Af góðri grannkonu, silkisæng í pöntun og nægum fjörefnum

VerkóFrábær fyrrum grannkona komst í fréttir nýlega fyrir einhverja snilld og það rifjaði upp fyrir mér atvik sem gerðist á meðan við bjuggum báðar á Hringbrautinni. Hún á hæðinni fyrir neðan mig. 

Ég kom heim af djamminu, sennilega Kaffibarnum, örugglega edrú eða nálægt því, ef ég þekki mig rétt, ákvað að lesa örlítið fyrir svefninn eins og allir ættu að gera. Svo fór ég að heyra hávaða frá neðri hæðinni, eiginlega bara mikil læti, karlmaður hafði mjög hátt, öskraði á grannkonu mína að hún hefði eyðilagt líf hans og svo kastaði hann húsgögnum til. Á ég að þora að fara  niður og sækja börnin, hugsaði ég, en fannst þó skrítið að ekkert heyrðist í þeim. Ég var eiginlega ákveðin í því að hringja niður og athuga hvort ég gæti hjálpað, það var mjög gott samband á milli okkar, svo gott að ég skildi ekki hvað var í gangi, þetta var svo ólíkt grannkonu minni. Þá hringdi síminn, þetta var hún ... að athuga hvort hún gæti eitthvað hjálpað mér, lætin hélt hún að kæmu frá mér. Henni fannst reyndar mjög grunsamlegt að ég hefði farið á Kaffibarinn, nælt mér í gæa „... og furðulegt að ná á svona skömmum tíma að eyðileggja líf hans,“ sagði hún. Okkur létti báðum mjög og í ljós kom að þetta voru fylliríslæti í næsta stigagangi. Önnur okkar hringdi í lögguna sem róaði manninn niður.

- - - - - - - - - - - - - - - - - 

Á hótelinuSvo hringdi ég í Hildu systur í kvöld, afar áhyggjufull. „Getum við þá ekkert náð okkur í menn og farið í sleik í veiðiferðinni norður?“ spurði ég stressuð eftir fréttir um covid-smit í fullbólusettu fólki. Það styttist hratt í þessa ferð okkar þar sem við ætlum að mála ýmsa bæi Norðurlands rauða. Það er margt hægt í kaffivímu. Við höfum heyrt af tilraunum til einhvers konar viðnáms, að gerðar hafi verið ráðstafanir á borð við að loka Sjallanum og Amaro sem ég hélt að væri nú bara verslun en hvað er svo sem óttalegra en tvær hressar kerlingar í stuði? Við Hilda erum ekki alveg svoleiðis kellur, sáttar bara við góðan kaffibolla (ég) og fína sögu til að hlusta á í bílnum (báðar), hitta frændfólk á Sigló og svona.

„Hafðu ekki áhyggjur, Gurrí mín,“ sagði litla systir. „Manstu, þetta er ekki 100% vörn í smitandi faraldri, og ef þú færð covid núna verður það svo miklu vægara en ef þú værir óbólusett, og það eru miklu, miklu minni líkur á því að við smitumst!“ 

„Getum við þá, þú veist?“ 

„Farið á kaffihúsið á Listasafninu í Gilinu og smakkað góða kaffið þar?“ spurði hún og lét sem hún væri siðprúð sem hún er svo sannarlega ekki. „Við getum það.“

 

SilkisængurfjárfestingEin frænka mín fann hlekk á silkisæng á netinu, eins og Sólfreður aðdáandi minn talaði um fyrir nokkru á óvæntu stefnumóti eftir seinni AZ-sprautuna. Önnur frænka pantaði hana fyrir mig áðan svo aðeins eru dagar þar til ég sef eins og ég á skilið. Eða enn betur, ég sef virkilega vel yfirleitt en er of heitfeng (hot) fyrir sumarsængina þunnu úr Rúmfó nema viftan góða úr Costco blási blíðlega yfir rúmið.

 

Ekki ódýrasta sem ég hef keypt mér ... en eins og vinkona mín, silkisængureigandi til margra ára, sagði, þetta verð er eins og á silkikodda hér á landi. Munið þið þegar einhver taldi sumum kaupmönnum trú um að Íslendingar keyptu bara hluti ef þeir væru hafðir nógu dýrir? Að við héldum að vörur á góðu verði væru mögulega lélegar? Ok, þessi sæng kostar kannski svipuð og þyngingarsæng, ögn meira kannski ... og ég held ekki að hún sé léleg þótt hún sé miklu ódýrari á netinu en úr búð hérna. Þýðir það að ég hafi verið dugleg að taka inn vítamín, sé ekki auðsveipur, fjörefnaskertur þegn sem nennir ekki að mótmæla til dæmis útlendingastefnu andskotans eða frekari aðþrengingu að heilbrigðiskerfinu (svo hægt sé að græða á sjúklingum) ...? Bíddu nú við, var ég ekki að tala um silkisæng? Og bara farin að hljóma eins og Gvendur jaki og Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir í kór - og það á Moggablogginu. Vá!

 

 

Vona svo bara að Summer Warmth tákni að hún sé mjög svöl ... en hægt var að velja um vetrarhita og vorhita. Treysti á að sumarsængin sé þynnst.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring: 18
  • Sl. viku: 186
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 172
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • Himnaríki 6. mars 2023
  • Himnaríki 21. mars 2024
  • Húsó

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband