húsmæðraorlofi en stráksi stórgræðir á morgun og fær kjöt í sósu í kvöldmatinn. Ég er komin í þjóðbúning og búin að skipta um gólfefni, slík er hátíðin. 

Ég keypti á dögunum þetta fína Tupperware-steikingarpottarfat með loki af hirð-Tupperwarekonunni minni og vantaði tækifæri til að vígja það. Hér eru dauðir hlutir ekki vígðir með kampavíni og blessun. Sem minnir mig á að athuga hvort leynist kannski rykfallið rauðvín inni í skáp sem þarf að kæla. Íslenskur herbergishiti er allt of hár fyrir rauðvín en í himnaríki er yfirleitt frekar svalt og þá er ég ekki að tala um útlitið bara ... Þetta er svona húsmæðraorlof, rauðvín, ef finnst eða kók ... Hálfur hryggur kryddaður með alls konar kryddi sem ég átti inni í skáp og svo eru kartöflur, gulrætur og laukur í sama ofnpotti ... Slurp. Ég spurði þá sem seldi mér T-pottinn um hvort maður setti vatn, en nei var svarið. Ég bíð mjög spennt. Prófa kannski læri næst.

Það eru áratugir síðan ég eldaði hrygg síðast, ef ég sleppi skiptinu fyrir um 10 árum þegar ég eldaði slíkan og fannst hann ótrúlega vondur, hafði þá aldrei heyrt af hrútabragði, var bara viss um að ég væri lélegur kokkur þegar kæmi að lambahrygg (og sítrónufrómasi). Ég hafði aldrei efni á slíkum kræsingum í gamla daga, veit samt alveg að „þessar einstæðu mæður“ höfðu það/hafa það svo gott á öllum þessum bótum ... hahaha 

Ég kryddaði auðvitað hrygginn með kanil ... grín, ég er enn að jafna mig eftir haturspóstana sem ég fékk eftir að ég gaf uppskrift að hakki og spagettí og mælti með smávegis af kanil (sem er ágætt). Þjóðfélagið lagðist kannski ekki á hliðina en nóg samt til að ég muni aldrei viðurkenna að ég t.d. brjóti spagettíið í tvennt áður en það fer í pottinn ... en það fór enginn kanill á hrygginn, bara alls konar ... salt, pipar og sitt af hverju sem var til inni í kryddskáp og ég segi ekki hvað til að eyðileggja ekki daginn fyrir sumum eða gefa hatursmönnum mínum vopn á hendur. Svo fór hann inn í ofn á 180°C í 40 mín., sagði systir mín, og svo lækka í 150 í smá ... Ég ætla reyndar að gúgla rétt hitastig því ég festi kaup á litlum kjöthitamæli á 100 kall á útsölumarkaði nýlega, ofeldað og þurrt er hryllingur. (Ég kíkti á hrygginn eftir 40 mín. og vissulega komin matarlykt en vart farið að eldast, sýndist mér ...) Ég borða hann bara með höndunum og sleppi meðlæti ef eldunartíminn teygir sig yfir að Englands-/Ítalíuleiknum ... 

VatnsbrunnurÉg gafst upp á gamla vatnsbrunni kattanna því ég gat ekki opnað hann til að skipta um filter, keypti bara nýjan og auðveldari (hélt ég) í fínu dýrabúðinni hér á Skaganum. Sama kvöldið opnaði ég pakkann og ætlaði að leyfa vesalings kisunum að fá vel síað vatn aftur, þeir eiga allt gott skilið ... en mér féllust hendur. Ég fer í IKEA og kaupi ef mig langar að púsla einhverju saman og yfirleitt gengur það upp og meikar sens. En þarna í kassanum voru margir ókennilegir hlutir sem pössuðu ekki saman, það voru teikningar og allt í leiðbeiningunum en ég, gædd allri þessari góðu greind, skildi hvorki upp né niður.

Allt í einu mundi ég eftir því að það býr fyrrum Lego-meistari á heimilinu, ég kallaði á hann og spurði hvort hann treysti sér í verkefni, mjög flókið og sennilega ómögulegt, hér eru leiðbeiningar ... en ég held að þetta sé eitthvað gallað, bætti ég við og settist við tölvuna. Eftir smástund heyrði ég kallað: „Þetta er komið!“ Einmitt, sjúr, akkúrat ... ég gekk tortryggin inn í eldhús og missti svo andlitið þegar ég sá að það sem drengurinn hafði sett saman á fimm mínútum leit út eins og drykkjarbrunnurinn á myndinni framan á kassanum. „Já, en þetta var of stórt fyrir þetta,“ benti ég, „og passaði ekki, ha, bíddu, ég skil ekki,“ kveinaði ég og drengurinn flissaði ... Ég veit hver verður samsetningameistari í himnaríki næstu árin.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.4.): 17
  • Sl. sólarhring: 341
  • Sl. viku: 2332
  • Frá upphafi: 1451527

Annað

  • Innlit í dag: 11
  • Innlit sl. viku: 1788
  • Gestir í dag: 11
  • IP-tölur í dag: 10

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Baldursbrár
  • Vigdís
  • 82 í framboði

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband