Óþarft drasldæmi og hrossalækningar

Þriggja hæða drasldæmiðÞegar eldhúsið mitt var klárað var mér ráðlagt að hafa þriggja hæða kökustandinn áfram með alls kyns dóti því einhvers staðar yrði draslið að vera. Ég jánkaði því en rúmlega ári síðar fór ég að hugsa. Bíddu, af hverju þarf ég að hafa þetta svona? (Tekur stundum tíma að taka við sér), tæmdi þetta, gekk frá ljósmyndinni af mér og Mæju hennar Nönnu, henti fylgiseðli með reykingarlyfi, setti handspritt í veskisstærð í töskuna mína, gaf drengnum ársgamlan sleikjó og svo framvegis, þreif standinn og skellti ávöxtum á hann. Einhverjir dagar síðan og engin þörf komin á drasldæmi ... Man ekki hver er ábyrgur fyrir að telja mér trú um þetta og ef ég get haldið upp á afmælið mitt og viðkomandi gestur segir sérdeilis hlessa: „Ha, hvar er drasldæmið þitt?“ mun ég hlæja svo dátt.

 

Í fyrra hélt ég mjög óbeint upp á afmælið mitt, held að 17 gestir hafi komið ... örfáir iðnaðarmenn og hjálparhellur - þá máttu 20 hittast, minnir mig, og örstutt í grímuskyldu. Hvað gerist á næstu þremur vikum, finnst mér spennandi að vita, þegar djammsjúk ungmenni og gossjúkir ferðamenn eru í þann veginn að skemma fyrir mér stórafmælið (63). Ég verð þá bara 61 árs í þriðja sinn.

 

HesturFyrir svo ótrúlega mörgum árum að fáir muna annað eins fór ég í heilsuhelgi í sumarbústað í þeim tilgangi að taka þátt í spennandi atburði, svona föstu sem ég hafði lítið heyrt um. Ég harðneitaði að framkvæma á sjálfri mér innvortis skolun, svokallaða stólpípu, hvað var þessi huggulega helgarferð að breytast í, en umsjónarkonan hafði svar við því og bauð mér drykk sem átti að gera sama gagn. Man ekki hvað saltið heitir sem hún blandaði út í vatn og sagði mér að drekka. Eftir að hafa liðið vítiskvalir við að þröngva þessu ofan í mig kom í ljós að þetta virkaði ... svo drukkum við einhverja safa, minnir mig, og helgin leið við slökun, minnir mig.

Ég fór í einhverja hollustu eftir þetta en svo seig á ógæfuhliðina. Þá var ég enn ung og spræk og mundi nafnið á X-saltinu þarna og skellti mér í apótek til að kaupa meira því ég ætlaði að drífa mig í hollustugírinn aftur. Afgreiðslukonan í apótekinu kannaðist við þetta salt en kallaði á lyfjafræðing til öryggis, því miður einhvern sem ég þekkti til, eða systur hans ... Hann spurði mig í hvað ég ætlaði að nota þetta. Ég tjáði honum það, blanda út í vatn og drekka, fasta og fara svo í gulræturnar. Af mikiilli varfærni tjáði hann mér, eins kurteislega og hann gat, að þetta X-salt væri eingöngu notað á stífluð hross, hesta með hægðatregðu ... Mér fannst ekki hægt að reka upp hlátur og þykjast hafa verið að grínast ... svo ég þakkaði fyrir og gekk afturábak út með afsakandi svip á andlitinu og þorði ekki inní þetta apótek næstu áratugi.

Fæðið sem börnum var boðið upp á þegar ég ólst upp var svo snautt af næringu að við hefðum sennilega öll dáið úr skyrbjúgi og beinkröm ef ekki hefði verið fyrir Sanasól. Við fengum ávexti um jólin og agúrkur og tómatar voru spari, eina grænmetið sem til var. Það var bara kjötfars í matinn í minningunni og þverskorin ýsa þess á milli.

Þetta hrossalyf í heilsuferðinni forðum kom upp í hugann þegar ég fór að sjá á netinu að fólk sem veit betur en læknar og vísindamenn vill að lyfið Ivermerctin verði notað við covid-19. Þetta lyf er gefið hestum til að losa þá við orma. Beinlínis skaðlegt fólki og virkar ekki á veirur. En hvað er ég svo sem að bulla, fullbólusettur bjáninn sem lifir bara í þrjú ár fyrir vikið eða breytist í uppvakning?

 

ZivaElsku frábæra vinkona mín, Ziva, sjeffertíkin í næsta húsi sem ég hef stundum sagt að væri ein besta vinkona mín á Skaganum, kvaddi þetta líf í gær, rétt að verða tíu ára.

Bara nokkrir dagar síðan við sáumst síðast og þá sagði eigandi hennar að hún ætti sennilega ekki langt eftir.

Ziva heilsaði ekki eins og hún var vön, ekki þetta villta fagn, heldur nánast eins og hún þekkti mig ekki, en það var gott að geta kvatt hana, klappað henni bless, án þess þó að ég vissi að við sæumst ekki aftur.

Mikið sem mér þótti vænt um þessa nágrannavinkonu og samhryggist fólkinu hennar mikið. Eigandinn sýndi alltaf mikla þolinmæði þegar ég sá bara hundinn og knúsaði, og mundi svo skyndilega eftir almennum kurteisisreglum og heilsaði þeirri sem hélt í tauminn.

Vona að mér verði fyrirgefið að hafa rænt þessari fallegu mynd af Zivu sem var tekin á svölunum á heimili hennar í Nýju blokkinni ... þar sem ég bjó fyrir áratugum síðan, eða sextíu og eitthvað ... og Hilda, nú hundaeigandi, lenti í hundum á lóðinni og varð hrædd við hunda í mörg ár, og mig dreymdi illa, fékk martröð næstu nótt um að risahundur, jafnhár Nýju blokkinni væri fyrir utan. Vaknaði við drauminn og man hann enn þótt ég hafi bara verið fimm ára. Hundar eru samt í miklu, miklu uppáhaldi, þótt ég teljist vera kattakerling. Annað útilokar ekki hitt.   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 160
  • Sl. sólarhring: 322
  • Sl. viku: 1677
  • Frá upphafi: 1453552

Annað

  • Innlit í dag: 152
  • Innlit sl. viku: 1401
  • Gestir í dag: 151
  • IP-tölur í dag: 148

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Cartman
  • Cartman
  • Ömmukaffi

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband