Móðgandi vælubíll og æðri máttarvöld Hildu

Takki kærlegaHelgin varð viðburðaríkari en ég átti von á, laugardagurinn endaði í grilli í sumarbústað á Suðurlandi. Í góðu veðri, gosmóðan náði ekki þangað. Við stráksi hoppuðum upp í strætó eftir hádegi og beinustu leið í Mjódd þar sem ég keypti unglingafarmiða - og var í þriðja skipti í röð afgreidd af manneskju (núna kk, hin skiptin kvk) sem talaði ekki orð í íslensku (allt í lagi mín vegna en ekki allir tala ensku) - og enn ekki hægt að fá nótu á kennitölu (endurskoðandinn á eftir að drepa mig).

- - - - - - - - -

Davíð frændi sótti okkur í Mjódd og við byrjuðum á að nesta okkur upp í Kaffitári á Höfða þar sem sérdeilis frábær gleði ríkti og einnig hjá Olís í Norðlingaholtinu. Mikið er gaman að heimsækja staði sem taka svona vel á móti fólki.

Fallegi frændi sá um tónlistina á leiðinni í bústaðinn og má helst nefna Rage against the Machine, Led Zeppelin, Pixies, Heart (sem flutti Stairway to Heaven í flottri útsetningu) og fleira himneskt á hæsta þar til unglingurinn aftur í baðst vægðar. Hann fékk óskalag með Eminem (The Way I am), já, hann fær fínt tónlistaruppeldi í Himnaríki (fullt af klassík líka) en það vantar samt nokkuð upp á rokk-gleðina hjá honum. Svo hlýði ég honum yfir þegar kemur gott lag í útvarpinu eða á Spotify. Hvaða hljómsveit er þetta? Ég veit það ekki. Þetta er ABBA, þetta áttu að vita, drengur. Og hann hlær. Þetta er Björk, sennilega ein flottasta söngkona í heimi, þetta er SigurRós, þetta eru Pink Floyd ... Hurru, segir hann, ég ætla aðeins inn í herbergi ...

Á leiðinni austur sagði ég: „Davíð, nú hlustar þú á hin ýmsu hlaðvörp, hlustar klukkutímum saman en hefur aldrei tekið þér fjórar eða fimm mínútur til að lesa eins og eina bloggfærslu hjá uppáhaldsfrænku þinni.“

„Nei, sko,“ svaraði Davíð glaðlega og benti á grænan bíl sem kom á móti okkur, „þarna er vælubíllinn.“

Bíði hann bara þangað til ég nöldra í honum næst. 

Við komumst í bústaðinn heilu og höldnu þrátt fyrir þessa móðgun og Davíð heyrði ekki þýðingarmiklu þögnina sem ég rak upp því hann hafði sett Queens of the Stone Age (No one knows) á hæsta, brosandi glaður og ég gat ekki stillt mig um að hrista hausinn í takt og brosa líka. Hann kann á aldraða frænku sína, þessi skrattakollur.

- - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - -  

Hilda og æðri máttarvöldGrillhæfileikar systur minnar (Svanhildar) verða seint toppaðir, þvílíkt gott kjöt og meðlæti ... Hópurinn hennar hafði farið í Slakka deginum áður og uppskorið einhver flugnabit og svo var of mikið logn til að þau slyppu við lúsmýið í bústaðnum um nóttina. Þessi kvikindi sniðganga mig algjörlega, svona eins og Davíð frændi bloggið mitt. Hvort áhugi minn á inniveru almennt hefur eitthvað með bitskort að gera, eða vifta sem er í gangi nánast allan sólarhringinn...

Hilda varð allt í einu svo voða, voða spennt fyrir óveiðiferðinni norður (sjá mynd) og farin að gera alls kyns ráðstafanir, fór í klipp og lit og búin að setja sig í samband við brúðkjólaleigu (ekki 100% viss samt, mér heyrðist það alla vega) og ég skildi ekki neitt í neinu fyrr en ég fór fyrir slysni á Facebook-síðuna hennar en í gegnum þá síðu komst hún víst í samband við æðri máttarvöld sín. Hún fékk mögnuð skilaboð/spá á síðuna sína (ÆM eru loks komin á netið) og mér tókst að færa myndina hingað fyrir eitthvert kraftaverk ... Ég fékk mína dónaspá í gegnum lághvatasíðu og trúi mátulega á mannfjöldann (31) sem ég á að forfæra í júlí, aðeins 12 dagar eftir (og ferðin tekur bara 3 daga). Hilda hefur alltaf verið meiri engill en ég og fer eðlilega bara beint í sanna ást, sálufélaga, hjúskap, á meðan ég fer á mótel dulbú-, ... skiptir ekki máli. Þetta verður fjörug ferð, ég er viss um það. Svo ætlar ung vinkona (24) að passa kettina fyrir mig, flytja í himnaríki þessa helgi og njóta þess að hafa sjóinn og Guðlaugu á meðan hún vinnur að einhverju verkefni í tölvunni. Hún heppin, ég heppnari og kettir heppnastir.

Ég vona innilega að það verði komið betra kaffi á Krókinn þegar vér systur mætum. Kannski spurning um að leita betur. Margt ungt fólk sem opnar kaffihús, sjoppu eða bakarí drekkur ekki kaffi sjálft, og þá er það bara happdrætti hvort það slysast til að bjóða upp á gott eða vont kaffi ... Allt dýrt kaffi er ekki sjálfkrafa gott, en á hvern bolla munar kannski örfáum krónum á dýru góðu kaffi eða ódýru - aðalkostnaður er í kringum kaffigerðina sem er sá sami hvernig sem kaffið er. Bind vonir mínar við bakaríið á Króknum, sá í fyrra að þar er selt kaffi í pökkum frá Kaffitári, svo þau bjóða vonandi upp á það í latte fyrir kaffiþyrstar kerlur með kröfur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Enska hefur verið kennd hér á Íslandi í grunnskólum, þannig að nær allir sem hér hafa búið á grunnskólaaldri skilja ensku. cool

Margir Íslendingar stunda margra ára nám í læknisfræði í Slóvakíu og Ungverjalandi, þar sem kennt er á ensku, og harla ólíklegt að þessir nemendur kunni mikið í slóvakísku og ungversku.

Þeir sem búa hér á Íslandi læra langflestir dönsku í nokkur ár í grunnskóla en tala langflestir ensku við Dani.

Mun lengri tíma tekur því fyrir Mörlendinga að læra þau tungumál sem töluð eru í Austur-Evrópu, til að mynda pólsku, litháísku, lettnesku og eistnesku. Og útlendingar sem búa hér á Íslandi koma flestir frá Austur-Evrópu. cool

Þeir sem búa á Evrópska efnahagssvæðinu (EES), til að mynda íslenskir ríkisborgarar, mega einfaldlega búa og vinna á öllu svæðinu.

Og engin sérstök ástæða til að krefjast þess að útlendingar sem búa hér á Íslandi, hvað þá fólk frá Austur-Evrópu, tali hér sæmilega íslensku þegar Mörlendingar geta ekki einu sinni lært dönsku á nokkrum árum. cool

Þar að auki eru margir blaðamenn á mbl.is verri í íslensku en Google Translate, þannig að það væri full vinna á hverjum degi að gera athugasemdir við málfarið hjá þeim.

Og það sem Mörlendingar skrifa á til að mynda Facebook, bloggsíðum og í athugasemdakerfum fjölmiðla er í mjög mörgum tilfellum alveg hroðaleg íslenska, bæði málfarið og stafsetningin.

Það væri því fróðlegt að vita hvað allt þetta fólk hefur verið að gera hér í tíu ár í grunnskóla en ekki vantar að það kvarti yfir því að útlendingar búsettir hér á Íslandi kunni ekki íslensku. cool

19.7.2021 (í dag):

Um 52 þúsund erlendir ríkisborgarar búa hér á Íslandi

25.3.2019:


Um 47 þúsund íslenskir ríkisborgar búa erlendis

Þorsteinn Briem, 19.7.2021 kl. 19:06

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Um 47 þúsund íslenskir ríkisborgarar búa erlendis á þetta nú að vera.

Ekki einu sinni hægt að treysta yfirlestri púkans hér á Moggablogginu. cool

Þorsteinn Briem, 19.7.2021 kl. 19:11

3 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

„Ég ætla að fá unglingamiða, takk,“ sagði ég. „Can you speak English, please?“ kom á móti, sem ég gerði með glöðu geði en ögn hissa.

Þetta ER verri þjónusta, ekki við mig persónulega, heldur þá viðskiptavini sem tala ekki ensku eða eru feimmnir við það. Verra fannst mér samt að fá ekki nótu á kennitölu (þetta getur ekki verið löglegt) ... ég bað um nú í þriðja sinn á laugrdaginn að því yrði skilað til yfirmanna að þetta þyrfti að laga og ég er viss um að svo hafi verið gert í fyrri skiptin tvö - en samt lendi ég enn í þessu, mánuðum seinna!

Ef ég réði ríkjum þarna myndi ég kenna útlendingum við afgreiðslu nokkur nauðsynleg stikkorð á íslensku - svo þeir geti aðstoðað fólk sem talar bara íslensku. Sumir erlendu bílstjórarnir eru mjög klárir að bjarga sér á íslensku þótt þeir kunni bara örfá orð; Viltu skiptimiða, nei, já, takk, sömuleiðis ... osfrv.

Ég hef greinilega komið þessu eitthvað klaufalega frá mér fyrst þú tekur þessu svona.

Guðríður Haraldsdóttir, 19.7.2021 kl. 21:05

4 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Ég er með svo viljugt lyklaborð sem skrifaR FEIMMNIR í stað FEIMNIR ... Dæs. Kann ekki að leiðrétta í athugasemdum, gæsalappir koma illa út ...

Guðríður Haraldsdóttir, 19.7.2021 kl. 22:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.4.): 53
  • Sl. sólarhring: 296
  • Sl. viku: 1766
  • Frá upphafi: 1452927

Annað

  • Innlit í dag: 45
  • Innlit sl. viku: 1434
  • Gestir í dag: 44
  • IP-tölur í dag: 44

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Tengdamömmur
  • Kamilla, Inga, Gerry
  • Frændfólk mitt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband