Spennandi spá fyrir júlí (ekki veðurspá)

Næstum láréttar gardínurSuðaustan 8 m/sek, í herberginu mínu þegar ég vaknaði í morgun. Gardínan var nánast lárétt og ég mundi að í dag er sumarið hálfnað. Þetta var hressandi. Ellefu gráður úti, eitthvað hærri hiti inni. Sennilega evrópskur herbergishiti sem segir til um hvaða hitastig eigi t.d. að vera á rauðvíni, sem oft er borið fram allt of heitt hér á landi þar sem við teljum 20°C plús mátulegt. Nema okkur sem venjum okkur á annað. Mögulega við sem höfum Síberíu- og norðurheimskautsgenin. Vinir mínir og vandamenn segja með aðdáun að þegar ég svari í síma fari símtólið þeirra megin stundum að hríma.

- - - - - - - - - - -

Síðasti dagur vinnuskólans átti að vera hjá stráksa á morgun en það á að leyfa honum að vinna lengur til að bæta honum upp það sem hann missti úr þegar hann fór í sumarbúðirnar í Reykjadal. Meiri öðlingarnir sem þar ráða ríkjum. Hann fær þá sömu laun og hinir krakkarnir sem misstu ekkert út, fyrir sumarið, en þarf að vinna fyrir því auðvitað. Svo verður hann nýttur hér í ágúst fram að fjölbraut, og fær laun fyrir að aðstoða mig við að grisja, held að það verði að gerast minnst árlega til að það safnist ekki upp einhver hryllingur, ekki bara að leiðinlegt sé að búa á yfirfylltu heimili, heldur myndu erfingjar mínir bölva mér í sand og ösku við annars hroðalega átakanlegt andlát mitt, ég er víst orðin mikið hró ... og samkvæmt því sem ég sá á Facebook í morgun er hálfgert kraftaverk að ég sé enn uppistandandi, birti það hér ykkur til upplýsinga og áfalls:

Líkamsæfingar fyrir 60 plús

Stattu á þægilegu undirlagi með gott rými fyrir framan þig. Haltu á 1 kg kartöflupoka fyrir framan þig með útréttum höndum, beint fram. Reyndu að halda þeirri stöðu í eina mínútu og hvíldu svo. Með hverjum degi sem líður muntu geta haldið þessari stöðu lengur. 

Eftir nokkrar vikur skaltu færa þig upp í 2 kg poka, næst 10 kg og að lokum áttu að geta haldið 25 kg kartöflupoka uppi með útréttum höndum í heila mínútu. Þegar þeim árangri er náð skaltu setja kartöflu í hvern poka og endurtaka ferlið.

- - - - - - - - - - - - - 

Skrifað í skýinÞvílík heppni í allri gleymskunni (ellinni) að hafa fengið tíma í klippingu í næstu viku (ekki lit samt). Hilda þarf ekki að skammast sín jafnmikið fyrir mig í óveiðiferðinni okkar, ég fæ líka „framköllun“, eða lit á augabrúnir og augnhár svo nú væri kannski bara réttast að mæður á Norðurlandi lokuðu miðaldra syni sína inni á meðan við verðum á ferðinni. Hohoho. Hilda er svo miklu yngri en ég og gleymir aldrei snyrtiveseni á meðan gamli hippinn í mér nennir ekki svona snyrtikjaftæði.

 

Aldrei að segja aldrei og loka öllum dyrum, Facebook lagði fyrir mig próf, nokkuð vandað, sýnist mér, og án þess að ég þyrfti að svara spurningum eða gefa upplýsingar, fékk ég spá um hvernig júlímánuður (restin) verður hjá mér. Það verður greinilega fjör fyrir norðan (sjá mynd) en reyndar ólíklegt að allur þessi mikli fjöldi komi við sögu, það eru ekki til svona margir tilkippilegir á öllu Norðurlandi að Glettingi (trust me), sennilega á þetta að vera 1-3 sem er öllu líklegra. Nema svona próf séu bara bull og eingöngu til gamans gerð. Nei, fjandakornið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 225
  • Sl. sólarhring: 411
  • Sl. viku: 2364
  • Frá upphafi: 1452100

Annað

  • Innlit í dag: 176
  • Innlit sl. viku: 1923
  • Gestir í dag: 174
  • IP-tölur í dag: 173

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Grimm
  • Í kringum ljósastaurinn
  • Baldursbrár

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband